Feeds:
Athugasemdir

Archive for the ‘Haust’ Category

Kartafla í sparifötum

„Enginn skapnaður er skyldari Íslendingum en kartaflan, eitt pínulítið piparkorn sem bíður þess að teygja faðminn móti albreiðum himni.“ segir Björn Halldórsson í bók Sölva Björns Sigurðssonar Gestakomur í Sauðlauksdal. Bókin er söguleg skáldsaga og byggir að ákveðnu leyti á lífi Björns í Sauðlauksdal sem er sagður fyrstu Íslendinga til að setja niður kartöflu, og reyndar heilan helling af öðrum matjurtum. Ég las hana stuttu eftir að hún kom út en um daginn gluggaði ég hana aftur í tilraun til að sleppa í smá stund frá önnum og almennum leiðindum sem felast í flækingi um alnetið. Ég hef varla getað lagt hana frá mér síðan og hef verið fastur í nostalgískum dagdraumum um kartöflurækt. Þegar ég var lítill voru mamma og pabbi með kartöflugarð þegar sem Smáralindin er núna og síðan þá hef ég nánast litið á það sem grundvallaratriði í hvers manns lífi að ræktaðar séu kartöflur, ef ekki af manni sjálfum þá í það minnsta af einhverjum í nærumhverfi manns. Hér í Berlín kemst ég næst þessum karföflugarðafetish á mörkuðum og í samskiptum við bróðir minn sem er duglegur að segja mér frá spýrun, sprettu og uppskeru, vali á yrkjum, aðferð við sáningu og ýmsum eldunaraðferðum svo fátt eitt sé nefnt. Á ég honum bestu þakkir skyldar fyrir vikið.

Um daginn voru einmitt kartöflur í matinn en vegna staðsetningar minnar á meginlandinu, þar sem rík hefð er fyrir hvers kyns fitubrasi, get ég leyft mér að steikja kartöflurnar upp úr andafitu. Það mín skoðun að hver fjölskylda ætti að halda í það minnsta eina önd eða gæs til þess eins að geta steikt kartöflur upp úr andafitu einu sinni á ári. Fyrr hefur fólk ekki lifað.

andafitukartöflur1

Kartöflur steiktar í andafitu

Kartöflur (eftir magni matargesta og svengd og meðlæti)

Fita (fer eftir kartöflumagni en mun meira en maður heldur, minnst 2 msk kúfaðar)

Salt og pipar

Kartöflurnar skrældar og soðnar í söltuðu vatni þar til þær verða hálfeldaðar eða rétt aðeins meira en það. Hellt í sigti og látið rjúka vel úr þeir og sigtið hrist af og til til að ýfa ofurlítið upp yfirborð kartaflanna. Fitan brædd á pönnu við meðal hita og kartöflurnar steiktar upp úr fitunni þar til þær verða fallega gylltar og yfirborið stökkt. Saltað og piprað eftir smekk. Borið fram með meðlæti að eigin vali, í okkar tilfelli var það boeuf bourguignon með hjartarkjöti. Jawohl.

andafitukartöflur2

Að lokum má benda á þessa myndaseríu en þar má sjá nokkra einstaklega fallega kartöflugarða.

Read Full Post »

Það hlýtur að teljast einhvers konar áfangi í bloggheimum að birta hundruðustu færsluna. Sérstaklega miðað við lágdeiðuna sem hefur verið yfir þessu bloggi síðustu vikurnar. Ég hef verið upptekinn við skrif á öðrum vígstöðvum og hef ekki haft mikla orku eða nennu til skrifa. En núna er skin á milli skúra.

Það er ekki ennþá kominn eiginlegur vetur hérna í Berlín, haustið streitist á móti lækkandi hitastiginu en af veikum mætti. Þetta er töpuð barátta, sólin lækkar með hverjum deginum og myrkrið verður einhvern veginn þykkara. Það er hins vegar merkilegt hversu stjörnubjart verður hér á heiðskýrum kvöldum. Þrátt fyrir að Berlín sé flennilýst stórborg þá sést mun betur til stjarna hér en í Reykjavík. Það eru örugglega einhverjar veðurfræðilegar skýringar á þessum mun en ég held persónulega að ljós- og rykmengum í Reykjavík sé vel yfir hóflegum mörkum og myndi þar að leiðandi rykugan ljóshjúp um borgina og komi í veg fyrir stjörnudýrðina.

