Feeds:
Athugasemdir

Archive for the ‘Matur og menning’ Category

Þjóðverjar munu líklega aldrei gefa upp þann sið að loka öllum búðum á sunnudögum. Ólíkt okkur heiðingjunum vilja þeir varðveita eitthvað sem gæti flokkast undir rólegheit og telja að takmörkun neyslu einn dag í viku hafi eitthvað með það að gera. Þetta er hið besta mál að mínu mati og maður neyðist oftar en ekki til þess að setjast á kaffihús, vera á meðal fólks og taka sér óeðlilega langan tíma í gæða sér á úrvalsbröns. En maður lifir ekki á brönsinum og rólegheitunm einum saman þegar maður hefur gleymt því að gera ráð fyrir þessari forneskjulegu lokun. Einn daginn í apríl lenti ég í því að þetta var það eina sem var til á heimilinu þegar átti að útbúa kvöldmat:

brenninetlupasta1

Ekki dugaði þetta til að seðja fjölskylduna og þó að ég sé alveg hliðhollur hinni ítölsku cucina povera matarhefð þá var þetta nú ansi langt gengið. Nú voru góð ráð dýr og börnin farin að ergjast af svengd. Ég leitaði eins og óður maður af einhverju sem myndi einhvern veginn geta reddað málunum, sameina hin takmörkuðu hráefni í einn snilldarrétt. Ekkert gekk. En þegar ég stökk út til að henda rusli, rak ég augun í bjargvætt minn, grösuga breiðu af nýsprottinni brenninetlu.

brenninetlupasta2 brenninetlupasta3

Ég tíndi nóg í góða skál af pastarétt og ró færðist aftur yfir þennan friðsæla sunnudag. Þeir sem ekki eru svo heppnir að komast í ferska brenninetlu geta látið sér nægja spínat í staðinn.

Pasta með hvtílauk, tómat og brenninetlu

Linguine

1 tómatur

3 hvítalauksrif

Körfufylli af brenninetlu (líklega um 500 gr)

Pastað soðið samkvæmt leiðbeiningum. Ein ausa af pastavatni tekin frá. Olía hituð á pönnu, hvítlaukurinn saxaður fínt og settur út á. Steikt í 1 mínútu. Tómaturinn saxaður og bætt út á. Steikt á lágum hita í nokkrar mínútur, smá skvettu af vatni bætt við ef pannan verður of þurr. Blöðin tekin af brenninetlunni og stilkunum hent. Hún skoluð og sett út á pönnuna. Vatnið sem er á henni ættiað duga til að sjóða hana niður. Hrært aðeins og lok sett á pönnuna. Soðið í 2-3 mínútur. Kryddað með salt og pipar og hálf sítróna kreist yfir ef hún er til. Soðið rólega áfram þar til brenninetlan er orðin dökk og byrjuð að klessast aðeins. Sett í skál með pastanu og hálfri ausu af pastavatninu og hrært vel. Restin af pastavatninu sett út á ef þetta er  þurrt. Steinselja klippt yfir í lokin. Borið fram með stóískri ró.

brenninetlupasta4  brenninetlupasta5

Read Full Post »

Rückkehr

Þar kom að því að ég leiddi hugann aftur að þessu ágæta bloggi mínu. Það sem af er ári hefur verið mjög mikið að gera fyrir utan hinn virtúal þráhyggjuheim minn. Það var nánast eins og öll dagskrá ársins hrúgaðist inn á 10 vikna tímabil. Ritgerðaskrif, heimildavinna og skilafrestir vógu þar þungt en á sama tíma för ég á tvær stærstu matarsölumessur í evrópu þar sem ég sannfærði fólk um að íslenskt sjávarsalt væri það allra besta í heimi. Ég hef tekið að mér að freista íbúa Þýskalands með saltinu frá Norður & Co, sem er einfaldlega besta salt í heimi, bæði hvað varðar bragðgæði, náttúruvæna framleiðsluaðferð og verð. (Ef þið hafið ekki prófað það nú þegar þá mæli ég sterklega með því tekið verði á þeim skandal.)  Þá sýndi ég nýtt verk á leiklistarhátið hér í borg og ofan í allt saman fékk ég svo mjög góðan styrk til að vinna að nýrri sýningu. En nú fer að rofa aðeins til og kannski að maður geti jafnvel hent inn nokkrum færslum frá liðnum vikum við tækifæri.

