Feeds:
Athugasemdir

Archive for the ‘Sumar’ Category

Steik

Það er ekki beint besta hugmynd í heimi að tjalda í 20 metrum á sekúndu með tvö lítil börn rétt um klukkan tíu að kvöldi eftir nokkra klukkutíma keyrslu með pulsustoppum og ísáti og örvæntingafulla leit að skjóli berangurslegum tjaldstæðum Snæfellsness. En við létum okkur hafa það, enda í góðra vina hópi og það átti að fara að setja humar á grillið. Og viti menn, það lægði aðeins svona rétt á meðan við borðuðum humarinn á mettíma í skítakulda. Um nóttina gaf svo aftur í rokið og eftir að hafa barist við öldur og nístandi norðanátt í sundlauginni var tjaldinu pakkað og ekið rakleitt í bústað í Kjósinni. ‘Ekkert vera að þrífa þessar grautarskálar, ég set þær bara í vélina’ hljómaði mjög vel.

Eftir barning sem þennan á maður skilið ákveðin verðlaun og okkar verðlaun biðu í kælinum á nautabúinu Hálsi í Kjós, meyr og safarík, á meðan við þvældumst Hvalfjörðinn, framhjá hjólhýsi í öreindum í vegarkantinum og hvalskurðarmönnum sem ögruðu eðlisfræðinni og skáru hrefnu með atgeirum í 40 metrum á sekúndu.

Við kaupum okkur ekki oft fínar og þykkar steikur, eiginlega aldrei, en dýrðin var slík á Hálsi að ekki var annað hægt en að fara alla leið og leyfa sér aðeins. Við keyptum tvær steikur, stórar og fitusprengdar rib eye, báðar vel yfir 500 grömmin sem áttu að metta 4 fullorðna. Börnin fengu ekki að koma nálægt þessu enda ekki í boði að stappa kjötið í klessu og henda í gólfið og heimta svo ís. Nei, þau fengu pasta og við sátum ein að þessu, verðlaunarhafarnir, eftir að þau voru sofnuð. Eldamennskan var einföld, steikurnar léttsteiktar á pönnu (ekki séns að maður nenni að grilla í þessu öskrandi roki) og franskar til hliðar. Rauðvín með og undir ómaði fylleríið og Eyfi í brekkunni hinu megin við fjallið. Sælir nú!

Steik

Nautasteik með frönskum kartöflum

Steik (250 gr er meira en nóg fyrir einn)

Salt og pipar

Olía og smjör

Bökunarkartöflur

Salt og pipar

Sólblómaolía

Kartöflurnar fyrst. Skornar í fingur og soðnar í vatni þar til þær eru tæplega hálfsoðnar, ennþá hráar í miðjunni. Hellt í sigti og látið rjúka af þeim. Ofninn hitaður í 220°. Sigtið hrist til að ýfa upp yfirborðið á frönskunum og þær settar í ofnskúffu og eiginlega drekkt í olíu. Inn í ofninn og bakaðar þar til þær eru aðeins stökkar og yfirborðið dökkt og gullið.

Steikurinar látnar standa við stofuhita í amk 2 tíma. Þær eru svo þerraðar og piprarðar og saltaðar. Panna hituð vel og steikurnar steiktar í hámark 2 mínútur á hlið. Inn í 150° heitan ofn í 5 mínútur og svo látnar hvíla í 10 mínútur í álpappír. Borið fram með soðsósu og frönskunum og góðu rauðvíni.