Á þessum síðustu haustdögum hefur úrvalið hjá slátraranum tekið örlitlum breytingum. Villibráð, eins og dádýr, hjörtur og villisvín, er meira áberandi og sömuleiðis eru fyrstu gæsirnar og endurnar komnar. Ég eldaði gæs á jólunum fyrir 2 árum sem tókst ótrúlega vel. Ég hef hins vegar lítið eldað önd en  þegar við fengum gesti frá Íslandi um daginn gafst tækifæri á að breyta þvi. Ég keypti heila barberie önd á nánast ekki neitt (11 evrur). Innyfli, háls og fita fylgdi reynar ekki með sem var synd en það kom reyndar ekki að sök í þetta skipti. Anda- og gæsakjöt er sérlega ríkt og bragðmikið og hentar vel fyrr hægsteikingu vegna fitumagnsins. En maður má ekki vera feiminn við þessa fitu og um að gera að hella henni í krukku eftir eldun og geyma til að búa til rosalegar ofnsteiktar kartöflur. Ég vildi matreiða öndina á sem einfaldastan hátt, bara salt og pipar og kannski smá krydd, en það reyndist þrautin þyngri því að allar uppskriftirnar sem ég fann gera ráð fyrir annað hvort appelsínum eða fimmkryddablöndu sem ég vildi ekki nota. En þetta reddaðist einhvern veginn á endanum, enda ekkert sértaklega flókið ferli. Við bárum öndina fram með brúnuðum kartöflum, rauðkáli með eplum og rauðvínssósu svona rétt til að minna okkur á að það styttist í jólin.

Það er kannski erfitt og kostnaðarsamt á fá önd á íslandi. En það er nú samt alltaf verið að auglýsa ódýra andarunga í Bændablaðinu og um að gera að fjárfesta í eins og tveimur stykkjum og ala þá bara upp á hlaðinu og slátra að hausti.

Ég hafði keypt rúmlega kíló af sítrónum á markaðnum fyrr í vikunni (Af hverju? Af því að þær kílóið var á 1 evru) og átti nokkrar eftir. Í eftirrétt var því gerð sítrónukaka, eða  lemon drizzle cake, sem var nánast drekkt í sítrónusírópi. Ótrúlega góð og einföld. Borið fram með Ben and Jerrys…tveimur tegundum. Uppskriftin er byggð á þessari hér en með töluvert minni sykri þó.

hunangsönd2

Heilsteikt önd með timían og hunangi

1 önd

Salt og pipar

Nokkrar greinar af timían

2-3 lárviðarlauf

Hálft epli, í sneiðum

3-4 msk hunang

Ofninn hitaður  í 230°. Öndin þerruð vel og stungið létt í hana með títuprjóni eða hnífsoddi, í bringurnar og lærin, sérstaklega þar sem mesta fitan er. Passað að stinga ekki í djúpt þannig að það opnist niður í kjötið. Saltað mjög vel með góðu flögusalti og piprað. Timíaninu nuddað vel í fulginn og  lárviðarlaufin og eplið sett inn í kviðarholið. Saltað og piprað inn í öndina líka. Öndin sett í heitann ofninn í 15-20 mínútur. Þá er lækkað niður í 160 gráður og steikt áfram í 45 mínútur. Þá er öndin tekin út og hunanginu smurt yfir hana. Sett aftur inn og eldað áfram í hálftíma. Síðasta hálftímann verður að ausa fitunni reglulega yfir fuglinn til þess að skinnið verði stökkt. Tekið út og látið standa undir álpappír í 20 mínútur. Á meðan er hægt að búa til brúnaðar kartöflur, einfalt og snöggsteikt rauðkál með eplum og rauðvínssósu.

Hunangsönd1

Sítrónusírópskaka

175 gr mjúkt smjör

75 gr sykur

2 sítrónur, börkur og safi

3 egg

100 gr hveiti

100 gr malaðar möndlur

1 tsk sítrónudropar (má sleppa)

2 tsk lyftidyft

1/2 dl mjólk

50-75 gr sykur

Ofninn í 180°. Lítð kringlótt kökuform, eða langt formkökuform, smurt vel. Smjörið þeytt saman við 75 gr af sykri þangað til blandan verður kremuð og ljós. Sítrónuberkinu bætt við ásamt sítrónudropunum og eggjunum, einu í einu. Þeytt vel saman á milli svo að blandan fari ekki öll í kekki. Hveiti, lyftidufti, og möndlun blandað rólega saman við og svo er mjólk bætt út í og hrært þar til degið verður slétt og fínt. Hellt í mótið og bakað í 40 mínútur.

