Feeds:
Athugasemdir

Já, þessi titill hljómar einstaklega girnilega um leið og hann er framandi en kunnulegur í senn. Engar kastaníhnetur finnast á Íslandinu góða en öll tengjum við við hina jólalegu nostalgíu ristaðra kastaníuhneta. Hér í Berlín er gríðarlegur fjöldi kastaníutjáa en flest þeirra bera óætan og hreinlega eitraðan ávöxt. Hrossakastaníur eru stærri en sætar kastaníur, tréin voldugri og gisnari og neyti maður þeirra fær maður ansi hressilegan magaverk. Sætar kastaníur er hægt að finna á stangli hér og þar um borgina og rakst ég á tvö tré við austurþýskar plattenbau bygginar rétt hjá Alexanderplatz. Var ég viss um að ég hafði fundið einhvers konar fjársjóð og sá fyrir mér framtíð fulla af kræsingum úr kastaníuhnetum.

kastaníur1

Kastaníur er brúkaðar í allan fjandann og eru sérlega vinsælar á Ítalíu og í Frakklandi. Þær eru einstaklega mjölmiklar og fitusnauðar og eru því oft malaðar í mjöl sem notað er svo til að þykkja súpur, sem kastaníupólenta eða í kökur. Þær eru einnig notaðar heilar í marga rétti og koma þá gjarnan í staðinn fyrir kartöflur. Svo eru þá náttúrulega karamelíseraðar kastaníuhnetur eða Marron glacé upp á frönsku. Sem slíkar þykja þær hið mesta hnossgæti enda er mikið vesen að útbúa þær. Auðvitað varð ég að prófa.

En þetta er langdregið vesen. Fyrst þarf að sjóða hneturnar í 10 mínútur til að geta náð þykkri skelinni af. Fyrir innan er svo önnur örþunn himna utanum gyllta hnetuna sem verður að ná af á meða hnetan er heit. Þessi þáttur ferlisins varð m.a. til þess að ég fékk sýkingu í báða þumlana þar sem ég stakk mig oft á þykkri skelinni og gat svo ekki með góðu móti náð pappírshimnunni af. En á endanum tókst þetta og þá byrjar gamanið eiginlega af alvöru. Maður á sem sagt að sjóða hneturnar í sýrópi í 10 mínútur á dag í 4 – 5 daga eða þar til hneturnar hafa drukkið í sig allt sírópið. Og nota bene án þess að brenna sírópið, sem ég að sjálfsögðu gerði. Og svo þurrkar maður hneturnar í 3-6 tíma í ofni á mjög lágum hita. Útkoman ætti því að vera holdgerving himnasælunnar og jólagleðinnar, djúsi karamella með krönsí yfirborði og jarðríkum hnetukeim.

Jújú, þetta var fínt. Allt í lagi bara. Ekkert spes samt. Tókst samt kannski ekki alveg þar sem ég brendi karamelluna á degi 3 en hvað með það. Hneturnar voru ekki stökkar, svolítið seigar og sumar brenndar. Ég held að ég þurfi ekkert að standa í þessu aftur. Læt mér nægja að hlusta á Bing Crosby um jólin og skoða myndir af kastaníuhnetum á pinterest og ímynda mér að þær séu í alvörunni mjög góðar og að allir heilvita menn verði að kunna að búa þær til. En svo er auðvitað ekki, þar býr þráhyggjan ein.

kastaníur2

Enn um epli

Eftir velheppnaða eplatínslu um daginn hefur nánast ekkert verið sett á borð hér á bæ án þess að það innihaldi nokkur epli. Ennþá virðist það vera allt í lagi, heimilsfólkið er ekki farið að rjúka á dyr þegar því er boðið enn ein eplasamsuðan. Enda hefur flest smakkast ágætlega og sumt jafnvel verið mjög gott. Jarðarberjasulta með eplum er vinsæl út á grautinn en skiptar skoðanir eru á eplachutneyinu. Ætli ég sitji ekki einn að þessum 10 krukkum sem ég gerði.