Matartengt er það helst að frétta að vegan tilraunin sem átti að vara í mánuð stendur enn yfir. Ekki ein einasta dýraafurð hefur farið inn fyrir minar varir á þessu ári…nei, nú lýg ég. Ég fékk mér eina þunna sneið að heimagerðri pulsu sem ítalarnir á næsta bás á einni matarmessunni buðu mér. Þeir töluðu reyndar enga ensku en voru mjög sannfærandi á sinni suður-ítölsku, sögðu að ég væri testa di cazzo ef ég prófaði ekki salami di nonna. Ég hló vændræðalega og smakkaði pulsuna og þeir glottu bara, klöppuðu mér á bakið og sögðu hlæjandi einu ensku setninguna sen þeir kunnu, forget about it. En puslan var ótúleg.

Vegantilraunin gekk, og gengur, fyrst og fremst út á það að koma sér út út viðjum vanans í eldhúsinu og þvinga sig til að hugsa aðeins út fyrir rammann. Það hefur heldur betur tekist. Við lentum til dæmis í því einn daginn að við vorum stödd niðrí bæ og urðum allt í einu mjög svöng. Við stukkum þá inn á kaffihús sem við höfðum nokkrum sinnum farið á áður og vissum að væri mjög gott. Þegar við renndum yfir matseðilinn var ekki einn einasti réttur á boðstólum sem ekki innihélt kjöt. Við nenntum ekki að leita að nýjum stað og spurðum því þjóninn hvort að það væri eitthvað sem hægt væri að gera. Hann sagði að það væri kannski möguleiki að sleppa kjúklingabringunni á einni samlokunni og þá væri hún bara með linsubaunum, tómötum og avókadó. Jæja, það hljómaði um það bil eins óspennandi og hægt var en við vorum einfaldlega of svöng til að fara annað. Samlokan leit sæmilega út svo sem, kannski full aumingjaleg. Bragðið var hins vegar ótrúlegt, einfaldlega ein besta samloka sem ég hef fengið, og síðan þá höfum við gert nokkra rétti með þessari samsetningu.

Sem dæmi um fleiri góða rétti má nefna sætkartöflugnocchi, gult karrý með kartöflum og tofu, kjúklingabaunir með tómötum og sterku harissa, seljurótarsúpu, ofnbakað eggaldin, pasta með ofnbökuðu súkíni og myntu, fullkomin vetrarminestrone, vietnamskt núðlusalat og fleira og fleira. Í gær tók ég síðan til í ísskápnum og henti í þennan frábæra rétt sem krakkarnir hámuðu gjörsamlega í sig. Ég held að þessi tilraun fái að vara aðeins lengur, í það minnst þar til við förum til Íslands í næsta mánuði, þá kannski að maður fái sér soðning.

kartöfluoglinsusalat1

Volgt kartöflu og linsusalat með fersku kryddjurtapestó

500 gr kartöflur

1 dós soðnar linsur

1 laukur

2 sellerístilkar

2 hvítrauksrif

1 búnt hvort um sig af basil, steinselju og rúkóla

1 sítróna

1 lúka ósaltaðar pistasíuhnetur (eða aðrar hnetur eins og heslihnetur, furuhnetur eða möndlur)

Olía

Salt og pipar

Kartöflurnar skrældar og soðnar í létt söltuðu vatni þangað til þær eru tilbúnar. Vatninu helt af og þær látnar standa aðeins. Laukurinn steiktur á pönnu þar til glær, sellerí bætt út og steik áfram í nokkrar mínútur. Hvítlaukurinn fínsaxaður og bætt út á pönnuna og steikt áfram í 1-2 mínútur. Linsurnar skolaðar og bætt út á pönnuna ásamt kartöfunum. Kryddjurtirnar maukaðar í matvinnsluvél ásamt sítrónusafa, fullt af ólívuolíu, salti og pipar. Innihaldi pönnunnar helt í stóra skál og kryddjurtamaukinu hrært saman við. Hnetunum blandað saman við og saltað og piprað eftir smekk. Gott að kreista sítrónusneið yfir allt saman. Verði manni svo bara að góðu.

kartöfluoglinsusalat2

Read Full Post »

Þá er komið nýtt ár. Ég vona að það verði ykkur lesendum hliðhollt, að þið dafnið í takt við jákvæðnina í ársstjörnuspánum og forðist neikvæðnina og að við saman reynum aðallega bara að verða betra fólk.