Sítrónusafanum og restinni af sykrinum blandað vel saman. Þegar kakan er tilbúin er hún stungin út um allt með mjóum prjóni og sírópinu hellt yfir í 3 skömmtum, þar til að  kakan er orðin vel sósuð. Látin standa og kólna. Borin fram með ís eða rjóma.

sítrónusýrópskaka

Read Full Post »

Stundum er rökhugsun minni bara þannig háttað að ekki verður með góðu móti hægt að skilja hana til fulls eða hvað þá hún hefur með rök að gera, nema vera skyldi rökvillur. Fyrir nokkrum vikum birti ég hér færslu um leiðinlegt og langdregið undurbúnings og eldunarferli karameliseraðra kastaníuhneta. Ekki fannst mér líklegt að ég myndi nenna að tína þær aftur til þess að standa í því að fá sár á báða þumla og vondar karamellur. Annað koma á daginn því að þegar ég hjólaði næst framhjá kastaníutrjánum þá fannst mér ekkert sjálfsagðara en að stoppa og tína svona eins og eina handfylli eða tvær. Og það gerði ég fullkomlega meðvitaður að ég myndi að öllum líkindum hvorki hafa gagn né gaman að matreiðslu þeirra. O jæja.

En þetta samspil forsjár og hlýðni sem virðist innbyggt í líkama minn og stundum stangast á við skynsemi gerði það að verkum að ég gat séð hneturnar leiðinlegu í nýju ljósi. Þær eru vissulega mjög mjölmiklar og mig minnti að ég hafði rekist á girnilega súkkulaðiköku þegar ég gúglaði karamelunum eins og vitleysingur nú fyrr í haust. Eftir stutta leit fann ég uppskriftina aftur, sem er komin frá Hugh frá River Cottage, og skellti í eina svakalegustu súkkulaðibombu sem ég hef samakkað, hveitilausa og alles. Fullkomið fyrir LKL sjúka Íslendinga. Ég helmingaði reyndar uppskriftina af því að ég á ekkert stórt kökumót, bara eitt pínulítið.

kastaníukaka

Súkkulaðikaka með kastaníuhnetum

125 gr smjör

125 gr dökkt súkkulaði

125 gr soðnar og skrældar kastaníuhnetur

125 ml mjólk

2 egg, hvítur og rauður aðskildar

50 gr hrásykur

Ofn í 180° og lítið kringlótt kökumót smurt. Smjör og súkkulaði brætt saman í potti. Mjólk og hnetur hitaðar saman í örðum. Eggjarauður þeyttar með syrkinum í skál. Volgt súkkulaðismjörið hellt varlega saman við. Hnetumjólkin sett í blandara og maukað í þykka súpu. Hrært saman við súkkulaðiðsoppuna. Eggjahvíturnar stífþeyttar og blandað varlega saman við soppuna. Hellt í mótið og bakað í 25-30 mínútur. Borið fram með ís eða rjóma og ógeðslega dekadent rjómakaramellu með heilum kastaníukjörnum.

Read Full Post »

Steikarsamloka úr afgöngum

Núna um síðustu helgi kom vinkona okkar frá Íslandi í heimsókn og tók með sér poka mikinn fullan hvers kyns gúmmelaðis, íslensks. Fór þar mest fyrir veglegu lambalæri og glöddust húsráðendur ótæpilega þegar vinkonan veiddi það upp úr pokanum. Ekki gátum við setið á okkur lengi og var lærið því eldað þá um helgina með kartöflum og sósu.

Þrátt fyrir einbeittan vilja gátum hins vegar ekki torga öllu lærinu, enda í stærri kantinum, og geymdum við afgangi til betri tíma. Tveimur dögum síðar rann stundin upp og við ákváðum að gera bara eitthvað einfalt og fljótlegt í hádegismat. Við skárum allt kjöt sem eftir var af beininu og týndum einhverja afganga og restar út úr ísskápnum og fundum hálfþornað súrdeigsbrauð í brauðpokanum. Steikarsamloka fyrir tvo skyldi það verða! Sorrý, engin bernaise í þetta skiptið en mjög einfalt, mjög gott.

steikarloka

Steikarsamloka með kirsuberjatómötum, kúrbít og pecorino

Afgangskjöt af læri (ein lítil skál)