Read Full Post »

Í fyrrasumar rakst ég á stórt og stæðilegt plómutré við lestarstöðina hjá Treptower Park. Týndum við nokkrar plómur, eins margar og við gátum og tókum með heim. Plómurnar voru litlar, rétt aðeins stærri en kirsuber, en ótrúlega sætar og safaríkar, með smá ananaskeim. Í ár ákváðum við að gera okkur sérstaka ferð í garðinn til þess eins að týna plómur og vorum því heldur betur búnari en síðast, þ.e með poka. Þrátt fyrir að flestar plómunar hafi átt töluvert í að verða full þroskaðar, þá náðum við að týna rúmlega 4 kíló á 10 mínútum. Og það eru að minnsta kosti 25 kíló í viðbót eftir fyrir svanga.

bakaðarplómur1

Um kvöldið vorum við með 17 manna matarboð og því ekki úr vegi að nota fenginn í eftirréttinn. Við ákváðum að gera eitthvað tiltölulega einfalt og því var ákveðið að baka plómurnar og bera fram með ís. Til að gefa þeim smá kikk helltum við vænm slurk af ljósdökku rommi yfir, smá lime ásamt vanillistöng. Útkoman var vægast sagt fullorðins og almennileg, kannski aðeins og áfeng fyrir börnin en þau voru sátt við ísinn.

bakaðarplómur3

Svo er bara að reyna að finna not fyrir restina. Plómu tart tartin í sunnudagsbrönsinn? Það held ég.

bakaðarplómur5

Bakaðar plómur með rommi, lime og vanillu (fyrir 6-8)

1 kíló plómur

 

4 msk sykur

2 staup romm

Safi úr 1 lime

1 vanillustöng

Plómurnar skolaðar og settar eldfast mót. Plómurnar sem við týndum voru svo litlar að við nenntum ekki að standa í því að taka steininn úr. Vanillustöngin klofin og fræin skafin úr. Þau eru sett út í mótið ásamt stönginni og sykrinum. Limesafanum bætt við og romminu skvett yfir allt saman. Bakað við 180° í 20-25 mínútur eða þar til plómurnar fara að springa og sýrópið sýður. Borið fram með vanilluís, krókanthnetum og nóg af sýrópinu.

bakaðarplómur4

Krókanthnetur

1 poki heslihnetur

100 gr sykur

Fyrst þarf að ná hýðinu af hnetunum. Hneturnar settar í ofnskúffu og inn í 180° heitann ofn í 10-15 mínútur. Þá eru þær teknar út og settar á hreint viskastykki sem er svo brotið saman yfir þær. Nuddað og nuddað fram og til baka og þá ætti mest af hýðinu af fara af. Sykurinn hitaður á pönnu á lágum hita þar til hann bráðnar. Ekki hræra og passa að hann brenni ekki. Hnetunum bætt við og hrært hratt og örugglega þannig að þær fá allar góðan sykurshjúp. Sett til hliðar á bökunarpappír til að kólna. Malað í matvinnsluvél. Gerir alla eftirrétti betri.

bakaðarplómur2  bakaðarplómur6

 

 

 

 

 

 

Read Full Post »

Ferkst og fljótlegt!

Það var heitt í dag, næstum því molla, plús 30° held ég. Borgin öll í slow mo, fólk sækir í skuggann þar sem það finnur hann, gengur meðfram veggjum, húkir undir trjám, sest undir markisu og pantar sér ískaffi. Við gerðum eins og aðrir foreldrar og fengum okkur ís með börnunum eftir leikskólann, annað varla hægt.

Þetta veður andar ofan í hálsmálið á manni og hvíslar vinsælasta slagorð matvælaiðnaðarins, eitthvað ferskt og fljótlegt í matinn bara. Í þessu tilfelli kom hins vegar ekki til greina að kippa með megrandi kjúklingavefju með jógúrtsósu, skyrdrykkjarprótínbombusulli eða 1944 rétti, allt virðist þetta vera ferskt og fljótlegt. Nei ‘bara eitthvað annað’ takk fyrir,  salat eða eitthvað. Matarkonan, inflúenseruð frá dvöl sinni suður við Miðjarðarhaf nú í vor, stakk upp á grísku salati með fullt af feta osti. Grillaðar beikonvafðar ostafylltar döðlur með. Gott brauð. Ég var ekki lengi að samþykkja það, nýbúinn að horfa á Rick Stein dásama matargerðina og tístið í svölunum á grísku eyjunni Korfú. Ískalt hvítvínsspritz til hliðar. Gerist eiginlega ekki betra á heitum sumardegi. Stundum er lífið í skugganum fallegt og gott.

