Feeds:
Athugasemdir

Archive for the ‘Vetur’ Category

Þá er komið nýtt ár. Ég vona að það verði ykkur lesendum hliðhollt, að þið dafnið í takt við jákvæðnina í ársstjörnuspánum og forðist neikvæðnina og að við saman reynum aðallega bara að verða betra fólk.

Síðustu vikur hef ég ekki verið iðinn við að setja inn nýjar færslur og eru reyndar töluverðar líkur á því að ég muni ekki breyta mikið af þeirri stefnu á næstu vikum. Ég er sem stendur á kafi í rannsóknarvinnu fyrir lokaverkefnið í skólanum (loksins þarf maður að gera eitthvað annað en að drekka latte) og hef því lítinn tíma til að skrifa um eitthvað annað en sviðsetningu sjálfsins, hverfulleika raunveruleikans og lýgi leiklistarinnar. Þrátt fyrir það verður líklega heill hellingur matartengds efnis sem hægt verður að skrifa um og mun ég henda inn færslum eftir bestu getu.

Ég hef til að mynda ákveðið að þessi fyrsti mánuður ársins verði vegan, þ.e. ég og konan mín munum ekki neyta neinna dýrafurða. Ástæðan er ekki endilega pólitísk eða eitthvað átak til að losa sig við jólabumbuna þó að ég hafi mikinn skilning á pólitískri afstöðu grænmetisæta og þeirra sem eru vegan, við ættum auðvitað að bora miklu minna kjöt og vanda töluvert betur þegar kemur að framleiðslu og vinnslu dýraafurða. Ástæðan er einfaldlega sú að okkur fannst sama bragðið orðið af öllu og langaði því að prófa nýjar leiðir í matreiðslu og athuga hvort að við lærðum eitthvað nýtt.

Þetta hljómaði allt saman mjög vel rétt fyrir áramót en málið varð strax töluvert flóknara þegar ég stóð frammi fyrir því að búa mér til vegan morgunmat á nýjársdag. Ekki gat ég fengið með mjólk út á grautinn, kornflexið eða seríósið, ekkert jógúrt með hunangi, engar lummur eða amerískar pönsur, hvað þá beikon og egg. Sökum þvermóðsku á ég þar að auki erfitt með að nota vörur eins og soya mjólk eða soyaost í veikri von um að það komi bara alveg í staðinn fyrir venjulega mjólk og ost. Í örvæntingu minni rak ég augun í múslí með appelsínusafa í stað mjólkurinnar. Þetta þótti mér í besta falli vafasamt en þar sem ég var svangur og þreyttur (og jafnvel eilítið þunnur) ákvað ég að prófa. Blandaði saman höfrum, hnetum og nokkrum þurrkuðum ávöxtum í skál, kreisti eina appelsínu yfir. Útkoman kom mér mikið á óvart því þetta var hreinlega ótrúlega gott. Miklu ferskara og léttara og einfaldlega bragðbetra en músli með mjólk. Ég er hér með háður þessari blöndu og skora á ykkur, kæru lesendur, að prófa.

musli2

Músli með  nýkreistum appelsínusafa 

Blandið saman í skál höfrum og hnetum og þurrkuðum ávöxtum að eigin vali. Einnig gott að setja sólkjarnafræ út í blönduna eða ferska niðurskorna ávexti, t.d. epli eða peru. Safi kreistur úr einni appelsínu og helt út yfir músliblönduna. Látið standa í 20-30 mínútur. Borðað. Með skeið.

musli1

Read Full Post »