Um helgina ákvað ég að reyna að gera köku sem myndi nýta sem flest epli og varð niðurstaðan að gera franska eplaböku. Bakan gæti varla verið einfaldari, eiginlega bara epli í bökuskel með smá rjómafyllingu. Uppskriftin er frá klaufalega frakkanum vinsæla, Raymond Blanc, sem tárast nánast alltaf þegar hann hugsar um mömmu sína, sérstaklega ef það tengist mat. Af atgervi hans er ljóst að í hvert skipti sem matur bragðast vel skal segja viva la France! eða í það minnsta oh la la! um leið og maður lýkur aftur augunum.  Ég notaði reyndar heilhveiti og spelt í staðinn fyrir venjulegt hveiti sem ég átti ekki. Það kom reyndar ekki að sök heldur bætti við smá hnetukeim. Og ég átti ekki calvados. Og ég setti hunangi í botninn. Og svo forbakaði ég skelina. Annars eiginlega alveg eins og hjá monsieur Blanc. Nema betri.

Frönsk eplabaka

Botn:

250 gr mjöl (50/50 spelt og heilhveiti)

125 gr smjör, kalt

1 egg

1 msk hunang

Smá salt

Fylling:

Slatti af eplum (samsvarandi 4 – 6 stórum)

50 gr smjör

Smá sítrónusafi

3 msk sykur

150 ml rjómi

1 egg

1 eggjarauða

50 gr sykur

Fyrst er það botninn. Hveitið sigtað í skál. Smá salti bætt við ásamt köldu smjörinu sem hefur verið skorið í litla kubba. Smjörinu nuddað og kreist saman við hveitið þar til áferðin verður eins og fínir brauðmolar. Egginu og hunanginu bætt við og því hrært saman. Hnoðað lítilega, eiginlega ekkert. Þrýst saman í kúlu sem er svo flött lítilega út þannig að úr verði 2-4 cm þykkur diskur. Vafið í plastfilmu og kælt í minnst klukkutíma. Tekið úr kæli og flatt út á milli tveggja arka af bökunarpappír til þess að deigið haldist betur saman og klístrist ekki við allt og alla. Deigið ætti að verða frekar þunnt, kannski 1/2 cm. Breitt varlega yfir stórt bökumót og ýtt létt á það til að fylla upp í mótið. Stungið með gafli yfir allan botninn og bakað við 220° í 10 mínútur. Á meðan eru eplin skræld og kjarnhreinsuð og skorin í 8 til 12 báta (eftir stærð). Smjörið brætt saman við 3 msk af sykri og skvettu af sítrónusafa. Skelin tekin úr ofninum og eplunum raðað ofaní af franskri fágun. Penslað vel með smjörinu og bakað í 10 mínútur við 220°. Þá er lækkað niður í 200° og bakað í 15 mín til viðbótar. Rjóma, eggjum og sykri blandað vel saman. Bakan tekin út, rjómablandinu hellt yfir og bakað áfram í ca. 15 mínútur til viðbótar  eða þar til blandan er orðin aðeins föst í sér. Látin standa í minnst 45 mínútur og svo er henni bara skóflað í sig með smá ís.

frönskeplabaka

Oh la la. Viva la France!

Eplin

Við fyrstu sýn lítur garðurinn út fyrir að vera heldur berangurslegur og fráhrindandi. Enda er hann ekki beint í alfaraleið þó að hann sé í miðri borginni þannig lagað séð. Gatan sem hann stendur við er leiðinleg, ekkert markvert að sjá meðfram henni fyrr en maður er kominn fram hjá Ikea og upp í Marzhan þar sem fyrrverandi skólastjóri Listaháskólans í Austur Berlín var fenginn til að skreyta steinsteypta veggi blokkahverfisins með sóvéstum realisma og flísum. Þessi garður virðist ekki heldur vera til þess gerður að fanga athygli eins né neins, hann er eiginlega ekki við götuna og eiginlega upp á þaki á sundhöll. Til að komast að honum þarf að ganga upp þónokkrar tröppur sem eru líklega sóvéskt realískari en flísamyndir skólastjórans. Þegar upp er komið blasir við stórt og illa hirt engi með tjám á stangli. Sem er í vissum skilningi ágætt því þegar betur er að gáð þá eru öll tréin, sem líklega slaga upp í hundraðið ef ekki fleiri,  eplatré.

epli3

Það var einmitt það sem fangaði athygli safnarans þegar hann var að villast á leiðinni heim frá Finanzamtinu. Eitt einmanna eplatré á horni garðsins. Það var hins vegar ekki fyrr en hann var kominn upp og búinn að bíta í safaríkt og súrt eplið að hann tók eftir hinum trjánum.