Ferskt og fljótlegt grískt salat

4 tómatar

1 gúrka

150 gr ólífur

200 gr fetaostur

Klípa af fersku basil og myntu

Olía

Sítrónusafi

1/2 hvítlauksrif

Salt og pipar

Tómatarnir skornin í fjórðunga og kjarnhreinsaðir. Gúrkan skræld og kjarnhreinsuð, skorin í álíka stóra bita og tómatarnir. Kryddið saxað fínt og sett í skál eða á stóran ásamt tómötunum, gúrkunni og ólífunum. Það mætti bæta við rauðri papriku og fínt skornum rauðlauk fyrir þá sem vilja. Osturinn skorinn eða mulinn í sæmilega stóra bita og dreift yfir. Hvítlaukrinn pressaður út í nokkrar matskeiðar af olíu. Sítrónusafa bætt við, hrært vel saman og smakkað til. Þetta ætti að vera nokkuð súr dressing. Helt yfir salatið, saltað og piprað og öllu blandað vel saman. Borið fram með ísköldu hvítvíni og ristuðu grófu brauði.

ferkstfljótlegt1

Ostafylltar beikondöðlur

Döðlur, steinlausar

Beikon, 1/2 sneið per döðlu

Ostur, t.d. feta eða prima donna.

Osturinn skorinn í litla bita. Döðlurnar fylltar með ostinum og beikoni vafið utanum og svo er bara að grilla þar til beikonið verður stökkt og osturinn aðeins bráðnaður og allir eru sáttir.

fersktfljótlegt2

Read Full Post »

Yllir

Breskir sjónvarpskokkar, sérstaklega Hugh Fearnley Wittingstall, þreytast ekki á því að auglýsa bragðgæði blóma og berja yllirunnans. Veglegir blómaklasarnir með litlu hvítu og ilmand blómunum eiga að vera sérlega góð viðbót við panna cotta eða annan rjómaþeyting sem er helst borinn fram með stikkilsberjamauki. Einnig er vinsælt að búa til sýróp með ylliblómabragði sem er svo blandað við sódavatn og úr verður svalandi sumardrykkur. Fyrir lengra komna má svo búa til freyðivín úr blómunum. Gosdrykkir með þessu bragði eru þar að auki vinsælir nefnast hér í Þýskalandi holunder, í Danmörku hyldeblomst og elderflower í Bretlandi.

yllir1

Þar sem mér þykja slíkir gosdrykkir töluvert góðir ákvað ég því að reyna að búa til mitt eigið sýróp sem mætti bæta út í sódavatn. Ferlið er tiltölulega einfalt og uppskriftirnar sem ég fann á netinu lofuðu góðum árangri. Yllirinn er í miklum blóma um þessar mundir hér ytra og því ekki seinna vænna en að skella í sýróp.

yllir2

Útkoman var…áhugaverð. Ég er reyndar ekki búinn að gera það upp við mig hvort að þetta sé mjög gott eða mjög vont. Í uppskriftum var reyndar gert ráð fyrir sítrónusýru en hana átti ég ekki og setti því bara auka sítrónusafa út í en þrátt fyrir það er ég ekki frá því að drykkurinn hreinlega krefjist þess að væn sneið af sítrónu sé kreist út í og jafnvel bætt við nokkrum myntulaufum. Og ekki nota venjulegt vatn, bara kraftmikið sódavatn með klökum, annars er bara eins og maður sé að drekka væminn sápulög. En ég prófa þetta aftur í kvöldsólinni nú í vikunni með auka sítrónukikki og kveð upp dóminn eftir það.