Síðustu vikur hef ég ekki verið iðinn við að setja inn nýjar færslur og eru reyndar töluverðar líkur á því að ég muni ekki breyta mikið af þeirri stefnu á næstu vikum. Ég er sem stendur á kafi í rannsóknarvinnu fyrir lokaverkefnið í skólanum (loksins þarf maður að gera eitthvað annað en að drekka latte) og hef því lítinn tíma til að skrifa um eitthvað annað en sviðsetningu sjálfsins, hverfulleika raunveruleikans og lýgi leiklistarinnar. Þrátt fyrir það verður líklega heill hellingur matartengds efnis sem hægt verður að skrifa um og mun ég henda inn færslum eftir bestu getu.

Ég hef til að mynda ákveðið að þessi fyrsti mánuður ársins verði vegan, þ.e. ég og konan mín munum ekki neyta neinna dýrafurða. Ástæðan er ekki endilega pólitísk eða eitthvað átak til að losa sig við jólabumbuna þó að ég hafi mikinn skilning á pólitískri afstöðu grænmetisæta og þeirra sem eru vegan, við ættum auðvitað að bora miklu minna kjöt og vanda töluvert betur þegar kemur að framleiðslu og vinnslu dýraafurða. Ástæðan er einfaldlega sú að okkur fannst sama bragðið orðið af öllu og langaði því að prófa nýjar leiðir í matreiðslu og athuga hvort að við lærðum eitthvað nýtt.

Þetta hljómaði allt saman mjög vel rétt fyrir áramót en málið varð strax töluvert flóknara þegar ég stóð frammi fyrir því að búa mér til vegan morgunmat á nýjársdag. Ekki gat ég fengið með mjólk út á grautinn, kornflexið eða seríósið, ekkert jógúrt með hunangi, engar lummur eða amerískar pönsur, hvað þá beikon og egg. Sökum þvermóðsku á ég þar að auki erfitt með að nota vörur eins og soya mjólk eða soyaost í veikri von um að það komi bara alveg í staðinn fyrir venjulega mjólk og ost. Í örvæntingu minni rak ég augun í múslí með appelsínusafa í stað mjólkurinnar. Þetta þótti mér í besta falli vafasamt en þar sem ég var svangur og þreyttur (og jafnvel eilítið þunnur) ákvað ég að prófa. Blandaði saman höfrum, hnetum og nokkrum þurrkuðum ávöxtum í skál, kreisti eina appelsínu yfir. Útkoman kom mér mikið á óvart því þetta var hreinlega ótrúlega gott. Miklu ferskara og léttara og einfaldlega bragðbetra en músli með mjólk. Ég er hér með háður þessari blöndu og skora á ykkur, kæru lesendur, að prófa.

musli2

Músli með  nýkreistum appelsínusafa 

Blandið saman í skál höfrum og hnetum og þurrkuðum ávöxtum að eigin vali. Einnig gott að setja sólkjarnafræ út í blönduna eða ferska niðurskorna ávexti, t.d. epli eða peru. Safi kreistur úr einni appelsínu og helt út yfir músliblönduna. Látið standa í 20-30 mínútur. Borðað. Með skeið.

musli1

Read Full Post »

Smjörklípur

shortbread1

Nýlega var sagt frá því í fréttum að rjóma og smjörskortur vofi yfir íslenskri þjóð. Tímasetningin gæti ekki verið verri, rétt fyrir jólavertíðina þegar LKL sjúk þjóðin ætlaði kannski aðeins að leyfa sér og fá sér nokkrar piparkökur og vanilluhringi og almennilegan jafning með hangikjötinu. Hleypa smá kolvetni aftur til heilans svo að hann geti hökt aftur í gang eftir að hafa legið í dái frá því í byrjun árs. Brugðist hefur verið við neyðinni og smjör verður flutt inn frá Bretlandi, með skömm að sjálfsögðu, enda samræmist það væntanlega ekki þjóðarstolti okkar að leita til þeirra andskota sem kölluðu okkur hryðjuverkamenn og bönnuðu okkur að stunda fullkomlega eðlilegt nígeríusvindl með gúmmitékkum og sápukúlupeningum.