Safnarinn söðlaði fákinn og hleypti honum í þriðja gír alla leið heim í hellinn þar sem hann sagði söguna af illa hirtu enginu, leiðinlegu götunni og öllum eplunum, málaði útskýringarmyndir á veggi hellisins með marglita kúlupennum og drakk kaffi til að virka rólegri og enn meira sannfærandi, það hreif, allir sammála um að best væri að safna liði og stefna að heiðinni, skilaboð send með refum, dúfum, börnum og leðurblökum og öðrum dýrum sem hafa tekið sér bólfestu í sandkassanum garðinum fyrir utan hellinn, það hreif ekki, þá var bara farið á fésið og tjattað við frændfólk, málið leyst, allir til í þetta, ákveðið að ráðast til atlögu ekki seinna en í gær en samt best að bíða í tvo þrjá daga eða svo, menn í vinnu og svona, já já sagði safnarinn og hélt áfram að mála við mikinn fögnuð afkvæma hans sem hvöttu hann áfram, nú var það endurgerð á múral skólastjórans fyrrverandi, tókst hrapalega, hann legst til hvílu, sefur í tvo daga og tvær nætur, með hléum þó, stendur svo við hellismunnan og horfir yfir landið, tilbúinn.

epli1  epli2

epli5epli6

Eftir litlu meira en 40 mínútur var búið að tína ofan í alla poka og töskur sem hersingin hafði meðferðis. Þó sá ekki högg á vatni og hefði verið hægt að tína sig vitlausan svo dögum skipti í þessum aldingarði Sísífósusar. En við stukkum bara upp í næstu lest héldum heim til frænkunnar þar sem uppskeran var verkuð. Fyrsta verk var að skella í eplaköku til að hafa með kaffinu. Á meðan hún bakaðist var búinn til eplasorbet og nokkrir lítrar af epladjús um leið og við veltum fyrir okkur hvernig við best væri að nýta 30 kíló af elpum.

epli7  epli8

Svo kom kaffitíminn og með honum ein rosalegasta eplakaka síðari tíma.

epli9

Eplakaka frænku minnar hörpuleikarans

1 1/2 bolli heilhveiti

3/4 bollar smjör

3 egg

1 1/2 bolli hrásykur

1 1/2 tsk lyftiduft

1 tsk salt

1 tsk vanillusykur (eða dropar)

2 tsk kanill

1 kg epli (helst súr, 3/4 í bitum, rest rifin)

Ofninn í 200°. Bituðu eplin steikt létt á pönnu með smá smjöri og sykri þar til þau mýkjast lítið eitt. Sett til hliðar. Hveiti, lyftidufti, kanil og salti blandað saman í skál. Smjör og sykur og vanillusykur þeytt saman í annari þar til ljóst og létt. Eggjunum bætt við einu í einu þar til blandan verður ennþá léttari og ljósari. Bætið þurrefnunum út í og blandið varlega. Blandið rifnu eplunum varlega saman við. Kökumót smurt hressilega með smjöri og helmingnum af deginum hellt út í. Steiktu eplunum hellt þar ofaná og þrýst aðeins niður. Restin af deginu hellt yfir. Bakað í 30 – 40 mínútur. Borið fram með rjóma og kaffi.

epli10

Þegar við vorum öll búin að borða okkur södd af kökunni pípti ísvélin. Við fengum okkur því frískandi eplasorbet í eftirmat.