3 kirsuberjatómatar

1 lítill kúrbítur

1 laukur

Litið stykki af pecorino

Hálf mozzarellakúla

Ferkst timjan

Smjör og olía

Salt og pipar

Laukurinn skorinn gróft í sneiðar og steiktur upp út olíu á meða hita í nokkrar mínútur, eða þar til hann fer að brúnast aðeins. Kjötið skorið í um 2 cm bita, bætt út á pönnuna og steikt þar til það fer að brúnast aðeins og laukurinn hefur tekið fallegan lit og hefur karamelíserðst aðeins. Kryddað með salt og pipar. Tekið af pönnunni og sett til hliðar. Kúrbíturinn skorinn langsum í þunnar sneiðar og tómatarnir skornir í fjórðunga. Smjörklípa sett á pönnuna sem notuð var fyrir laukurinn og kjötið og kúrbít og tömötum bætt út á ásamt timjaninu. Steikt við meðalhita í 5 mínútur. Á meðan er brauðið skorið og ristað. Svo er bara að raða þessu saman og bæta við ostinum. Brauð smurt með smjöri, mozzarellasneiðar ofan á, kúrbítssneið næst og kjötið og laukurinn þar ofan á, önnur kúrbítssneið og svo tómatarnir. Nauðsynlegt er að hella smá af steikingarolíunni yfir, rífa svo pecoríno gróflega yfir og loka samlokunni með annarri brauðsneið. Fullkominn nýting á góðum afgöngum.

Read Full Post »

Námsmannanúðlur

Eitt helsta viðlag matarmenningarvita, bloggara og annarra besserwissera  er hversu nauðsynlegt það er ánægju manns á því að borða almennilegan mat að endurskapa andrúmsloft fyrri tíma, að sökkva sér í nostalgíuna og tengja við upphafna ímynd barnæsku sinnar þar sem allur matur var góður. Mér finnst þetta sérlega skemmtilegt en vandamálið er bara að ég ólst upp á 9. áratugnum og borðaði ansi mikið af hressilega vel unnum matvörum sem eru algjört nó nó matarperra samtímans. Kjötbúðingur, kjötfarsbollur, 1944, fiskibollur í karrí, mjólkurvörur.is, kartöflumús úr pakka, koppasúpur og auðvitað blessaðar núðlurnar.

En ég læt það ekki aftra mér, ó nei. Þó svo að það geti verið tímafrekt að baksa við almennilegan kjötbúðing án þess að nýta sér stórkostlegar efnablöndur, nokkra lítra af maissterkju og alls konar maukara og blandara, þá gefst ég ekki svo auðveldlega upp. Enda námsmaður og listamaður og því ekki leiðinlegt að takast á við eitthvað raunverulegt og haldbært stöku sinnum og láta tímann líða á milli lattebolla.

Haustið er komið og allt heimilsfólkið að glíma við hor og slen og því ekki úr vegi að búa til staðgóða og hressandi kjúklinganúðlusúpu. Stökkva aftur um áratug eða svo og láta nostalgíuna lækna sig í bland við vel kryddaðan súpukraftinn. Ég borðaði óeðlilega mikið af pakkanúðlum í menntaskóla enda ekki til einfaldari matur (ef mat skyldi kalla). Kjúklinganúðlusúpa sem verður til á undir 3 mínútum er bara eitt það besta sem til er en nú hefur samviska mín og meðvitund tekið yfir og skemmt þessa minningu, eins og svo margar aðrar. Þá er bara að búa til sína eigin, frá grunni. En þetta tekur aðeins meira en 3 mínútur en það er þó vel þess virði. Það er í raun hægt að setja allan fjandann út í kraftinn þegar hann er tilbúinn en þetta grænmeti var til í ísskápnum og því um að gera að nýta það. Þeir sem vilja mega bæta við aromati.

núðlusúpa1

Núðlusúpa

1/2 kjúklingur á beini

Smá salt

Vatn (ca. 1-1 1/2 líter)

1 blaðlaukur

4 cm biti af engifer

2 hvítlauksrif

2 msk fiskisósa

1 msk soyasósa

1 kanilstöng

2-3 negulnagar

Brokkólihaus

3 vorlaukar

1-2 gulrætur

1 lime

Ferskt basil

Hrísgrjónanúðlur (fyrir 4)

Kjúklingurinn soðinn í létt söltuðu vatninu í um 30-40 mínútur. Þá er hann tekinn upp úr og kjötið tekið til hliðar. Krafturinn síaður, settur aftur í pott ásamt grófskornum blaðlauk, fínt söxuðu engifer og hvítlauk, kanilstönginni, negulnöglunum, fiskisósunni og soyasósunni. Þetta er látið sjóða rólega  í ca 20 mínútur. Núðlurnar eldaðar skv leiðbeiningum á bakkanum. Allt gænmetið skorið tiltölulega fínt. Gulrætur og brokkóli er bætt út í kraftinn og soðið í 5 mínútur. Þá er slökkt undir, kjúklingakjötið rifinn í passlega bita og bætt út í. Restin af grænmetinu sett í skálar ásamt núðlum og kraftinum hellt yfir. Lime kreist yfir. Fullorðnum er bent á að saxað sterkt chili er nauðsynlegt.