En það er von að maður spyrji sig, hvað varð um allt góða alíslenska smjörið okkar? Getur hugsanlega verið að það hafi verið nýtt í einhverjum annarlegum tilgangi? Ætla mætti að gríðarstór og stirðbusalegur jólasveinn hafi laumupúkast á milli kúabúa  með ægilega skilvindu, háglansbláa og spánýja, og strokk stórgerðan, grænröndóttann, og haft á brott með sér töluverðan hluta mjólkurkvótans í formi tröllslegs smjörfjalls sem enginn kemst yfir nema fulginn fljúgandi. Önnur skýring getur ekki átt við rök að styðjast. Það verður að teljast harla ólíklegt að allt LKL liðið hafi keypt upp hundruð kílóa af mjólkurfitu til að forðast helsta óvin nútímamannsins og aðalnæringarefni heilans, hveitið. Og þó, eitthvað las ég um daginn að við Íslendingar værum komnir fast á hæla Bandaríkjamanna í  kapphlaupinu, ef kapphlaup skyldi kalla, um feitustu þjóð í heimi. En höldum okkur við jólasveininn, það er einhvern veginn rómantískara og þjóðlegra.

Um þessar mundir á sér stað einn stórkostlegasti blekkingarleikur sem íslensk þjóð hefur upplifað.  Smjörklípuaðferð Davíðs Oddsonar hefur verið fullkomnuð af formönnum stjórnarflokkanna sem hafa troðið sér í gamlan jólasveinabúning og þeyta klípum í allar áttir. Afleiðingar láta ekki á sér standa og þránað og vélstrokkað tilberasmjörið drýpur af veggjum helstu menningar – og heilbrigðistofnanna landsins. Í kjölfarið stendur stétt á móti stétt, menningu er att á móti heilbrigði, landsbyggðapakki á móti kaffisullurum og þeir hnakkrífast og metast um eigið ágæti og hvor stéttin eigi meira rétt á smáaurum til að þrífa drulluna af veggjunum. Smjörklípunni hefur rækilega verið klínt í köttinn, í þjóðina, í okkur, og hann hringsnýst nú um sjálfan sig í stað þess að horfast í augu við kvalara sinn.

Kjarni málsins er einfaldur: Við erum ógeðslega rík þjóð. Ein sú ríkasta reyndar. Við sitjum á auðlindum sem um þessar mundir mala svo mikið gull að sumir menn og konur fara með himinskautum. En við erum líka ógeðslega skuldug þjóð. Ein sú skuldugasta reyndar. Upp er komin bókhaldsvilla sem þarf nauðsynlega að lagfæra. En hvert á að sækja peningana? Er lausnin virkilega fólkin í því að skera nöglina af og hálfa höndina með og slátra almannaþjónustu, heilbrigðisstofnunum, skólum og menningarstofnunum? Er virkilega mikið fé þangað að sækja? Er ekki búið að skera niður í þessum grunnstoðum samfélagsins síðan löngu fyrir síðustu aldamót, frá því í miðju góðæri?  Á móti kemur að útgerðir og bankar sýna fram á milljarða hagnað, ferðamannaiðnaðurinn er á nálgast fiskinn að verðmætum, álrisar fá orkuverð á euroshopperverði og listir og menning skila gríðarlegum tekjum fyir mjög lítinn tilkostnað. En stjórnvöld eru ekki á því að þarna sé nokkuð að sækja, í formi skatta, gjalda eða nýsköpunar. Þvert á móti er  lagt allt kapp á að tryggja meira gull til handa þeim sem það mala fyrir eigin vasa, sem nota bene eru oftar en ekki sömu vasar og fylltust í blessuðu góðærinu. Það er heldur ekki að sjá hjá stjórnvöldum að að sparnaðurinn geti falist hjá þeim sjálfum. Síðast í dag var talað fyrir auknum fjárheimildum til æðstu stjórnsýslu ríkisins. Þar er lagt til að Leppalúði sjálfur fái 14 milljóna bónusgreiðlsu fyrir sína vinnu við málstaðinn. Þar skín í skítlegt eðli og sækja á mann minnisstæð orðin You ain’t seen nothing yet!