Á næstu dögum verða svo gerðar sultur og hlaup, chutney og bökur, mús, þurrkaðar eplaskífur, niðursoðin jólaepli, eplaleður, meiri safi og þannig endalaust áfram.

epli4

Gúrkutíð

Það hefur ekki beint verið líflegt um að lítast hér á þessu bloggi undanfarnar vikur. Endurspelgar það hins vegar engan veginn líf mitt utan hins stafræna veruleika, ég hef verið önnum hlaðinn og því ekki nennt að henda inn færslum, sérstaklega þegar 6 vikna sumarfríið legst eins og óróamara yfir krakkana og þá langar manni bara að henda sér upp í sófa og gera ekki neitt, helst hverfa inn í hann.  

Í tilraun minni til að hverfa rakst á þætti sem mér langar til að deila með ykkur hér. Eins konar sárabætur fyrir bloggleysið. Þeir eru um mat og eru fyndir. Horfiði bara. 

The Trip.

Steik

Það er ekki beint besta hugmynd í heimi að tjalda í 20 metrum á sekúndu með tvö lítil börn rétt um klukkan tíu að kvöldi eftir nokkra klukkutíma keyrslu með pulsustoppum og ísáti og örvæntingafulla leit að skjóli berangurslegum tjaldstæðum Snæfellsness. En við létum okkur hafa það, enda í góðra vina hópi og það átti að fara að setja humar á grillið. Og viti menn, það lægði aðeins svona rétt á meðan við borðuðum humarinn á mettíma í skítakulda. Um nóttina gaf svo aftur í rokið og eftir að hafa barist við öldur og nístandi norðanátt í sundlauginni var tjaldinu pakkað og ekið rakleitt í bústað í Kjósinni. ‘Ekkert vera að þrífa þessar grautarskálar, ég set þær bara í vélina’ hljómaði mjög vel.

Eftir barning sem þennan á maður skilið ákveðin verðlaun og okkar verðlaun biðu í kælinum á nautabúinu Hálsi í Kjós, meyr og safarík, á meðan við þvældumst Hvalfjörðinn, framhjá hjólhýsi í öreindum í vegarkantinum og hvalskurðarmönnum sem ögruðu eðlisfræðinni og skáru hrefnu með atgeirum í 40 metrum á sekúndu.

Við kaupum okkur ekki oft fínar og þykkar steikur, eiginlega aldrei, en dýrðin var slík á Hálsi að ekki var annað hægt en að fara alla leið og leyfa sér aðeins. Við keyptum tvær steikur, stórar og fitusprengdar rib eye, báðar vel yfir 500 grömmin sem áttu að metta 4 fullorðna. Börnin fengu ekki að koma nálægt þessu enda ekki í boði að stappa kjötið í klessu og henda í gólfið og heimta svo ís. Nei, þau fengu pasta og við sátum ein að þessu, verðlaunarhafarnir, eftir að þau voru sofnuð. Eldamennskan var einföld, steikurnar léttsteiktar á pönnu (ekki séns að maður nenni að grilla í þessu öskrandi roki) og franskar til hliðar. Rauðvín með og undir ómaði fylleríið og Eyfi í brekkunni hinu megin við fjallið. Sælir nú!

Steik

Nautasteik með frönskum kartöflum

Steik (250 gr er meira en nóg fyrir einn)

Salt og pipar

Olía og smjör

Bökunarkartöflur

Salt og pipar

Sólblómaolía

Kartöflurnar fyrst. Skornar í fingur og soðnar í vatni þar til þær eru tæplega hálfsoðnar, ennþá hráar í miðjunni. Hellt í sigti og látið rjúka af þeim. Ofninn hitaður í 220°. Sigtið hrist til að ýfa upp yfirborðið á frönskunum og þær settar í ofnskúffu og eiginlega drekkt í olíu. Inn í ofninn og bakaðar þar til þær eru aðeins stökkar og yfirborðið dökkt og gullið.

