Feeds:
Athugasemdir

Archive for the ‘Uncategorized’ Category

Gúrkutíð

Það hefur ekki beint verið líflegt um að lítast hér á þessu bloggi undanfarnar vikur. Endurspelgar það hins vegar engan veginn líf mitt utan hins stafræna veruleika, ég hef verið önnum hlaðinn og því ekki nennt að henda inn færslum, sérstaklega þegar 6 vikna sumarfríið legst eins og óróamara yfir krakkana og þá langar manni bara að henda sér upp í sófa og gera ekki neitt, helst hverfa inn í hann.  

Í tilraun minni til að hverfa rakst á þætti sem mér langar til að deila með ykkur hér. Eins konar sárabætur fyrir bloggleysið. Þeir eru um mat og eru fyndir. Horfiði bara. 

The Trip.

Read Full Post »

Það er ekki annað hægt en að baka pönnukökur, vöfflur og annað sætabrauð þessa dagana. Formenn verðandi stjórnarflokka sitja núna við samningborð sem virðist af öllum fréttum minna einna helst af öllu á hnallþóruhlaðborðið í Kristnihaldi undir jökli. Fáir fréttamenn nenna að velta því fyrir sér hvernig gangi að semja enda miklu meira spennandi að fjalla um tilraunir formannanna og aðstoðarmanna þeirra í eldhúsinu. Útkoman er ekkert nema kjánaleg í ljósi þess að hér er verið að semja um framtíð landsins og slíkir samningar ættu undir venjulegum kringumstæðum að vera alvarlegri og síst af öllu upp í sumarbústöðum pabbanna. En þessar ‘venjulegu kringumstæður’ eru ekkert nema hugarburður okkar, þ.e. við gerum hreinlega ráð fyrir reykmettuðum bakherbergjum eða innsta helgidómi flokkanna eða álíka sviðsmynd. Formennirnir fara hins vegar gegn þessari ímynd okkar, versla saman í Krónunni og skella sér svo upp í bústað og baka pönnukökur í sveitasælunni.

249136_10201048983936913_1205951425_n

Skopmynd eftir Gunnar Karlsson

Án þess að stíga beint ofan í kviksyndi samsæriskenninga þá held ég að það sé alveg ljóst að þessi framsettning á sumarbústaðafundum formannanna er úthugsuð. Hér er verið að búa til ímynd og þessi ímynd byggir einna helst á húmor sem setur formennina niður á plan okkar almennings. Hér eru tveir venjulegir menn sem versla saman í lágvöruverslunum og borðar pönnukökur og vöfflur upp í sumarbústað á milli þess sem farið er yfir tölur og hugmyndir og lausnir í ró og næði, pínulítið aulalegir en um leið afslappaðir. Það má gera grín að þessum mönnum því allt sem færir þá nær almenningnum, hinum venjulegu, og fjær elítunni, og þá sérstaklega hinni mjög svo fjársterku elítu og tengslum hennar við hrunið, er af hinu góða. Hér er ekki verið að flagga raunverulegu hlutverki og stöðu þeirra félagi í samfélaginu, hér eru engir vafningar eða hrægammar, bara tveir fáránlega nettir og slakir félagar að tékka á stöðunni og keyra þessar tölur yfir pönnsum. Bjarni og Sigmundur eru hreinlega að framleiða efni fyrir Spaugstofuna og Áramótaskaupið þar sem þeir sitja yfir kaffibollum og rjómavöfflum í sveitalegum köflóttum skyrtum og brosa vandræðanlega fram í myndavélina. Það er ekki einu sinni verið að hafa fyrir því að setja einhvern stemmningsfilter á instagramið því að svona er raunveruleikinn, tveir venjulegir menn í hráslagalegri sveitinni að semja af yfirvegun á ábyrgð um stjórn landsins næstu fjögur árin. Og gúffa í sig alíslensku bakkelsi, sameiningartákni þjóðarinnar, pönnukökunni.

pönnukökur1

Pönnukökur

200 gr hveiti

1-2 tsk sykur

1/2 tsk matarsódi

2 egg

Um 400 ml mjólk

1/2 dl kaffi

30 gr smjör

Hveiti, sykri, matarsóda og helmingnum af mjólkinni hrært saman. Eggjunum bætt út í og hrært. Kaffinu bætt við og nógu mikilli mjólk þannig að soppan verði álíka þykk og þykk málning. Smjörið brætt á pönnukökupönnu og helt svo af ofan í degið. Bakað við háan hita í 30 sekúndur og hvorri hlið.  Borið fram með alíslensku kaffi og skuldavanda þjóðarinnar.

pönnukökur2

Aðstoðarmaðurinn? Formaðurinn?