Yljandi

Það er ennþá snjór. Það er ennþá kalt. En sólin brýst stundum í gegnum skýjin svona rétt til að staðfesta að vorið eigi að vera komið, fyrir löngu helst, og við það breytist litapaletta borgarinnar úr gráum tónum yfir í pastel. En þrátt fyrir litbrigðu sólargeislanna er skítkalt. Þörf er því á einhverju sem yljar manni en minnir um leið á komandi vor og sumar. Ég neita hins vegar að staðfesta endanlega tilvist þessa leiðindaveðurs, þó að það sé fallegt, og búa til kássu. Sá tími ársins er einfaldlega liðinn. Ég brá þá á það ráð að gera risotto sem getur að mínu mati verið einstaklega upplífgandi og hressandi meðal við kuldatíðinni. Til að gera remediuna ennþá meira hjartastyrkjandi grillaði ég tvær paprikur þar til að þær urðu dísaætar og sumarlegar og minntu á lítið annað en hitamollu og sólgleraugu. Úr varð eitt besta risotto sem ég hef gert og þó að ég hafi vaknað daginn eftir við sama frostið og snjóinn þá hélt ég mér alveg réttu megin við línuna, að minnsta kosti fram að hádegi.

Risotto með grilluðum paprikum

200-250 gr risottogrjón

kraftur (ca 750 ml)

1 laukur

1 sellerístilkur

2 paprikur

Óregano

1 lúka parmeggiano

Smjör

Olía

Salt og pipar

Ofninn í 210°. Paprikurnar fræhreinsaðar og skornar í strimla, ca 1 cm breiða. Strimlarnir settir í skál, saltaðir og pipraðir og vænri skvettu af olíu helt yfir. Vellt saman og dreift í ofnskúffu þannig að strimlarnir sé í einu lagi, ekki ofan á hvor öðrum. Bakað í ofninum í ca40-50 mínútur eða þar til paprikurnar eru aðeins farnar að dökkna.

Laukrinn saxaður og steiktur upp úr góðri smjörklípu í nokkrara mínútur. Selleríið saxað fínt og bætt við, steikt áfram í nokkrar mínútur. Hrísgrjónunum og kryddi hrært saman við og steikt rólega áfram í 2-3 mínútur eða þar til grjónin fara að steikjast. Þá er krafti hellt út á þannig að það rétt fljóti yfir grjónin. Krafturinn soðinn rólega niður þar til hrísgrjónin hafa drukkið hann nánst allan í sig. Meiri krafti bætt út á þannig að hann rétt fljóti yfir. Soðið niður aftur. Þetta er endurtekið þar til grjónin eru tilbúin og eru al dente, eða með örlitlu biti í sér. Paprikunum hrært saman við ásamt mjög vel af parmeggiano. Saltað og piprað ef þarf og borið fram með rauðu eða hvítu.

paprikurisotto

Read Full Post »

Það skýtur kannski skökku við að byrgja sig upp af jarðaberjum um miðjan vetur, sérstaklega í ljósi þess að ég vil leggja áherslu á árstíðabundið og ferskt hráefni. En slíkt er nú einu sinni eðli  hnattvæðingarinnar að hún leitast við að má út náttúrulegar sveiflur og láta líta út fyrir að þær hafi ekkert með mannskepnuna að gera. Jarðaber tengjst nú hrollköldum febrúarmánuði mun frekar en hlýjum, sólríkum júlídögum einfaldlega vegna þess að þð virðast sjálfsögð mannréttindi að ástleitin pör geti fengið sér jarðaber á sjálfum degi ástarinnar, valentínusardeginum. Það er nákvæmlega ekkert sexí við það að kúra saman fyrir framan arininn og narta í þurrar rúsínur eða gömul epli eða harðfisk.

Nauðsyn þess að fá jarðaber á valentínusardaginn gerir það að verkum að það er framleitt allt, allt of mikið af þeim. Heilu brettastæðunum af aðeins of þroskuðum jarðaberjum er því hent. En kaupmennirnir á tyrkneska markaðnum í Kreuzberg láta ekki gott tækifæri úr greipum sleppa og kaupa oft afgangs matvæli og selja á gríðarlega góðu verði. Í gær voru til að mynda 5 öskjur, um 1,3 kíló, af jarðaberjum á 1 evru. 170 krónur. Þó að hluti berjanna hafi verið vel þroskuð (ekkert myglað þó, heldur djúprauð og djúsí) gátum við ekki staðist þessa freistingu amors í líki ávaxtar. Við sáum fyrir okkur tertur, sultur, compot og ís og allt í einu var komið sumar þrátt fyrir skítakuldann. Reyndar rákum við líka augun í kassa af mangó á 3 evrur en chutneyið verður að bíða betri tíma, kannski í næstu viku.