Steikurinar látnar standa við stofuhita í amk 2 tíma. Þær eru svo þerraðar og piprarðar og saltaðar. Panna hituð vel og steikurnar steiktar í hámark 2 mínútur á hlið. Inn í 150° heitan ofn í 5 mínútur og svo látnar hvíla í 10 mínútur í álpappír. Borið fram með soðsósu og frönskunum og góðu rauðvíni.

markthalleBW3

Berlin er án efa höfuðborg konseptsins. Hér er gríðarlegur fjöldi af konseptvæddum sjoppum, búðum og mörkuðum og það virðist vera endalaust pláss fyrir nýjar hugmyndir. Einn nýjasti og ferkasti markaður bæjarins er í Markthalle Neun í Kreuzberg og fellur hann eins flís við rass í þessari konseptþoku sem umlykur allt. Þarna ber mest á tilraunamennsku ungra framleiðenda sem leggja áherslu á lókal matvæli og samspil hefðar og nýjungagirni. Framleiðendur eru ekki hræddir við að gera tilraunir og prófa nýja hluti, þarna er hægt að finna áhugaverða osta, nýja þýska bjóra og reyktar kjötvörur sem eru undir áhrifum frá bandarískri BBQ menningu. Og auðvitað ferkst grænmeti og ávexti frá nærsveitunum. Aðalsmerki markaðarins er hins vegar hversu ljúflega hipsteravæðingin rennur  saman við fjölmenningarsamfélagið á þessum markaði og stemmningin eftir því. Þessi markaður er einfaldlega mjög töff.

markthalleBW1 markthalleBW4

Á föstudögum og laugardögum eru venjulegur matarmarkaður í Markthalle Neun en á fimmtudögum gefur konseptið í botn og þá er haldinn Street Food Thursday milli 17 og 22. Gamli innimarkaðurinn breytist þá í paradís skyndibitaáhugamannsins þar sem hægt er að gæða sér á ódýrum og djúsi hágæðaskyndibita beint frá hjarta fjölmenningarinnar. Hægt er að fá sér allt frá almennilegum Thüringer Bratwurst yfir í hráfæðis salatvefjur og gufusoðnar og fylltar víetnamskar deigbollur. Vinsælasti standurinn kvöldið sem við fjölskyldan gerðum okkur ferð niðreftir var klárlega hægelduð og vel grilluð BBQ svínarif en við nenntum ekki að láta krakkana bíða eftir því og skelltum okkur í staðinn á jamaíkanskan jerk kjúkling. Sáum við ekki eftir þeirri ákvörðun, þvert á móti. Eftir jamaíka var það svo vietnamskir hamborgarar og guacamole frá Mexikó með rótsterkri salsa.

markthalleBW5 markthalleBW7

Stemmningin varð betri og hressari eftir því sem leið á kvöldið. Salurinn fylltist fljótlega og það var augljóst að fólk var að gíra sig upp í fimmtudagsdjammið með frábærum skyndibita. Við héldum hins vegar bara heim á leið með krakkana, södd og sæl og ákveðin að koma aftur við fyrsta tækifæri.

markthalleBW2 markthalleBW6

Í fyrrasumar rakst ég á stórt og stæðilegt plómutré við lestarstöðina hjá Treptower Park. Týndum við nokkrar plómur, eins margar og við gátum og tókum með heim. Plómurnar voru litlar, rétt aðeins stærri en kirsuber, en ótrúlega sætar og safaríkar, með smá ananaskeim. Í ár ákváðum við að gera okkur sérstaka ferð í garðinn til þess eins að týna plómur og vorum því heldur betur búnari en síðast, þ.e með poka. Þrátt fyrir að flestar plómunar hafi átt töluvert í að verða full þroskaðar, þá náðum við að týna rúmlega 4 kíló á 10 mínútum. Og það eru að minnsta kosti 25 kíló í viðbót eftir fyrir svanga.

bakaðarplómur1

Um kvöldið vorum við með 17 manna matarboð og því ekki úr vegi að nota fenginn í eftirréttinn. Við ákváðum að gera eitthvað tiltölulega einfalt og því var ákveðið að baka plómurnar og bera fram með ís. Til að gefa þeim smá kikk helltum við vænm slurk af ljósdökku rommi yfir, smá lime ásamt vanillistöng. Útkoman var vægast sagt fullorðins og almennileg, kannski aðeins og áfeng fyrir börnin en þau voru sátt við ísinn.