Ylliberjasýróp

300 gr sykur

2 msk hunang

800 ml vatn

1 og 1/2 sítróna

15 ylliblómahausar

Vatn, hunang og sykur soðið saman þar til sykruinn er allur uppleystur. Látið kólna alveg. Safa úr 1 sítrónu bætt út í ásamt kreistri sítrónunni sjálfri. Hálfa sítrónan skorin í sneiðar og bætt út í. Ylliblómin skoluð varlega og bætt út í pottinn. Hrært aðeins og látið standa í sólarhring. Hrært stöku sinnum. Sett í sterilíseraða flösku. Smá lögg af sýrópinu helt í glas og fyllt upp með sódavatni, klökum og smá meiri sítrónu.

yllir3

Viðbót (2 dögum síðar): Ég prófaði drykkinn í dag og bætti við svolítið af sítrónusafa út í glasið og viti menn, þetta var bara töluvert gott. Ég hlýt reyndar að hafa gert eitthvað vitlaust í ferlinu því að þegar ég opnaði flöskuna með sýrópinu hafði sýrópið gerjast aðeins og komið smá gos í það…og þar að leiðandi smá alkóhól! Það skemmdi reyndar ekkert fyrir. Ástæðan er sú að ylliblómin bera með sér villt ger sem getur gert það að verkum, ef aðstæður eru réttar, að sýrópið gerjist og er maður þá kominn hálfa leiðina að grófri útgáfu af freyðivíninu sem ég minntist á hér að ofan. Hægt er að sjá Hugh hjá River Cottage búa það til hér. Kannski að maður skelli í svoleiðis fyrst maður er á annað borð kominn á bragðið.

Read Full Post »

Karrí

Fiskibollur í karrí. Líklegast sá réttur sem kemst fjærst inverskri eða suðaustur asískri matargerð en er um leið flokkaður undir helsta samnefnara okkar vesturlandabúa um  matargerð þessa landsvæða, karríið, út af gula litnum og einhverri skrítinni kryddblöndu sem ber með sér keim framandi landa. Karrí er í raun ekkert nema tilbúningur  nýlenduherranna, tilraun til að skilja heiminn og einfalda hann með því að kalla nánast alla rétti sem eru kryddaðir og í misþykkri sósu í þessum menningarheimi sama nafni. En þessi afgreiðsla sherrílegna beige herranna skemmir ekki fyrir því nú er þessi óræði réttur, the curry, einn vinsælasti réttur í heimi. Til að mynda er einkennisréttur Berlínar Currywurst. Ég leyfi mér hins vegar að efast um vinsældir fiskibollanna.

Ég gæti borðað endalaust af karrí, þá sérstaklega því sem á rætur að rekja til Tælands eða Indónesíu, og oftar en ekki kallað rautt eða grænt karrí. Slíkt karrí er meira eins og súpa, löguð með kókosmjólk og sósan tiltölulega þunn en kraftmikil og fersk. Ég geri oftast kryddmaukið frá grunni en ef maður á ekki mixer eða töfrasprota eða álíka græju þá þarf maður að vera ansi lúnkinn með hnífinn til að saxa allt í öreindir. Eldhúsgræjurnar okkar eru vel flestar í kössum á Íslandi en um daginn kom matarkonan hins vegar færandi hendi með glænýjan  töfrasprota með alls konar aukahlutum. Þá var hlaupið til og framandi krydd og grænmeti keypt í nálægum austurlandabúðum.

Þetta karrí er einstaklega sumarlegt og ferskt, ekkert svo sterkt en það má auðveldlega breyta því með því að bæta við meira chili. Ég notaði bara grænmeti en það er mjög gott að bæta við kjúklingi  og enn betra einhverjum feitum og þéttum fiski eins og steinbít. Ég get þar að auki ekki hugsað mér að leggja mér kóríander til munns og nota því steinselju í staðinn. Bjór með. Og svo gerði ég líka naanbrauð. Og gulrótarsalat. Og sauð hrísgrjón.

grænmetiskarrí

Einfalt grænmetiskarrí

Kryddmauk:

2 stilkar sítrónugras

1 meðalstór laukur

2 vorlaukar

Þumlungsstór biti af engifer

1 chili

Safi úr einu lime

3 hvítlauksrif

1 búnt af steinselju

1 búnt af basil

1 msk kóríanderfræ

1/2 tsk turmerik

1 tsk kumin

Smá skvetta af olíu

Salt og pipar

Allt sett í mixer og maukað vel.