Þegar hart er í ári er sparibaukurinn brotinn. Slík hegðun myndi flokkast undir skynsemi. Það er ekkert annað en hroki  og vanvirðing við þjáða og skíthrædda þjóð að  sækja ekki pening þar sem hann er að finna. Á Íslandi í dag fer ekki mikið fyrir auðmýkt stjórnvalda í garð kjósenda heldur er alið á hræðslunni með bölsýni, þjóðrembu og hótunum sem nú hafa orðið að veruleika. Það er tími til kominn að við hættum í eitt skipti fyrir öll að láta hrekkjótta jólasveina með fimmaurabrandara og milljónaglott maka okkur smjöri. Hvikum ekki frá kjarna málsins, látum blekkinguna ekki gleypa okkur og mótmælum þessum skrílslátum og yfirgangi af krafti.

Ég legg til að við nýtum okkur enska smjörið til gangs í þessar ensku kökur sem eru sérlega LKL friendly í þeim skilningi að þær koma heilanum aftur í gang.

Shortbread (frá BBC)

4 oz butter

2 oz caster sugar

6 oz flour

Heat the oven to 375F/Gas 5. Beat the butter and the sugar together until smooth. Stir in the flour to get a smooth paste. Turn on to a work surface and gently roll out until the paste is ½in thick. Cut into rounds or fingers and place onto a baking tray. Sprinkle with caster sugar and chill in the fridge for 20 minutes. Bake in the oven for 15-20 minutes, or until pale golden-brown. Set aside to cool on a wire rack.

shortbread2

Read Full Post »

markthalleBW3

Berlin er án efa höfuðborg konseptsins. Hér er gríðarlegur fjöldi af konseptvæddum sjoppum, búðum og mörkuðum og það virðist vera endalaust pláss fyrir nýjar hugmyndir. Einn nýjasti og ferkasti markaður bæjarins er í Markthalle Neun í Kreuzberg og fellur hann eins flís við rass í þessari konseptþoku sem umlykur allt. Þarna ber mest á tilraunamennsku ungra framleiðenda sem leggja áherslu á lókal matvæli og samspil hefðar og nýjungagirni. Framleiðendur eru ekki hræddir við að gera tilraunir og prófa nýja hluti, þarna er hægt að finna áhugaverða osta, nýja þýska bjóra og reyktar kjötvörur sem eru undir áhrifum frá bandarískri BBQ menningu. Og auðvitað ferkst grænmeti og ávexti frá nærsveitunum. Aðalsmerki markaðarins er hins vegar hversu ljúflega hipsteravæðingin rennur  saman við fjölmenningarsamfélagið á þessum markaði og stemmningin eftir því. Þessi markaður er einfaldlega mjög töff.

markthalleBW1 markthalleBW4

Á föstudögum og laugardögum eru venjulegur matarmarkaður í Markthalle Neun en á fimmtudögum gefur konseptið í botn og þá er haldinn Street Food Thursday milli 17 og 22. Gamli innimarkaðurinn breytist þá í paradís skyndibitaáhugamannsins þar sem hægt er að gæða sér á ódýrum og djúsi hágæðaskyndibita beint frá hjarta fjölmenningarinnar. Hægt er að fá sér allt frá almennilegum Thüringer Bratwurst yfir í hráfæðis salatvefjur og gufusoðnar og fylltar víetnamskar deigbollur. Vinsælasti standurinn kvöldið sem við fjölskyldan gerðum okkur ferð niðreftir var klárlega hægelduð og vel grilluð BBQ svínarif en við nenntum ekki að láta krakkana bíða eftir því og skelltum okkur í staðinn á jamaíkanskan jerk kjúkling. Sáum við ekki eftir þeirri ákvörðun, þvert á móti. Eftir jamaíka var það svo vietnamskir hamborgarar og guacamole frá Mexikó með rótsterkri salsa.

markthalleBW5 markthalleBW7

Stemmningin varð betri og hressari eftir því sem leið á kvöldið. Salurinn fylltist fljótlega og það var augljóst að fólk var að gíra sig upp í fimmtudagsdjammið með frábærum skyndibita. Við héldum hins vegar bara heim á leið með krakkana, södd og sæl og ákveðin að koma aftur við fyrsta tækifæri.

markthalleBW2 markthalleBW6

Read Full Post »