Read Full Post »

tvöbrauð3

Af einhverjum ástæðum hef ég vanið mig á að baka brauð úr nánast öllu öðru en venjulegu hvítu hveiti. Líklega hefur slæmt orðspor hins hvíta og sterílíseraða hveitis sem stíflumyndandi og slenhvetjandi ólyfs haft eitthvað með málið að gera. Kannski var ég að leita að flóknari bragðtónum sem finna má í blöndu af spelti, byggi, hveilhveiti og rúgmjöli. Ljóst er að úrvalið af korntegundum eða mismunandi hveitiyrkjum er ansi takmarkað á Íslandi. Rautt, blátt eða grænt. Rúgmjölið brúnt. Svo er kannski hægt að ná sér í Solluspelt í Bónus og ef maður er heppinn, og á nóg af peningum, þá má finna gullmola í lífrænu búðunum. Af hverju lífrænt hveiti er svona dýrt get ég ekki alveg skilið því hér í Berlín kostar kílóið í mesta lagi 2 evrur, eða 320 kall, sem er ansi langt frá þúsundkallinum heima á Íslandi.

Gallinn við brauð sem innihalda takmarkað magn af hvítu hveiti er að þau líta hreinlega ekki eins vel út, eru jafnvel ljót. Þau eru þéttari í sér, loftminni og ekki eins tignarleg. Og þó svo að bragðið sé oft á tíðum betra, dýpra og flóknara þá langar mann stundum bara að búa til brauð sem er nánast eins og listaverk í sjálfu sér, fagurgyllt, slétt og fullkomið, loftmikið og teygjanlegt með örlítilli sætu.

Um daginn ákvað ég að bregða út af vananum og baka súrdeigsbrauð úr 100% hvítu hveiti. Þessi ákvörðun var hins vegar ekki einföldum á lífi mínu því að í rekkanum í lífrænu búðinni voru að minnsta kosti 4 ólík hveitiyrki og 5-6 mismunandi styrkleikar eftir glútenmagni og mölun. Eftir töluverðar vangaveltur ákvað ég að velja hveititýpu sem var með háu prótín og glútenmagni en um leið ein nálægt heilhveiti og hægt er án þess að innihalda allt kornið með hismi, klíð og kjarna. Steinmalað í þokkabót. Þetta hveiti er merkt með tölunni 1050 hér ytra. Nánari upplýsingar um skalann er hægt að finna t.d. hér.

Að meðhöndla og hnoða deig úr 100% hveiti er töluvert auðveldara en þegar öðrum mjöltegundum er blandað óhóflega saman við. Allt í einu helst allt vel saman, degið verður teygjanlegt og lætur vel að stjórn. Hefunin tók skemmri tíma og glútenið gerði það að verkum að það varð sterkt en létt og það lyfti sé vel í ofninum. Þegar brauðið var tilbúið blasti við mér roðagyllt og fallegt, vel mótað brauð, ekki langt frá franskri klisju. Af þvi að ég notaði semi gróft hveiti varð brauðið því alls ekki hvítt heldur ljós dökkt og með vægum hnetukeim.

tvöbrauð1

Stuttu seinna ákvað ég að gera annað brauð og nota aftur sama hveitið en í þetta skiptið bætti ég við smá rúgmjöli og með því held ég að ég hafi komist nálægt hinu fullkomna brauði. Rúgmjölið (vollkorn, hér er einnig hægt að fá mismunandi malað og sigtað rúgmjöl, ekki bara brúnt) bætti við þéttum, grófum tónum, gerði skorpuna örlítið karamelíseraða á meðan hveitið ýtti undir léttleikan. Ef það eru ein brauðuppskrift sem þið ættuð að fara eftir þá er það þessi.