Svo er bara sest upp í sófa með skálina og kósað sig almennilega yfir bíómynd um japanskar núðlur, kúreka og mafíuforingja, Tampopo. Eða bara skófla þessu í sig á meðan börnin eru róleg.

núðlusúpa2

Read Full Post »

Já, þessi titill hljómar einstaklega girnilega um leið og hann er framandi en kunnulegur í senn. Engar kastaníhnetur finnast á Íslandinu góða en öll tengjum við við hina jólalegu nostalgíu ristaðra kastaníuhneta. Hér í Berlín er gríðarlegur fjöldi kastaníutjáa en flest þeirra bera óætan og hreinlega eitraðan ávöxt. Hrossakastaníur eru stærri en sætar kastaníur, tréin voldugri og gisnari og neyti maður þeirra fær maður ansi hressilegan magaverk. Sætar kastaníur er hægt að finna á stangli hér og þar um borgina og rakst ég á tvö tré við austurþýskar plattenbau bygginar rétt hjá Alexanderplatz. Var ég viss um að ég hafði fundið einhvers konar fjársjóð og sá fyrir mér framtíð fulla af kræsingum úr kastaníuhnetum.

kastaníur1

Kastaníur er brúkaðar í allan fjandann og eru sérlega vinsælar á Ítalíu og í Frakklandi. Þær eru einstaklega mjölmiklar og fitusnauðar og eru því oft malaðar í mjöl sem notað er svo til að þykkja súpur, sem kastaníupólenta eða í kökur. Þær eru einnig notaðar heilar í marga rétti og koma þá gjarnan í staðinn fyrir kartöflur. Svo eru þá náttúrulega karamelíseraðar kastaníuhnetur eða Marron glacé upp á frönsku. Sem slíkar þykja þær hið mesta hnossgæti enda er mikið vesen að útbúa þær. Auðvitað varð ég að prófa.

En þetta er langdregið vesen. Fyrst þarf að sjóða hneturnar í 10 mínútur til að geta náð þykkri skelinni af. Fyrir innan er svo önnur örþunn himna utanum gyllta hnetuna sem verður að ná af á meða hnetan er heit. Þessi þáttur ferlisins varð m.a. til þess að ég fékk sýkingu í báða þumlana þar sem ég stakk mig oft á þykkri skelinni og gat svo ekki með góðu móti náð pappírshimnunni af. En á endanum tókst þetta og þá byrjar gamanið eiginlega af alvöru. Maður á sem sagt að sjóða hneturnar í sýrópi í 10 mínútur á dag í 4 – 5 daga eða þar til hneturnar hafa drukkið í sig allt sírópið. Og nota bene án þess að brenna sírópið, sem ég að sjálfsögðu gerði. Og svo þurrkar maður hneturnar í 3-6 tíma í ofni á mjög lágum hita. Útkoman ætti því að vera holdgerving himnasælunnar og jólagleðinnar, djúsi karamella með krönsí yfirborði og jarðríkum hnetukeim.

Jújú, þetta var fínt. Allt í lagi bara. Ekkert spes samt. Tókst samt kannski ekki alveg þar sem ég brendi karamelluna á degi 3 en hvað með það. Hneturnar voru ekki stökkar, svolítið seigar og sumar brenndar. Ég held að ég þurfi ekkert að standa í þessu aftur. Læt mér nægja að hlusta á Bing Crosby um jólin og skoða myndir af kastaníuhnetum á pinterest og ímynda mér að þær séu í alvörunni mjög góðar og að allir heilvita menn verði að kunna að búa þær til. En svo er auðvitað ekki, þar býr þráhyggjan ein.

kastaníur2

Read Full Post »

Enn um epli

Eftir velheppnaða eplatínslu um daginn hefur nánast ekkert verið sett á borð hér á bæ án þess að það innihaldi nokkur epli. Ennþá virðist það vera allt í lagi, heimilsfólkið er ekki farið að rjúka á dyr þegar því er boðið enn ein eplasamsuðan. Enda hefur flest smakkast ágætlega og sumt jafnvel verið mjög gott. Jarðarberjasulta með eplum er vinsæl út á grautinn en skiptar skoðanir eru á eplachutneyinu. Ætli ég sitji ekki einn að þessum 10 krukkum sem ég gerði.

