Feeds:
Athugasemdir

Archive for the ‘Vor’ Category

Þjóðverjar munu líklega aldrei gefa upp þann sið að loka öllum búðum á sunnudögum. Ólíkt okkur heiðingjunum vilja þeir varðveita eitthvað sem gæti flokkast undir rólegheit og telja að takmörkun neyslu einn dag í viku hafi eitthvað með það að gera. Þetta er hið besta mál að mínu mati og maður neyðist oftar en ekki til þess að setjast á kaffihús, vera á meðal fólks og taka sér óeðlilega langan tíma í gæða sér á úrvalsbröns. En maður lifir ekki á brönsinum og rólegheitunm einum saman þegar maður hefur gleymt því að gera ráð fyrir þessari forneskjulegu lokun. Einn daginn í apríl lenti ég í því að þetta var það eina sem var til á heimilinu þegar átti að útbúa kvöldmat:

brenninetlupasta1

Ekki dugaði þetta til að seðja fjölskylduna og þó að ég sé alveg hliðhollur hinni ítölsku cucina povera matarhefð þá var þetta nú ansi langt gengið. Nú voru góð ráð dýr og börnin farin að ergjast af svengd. Ég leitaði eins og óður maður af einhverju sem myndi einhvern veginn geta reddað málunum, sameina hin takmörkuðu hráefni í einn snilldarrétt. Ekkert gekk. En þegar ég stökk út til að henda rusli, rak ég augun í bjargvætt minn, grösuga breiðu af nýsprottinni brenninetlu.

brenninetlupasta2 brenninetlupasta3

Ég tíndi nóg í góða skál af pastarétt og ró færðist aftur yfir þennan friðsæla sunnudag. Þeir sem ekki eru svo heppnir að komast í ferska brenninetlu geta látið sér nægja spínat í staðinn.

Pasta með hvtílauk, tómat og brenninetlu

Linguine

1 tómatur

3 hvítalauksrif

Körfufylli af brenninetlu (líklega um 500 gr)

Pastað soðið samkvæmt leiðbeiningum. Ein ausa af pastavatni tekin frá. Olía hituð á pönnu, hvítlaukurinn saxaður fínt og settur út á. Steikt í 1 mínútu. Tómaturinn saxaður og bætt út á. Steikt á lágum hita í nokkrar mínútur, smá skvettu af vatni bætt við ef pannan verður of þurr. Blöðin tekin af brenninetlunni og stilkunum hent. Hún skoluð og sett út á pönnuna. Vatnið sem er á henni ættiað duga til að sjóða hana niður. Hrært aðeins og lok sett á pönnuna. Soðið í 2-3 mínútur. Kryddað með salt og pipar og hálf sítróna kreist yfir ef hún er til. Soðið rólega áfram þar til brenninetlan er orðin dökk og byrjuð að klessast aðeins. Sett í skál með pastanu og hálfri ausu af pastavatninu og hrært vel. Restin af pastavatninu sett út á ef þetta er  þurrt. Steinselja klippt yfir í lokin. Borið fram með stóískri ró.

brenninetlupasta4  brenninetlupasta5

Read Full Post »

Þessi vetur var einstaklega mildur hér í Berlín. Það fór ekki mikið fyrir Síberíukuldanum þetta árið, bara rúm vika í janúar þar sem hann fór niður fyrir -10°. Undanfarið hefur verið mjög milt og náttúran hefur nýtt sér það til fulls. Vorið er í þann veginn að springa út með öllum sínum páskaliljum, túlípönum og kirsuberjablómum.

Á þessum tíma árs fæ ég yfirleitt þá flugi í höfuðið að ég verði að rækta eins mikið grænmeti og ég mögulega get. Síðustu tvö sumur höfum við farið til Íslands í lengri tíma og því hef ég afskrifað allar ræktunartilraunir hér ytra. Í ár ætlum við hins vegar að eyða sumrinu hér í Berlín og þá fór ræktunarþráhyggjan á flug fyrir alvöru.

Ég bý hins vegar við töluvert hamalandi aðstæður. Möguleikar til ræktunar eru eiginlega öngvir fyrir utan gluggakistur. Þó svo að það sé stórkostlegur og risastór sameiginlegur garður bak við húsaröðina okkar þá má ekki plægja upp jarðveginn og breyta garðinum í eina alls herjar Edensmynd. Planið er því að láta gluggakistur duga og kannski kem ég nokkrum kössum fyrir útí garði ef ég er alvega að fara yfirum. Reyndar komst ég yfir gamlan strigapoka frá þýska póstinum og er að plana að fylla hann að mold og setja niður nokkrar kartöflur.