Eðal súrdeigsbrauð

Soppa:

200 gr sterk hveiti

50 gr gróft rúgmjöl

300 ml volgt vatn

1 dl súr

Öllu hrært vel saman í stórri skál. Plastfilma sett yfir og látið standi í minnst 8 klukkutíma eða yfir nótt.

Brauð:

Soppan

200 gr hveiti

50 gr rúgmjöl

1 tsk salt

Hveiti og rúgmjöli blandað vel saman við soppuna og hrært vel. Þá er saltinu bætt við og hrært þar til degið verður meðhöndlanlegt. Sett á borð og hnoðað í 10 mínútur eða þegar það er orðið létt, slétt og loðir hvorki við hendur eða borð. Mótað í kúlu , sett í skál og látið hefast undir plasti þar til það hefur tvöfladast, 1-3 tíma. Slegið niður, mótað í kúlu og látið hefast aftur þar til það hefur tvöfaldast. Slegið aftur niður og nú mótað í þétta kúlu og látið á hvolf í skál með mjög vel hveitistráðu viskastykki. Látið degið tvöfaldast. Hálftíma fyrir bökun er ofninn stylltur í 250 gráður (eða meira ef hægt er). Hægt er að baka brauðið á pizzasteini sem þarf þá að fara inn um leið og kveikt er á ofninum. Ég notaði hins vegar lítinn steikarpott með loki sem ég hitaði í 10 áður en ég setti brauðið inn. Ég setti brauðið með snöggum en öruggum handtökum í pottinn, skar rákir í það, lokið á og inn í ofn. Bakað í 15-20 mínútur. Þá er lokið tekið af og hitinn lækkaður í 220° og bakað áfram þar til það er skorpan er gullin og falleg. Látið standa í amk 30 mínútur áður en það er skorið.

tvöbrauð2

Read Full Post »

Sumir dagar

Ef litið er til hins stórkostlega lýðræðislega viðmiðs, meðaltalsins, gengur lífið sinn vana gang eins og ekkert hafi í skorist, hver dagur líkur öðrum með ofurlitlum tilbreytingum. Sveiflur, öfgar og jaðrar eru skornir af. Undantekningar eru storkaðar út til þess að sína hvernig venjan er, hvernig flestir dagar eru, hvernig flest fólk hagar sér og hvernig flestir ættu jafnvel að haga sér. Meðaltalið er í besta falli vafasamt fyrirbæri.

Dagurinn í dag gekk sinn vana gang miðað við aðra daga lífsheildarinnar samkvæmt meðaltalinu. En þessi dagur hefði einmitt verið storkaður út af stærðfræilegri nákvæmni ef ekki væri fyrir raunveruleikann, hann var örðuvísi, langt út á jaðri dagatalsins og var nánast á hvolfi. Yfirleitt er það nú þannig að börnin vakna ofurlítíð öfug um helgar þegar rútínunni sleppir. Það er allt gott og blessað því sjaldan gerist það að foreldrarnir mæti álíka öfugsnúin að morgunverðaborðinu. Lifið er hins vegar svo óútreiknanlegt og óhentugt fyrir formalisma meðaltalsins að slíkt hendir. Matseðill dagsins var til að mynda eftirfarandi: Hálf kornfleksskál í morgunmat, poppkex með osti, nammi að því loknu (af því að það er laugardagur og foreldrarnir ekki með tímasetningar á hreinu), pitsa í hádegismat (reyndar heimagerð frá því í gær og úr spelti), epli, franskar á markaðnum klukkan hálf fimm og svo gulrótarkaka í kvöldmat upp úr sex. Ég get ekki annað sagt að ég fagni lýðræðinu á þessari stundu og þakki fyrir að dagar eins og þessi verði strokaðir út og lífið haldi áfram að sigla sinn lygna meðaltalssjó. En djöfull var bjórinn með frönskunum góður og það var kannski ekkert svo slæm hugmynd að hafa köku í kvöldmat. Góð var hún. Ég held ég klári daginn bara með góðu rauðvínsglasi…og meira nammi. Þá sjaldan…

gulrótarkakakvöld2

Gulrótarkaka að kvöldi

250 gr mjöl (spelt hér á bæ)