Þegar heim var komið varð niðustaðan að búa til slatta af mjög decadent jarðaberjarjómaís, sykurlausa sultu fyrir grautinn og auðvitað að dýfa bestu berjunum ofan í brætt súkkulaði til heiðurs ástinni.

jarðaber3

Jarðaberjarjómaís

400 ml rjómi

400 ml lífræn mjólk

4 eggjarauður

1 vanillustöng

100 gr hrásykur

750 gr jarðaber

Safi úr hálfri sítrónu

Rjóminn og mjólkin hituð mjög rólega í potti. Vanillustöngin skorin í tvennt og fræin skafin úr. Fræ og belgur sett í pottinn með rjómablöndunni. Eggjarauðurnar þeyttar saman við sykurinn þangað til að blandan er ljós og létt. Þegar rjómablandan er í þann veginn að sjóða er hún tekin af hitanum og hellt í gegnum sigti. Heitri rjómablöndunni er svo þeytt varlega saman við eggin. Sett aftur í pott og hitað rólega á lágum hita þar til blandan fer að þykkna aðeins. Mjög mikilvægt að hræra allan tímann og passa að blandan sjóði ekki því þá hlaupa eggin og allt fer í skrall. Blandan er tilbúin þegar hún þekur bak trésleifar með fallegri slykju. Hellt í skál í gegnum sigti og látið kólna. Hrært af og til. Jarðaberin skoluð og sett í skál með smá meiri sykri. Þau eru svo kramin í sósu með höndunum, eða bara sett í matvinnsluvél og maukað. Hægt er að hella þessu í gegnum sigti til að losna við fræin en ég nennti því ekki. Sett í pott og soðið aðeins niður til að dýpka bragðið þar til sósan verður djúprauð. Látið kólna og hrært svo saman við rjómablönduna. Sett í box og fryst í sólarhring. Gott að taka ísinn út nokkrum sinnum og hræra upp í honum til að gera áferðina mýkri.

jarðaber2

Sykurlaus jarðaberjasulta (Nóg í eina góða krukku)

250 gr jarðaber

1 msk agavesýróp eða hunang

Safi úr 1/4 úr sítrónu

Jarðaberin maukuð. Sýrópinu hrært saman við. Látið sjóða í 10 -15 mínútur. Sítrónusafa bætt út í. Smakkað til. Sett í sterílíseraða krukku og inn í ísskáp. Geymst ekkert sérstaklega lengi, kannski í mánuð, mesta lagi í tvo. Gott á grautinn.

jarðaber1

Súkkulaðihúðuð jarðaber

Ber

Súkkulaði

Myntulauf

Súkkulaði brætt. Berum dýft ofan í. Lögð á myntulauf. Kælt. Ísbjarnarskinn og arinn og málið er dautt.

Read Full Post »

Risotto

Ég tel mig hafa náð ágætum tökum á risottoinu og það útskýrir kannski vilja minn til að búa það til aftur og aftur. Þessi endurtekningarþrá hefur einnig líklega eitthvað með það að gera hversu ótrúlega auðvelt er að aðlaga það að því hráefni sem er í boði hverju sinni án þess að klúðra bragðinu. Reyndar freisaðist ég einu sinni til að nota svört hrísgrjón sem ég kunni ekkert á og varð útkoman bæði ljót og óæt. Eftir það nota ég að nota eingöngu risottogrjón, Arborio þá helst, sem eru stutt og feit og innihalda mikla sterkju sem sýgur í sig bragðið frá kraftinum. Reyndar komst ég að því að grautarhrisgrjón sem fást sumstaðar búa yfir sömu eiginleikum en eru þrefalt ódýrari.