Ég hef hins vegar kannað málið og það lítur út fyrir að þetta takmarkaða rými til ræktunar komi því ekki til að með að trufla mig nema… að takmörkðuð leiti. Í gluggakistum verða kryddjurtir, salat, tómatar og chiliplöntur. Í kössunum gæti ég svo plantað  baunum og ertum, fleiri tómötum, zucchini, kartöflum, radísum, eggaldin og gulrætum. Kannski að ég stingi nokkrum maísplöntum niður á góða staði í blómabeðin. Ef þetta gengur upp ætti ég að vera nokkuð vel settur í haust. Sjáum til. Eitt er víst að ég mun dókúmentera þennan prósess eins vel og ég get og kaffæra ykkur, kæru lesendur, með sögum af sigrum og sorgum í þessum tilfinningalega rússibana sem þetta óumdeilanlega verður. Hana.

ræktun-gluggakistukrydd

Salvía, óreganó, sítrónutimían og skellótt timían teygir anga mót sólu í glugganum. Kryddinu verður síðan komið fyrir úti þegar hlýnar örlítið meir.

Read Full Post »

Rückkehr

Þar kom að því að ég leiddi hugann aftur að þessu ágæta bloggi mínu. Það sem af er ári hefur verið mjög mikið að gera fyrir utan hinn virtúal þráhyggjuheim minn. Það var nánast eins og öll dagskrá ársins hrúgaðist inn á 10 vikna tímabil. Ritgerðaskrif, heimildavinna og skilafrestir vógu þar þungt en á sama tíma för ég á tvær stærstu matarsölumessur í evrópu þar sem ég sannfærði fólk um að íslenskt sjávarsalt væri það allra besta í heimi. Ég hef tekið að mér að freista íbúa Þýskalands með saltinu frá Norður & Co, sem er einfaldlega besta salt í heimi, bæði hvað varðar bragðgæði, náttúruvæna framleiðsluaðferð og verð. (Ef þið hafið ekki prófað það nú þegar þá mæli ég sterklega með því tekið verði á þeim skandal.)  Þá sýndi ég nýtt verk á leiklistarhátið hér í borg og ofan í allt saman fékk ég svo mjög góðan styrk til að vinna að nýrri sýningu. En nú fer að rofa aðeins til og kannski að maður geti jafnvel hent inn nokkrum færslum frá liðnum vikum við tækifæri.

Matartengt er það helst að frétta að vegan tilraunin sem átti að vara í mánuð stendur enn yfir. Ekki ein einasta dýraafurð hefur farið inn fyrir minar varir á þessu ári…nei, nú lýg ég. Ég fékk mér eina þunna sneið að heimagerðri pulsu sem ítalarnir á næsta bás á einni matarmessunni buðu mér. Þeir töluðu reyndar enga ensku en voru mjög sannfærandi á sinni suður-ítölsku, sögðu að ég væri testa di cazzo ef ég prófaði ekki salami di nonna. Ég hló vændræðalega og smakkaði pulsuna og þeir glottu bara, klöppuðu mér á bakið og sögðu hlæjandi einu ensku setninguna sen þeir kunnu, forget about it. En puslan var ótúleg.

Vegantilraunin gekk, og gengur, fyrst og fremst út á það að koma sér út út viðjum vanans í eldhúsinu og þvinga sig til að hugsa aðeins út fyrir rammann. Það hefur heldur betur tekist. Við lentum til dæmis í því einn daginn að við vorum stödd niðrí bæ og urðum allt í einu mjög svöng. Við stukkum þá inn á kaffihús sem við höfðum nokkrum sinnum farið á áður og vissum að væri mjög gott. Þegar við renndum yfir matseðilinn var ekki einn einasti réttur á boðstólum sem ekki innihélt kjöt. Við nenntum ekki að leita að nýjum stað og spurðum því þjóninn hvort að það væri eitthvað sem hægt væri að gera. Hann sagði að það væri kannski möguleiki að sleppa kjúklingabringunni á einni samlokunni og þá væri hún bara með linsubaunum, tómötum og avókadó. Jæja, það hljómaði um það bil eins óspennandi og hægt var en við vorum einfaldlega of svöng til að fara annað. Samlokan leit sæmilega út svo sem, kannski full aumingjaleg. Bragðið var hins vegar ótrúlegt, einfaldlega ein besta samloka sem ég hef fengið, og síðan þá höfum við gert nokkra rétti með þessari samsetningu.