1 tsk natrón

2 tsk lyftiduft

100 gr hrásykur

150 gr rifnar gulrætur

150 gr smjör

2 stór egg

2 tsk kanill

Örlítið salt

50 gr saxaðar möndlur

1 dl mjólk

Mjöl, sykur, lyfirduft og natrón, gulrætur, kanill, möndlur og salt hrært saman í skál. Smjörið brætt rólega og sett í aðra minni skál. Látið kólna aðeins. Eggin brotin út smjörið og þeytt aðeins. Hellt saman við mjölblönduna ásamt mjólkinni og hrært þar til degið verður kekkjalaust. Hellt yfir í smurt mót og bakað í 50-60 mínútur við 165° eða þar til prjón, sem stungið er í, kemur hreinn út. Látin kólna. Krem: 3/4 dl flórsykur á móti 15o gr sýrðum rjóma og smá sítrónusafi hrært saman. Kreminu smurt á. Borðað að kvöldi til, helst í staðinn fyrir staðgóða fjölskyldumáltið.

gulrótarkakakvöld

Read Full Post »

Mislukkan

Stundum er málunum bara þannig háttað að þau þróast í kolranga átt. Í gær var ég að vesenast með súrdeig og leit allt út fyrir að útkoman yrði ágætisbrauð. Ég setti í soppu kvöldið áður og lét degið hefast nokkrum sinnum yfir daginn, eins og ég hef gert áður með góðum árangri. En eitthvað klikkaði. Ég held að hlutföllin milli vatns og mjöls hafi skolast eitthvað til því það var fullkomlega ómögulegt að meðhöndla deigið. Þar að auki hlýt ég að hafa leyft hefuninni að vara aðeins og lengi sem gerði það að verkum að súrinn át alla sterkjuna og gat því ekki unnið meira á deginu. Svo gleymdi ég að salta. Ég náði að móta smá bút úr deiginu og setja í mót, aðallega til að henda ekki öllu saman í grenjandi pirringi. Deigið lyfti sér aðeins í mótinu en lítið sem ekkert í ofninum. Hið endanlega brauð er svo sem alveg ætt, svolítið bragðslaust og engan veginn instagramvænt. Ég setti því flassið á myndavélina svona til að undirstrika vonleysið. Svona er raunveruleikinn, hrár og ósaltaður.

Kveðja

Hinn mannlegi matarkarl

mislukkaðbrauð

Read Full Post »

Afgangar II

Í gær var pitsa. Á þessum bæ er hún oftar en ekki heimabökuð og þar sem ég el súr, og þar með sömuleiðis plebbaskap, um þessar mundir fannst mér réttast að búa til súrdeigspitsu. Ég geri nánast alltaf of mikið deig og yfirleitt fer það í frystinn og er geymt þar til næst. En núna ákvað ég að gera eitthvað annað og skellti afgangsdeginu bara inn í ísskápinn yfir nóttina. Í morgun sá ég svo að ekki var nóg deig til að gera brauð eins og ég hafði ætlað og brá ég þá á það ráð að gera nokkrar bollur. Ég átti smá pecorinorönd inn í ísskáp sem ég ákvað að nýta líka og niðurstaðan var því að gera ostabollur eða snúða öllu heldur. Útkoman voru 4 brakandi ostabombur með stökkri skorpu og furðu léttar miðað við að vera súrdeigs. Þessi leikur verður endurtekinn við fyrsta tækifæri.

ostabollur1

Ostabollur úr afgöngum

Afgangsdeig

Smá pecorino eða parmeggiano

Olía

Deigið flatt út í ferning, ca 5 mm þykkt. Smá olíu nuddað yfir og osturinn rifinn yfir allt saman. Brotið saman inn að miðju, í þriðjungum, og þrýst létt saman. Brotið nokkrum sinnum saman til að búa til eins mörg lög af osti og degi og hægt er eða vilji er fyrir. Rúllað í pulsu á þykkt við hrossabjúgu, skorið í bollur eða snúða og látið hefast þar til degið hefur tvöfaldast. Bakað í 250° heitum ofni í 10-15. Smjör með.