Bananabrauð

Það þarf ekki að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að komast að því að það eru nokkrir réttir sem nánast allir matarbloggarar birta með stolti að minnsta kosti einu sinni. Bananabrauð er einn þessara rétta. Það heyrir til undantekninga ef bananabrauð er ekki að finna á bloggsíðum mataráhugafólks og virðist það nánast vera skylda hvers bloggara að birta uppskrift af þessu ágæta brauði. Með því að setja inn uppskrift af bananabrauði gæti maður því verið að máta sig við hefðina, setja fram sitt teik á klassískum bloggararétt og stylla sér upp við hliðina á öðrum matarbloggurum og segja, sko mig, hér er ég kominn með bananabrauðið mitt. Og hingað er ég einmitt kominn með mitt brauð, ylvolgt og gott. Ég held samt að aðal ástæðan fyrir vinsældum réttarins sé einfaldlega sú að bananabrauð er einfalt og djöfull gott.

En ef einhvern tíman er rétti tíminn til að baka bananabrauð þá er það líklega um nákvæmlega þessa helgi. Svo virðist vera að við Íslendingar ætlum seint að gefast upp á heimsmetaþráhyggju okkar. Við eigum evrópumet í bananaframleiðslu. Við erum stærstu bananaframleiðendur í allri Evrópu en nokkrar plöntur í einu gróðurhús á Hvanneyri færir okkur þann titil nokkuð örugglega í hús. Ástæðan er líklega sú að engin önnur Evrópuþjóð eru nógu vitlaus til að stæra sig af svona dellu. En tengsl okkar við bananana og kjánalega vitleysuna endar ekki þar því það er líklegra en ekki að eftir helgi setjum við annað met, að þessu sinni raunverulegt heimsmet. Að öllum líkindum verðum við fyrsta þjóðin í heimi til að kjósa meðvitað yfir sig nákvæmlega sama bananalýðveldið sem verð henni eftirminnilega (eða hvað?) að falli fyrir ekki meira en 5 árum. Þetta hlýtur að teljast eins konar met enda standa erlendir stjónmálaskýrendur á gati og og botna ekkert í herlegheitunum. Það lítur því út fyrir að bananaframleiðsla Íslands eigi aðeins eftir að aukast næstu árin og því ekki seinna vænna en að æfa sig á bananabrauðsuppskrifum. Hér er því mitt innpútt.

bananabrauð1

Bananabrauð handa hræddri þjóð

3 mjög vel þroskaðir bananar

250 gr hveiti

2 tsk lyftidyft

125 gr smjör

150 gr hrásykur

1 dl hunang

2 egg

2 tsk kanill

1 msk kakó

1 lúka saxaðar möndlur

1 lúka hafrar

Ofninn í 180°. Þurrefnunum blandað saman. Sykurinn og smjörið þeytt saman. Eggin hrærð eins og svo þeytt saman við sykur og smjörblönduna. Bananarnir stappaðir og hrært rólega saman við sykur/smjör/eggjablönduna. Hveitiblandan hrærð rólega saman við og höfrum og möndlum bætt við í lokinn. Hellt í smurt ílangt brauðmót og bakað í 40-50 mínútur. Borið fram með kaffi og vandræðanlegri og skömmustulegri íslenskri þögn.

bananabrauð2

Read Full Post »

Núna fyrir helgi fór eiginkona mín elskuleg á vertíð. Til hliðar við myndlistina hefur hún   unnið fyrir sér sem flugfreyja og í síðustu viku bauðst henni verkefni sem við, fátækir námsmenn og allt það, gátum ekki sagt pass við. Ég verð því einn með börnin næstu vikurnar sem viðrist ekki passa inn í heimsmynd marga kunningja okkar. Það að ég, karlmaðurinn, skuli þurfa að sjá um börn og heimili á eigin spýtur, aleinn og óstuddur, einn með sjálfum mér, virðist verðskulda svipi og spurningar sem myndu aldrei nokkurn tíma vakna ef málum væri öfugt háttað. Ég, sem karlmaður, hef leyfi til að fara frá fjölskyldu minni á vertíð án þess að hika eða leiða hugann að því hvort að kona mín muni eiginlega geta þetta, hvort að hún kunni á þvottavélina, hvað þá geti vaknað með börnunum, skutlað og sótt í skóla, gefið að borða og svæft á sama tíma og hún væri á fullu í skóla, yrði að sækja mikilvæga fundi, sinna skyldum á opnunum og sækja leiklsitarhátíð og búa til eins og tvö listaverk. Í mínu tilfelli er nánast gefið að eitthvað muni fara úrskeðis en þvert á móti er gert ráð fyrir að kona mín myndi standast þessa áskorun, þolraun, hvað sem þetta er, með prýði, hæstu einkunn jafnvel og vel það. Og ef hún myndi svo mikið sem bogna þá myndi hún fá falleinkunn og sérlega slæma umsögn. Það er í raun bara ótrúlega flott hjá mér að ég hafi gefið henni leyfi til að fara.