Sem dæmi um fleiri góða rétti má nefna sætkartöflugnocchi, gult karrý með kartöflum og tofu, kjúklingabaunir með tómötum og sterku harissa, seljurótarsúpu, ofnbakað eggaldin, pasta með ofnbökuðu súkíni og myntu, fullkomin vetrarminestrone, vietnamskt núðlusalat og fleira og fleira. Í gær tók ég síðan til í ísskápnum og henti í þennan frábæra rétt sem krakkarnir hámuðu gjörsamlega í sig. Ég held að þessi tilraun fái að vara aðeins lengur, í það minnst þar til við förum til Íslands í næsta mánuði, þá kannski að maður fái sér soðning.

kartöfluoglinsusalat1

Volgt kartöflu og linsusalat með fersku kryddjurtapestó

500 gr kartöflur

1 dós soðnar linsur

1 laukur

2 sellerístilkar

2 hvítrauksrif

1 búnt hvort um sig af basil, steinselju og rúkóla

1 sítróna

1 lúka ósaltaðar pistasíuhnetur (eða aðrar hnetur eins og heslihnetur, furuhnetur eða möndlur)

Olía

Salt og pipar

Kartöflurnar skrældar og soðnar í létt söltuðu vatni þangað til þær eru tilbúnar. Vatninu helt af og þær látnar standa aðeins. Laukurinn steiktur á pönnu þar til glær, sellerí bætt út og steik áfram í nokkrar mínútur. Hvítlaukurinn fínsaxaður og bætt út á pönnuna og steikt áfram í 1-2 mínútur. Linsurnar skolaðar og bætt út á pönnuna ásamt kartöfunum. Kryddjurtirnar maukaðar í matvinnsluvél ásamt sítrónusafa, fullt af ólívuolíu, salti og pipar. Innihaldi pönnunnar helt í stóra skál og kryddjurtamaukinu hrært saman við. Hnetunum blandað saman við og saltað og piprað eftir smekk. Gott að kreista sítrónusneið yfir allt saman. Verði manni svo bara að góðu.

kartöfluoglinsusalat2

Read Full Post »

Yllir

Breskir sjónvarpskokkar, sérstaklega Hugh Fearnley Wittingstall, þreytast ekki á því að auglýsa bragðgæði blóma og berja yllirunnans. Veglegir blómaklasarnir með litlu hvítu og ilmand blómunum eiga að vera sérlega góð viðbót við panna cotta eða annan rjómaþeyting sem er helst borinn fram með stikkilsberjamauki. Einnig er vinsælt að búa til sýróp með ylliblómabragði sem er svo blandað við sódavatn og úr verður svalandi sumardrykkur. Fyrir lengra komna má svo búa til freyðivín úr blómunum. Gosdrykkir með þessu bragði eru þar að auki vinsælir nefnast hér í Þýskalandi holunder, í Danmörku hyldeblomst og elderflower í Bretlandi.

yllir1

Þar sem mér þykja slíkir gosdrykkir töluvert góðir ákvað ég því að reyna að búa til mitt eigið sýróp sem mætti bæta út í sódavatn. Ferlið er tiltölulega einfalt og uppskriftirnar sem ég fann á netinu lofuðu góðum árangri. Yllirinn er í miklum blóma um þessar mundir hér ytra og því ekki seinna vænna en að skella í sýróp.

yllir2

Útkoman var…áhugaverð. Ég er reyndar ekki búinn að gera það upp við mig hvort að þetta sé mjög gott eða mjög vont. Í uppskriftum var reyndar gert ráð fyrir sítrónusýru en hana átti ég ekki og setti því bara auka sítrónusafa út í en þrátt fyrir það er ég ekki frá því að drykkurinn hreinlega krefjist þess að væn sneið af sítrónu sé kreist út í og jafnvel bætt við nokkrum myntulaufum. Og ekki nota venjulegt vatn, bara kraftmikið sódavatn með klökum, annars er bara eins og maður sé að drekka væminn sápulög. En ég prófa þetta aftur í kvöldsólinni nú í vikunni með auka sítrónukikki og kveð upp dóminn eftir það.