Um helgina ákvað ég að reyna að gera köku sem myndi nýta sem flest epli og varð niðurstaðan að gera franska eplaböku. Bakan gæti varla verið einfaldari, eiginlega bara epli í bökuskel með smá rjómafyllingu. Uppskriftin er frá klaufalega frakkanum vinsæla, Raymond Blanc, sem tárast nánast alltaf þegar hann hugsar um mömmu sína, sérstaklega ef það tengist mat. Af atgervi hans er ljóst að í hvert skipti sem matur bragðast vel skal segja viva la France! eða í það minnsta oh la la! um leið og maður lýkur aftur augunum.  Ég notaði reyndar heilhveiti og spelt í staðinn fyrir venjulegt hveiti sem ég átti ekki. Það kom reyndar ekki að sök heldur bætti við smá hnetukeim. Og ég átti ekki calvados. Og ég setti hunangi í botninn. Og svo forbakaði ég skelina. Annars eiginlega alveg eins og hjá monsieur Blanc. Nema betri.

Frönsk eplabaka

Botn:

250 gr mjöl (50/50 spelt og heilhveiti)

125 gr smjör, kalt

1 egg

1 msk hunang

Smá salt

Fylling:

Slatti af eplum (samsvarandi 4 – 6 stórum)

50 gr smjör

Smá sítrónusafi

3 msk sykur

150 ml rjómi

1 egg

1 eggjarauða

50 gr sykur

Fyrst er það botninn. Hveitið sigtað í skál. Smá salti bætt við ásamt köldu smjörinu sem hefur verið skorið í litla kubba. Smjörinu nuddað og kreist saman við hveitið þar til áferðin verður eins og fínir brauðmolar. Egginu og hunanginu bætt við og því hrært saman. Hnoðað lítilega, eiginlega ekkert. Þrýst saman í kúlu sem er svo flött lítilega út þannig að úr verði 2-4 cm þykkur diskur. Vafið í plastfilmu og kælt í minnst klukkutíma. Tekið úr kæli og flatt út á milli tveggja arka af bökunarpappír til þess að deigið haldist betur saman og klístrist ekki við allt og alla. Deigið ætti að verða frekar þunnt, kannski 1/2 cm. Breitt varlega yfir stórt bökumót og ýtt létt á það til að fylla upp í mótið. Stungið með gafli yfir allan botninn og bakað við 220° í 10 mínútur. Á meðan eru eplin skræld og kjarnhreinsuð og skorin í 8 til 12 báta (eftir stærð). Smjörið brætt saman við 3 msk af sykri og skvettu af sítrónusafa. Skelin tekin úr ofninum og eplunum raðað ofaní af franskri fágun. Penslað vel með smjörinu og bakað í 10 mínútur við 220°. Þá er lækkað niður í 200° og bakað í 15 mín til viðbótar. Rjóma, eggjum og sykri blandað vel saman. Bakan tekin út, rjómablandinu hellt yfir og bakað áfram í ca. 15 mínútur til viðbótar  eða þar til blandan er orðin aðeins föst í sér. Látin standa í minnst 45 mínútur og svo er henni bara skóflað í sig með smá ís.

frönskeplabaka

Oh la la. Viva la France!

Read Full Post »

Eplin

Við fyrstu sýn lítur garðurinn út fyrir að vera heldur berangurslegur og fráhrindandi. Enda er hann ekki beint í alfaraleið þó að hann sé í miðri borginni þannig lagað séð. Gatan sem hann stendur við er leiðinleg, ekkert markvert að sjá meðfram henni fyrr en maður er kominn fram hjá Ikea og upp í Marzhan þar sem fyrrverandi skólastjóri Listaháskólans í Austur Berlín var fenginn til að skreyta steinsteypta veggi blokkahverfisins með sóvéstum realisma og flísum. Þessi garður virðist ekki heldur vera til þess gerður að fanga athygli eins né neins, hann er eiginlega ekki við götuna og eiginlega upp á þaki á sundhöll. Til að komast að honum þarf að ganga upp þónokkrar tröppur sem eru líklega sóvéskt realískari en flísamyndir skólastjórans. Þegar upp er komið blasir við stórt og illa hirt engi með tjám á stangli. Sem er í vissum skilningi ágætt því þegar betur er að gáð þá eru öll tréin, sem líklega slaga upp í hundraðið ef ekki fleiri,  eplatré.

epli3

Það var einmitt það sem fangaði athygli safnarans þegar hann var að villast á leiðinni heim frá Finanzamtinu. Eitt einmanna eplatré á horni garðsins. Það var hins vegar ekki fyrr en hann var kominn upp og búinn að bíta í safaríkt og súrt eplið að hann tók eftir hinum trjánum.