Karrí: (í raun má nota hvaða grænmeti sem er í þetta en mér finnst ekki geta klikkað)

Kryddmaukið

1 lítil sæt kartafla

4 meðalstórar kartöflur

2 gulrætur

1 paprika

1 laukur

2 tómatar

1 dós kókosmjólk

Olía

Salt og pipar

Laukurinn skorinn gróft og steiktur upp úr olíuni á frerkar stórri pönnu þar til hann verður glær. Kartölfurnar og gulræturnar skrældar og skornar í frekar stóra bita. Bætt úr á pönnuna ásamt öllu maukinu og steikt þar til maukið fer að klístrast aðeins og gænmetið að brúnast lítið eitt. Paprikan skorin gróft og bætt við. Stuttu seinna er kókosmjólkinni hellt út og og dósin fyllt af vatni og því bætt við sömuleiðis. Hrært. Lok, eða álpappír, sett yfir pönnuna og látið sjóða rólega þar til kartöflunar eru soðnar í gegn, í um 20-25 mínútur.

Naanbrauð (6-8 stk)

200 gr hveiti

130 ml volgt vatn

1 tsk ger

1/2 tsk salt

1 tsk sykur

Öllu blandað vel saman. Hnoðað þar til slétt og fallegt. Látið hefast í klukkustund. Slegið niður og skipt í 6-8 kúlur. Flatt út þunnt og steikt á heitri þurri pönnu.

Gulrótarsalat

3  gulrætur

1/2 lime

1 msk sesamolía

Nokkur myntulauf

1 lúka saxaðar kasjúhnetur

Salt og pipar

Gulræturnar rifnar meðalfínt, eða skornar í fallega strimla með mandólíni. Myntan söxuð og hrært saman við gulræturnar ásamt safanum úr limeinu og olíunni. Saltað og piprað og hnetunum stráð fallega yfir

Read Full Post »

Þá er komið vor. Það þarf að fara ansi langt aftur í tímann til að finna sambærilegt og jafn viðvarandi hret. Viðtöl tekin við gamalt fólk sem segist ekkert muna og tekist hefur að útrýma vandræðanlegum þögnum því alltaf var hægt að tala um bölvaðan kuldann og ódrepandi. En ekki lengur. Hitinn rétt skriðinn yfir 5 gráðurnar, öllum sama um hvað gamlingjunum finnst um það, þagnir aftur orðnar þrúgandi og fólk gengur um sólheimabrosandi.

Bráðum verða grillin tekin fram og almenningsgarðarnir, þar sem enn má grilla, fyllast af pylsureyk. Hér grilla menn yfir kolum eða við en láta gasið eiga sig, nóg um það heimafyrir. En ég veit hins vegar fyrir víst að grillsísonið byrjar af krafti upp úr miðjum febrúar á gamla Íslandi og var ég því farinn að iða í skinninu og kominn með grillverki í puttana í byrjun mars. Um helgina gat ég hreinlega ekki setið á mér og bjó til svívirðilega klístraða og djúíi bbq kjúklingavængi. Ég sat hins vegar á mér og grillaði þá ekki heldur lét ofninn duga í þetta skiptið. Leikurinn verður hins vegar endurtekinn í sumar og þá verða vængirnir kláraðir á grillinu, í steikjandi hita, út við eitthvert vatnið.