Ylliberjasýróp

300 gr sykur

2 msk hunang

800 ml vatn

1 og 1/2 sítróna

15 ylliblómahausar

Vatn, hunang og sykur soðið saman þar til sykruinn er allur uppleystur. Látið kólna alveg. Safa úr 1 sítrónu bætt út í ásamt kreistri sítrónunni sjálfri. Hálfa sítrónan skorin í sneiðar og bætt út í. Ylliblómin skoluð varlega og bætt út í pottinn. Hrært aðeins og látið standa í sólarhring. Hrært stöku sinnum. Sett í sterilíseraða flösku. Smá lögg af sýrópinu helt í glas og fyllt upp með sódavatni, klökum og smá meiri sítrónu.

yllir3

Viðbót (2 dögum síðar): Ég prófaði drykkinn í dag og bætti við svolítið af sítrónusafa út í glasið og viti menn, þetta var bara töluvert gott. Ég hlýt reyndar að hafa gert eitthvað vitlaust í ferlinu því að þegar ég opnaði flöskuna með sýrópinu hafði sýrópið gerjast aðeins og komið smá gos í það…og þar að leiðandi smá alkóhól! Það skemmdi reyndar ekkert fyrir. Ástæðan er sú að ylliblómin bera með sér villt ger sem getur gert það að verkum, ef aðstæður eru réttar, að sýrópið gerjist og er maður þá kominn hálfa leiðina að grófri útgáfu af freyðivíninu sem ég minntist á hér að ofan. Hægt er að sjá Hugh hjá River Cottage búa það til hér. Kannski að maður skelli í svoleiðis fyrst maður er á annað borð kominn á bragðið.

Read Full Post »

Það er óhætt að segja að aspastíminn sé nú í hámarki. Markaðir eru yfirfullir, litlir aspasbásar á hverju götuhorni og í kjörbúðum er  nánast eingöngu hægt að kaupa aspas og hollandaise. Eftir viku eða tvær er fárið síðan búið og ár þangað til að maður getur keypt græna eða hvíta stilkana aftur. Því er um að gera að henda sér út í aspasfljótið og éta sig yfirfullan eins og hér virðist vera lenskan.

Um daginn vafði ég beikoni utan um aspasinn og grillaði og uppgötvaði þar með himneskan samruna þessara hráefna. Ég held að eftir þetta geti ég hreinlega ekki eldað aspas án þess að nota beikon. En eitthvað varð ég að gera örðuvísi núna og ákvað að henda mér út í kviksyndi sjmördeigsgerðar og búa til böku. Smjördeig er oft talið óþolandi fyrirbæri sem sjáldan hagar sér eins og maður vill og endar sem seigur og ljótur köggull. Ég var því hæfilega skeptískur á að þetta myndi ganga upp hjá mér. Eftir töluverða heimildarvinnu og samanburð á uppskriftum ákvað ég að skella í deig og vona það besta. Útkoman var létt og meðfærilegt deig sem lyfti sér vel í ofni, varð stökkt og brakandi gott. Gott er að gera deigið 1 eða 2 dögum áður til að það fái að kólna vel. Sömuleiðis verður að passa að hafa alltaf nóg af hveiti undir deginu svo að það festist ekki við borðið.

Bakan sjálf gæti ekki verið einfaldari enda er einfaldleikin aðalatriðið þegar kemur að ferskum nýtýndum aspas. Smjördeig, sýrður rjómi, stökkt beikon, aspas, smá parmeggiano, salt og pipar.