Ég ákvað að hafa risotto í matinn eftir að hafa horft á nokkra þætti af Masterchef í röð. Ég horfi ennþá á ensku þættina. Ég er ekki svo langt leiddur í leiðindum að ég nenni að horfa á Gordon Ramsey segja fólki að fokka sér og ég bý heldur ekki svo vel að því að hafa Stöð 2 hér ytra til að fylgjast með íslenska Masterchef. Sá hins vegar að listarmaðurinn Gunnar Helgi hafi unnið og fagna ég því að sjálfsögðu. En ég get mælt með ensku þáttunum fyrir fólk sem vill sjá metnaðarfulla áhuga og atvinnukokka spreyta sig og dómara sem vilja á þátttakendur standi sig í alvörunni vel.

En í kvöld var það risotto með rækjum, kirsuberjatómötum og rúkóla.

Risotto með rækjum, kirsuberjatómötum og rúkóla

Risottogrjón fyrir 3-4 (250-350 gr eftir svengd)

250 rækjur, við stofuhita

2 skallotlaukar

1 sellerístilkur

1 glas hvítvín

Fiskikraftur (ca 750 ml)

2 hvítlauksgeirar

200 gr kirsuberjatómatar

1 væn lúka af rúkóla

Börkur af einni sítrónu, safi úr helmingnum

1 gott búnt af ferskri steinselju

1 tsk timian

50 gr parmeggiano

Olía

Smjör

Salt og pipar

Laukurinn og selleríið saxað fínt og steikt upp úr blöndu af olíu og smjöri í nokkrar mínútur. Timianiu bætt út á ásamt söxuðum steinseljustilkunum. Hrísgrjónunum bætt út á pönnuna, hrært vel þannig að öll grjónin sé þakin olíunni. Steikt aðeins og hrært á meðan þar til að grjónin fara að festast við botninn. Þá er hvítvíninu hellt út á og látið sjóða nánast alveg niður. Krafti hellt út á þannig að hann rétt fljóti yfir grjónin. Hitinn lækkaður þannig að það rétt bubbli aðeins og krafturinn látinn sjóða alveg niður. Hrært stöku sinnum á meðan en passað að fylgjast vel með pönnunni. Tómötunum bætt út á. Meiri krafti bætt við þegar fyrsti skammturinn hefur soðið niður og leikurinn endurtekinn þar til grjónin fara að vera tilbúinn, þ.e. fara að verða glær og hætta að vera hörð undir tönn. Þegar grjónin fara að verða tilbúin er rækjunum bætt við ásamt sítrónuberkinum. Eldað áfram þar til rækjurnar eru orðnar heitar í gegn og þá er slökkt undir pönnunni, sítrónusafa,rúkóla, smjörklípu og smá parmeggiano hrært saman við. Saltað og piprað. Borið fram með köldu hvítvínsglasi og öskrandi svöngum börnum.

5c7b54127ac211e2b0f722000a9f18db_6

Ég biðst velvirðingar á slæmum myndum, hleðslutækið fyrir myndavélina finnst ekki og því verður instagramið að duga. Ekki það að myndirnar hingað til hafi verið eitthvað stórkostlegar, en svona er nú einu sinni námsmannalífið, maður reddar sér bara.

Read Full Post »

Það hefur kannski ekki farið fram hjá lesendum að mér finnast kássur einstaklega góður matur. Sérstaklega er gott að fá sér hægeldaða kássu á köldum vetrardögum, ég tala nú ekki um þegar úti er slabb og slagveður en svoleiðis virðist hafa einhver óútskýranleg áhrif á bragðgæði kássunnar.