Safnarinn söðlaði fákinn og hleypti honum í þriðja gír alla leið heim í hellinn þar sem hann sagði söguna af illa hirtu enginu, leiðinlegu götunni og öllum eplunum, málaði útskýringarmyndir á veggi hellisins með marglita kúlupennum og drakk kaffi til að virka rólegri og enn meira sannfærandi, það hreif, allir sammála um að best væri að safna liði og stefna að heiðinni, skilaboð send með refum, dúfum, börnum og leðurblökum og öðrum dýrum sem hafa tekið sér bólfestu í sandkassanum garðinum fyrir utan hellinn, það hreif ekki, þá var bara farið á fésið og tjattað við frændfólk, málið leyst, allir til í þetta, ákveðið að ráðast til atlögu ekki seinna en í gær en samt best að bíða í tvo þrjá daga eða svo, menn í vinnu og svona, já já sagði safnarinn og hélt áfram að mála við mikinn fögnuð afkvæma hans sem hvöttu hann áfram, nú var það endurgerð á múral skólastjórans fyrrverandi, tókst hrapalega, hann legst til hvílu, sefur í tvo daga og tvær nætur, með hléum þó, stendur svo við hellismunnan og horfir yfir landið, tilbúinn.

epli1  epli2

epli5epli6

Eftir litlu meira en 40 mínútur var búið að tína ofan í alla poka og töskur sem hersingin hafði meðferðis. Þó sá ekki högg á vatni og hefði verið hægt að tína sig vitlausan svo dögum skipti í þessum aldingarði Sísífósusar. En við stukkum bara upp í næstu lest héldum heim til frænkunnar þar sem uppskeran var verkuð. Fyrsta verk var að skella í eplaköku til að hafa með kaffinu. Á meðan hún bakaðist var búinn til eplasorbet og nokkrir lítrar af epladjús um leið og við veltum fyrir okkur hvernig við best væri að nýta 30 kíló af elpum.

epli7  epli8

Svo kom kaffitíminn og með honum ein rosalegasta eplakaka síðari tíma.

epli9

Eplakaka frænku minnar hörpuleikarans

1 1/2 bolli heilhveiti

3/4 bollar smjör

3 egg

1 1/2 bolli hrásykur

1 1/2 tsk lyftiduft

1 tsk salt

1 tsk vanillusykur (eða dropar)

2 tsk kanill

1 kg epli (helst súr, 3/4 í bitum, rest rifin)

Ofninn í 200°. Bituðu eplin steikt létt á pönnu með smá smjöri og sykri þar til þau mýkjast lítið eitt. Sett til hliðar. Hveiti, lyftidufti, kanil og salti blandað saman í skál. Smjör og sykur og vanillusykur þeytt saman í annari þar til ljóst og létt. Eggjunum bætt við einu í einu þar til blandan verður ennþá léttari og ljósari. Bætið þurrefnunum út í og blandið varlega. Blandið rifnu eplunum varlega saman við. Kökumót smurt hressilega með smjöri og helmingnum af deginum hellt út í. Steiktu eplunum hellt þar ofaná og þrýst aðeins niður. Restin af deginu hellt yfir. Bakað í 30 – 40 mínútur. Borið fram með rjóma og kaffi.

epli10

Þegar við vorum öll búin að borða okkur södd af kökunni pípti ísvélin. Við fengum okkur því frískandi eplasorbet í eftirmat.

Á næstu dögum verða svo gerðar sultur og hlaup, chutney og bökur, mús, þurrkaðar eplaskífur, niðursoðin jólaepli, eplaleður, meiri safi og þannig endalaust áfram.

epli4

Read Full Post »

Þó svo að ég geti eytt ótrúlega miklum tíma við matreiðslubókarekka bókabúða fer ég oftast þaðan tómhentur. Annað hvort get ég ekki gert upp með mér hvaða bók mig langi mest í eða þá að veskið heimili ekki slík útgjöld. En í síðustu tvö skipti þegar ég hef horfið inn í hyldýpi áhugamálsins í miðri bókabúð hef ég komið upp á yfirborðið með bók í hönd og seðlana tilbúna. Reyndar var það elskuleg móðir mín sem splæsti í aðra bókina handa litla barninu sínu í tilefni komandi afmælis í febrúar. Hina keypti ég alveg sjálfur.

Mamma gaf mér s.s. Kitchen Diaries II eftir Nigel Slater. Bókin er eins konar dagbók Nigels þar sem hann birtir uppskriftir fyrir nánasta alla daga ársins ásamt hugleiðingum um hversdagslegt amstur út frá mat og matargerð. Bókin persónuleg, einlæg og skemmtilega skrifuð og þó svo að Nigel taki fram í inngangi að hann hafi ekki áhuga á matarpólitík þá er erfitt að komast hjá boðskapnum um ágæti ferskar árstíðarbundnar matvöru og óbeit hans á því að henda mat. Nigel leggur áherslu á eindalda matreiðslu þar sem hráefnið fær að njóta sín án þess að vera dúlbúið í gegnum stílíseringu flóknar samsetningar. Einnig ganga margir réttur hreinlega út á að búa til of mikið svo að hægt sé að nýta afgangana í nýja rétti. Ég hef aðeins eldað úr bókinni og gefur það góða raun um það sem koma skal. Ég held sömuleiðis að einlægur og einfaldur hugleiðingastíll Nigels muni hafa einhver áhrif á þetta blogg.