Mér hefur stundum tekist ágætlega að elda góðan mat, jafnvel mjög góðan, en það verður að segjast að þessi réttur er með þeim  allra bestu sem ég hef framreitt hingað til. Ég get því hæglega mælt með honum ef fólk er að vandræðast með aspasinn.

aspasbaka3

Einföld smjördeigsbaka með aspas og beikoni

Smjördeig:

225 gr hveiti

200 gr smjör, kalt

Um 100 ml íslkalt vatn

Hveiti sett í skál og 30 gr af smjöri nuddað vel saman við. Kælt í 20 minútur. Þá er vatni hrært saman við hveitiblönduna þar til úr verður meðhöndlanlegt og mjúkt deig. Hnoðað snögglega. Kælt í 20 mínútur. Restin af smjörinu flatt út á milli 2 smjörpappírsblaða í ferhyrning, ca. tvisvar sinnum lengri en hann er breiður eða um 1 cm þykkt. Deigið flatt út þannig að það sé 3 lengra en það er breitt. Smjörið sett í miðjuna og deigið brotið saman yfir smjörið, eins og umslag. Snúið 90 gráður og flatt út þrisvar sinnum lengra en það er breitt og brotið saman. Kælt í 20 mínútur. Tekið út, flatt út, brotið saman, snúið 90 gráður, flatt úr, brotið saman. Kælt. Þetta er endurtekið a.m.k. 3 í viðbót. Kælt yfir nótt.

aspasbaka1

Bakan:

Smjördeigið

750 gr aspas

200 ml sýrður rjómi

150 gr beikon

Smá parmeggiano

1 egg

Olía

Salt og pipar

Ofninn í 200°. Beikonið skorið í litla bita og steikt á pönnu þar til það er stökkt. Smjördegið flatt úr í ferhyrning, 1/2 cm að þykkt. Brotið 2 cm upp á endana. Neðsti trénaði hlutinn af aspasnum skorin af. Sýrða rjómanum smurt á deigið, aspasnum raðað á, beikonið yfir  og aspasinn smurður með smá olíu. Pipar og salt. Parmeggiano rifinn yfir og endarnir penslaðir með hrærðu eggi. Bakað í 25-35 mínútur eða þar til degið verður fallega gullbrúnt og stökkt. Borið fram með fersku salati, t.d. rúkóla, og vatnsglasi til að halda sig frá flókinni umræðu um hvaða vín passar með aspas (einfalt svar: ekkert).

aspasbaka2

Read Full Post »

Jawohl! Nú lifnar yfir Berlín því hér hefur heldur betur hlýnað, allt orðið grænt og blóm á hverju tréi og grasið í almenningsgörðunum búið að vaxa rétt nægilega mikið til að hægt sé að setjast makindalega með dúk án þess að koma sér fyrir í engu nema drullu og mold. Nú skal grillað! Um helgina var rúmlega 20° hiti og reykjarmökkurinn í Maurpark í dag var þykkur og stöðugur nánast allan daginn. Núna má því búast við óslitnu grilleríi fram á haust og því ber að sjálfsögðu að fagna. Hér á bæ var setið útivið og grillað með gestum frá kl 16 í gær og frameftir. Fyrsti klukkutíminn fór reyndar í það að reyna að kveikja í kolunum án þess að vera með olíu en íslensku blöðin sem mamma kom með um daginn þegar hún var í heimsókn voru vel nýtt, og þá sérstaklega auglýsingar þeirra flokka sem semja nú um framtíðina með vöfflur í annari og bragðarefi í hinni. Þegar kolin voru loksins tilbúin var hafist handa við að grilla pulsur handa börnunum á með hinir fullorðnu vöfðum beikoni utan um aspas og mótuðu hamborgara og dressuðu tortelini salat. Í stíl við vorið var í eftirrétt hvítsúkkulaði og rababara mús. Veigarnar voru það vel gerðar og góðar að ekki kom annað til greina en að skola þeim niður með kampavíni sem passaði einkar vel með grilluðum beikonvöfðum aspas með parmeggiano hvítvínssmjöri. Setið var úti langt fram á kvöld, enda vorkvöldið milt  og fallegt, en rólegheitin tóku enda þegar börnin fengu þá góðu og lógísku hugmynd um að mála sig svarta eins og nóttina með kolamolum. En þá var kampavínið líka búið.