bakaðarplómur3

Svo er bara að reyna að finna not fyrir restina. Plómu tart tartin í sunnudagsbrönsinn? Það held ég.

bakaðarplómur5

Bakaðar plómur með rommi, lime og vanillu (fyrir 6-8)

1 kíló plómur

 

4 msk sykur

2 staup romm

Safi úr 1 lime

1 vanillustöng

Plómurnar skolaðar og settar eldfast mót. Plómurnar sem við týndum voru svo litlar að við nenntum ekki að standa í því að taka steininn úr. Vanillustöngin klofin og fræin skafin úr. Þau eru sett út í mótið ásamt stönginni og sykrinum. Limesafanum bætt við og romminu skvett yfir allt saman. Bakað við 180° í 20-25 mínútur eða þar til plómurnar fara að springa og sýrópið sýður. Borið fram með vanilluís, krókanthnetum og nóg af sýrópinu.

bakaðarplómur4

Krókanthnetur

1 poki heslihnetur

100 gr sykur

Fyrst þarf að ná hýðinu af hnetunum. Hneturnar settar í ofnskúffu og inn í 180° heitann ofn í 10-15 mínútur. Þá eru þær teknar út og settar á hreint viskastykki sem er svo brotið saman yfir þær. Nuddað og nuddað fram og til baka og þá ætti mest af hýðinu af fara af. Sykurinn hitaður á pönnu á lágum hita þar til hann bráðnar. Ekki hræra og passa að hann brenni ekki. Hnetunum bætt við og hrært hratt og örugglega þannig að þær fá allar góðan sykurshjúp. Sett til hliðar á bökunarpappír til að kólna. Malað í matvinnsluvél. Gerir alla eftirrétti betri.

bakaðarplómur2  bakaðarplómur6

 

 

 

 

 

 

Súrdeigs-croissant

Já, ég er búinn að tapa geðheilsunni. Ég fékk þá flugu í höfuðið um daginn að það gæti nú verið aldeils góð hugmynd að gera sætabrauð upp á gamla mátann, þ.e.a.s. þegar ekki var notast við annað ger en gruggugan súr. Þurrgerið er ekkert sérstaklega gömul uppfinning, eitthvað um 100 ára held ég, og það voru nú aldeils bakaðar einhvers konar kleinur og annað danish suður í Frakklandi fyrir þann tíma.

Rétt fyrir síðustu helgi hugsaði ég með mér að það væri kominn tíma á að fá sér croissant með sunnudagskaffiinu. Þar sem ég er rökhugsandi maður, og um leið sérlega hrifinn af því að gera alla skapaða hluti sjálfur frá grunni og þar með standa í eilífu stappi við viðfangefni mitt hverji sinni, hvort sem um ræður brauð eða eldhúsinnréttingar, þá kom ekkert annað til greina en að baka hornin sjálfur og það með súrnum, sem horfi á mig spenntur innan í ísskápnum, til í að takast á við nýtt og spennandi verkefni. Hann náði að sannfæra sig með ásjónu sinni einni saman, var eitthvað svo sannfærandi, eins og hann væri ný orðinn ráðherra og hagaði sér eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Súrdeigscroissant, ekkert mál.

súrcroissant1

Ferlið var langt. Ég tók súrinn út úr ísskápnum á þriðjudagsmorgni og hlúði vel að honum fram á föstudag, gaf honum mjöl og vatn þegar hann var svangur, til að gerjunin væri upp á sitt besta. Þá um kvöldið hrærði ég í soppuna, um 250 gr hveiti, ein ausa súr og jafn mikið af mjólk og vatni, samtals 250 ml. Þessu leyfði ég að malla fram á laugardagseftirmiðdag og var þá soppan orðin ansi lífleg. Þá bætti ég við 200 gr af hveiti, 50 gr af bræddu svmjöri og 20 gr sykri. Hrærði vel saman og hnoðaði lítilega. Degið er titölulega stíft og það á alls ekki að hnoða það of lengi, max 5 mínútur, bara þannig að það verði slétt og fellt. Venjulega myndi ég láta degið hefast rólega inn í ísskáp í nokkra tíma, jafnvel yfir nótt, en í þessu tilfelli leyfði ég því að standa á köldum stað inni í eldhúsi til þess að súrinn gæti unnið hraðar á því og náð góðfri lyftingu. Það tókst, nokkrum tímum síðar var degið búið að tvöfalda sig og ég gat fært mig upp á næsta level.