Þessi tímabundna breyting á fjölskyndufyrirkomulaginu og viðbrögð annarra við henni staðfestir fyrir mér að kynjaímyndir samfélagsins eru langt frá því að vera nútímalegar, í raun mætti auðveldlega segja að þær séu skammarlega forneskjulegar. Það að ég hafi áhuga á matreiðslu, geti hugsað mér að sinna heimilinu með tiltölulega miklum áhuga, sjá um börnin án þess að vera beðinn um það, hvetja til tiltektar af fyrrabragði, prjóna peysu og vaska upp virðist kalla á hrós á meðan þetta væru kannski öllu sjálfsagðari verkefni fyrir eiginkonu mína. Sú hugsum okkar hjóna að það eigi að ríkja jafnrétt innan hjónabandsins, að málin séu rædd og ákveðin í sameiningu hefur jafnvel leitt til þess að við höfum þurft að taka það fram að ég sé ekki samkynhneigður, í með hæfulegri íróníu, til að mæta skilningi viðmælenda okkar og fá samþykki fyrir ónáttúru okkar.

Það er eins og við ríghöldum í úrsérgegnar og staðlaðar kynjaímyndir til að ná utan um takmarkaðan skilning okkar á samfélaginu og skynveröld okkar, þrátt fyrir að vera í orði öll af vilja gerð til að bæta stöðuna, jafna laun o.s.frv. En það er eins með þetta og pólitíkina, svo virðist vera að langtímaminnið sé ekkert og skólaganga okkar eftir því, þ.e. takmarkandi og heimalningsleg.

En það tjóir ekki að mögla stóð í sögubókinni í MR. Einhvern veginn þarf ég að bæta fyrir þessa tímabundnu fjarveru matarkonu. Þá er nærtækast að hugga sig með mat.  Á laugardaginn keypti ég í óðagoti lítinn bita af svínasíðu, sem virðist vera orðinn fastur liður þegar konan bregður sér af bæ, án puru, sæmilega feitan. Þá um kvöldið lagaði ég marineringu og lét síðuna liggja í henni, útflatta, þar til núna í dag en þá var hún fyllt og hægelduð og borinn fram með fennel og agúrkusalati og léttsteiktum gulrótum og glasi af rauðvíni til að róa taugarnar eftir annasaman dag á leikvöllum.

svínasíða grasekkils1

Svínasíða grasekkils

5oo gr svínasíða, útflött (butterfly-uð)

Marinering:

1 gott rauðvínsglas

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

2 msk balsamik edik

Börkur af hálfri sítrónu

2 lárviðarlauf

1 msk þurrkuð paprika

Óreganó

4-6 msk olía

Pipar

Fylling: 

4 þurrar brauðsneiðar, raspaðar

3 hvítlauksrif

1 væn lúka af basil, steinselju og óreganó, saxað fínt

Vel af olíu

Resti af sítrónuberkinum, fínt rifinn

Salt

Pipar

Marineringin blönduð og kjötið látið liggja í 6 – 12 tíma í ísskáp í plastíláti, poka eða boxi. Að þeim tíma liðnum er kjötið þerrað vel og hráefnunum í fyllinguna blandað vel saman og smurt yfir síðuna. Rúllað þétt upp og bundið saman í góða pulsu með spotta eða vír. Sett inn í 230°  heitan ofn í 15 mínútur. Hitinn lækkaður í 140° og eldað í 1 1/2 klukkustund til viðbótar. Látið standa undir álpappir í 20-30 mínútur og meðlæti og sósa útbúið á meðan. Í mínu tilfelli einfalt fennel og gúrkusalat með myntu og léttsoðnar og steiktar gulrætur.

svínasíða grasekkils2

Framtíðin

Read Full Post »

Older Posts »