Grilluð beikonvafin aspasspjót með parmeggiano hvítvínssmjöri frænku minnar hörpuleikarns

1 kíló aspas (grænn í þetta skiptið)

20 beikonsneiðar (eða jafnmargar og spjótin)

Góð lúka fínt rifinn parmeggiano

Smá hvítvínsskvetta

Olía

Neðsti trénaði hlutinn af aspasinum skorinn af og hent. Ef þarf má flysja aspasinn, allt nema toppinn, og svo er hann settur í sjóðandi vatn í 2-3 mínútur. Vatninu hellt af og aspasinn látinn kólna aðeins. Á meðan er ostinum hrært saman við hvítvísskvettuna og sæmilega mikið af olíu, kannski 2 msk til að byrja með. Smakkað til og bætt við þar sem maður telur þörf á. Ekkert sérstaklega flókið. Beikon vafið utan um hvert aspasspjót og síðan grillað á vel heitu grilli þar til beikonið er stökt og fallegt. Raðað á disk og væn klípa af smjörinu sett yfir. Kampavín með, ekkert annað.

grillaspas

Read Full Post »

Vorið og villtur hvítlaukur

Berlín varð græn í síðustu viku. Hitinn hefur haldist vel yfir 10 gráðum í nokkurn tíma og náttúran kann heldur betur að meta það. Kirsuberjatréin eru í fullum blóma, nánast hálfblörruð af einlægri væmni sem smitast út í samfélagið sem gleypir í sig ís í takt við væmnina og skolar henni svo afsakandi niður með of mörgum bjórum. Vorið er komið og sumarið á næsta leyti.

Ég er mikill áhugamaður um mat og grænmeti sem vext villt um borgina og nærumhverfi hennar. Í fyrra týndi ég brómber og rúkóla við leikvöllinn á Helmholzplatz, plómur við lestarstöðina í Treptower Park og roðrunnaepli fyrir utan KFC í Pankow. Og ekki leiðist mér að fara í berja eða sveppamó. Núna, í byrjun vors, mætti halda að ekki væri mikið í boðið fyrir áhugasafnara eins og mig en þar skjáltlast manni. Brenninetlan er út um allt og vel hægt að nýta hana í bjór eða matargerð. Sumir borða blóm og nóg er af þeim. En á markaðnum um daginn rakst ég á villijurt sem mig hefur lengi langað til að týna og prófa í eldhúsinu, villtan hvítlauk. Þó að það væri vissulega búið að týna hann fyrir mig og setja í snyrtilegt búnt þá stóðst ég ekki mátið og keypti smávegis til að prófa.

Laukurinn vex út um allt, eitthvað hérna inn í borginni en aðallega þó í skógunum í kring. Maður nýtir blöðin einna helst en lætur rótina vera þó að það sé vel hægt að nota hana líka þegar líður á haustið. Bragðið er ekki sterkt heldur milt og ferskt og gefur virkilega góðan keim. Best er að nota þau eins fersk og mögulegt er og bæta við rétti alveg í lokin og passa þannig að þau eldist ekki of mikið og tapi þar með bragði sínu og ilm. Hugh Fearnley Wittingstall hefur mikið notað villtan hvítlauk í sínum þáttum og get ég t.d. bent á A cook on the wild side að Escape to River Cottage og Return to River Cottage sem ætti að vera hægt að finna á youtube eða dailymotion.

Ég notaði laukinn í einfalt kartöflugnocchi með sítrónusmjöri. Virkilega gott. Uppskriftin er nóg fyrir 2 en það má auðveldlega tvöfalda hana.

gnocchihvítlauks1

Gnocchi með sítrónsmjöri og villtum hvítlauk

300 gr soðnar og skrældar kartöflur

75 gr hveiti

2 msk rifin parmeggiano

Fínt rifinn börkur af hálfri sítrónu

1/2 egg (hrært)

50 gr smjör

Safi úr 1/2 sítrónu

1 búnt villtur hvítlaukur

Salt

Pipar

Kartöflurnar stappaðar og þrýst í gegnum sigti. Hveiti, eggi, sítrónuberki, osti, smá salti og pipar blandað vel saman við karföflurnar þar til meðhöndlanlegt deig myndast. Mótað í kúlu og kælt í 20 mínútur. Deginu skipti í fernt og rúllað  í 1 cm þykkar pulsur og svo skorið í 1-2 cm stóra bita. Sett í sjóðandi saltað vatn. Gnocchiið er tilbúið á fáeinum mínútum eða þegar boltarnir fljóta upp. Smjörið brætt á pönnu við lágan hita, sítrónusafanum bætt við ásamt söxuðum hvítlauknum. Gnocchiinu bætt út í smjörið og velt vel upp úr því. Borið fram strax með góðum slatta af parmeggiano.

gnocchihvílauks2

Read Full Post »

Older Posts »