Fyrir stuttu leit út fyrir að hann ætlaði að vora snemma í ár. Núna fyrir helgi var hins vegar tekið fyrir það með snjó, kulda og rigningu í bland. Í þokkabót hafa matarkarl og börn strítt við leiðindapest og húka inni í fýlu og pirring. Húsmóðirin tók því af skarið og lagði til að núna yrði elduð kássa og við það eitt lyftist brúnin. Ég staulaðist því til slátrarans og keypti tvo stóra lambaskanka og væna beikonsneið og kom við á markaðinum í leiðinni á keypti nokkra sveppi og ferskt rósmarín og timían.

Upp úr þrjú fór kássan inn í volgan ofninn og fékk að malla þar í friði til klukkan sex. Þrátt fyrir að ljúfan ilminn tók að leika um alla íbúðina hugsaði ég mér sjálfum mér að þetta yrði vonandi síðasta kássan í bili. Það er komið gott núna af vetrarleiðindunum og má alveg fara að vora með aðeins léttari bragðtónum. En kássan var samt fáránlega góð.

Hægeldaðir lambaskankar

2 stórir skankar

15o gr gott beikon

2 laukar

2 gulrætur

1 sellerístilkur

4-5 hvítlauksrif

1 glas rauðvín

1 dós niðursoðnir tómatar

Fullt af rósmarín og timían

5 stórir sveppir

Smjörklípa

Olía

Salt og pipar

Beikonið steikt á pönnu upp úr smá olíu þar til það hefur brúnast ágætlega. Gott er að setja smá timian og rósmarín út á pönnuna til að gefa feitinni gott bragð. Tekið til hliðar og skankarnir brúnaðir á öllu hliðum. Tekið til hliðar sömuleiðis og laukurinn steiktur rólega í nokkrar mínútur. Gulrætur og sellerí skorið gróft og bætt út á og steikt aðeins áfram. Hvítlaukurinn saxaður honum hrært saman við grænmetið og steikt í mínútu til viðbótar. Kjötið út á, öllu velt vel saman og rauðvíninu hellt yfir. Látið sjóða aðeins niður og þá fara tómatarnir út í og fullt, fullt af kryddi. Piprað. Ef potturinn er eldfastur má setja hann beint inn í ofn (ég nota lítið steikarfat) en ef ekki þá er bara um að gera að færa kássuna yfir í heppilegt ílát. Sett inn í volgan ofn, 140° – 150°, og látið malla í 2 1/2 -3 klukkutíma eða þar til kjötið fellur auðveldlega af beininu. Hálftíma áður en kássan er tilbúin eru sveppirnir brúnaðir upp úr olíu og smjöri og bætt úr í kássuna. Borið fram með kartöflu og gulrótarmús og góðu rauðvíni. Það var reyndar vont rauðvín í þetta skiptið, verður ekki flaskað á því aftur, flaskað sko, eins og flaska.

lambakássa

Read Full Post »

Hinn fallegi ávöxtur, paprikan

Fáum hefurr gengið eins vel og Guðna Ágústsyni að beina athygli fólks frá hlutum sem raunverulega máli skipta. Í miðju góðærinu spígsporaði landbúnaðarráðherrann fyrrverandi um mela og móa og mærði paprikur, kyssti mjólkand beljur og gleypti í sig lengstu pylsu í heimi með bros á vör. Reyndar var Davíð Oddson einkar laginn við þetta sömuleiðis og kenndi sína taktík við smjörklípuna, þ.e. þegar fólk færi eitthvað að væla þá beindi hann athyglinni að því sjálfu og þannig snérist það að sjálfu sér í kringum sjálft sig, eins og hann hafi klínt smjörklípu í feld kattar.

Merkilegt hvað aðferðir þessa pólitíkusa eiga það sameiginlegt að snúast um mat og ég velti því fyrir mér hvort að þetta sé algilt. Getur maður gengið að því sem vísu að þegar stjórnmálamenn fara að tala um mat að þá er við að breiða yfir eitthvað sem skiptir raunverulegu máli? Er umræða um mat okkar smjörklípa?