súrcroissant2

Ég kældi smjörið vel, öll 200 grömmin. Lamdi það út í ca 1 cm þykkan ferning og setti aftur inn í ísskáp. Á þessi stigi er mjög mikilvægt að kæla allt saman vel svo að smjörið fari ekki að vella út um allt. Degið flatti ég sömuleiðs út í ferhyrning, 3 sinnum lengri en hann var breiður, ca. 1 cm á þykkt. Tók smjörið út, lagði það í miðjuna á deginu og braut það saman yfir smjörið, þrýsti létt niður, snéri því 90 gráður og flatti út, braut saman og kældi inn í ísskálp í minnst 30 mínútur. Passaði mig á því að hafa alltaf smá hveiti undir svo að degið festist ekki. Tók það svo út og flatt út aftur, braut saman, snéri 90°, flatti út og braut saman. Kælt í 30 mínútur. Þetta er endurtekið amk tvisvar í viðbót. Lykilatriðið er að passa  að degið sé alltaf kalt til þess að smjörið fari ekki að leka út um allt. Þá lendir maður í veseni (ekki það að þetta ferli sé ekki nógu mikið vesen fyrir). Að lokum, eða því sem næst, fletur maður degið út í ferning, 2 sinnum lengri en hann er breiður, ca. 1 cm að þykkt. Svo skiptir maður þessu í tvennt langsum og sker út ílanga þríhyrninga. Rúllar þeim varlega en örugglega upp og án hiks, beygir aðeins og raðar á ofnskúffu með bökunarpappír. Passa að það sé nóg bil á milli hornanna. Ég fékk um 25 lítil horn úr þessari uppskrift þannig þetta voru 4 plötur. Síðan þarf að leyfa þessu að hefast og tvöfaldast og það getur tekið tíma. Ég lét tvær plötur hefast á eldhúsborðinu yfir nóttina en hinar tvær inn í ísskáp. Hornin á eldhúsborðinu tvöfölduðust yfir nóttina og voru tilbúinn að fara beint inn í heitan ofninn. Ég tók hinar einfaldlega út og lét þau hefast á eldhúsborðinu meðan fyrri hlutinn bakaðist. Hornin eru pensluð með hrærðu eggi, helst tvisvar, áður en þau fara inn í 230° heitan ofn og eru bökuð í 15 mínútur eða þar til þau líta út eins og í frönskum bakaríum.

súrcroissant4

Ég var bara ansi ánægður með þessa tilraun, hornin voru léttari en ég bjóst við og einstaklega bragðgóð. Ég nota rúgmjöl í súrinn minn og var því smá hnetukeimur af hornunum sem skemmdi nú ekki fyrir. Ég get fyllilega mælt með þessu fyrir þá sem hafa nógan tíma og nennu og þolinmæði. Þetta er í það minnsta ekki ferli sem verður flýtt á neinn hátt. Ég frysti nokkur svo að ég finni mig ekki knúinn til að halda í 5 daga ferðalag til þess eins að fá skonrok með sunnudagskaffinu. Ekki alveg strax alla vega.

súrcroissant5

Ferkst og fljótlegt!

Það var heitt í dag, næstum því molla, plús 30° held ég. Borgin öll í slow mo, fólk sækir í skuggann þar sem það finnur hann, gengur meðfram veggjum, húkir undir trjám, sest undir markisu og pantar sér ískaffi. Við gerðum eins og aðrir foreldrar og fengum okkur ís með börnunum eftir leikskólann, annað varla hægt.