ostabollur2

Spiderman og vefurinn

Read Full Post »

Um helgina hélt ég upp á afmælið mitt. Yfirleitt hef ég látið mér nægja að halda kaffiboð fyrir nánustu fjölskyldu en í þetta skipti ákvað ég að halda veislu og mætti jafnvel kalla hana partý. Rúmlega 30 manns komu og borðuðu tómatlagaða fiskisúpu, snittur með tómatsalati og túnfisksalati og ristaðar spánskar mönldur, saltar og sætar. Af rauðum kinnum og glaðlegu fasi gestanna get ég dregið þá ályktun að þeim líkaði maturinn og voru kátir með sitt. Eftir matinn var litið inn á nokkra bari og kvöldið klárað með hefðbundnum, vel sterkum djammdöner á einhverri búllunni. Sunnudagurinn fór í rólegheit.

brauð4feb1

Ég held að ég sé hættur að hnoða, að minnsta kosti í bili. Það hentar ekki gasofnum að hnoða of mikið. Um að gera að nota svo mikið vatn í brauðin að það er nánast ógerningur að handleika þau. Rétt brjóta þau saman í skálinni og láta súrinn vinna á glúteninu allan daginn. Ég var að taka tvö brauð út úr ofninum sem ég byrjaði á í morgun. Hrærði 200 gr af mjög grófu heilhveiti, 150 af brauðhveiti og 50 gr af rúgmjöli saman við 700 ml af volgu vatni og lét standa í um 8 tíma. Upp úr klukkan fjögur bætti ég svo við 300 gr af brauðhveiti, 100 gr af rúgmjöli og einum bolla af höfrum. Þá var ég kominn með deig sem var eitthvað yfir 75% vatn og því illsnertanlegt. Þessu leyfði ég að standa í 3 tíma, braut það svo saman og lét aftur standa í 2 tíma. Þá skipti ég deginu upp í 2 brauð og lét þau jafna sig í um 2 tíma. Þau lyftu sér vel og útkoman eru loftkennd og létt, gróf súrdegisbrauð. Annað bakaði ég í lokuðum potti (egglaga) og hitt í formkökumóti og er munurinn töluverður þar sem potturinn heldur inni öllum vökva innan pottisins.

brauð4feb2

Á meðan glímu súrsins við glútenin stóð bjó ég til risotto með smjörsteiktum sveppum. Gróftsaxaðir sveppir steiktur upp úr vænni smjöklípu ásamt smá hvítlauk. Teknir af þegar þeir hafa brúnast, olían skilin eftir á pönnunni og smátt saxaður laukur og seller steikt upp úr henni í nokkrar mínútur. Risotto hrísgrjónum bætt út á og steikt í smá stund. Hvítvíni skvett í pottinni og látið sjóða aðeins niður og svo bætt við krafti þar til hann rétt flýtur yfir grjónin. Látið sjóða þar til allur vökvi er nánast gufaður upp og þá bætt við meiri krafti. Haldið svona áfram þar til grjónin eru tilbúin. Rétt áður er sveppunum bætt útí. Borið fram með helling af parmeggiano eða pecorino. Og þó maður eigi afmæli á mánudegi á maður skilið að fá ís í eftirrétt, sértaklega með þeyttum rjóma, berjasósu og ískexi.

svepparisotto

Að lokum vil ég benda lesendum á að næstu tvær vikurnar verður hægt að horfa á hina stórgóðu heimildarmynd The Gleaners and I eftir frönsku kvikmyndagerðakonuna Agnsesi Varda. Myndin fjallar á áhugaverðan hátt um vestærna neyslumenningu okkar út frá matarvenjum og hefðum. Ekki skemmir fyrir að Agnes Varda er ein helsta kvikmyndagerðarkona frönsku nýbylgjunnar.

Read Full Post »

Older Posts »