En hinn fallegi ávöxtur, paprikan, sem Guðna þykir svo vænt um, var í aðalhlutverki hjá okkur í gær. Ég fyllti hana með tómötum, hvítlauk, brauðmolum og fullt af pecorino og bakaði þar til hún varð sæt og góð og osturinn gullinn. Vel til þess fallið að beina huganum frá vandamálunum um stund.

Fylltar paprikur

4 paprikur

1 laukur

2 tómatar

5 brauðsneiðar, ristaðar og muldar í grófa brauðmola

2 hvítlauksrif

1 sellerístilkur

Góð lúka af rifnum pecorino (eða parmeggiano)

1 lúka af steinselju

Fínt rifinn börkur af einni sítrónu

Olía

Salt og pipar

Ofninn hitaður í 200°. Laukurinn og selleríið saxað og steikt aðeins á pönnu upp úr smá olíu. Tómatarnir saxaðir og settir í skál ásamt, brauðmolunum, saxaðri steinseljunni, hvítlauknum, sítrónuberkinum, ostinum og vænni slettu af olíu. Lauknum og selleríinu bætt við og öllu blandað vel saman. Saltað og piprað. Paprikurnar skornar langsum, raðað eldfast mót og fylltar með blöndunni. Smá ostur rifinn yfir og álpappir settur yfir. Bakað í 15 mínútur. Álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 20-25 mínútur eða þar til paprikan er farinn að brúnast aðeins. Borið fram með ristuðu brauði og sýrðum rjóma sem hefur verið hræður með sítrónusafa, salti og pipar og smá chili.

fylltpaprika

Read Full Post »

Eitt stærsta vandmál hins vestræna heims er hvað við erum dulgeg að henda mat eða láta eyðileggjast í staðinn fyrir að nýta hann. Við erum einnig einstaklega snjöll að búa til regluverk sem ýtir undir þessa þróun og kemur í veg fyrir, oft úr mörgum mismunandi áttum í einu, að hægt sé að nýta mat sem annars færi til spillis.

Núna eru um 40-50 þúsund tonn af síld í fjörunni í Kolgrafarfirði. Kvóti Íslendinga af Nork-íslenski síldinni fyrir árið 2012 var 120 þúsund tonn. Á meðan sérfræðingar og fólk í áhrifastöðum klóra sér í haunsum yfir þessum furðulegu uppákomumun og reyna bægja frá sér möguleikunum að þetta gæti hugsanlega verið þeim sjálfum að kenna, þ.e. manninum, þegar hann þveraði fjörðinn fyrir nokkrum árum um bjó þar með til hina ákjósanlegustu dauðagildru fyrir síld og aðra álíka félagslynda fiska, liggja þessi 50 þúsund tonn undir skemmdum. Krakkar hafa nú verið vélaðir til að tína fiskinn í kör og selja í minnkafóður sem er síðan flutt úr landi. Nokkrir sjómenn hafa kveikt á perunni og sækja sér nú beitu en bændur standa hikandi á hlaðinu og horfa hugsi niðri fjörum á meðan þeir baka pönsur ofan í krakkana og sjómennina. Bændurnir vita nefnilega að síld er hinn besti áburður fyrir tún og sem fóður er hún ekki síðri. En þeir hika því að regluverkið í kringum athafnir þeirra er svo strangt og gerir þeim næstum því ömulegt að nýta slíkan hvalreka sem 50 þúsund tonn af síld er. Til dæmis myndi umhverfisráðuneytið krefjast þess að síldin yrði plægð ofan í túnin en það er ekki auðvelt um miðjan vetur. Heilbrigðisreglugerðir um förgun úrgangs gera málið ennþá flóknara og þar að auki eru hinir hikandi, hugsandi bændur ekki með nein kvóta.