Þetta veður andar ofan í hálsmálið á manni og hvíslar vinsælasta slagorð matvælaiðnaðarins, eitthvað ferskt og fljótlegt í matinn bara. Í þessu tilfelli kom hins vegar ekki til greina að kippa með megrandi kjúklingavefju með jógúrtsósu, skyrdrykkjarprótínbombusulli eða 1944 rétti, allt virðist þetta vera ferskt og fljótlegt. Nei ‘bara eitthvað annað’ takk fyrir,  salat eða eitthvað. Matarkonan, inflúenseruð frá dvöl sinni suður við Miðjarðarhaf nú í vor, stakk upp á grísku salati með fullt af feta osti. Grillaðar beikonvafðar ostafylltar döðlur með. Gott brauð. Ég var ekki lengi að samþykkja það, nýbúinn að horfa á Rick Stein dásama matargerðina og tístið í svölunum á grísku eyjunni Korfú. Ískalt hvítvínsspritz til hliðar. Gerist eiginlega ekki betra á heitum sumardegi. Stundum er lífið í skugganum fallegt og gott.

Ferskt og fljótlegt grískt salat

4 tómatar

1 gúrka

150 gr ólífur

200 gr fetaostur

Klípa af fersku basil og myntu

Olía

Sítrónusafi

1/2 hvítlauksrif

Salt og pipar

Tómatarnir skornin í fjórðunga og kjarnhreinsaðir. Gúrkan skræld og kjarnhreinsuð, skorin í álíka stóra bita og tómatarnir. Kryddið saxað fínt og sett í skál eða á stóran ásamt tómötunum, gúrkunni og ólífunum. Það mætti bæta við rauðri papriku og fínt skornum rauðlauk fyrir þá sem vilja. Osturinn skorinn eða mulinn í sæmilega stóra bita og dreift yfir. Hvítlaukrinn pressaður út í nokkrar matskeiðar af olíu. Sítrónusafa bætt við, hrært vel saman og smakkað til. Þetta ætti að vera nokkuð súr dressing. Helt yfir salatið, saltað og piprað og öllu blandað vel saman. Borið fram með ísköldu hvítvíni og ristuðu grófu brauði.

ferkstfljótlegt1

Ostafylltar beikondöðlur

Döðlur, steinlausar

Beikon, 1/2 sneið per döðlu

Ostur, t.d. feta eða prima donna.

Osturinn skorinn í litla bita. Döðlurnar fylltar með ostinum og beikoni vafið utanum og svo er bara að grilla þar til beikonið verður stökkt og osturinn aðeins bráðnaður og allir eru sáttir.

fersktfljótlegt2

Í samfélagi nútímans er stundum eins og allt sé að fara til fjandans, að heimurinn sé í þann veginn að hrynja og tilvist manns muni skolast niður í hyldýpi merkingarleysu sinnar. Stundum hellist yfir mann sú tilfinning að ekkert sé eins og það eigi að vera og að skilningsleysið á skynveröldinni sé algjört.

Brauðgerð hefur oftar en ekki framkallað þessar tilfinningar hjá mér, hvort sem um ræðir óendanlega klístrað deig eða sjálfstæðan vilja súrsins sem neitar að hlýða skipunum skapara síns. Stundum tekur súrinn upp á því að skilja sig, oftast þegar honum hefur ekki verið sinnt nægilega vel og hann er hreinlega búinn með alla þá næringu sem fyrirfinnst í krukkunni. Þá gæti maður upplifað sig sem misheppnaðan og að súrinn sé dauður og ekkert hægt að gera. En þá er bara að anda inn  í núið, kjarna sig, og átta sig á því að veröldin stendur ekki og fellur með súrnum. Lausnin í þessu tilfelli, og reyndar flestum öðrum, er einföld: gefðu honum að borða. Maður hellir hreinlega gruggugum vökvanum af ásamt svolitlu af mjölsoppunni og bætir við mjöli og vatni í jöfnum hlutföllum. Hlúir að honum svona í tvo daga og allt fellur í ljúfa löð.

Það væri óskandi að hægt væri að leysa skuldavanda heimilanna með jöfnum hlutföllum af mjöli og vatni, en hvað veit maður, vitlausari lausnir eru örugglega til.

skilinnsúr1

Súrinn búinn að skilja sig. 

skilinnsúr2  skilinnsúr3

Næsta dag, eftir vel heppnaðar björgunaraðgerðir. Allt í bubblandi swingi.