BBQ kjúklingavængir

5 vængir, hlutaðir niður í 10 bita (kjuða og væng)

2 msk hunang

2 tsk möluð, þurrkuð og reykt paprika

2 msk tómatmauk

2 msk balsamikedik

5 hvítlauksrif, söxuð

2 lárviðarlauf

2 tsk þurrkað óreganó

Rifinn börkur af 1 sítrónu

2-4 negulnaglar

1/2 tsk þurrkað engifer

1 tsk þurrkað chili

4-5 msk olía

Pipar

Salt (bætt við rétt fyrir eldun)

Öllu blandað vel saman, nema salti, og kjúklingurinn látinn marinerast yfir nótt í plastboxi eða ziplock poka, jafnvel í heilan sólarhring. Ofninn hitaður í 180° og kjúklingurinn bakaður undir loki eða álpappír í um klukkutíma. Ef ekki er grill til staðar þá er lokið tekið af og hitinn hækkaður upp í 230° og bakað áfram þar til sósan verður vel klístruð og vængirnir farnir að brúnast. Betra er hins vegar að klára vængina á grillinu þar til þeir verða dökkir og flottir, helst yfir viði því þá kemur reykjarbragðið best fram. Hér var steikt pólenta og rúkóla haft með. Og ljóst öl.

bbqchickenwings

Ef lesendum, sem ekki búa svo vel að geta nálgast frjálsan eða lífrænan kjúlking, finnst ekki fýsilegt að grilla kjúkling eftir síðasta pistil þá get ég hæglega mælt með að skipta honum út fyrir lambarifjur eða kótelettur. Eða svínarifjur frá Miðskeri.

Read Full Post »

Yljandi

Það er ennþá snjór. Það er ennþá kalt. En sólin brýst stundum í gegnum skýjin svona rétt til að staðfesta að vorið eigi að vera komið, fyrir löngu helst, og við það breytist litapaletta borgarinnar úr gráum tónum yfir í pastel. En þrátt fyrir litbrigðu sólargeislanna er skítkalt. Þörf er því á einhverju sem yljar manni en minnir um leið á komandi vor og sumar. Ég neita hins vegar að staðfesta endanlega tilvist þessa leiðindaveðurs, þó að það sé fallegt, og búa til kássu. Sá tími ársins er einfaldlega liðinn. Ég brá þá á það ráð að gera risotto sem getur að mínu mati verið einstaklega upplífgandi og hressandi meðal við kuldatíðinni. Til að gera remediuna ennþá meira hjartastyrkjandi grillaði ég tvær paprikur þar til að þær urðu dísaætar og sumarlegar og minntu á lítið annað en hitamollu og sólgleraugu. Úr varð eitt besta risotto sem ég hef gert og þó að ég hafi vaknað daginn eftir við sama frostið og snjóinn þá hélt ég mér alveg réttu megin við línuna, að minnsta kosti fram að hádegi.

Risotto með grilluðum paprikum

200-250 gr risottogrjón

kraftur (ca 750 ml)

1 laukur

1 sellerístilkur

2 paprikur

Óregano

1 lúka parmeggiano

Smjör

Olía

Salt og pipar

Ofninn í 210°. Paprikurnar fræhreinsaðar og skornar í strimla, ca 1 cm breiða. Strimlarnir settir í skál, saltaðir og pipraðir og vænri skvettu af olíu helt yfir. Vellt saman og dreift í ofnskúffu þannig að strimlarnir sé í einu lagi, ekki ofan á hvor öðrum. Bakað í ofninum í ca40-50 mínútur eða þar til paprikurnar eru aðeins farnar að dökkna.

Laukrinn saxaður og steiktur upp úr góðri smjörklípu í nokkrara mínútur. Selleríið saxað fínt og bætt við, steikt áfram í nokkrar mínútur. Hrísgrjónunum og kryddi hrært saman við og steikt rólega áfram í 2-3 mínútur eða þar til grjónin fara að steikjast. Þá er krafti hellt út á þannig að það rétt fljóti yfir grjónin. Krafturinn soðinn rólega niður þar til hrísgrjónin hafa drukkið hann nánst allan í sig. Meiri krafti bætt út á þannig að hann rétt fljóti yfir. Soðið niður aftur. Þetta er endurtekið þar til grjónin eru tilbúin og eru al dente, eða með örlitlu biti í sér. Paprikunum hrært saman við ásamt mjög vel af parmeggiano. Saltað og piprað ef þarf og borið fram með rauðu eða hvítu.

paprikurisotto

Read Full Post »

Older Posts »