Þegar svona ástand myndast, þegar tæplega helmingur síldarkvóta Íslendinga syndir upp í fjöru, þarf að gera eitthvað meira en að skapa skemmtilega stemmningu í fjörunni. Réttasta væri að slaka á stífum reglugerðum og heimila fólki að nýta þetta mjög verðmæta hráefni eins vel og hægt er. Það hlýtur að vera vanvirðing við síldina að búa til risastóra dauðagildru og nýta svo bráðina nánast ekki neitt. Láta hana bara rotna í fjörunni og klóra sér í hausnum.

Jæja, nóg af röfli. Ég ætlaði ekkert að skrifa um Kolgrafarfjörð, ég ætlaði bara að setja inn uppskrift af súpu en það eru kannski einhver tengsl þarna á milli. Í gær gerði ég nefnilega súpu sem hægt er að nýta í yfir þrjá daga. Orðið afgangar öðlast nýja merkingu með þessari súpu því að svo virðist ver að bragðið verði meira, dýpra og betra daginn eftir og daginn þar á eftir. Með því að dreifa súpunni á þrjár máltíðir er maður að nýta matinn eins vel og hægt er svo ekki sé talað um sparnaðinn. Hér eru um að gera að taka sér tíma og leyfa súpunni að malla hægt og rólega. Þetta er matarmikil vetrarsúpa og hentar vel til að ná úr sér hrollinum og dofanum sem stundum er fylgifiskur hins kalda raunveruleika þar sem meirihluta matvæla er hent. Sorrí, ég ætlaði ekki að röfla meira.

þriggjadagasupa1

Þriggja daga súpa

1 chorizo pylsa ( eða 250 gr alvöru beikon frá Pylsugerðarmeistarnum)

2 vænir laukar

2 stórar gulrætur

2 sellerístilkar

3-5 hvítlauksrif

1 paprika

1 kúrbítur

200 gr hvítar baunir (látnar standi í vatni yfir nótt og svo soðnar í 1-2 klukkutíma…eða bara 2 dósir af forsoðnum baunum)

Kraftur

1 búnt steinselja

Olía, smjórklípa

Salt og pipar

Pylsan skorin í ágæta bita og steikt í stórum potti upp úr olíunni þar til hún brúnast aðeins. Sett til hliðar. Kúrbíturinn skorinn í bita og steiktur upp úr olíunni sem eftir er að pönnunni þar til hann fera að brúnast. Settur til hliðar. Smá smjöri bætt út í pottinn og laukurinn skorinn gróft og steiktur á lágum hita í 10 mínútur. Restin af grænmetinu skorið gróft, súpan verður að vera svolítið bitastæð. Gulrótum, hvítlauk og sellerí bætt út í pottinn og steikt í nokkrar mínútur og svo er paprikunni og pylsunni bætt við. Steinselju stilkarnir saxaðir smátt og bætt út í. Steikt aðeins þar til pylsan er farin að lita grænmetið vel, þá er baunum og krafti bætt úr í þannig að það það fljóti aðeins yfir og soðið á lágum hita í 30 mínútur. Kúrbítnum og saxaðri steinseljunni bætt við og soðið áfram í 10-15 mínútur. Borið fram með grófu brauði.

þriggjadagasupa2

2 dagur: Ribolita. Nú hefur súpan þykknað aðeins og eitthvað ætti að vera eftir. Allt nema ein súpuskál sett í millistórt eldfast mót, staðið og hart brauð rifið yfir og þar yfir nóg af rifnum osti. Bakað við 200° í 30 mínútur.

3 dagur: Ef tekist hefur að geyma eina skál í viðbót má blanda henni saman við 300 af smjörsteiktum sveppum, þykkja sósuna aðeins með hveitibollu og pakka þessu inn í bökudeig. Eitthvað eins og sjá má hér.

Gott í bili.

Read Full Post »

Older Posts »