Hin bókin (sú sem ég keypti sjálfur) er klassísk: Mrs Beetons Book of Household Management. Mrs Beeton er breska útgáfan af Helgu Sigurðar og Juliu Childs nema hvað hún er fyrirrennari og fyrirmynd þeirra beggja og lætur sér ekki nægja að útskýra einungis eldhússtörfin og matreiðslu heldur nær bókin utan um allt sem viðkemur því að halda Viktóríonsku heimili gangandi, með tilheyrandi þjónustufólki og og hegðunarstöðlum. Bókina skrifar Mrs Beeton um miðja 19. öldina og var hún ætluð hinni ört vaxandi millistétt sem kunni ekki endilega þær reglur varðandi heimilishald og hegðun sem halda ber í heiðri til að geta talist maður með mönnum í samfélaginu. Ég hef rétt aðeins gluggað í hana og get hæglega mælt með henni. Bókin er skrifuð á einstaklega ljóðrænu og fallegu máli og samanburður á matreiðslu og heimilshaldi við t.d. hernað og list er einstaklega skemmtilegur. Hún segir með annars að húsfreyjan sé í engu frábrugðin hershöfðingja þegar kemur að aga, skipulagi og góðum anda innan heimilisins. Hún eyðir miklu púðri í að útskýra tilhögun eldhúsa, hegðun og verkahring mismunandi þjónustufólks og hvernig eigi að halda dýr og koma mannúðlega fram við þau. Lengsti kaflinn er um meðhöndlun kjötafurða en einnig er hægt að lesa sig til um hvernig maður eigi að ala börn, halda húsgögnum við og komast hjá flensu. Ég veit ekki hvort að ég leggi í einfaldasta matseðilinn sem hún setur fram sem dæmi um hversdagslega máltíð 6 manna fjölskyldu en hann er fjórréttaður og þar af tveir kjötréttir. Þeir sem hafa áhuga á Downton Abbey munu finna nostalgíu sinni góðan farveg í þessari bók og geta í gegnum bókina látið sig dreyma um eigið þjónustufólk og high tea úti á verönd. Ég geri það alla vega.

Í raunveruleikanum var nú samt sem áður föstudagur og það þarf að gefa þessum börnum að borða. Steiktir sveppir á pólentu var planið og það hélt. Ég bætti smáttskorinni seljurót út á pönnuna með sveppunum sem passaði vel, pönnusteikti pólentuna og setti spælt egg yfir herlegheitin. Svo gott var þetta að börnin báðu um meira.

polentasveppir

Pönnusteiktir sveppir með seljurót á pólentu með spældu eggi

Best er að byrja á pólentunni, sjá uppskrift hér. Henni er síðan helt í fat og látin kólna og stífna. Þá er hægt að skera hana í sneiðar og steikja upp úr smá olíu þar til hún verður stökk á báðum hliðum.

300 gr sveppir

Hálf seljurót, skorin í litla teninga

1 lítill laukur

1 hvítlauksrif

1 tks sinnep

100 ml rjómi

Væn smjörklípa

1 rósmaríngrein

Olía

Salt og pipar

Seljurótin steikt upp úr smá olíu við rólegan hita í nokkrar mínútur. Lauknum bætt við og steikt áfram þar til hann verður glær. Sveppirnir skornir eftir vilja og bætt út á ásamt smörinu og söxuðu rósmaríninu. Steikt þar til sveppirnir hafa brúnast ágætlega. Þá er hvitlauknum bætt við og steikt í mínútu til viðbótar. Sinnepið hrært saman við og svo rjómanum bætt út. Látið sjóða aðeins þar til þetta hættir að vera sósa og verður þykkara og þéttara. Á sama tíma er pólentan steikt og þegar hún er tilbúin eru eggin spæld. Pólenta neðst, svo sveppir, svo egg, stungið í rauðuna og úr verður sósa.

Read Full Post »

Þjóðverjar fara ekki leynt með ást sína á jólagæsinni. Eða jólaöndinni. Hvað þá jólakalkúninum. Þetta einhliða ástarsamband gerir það að verkum að einmitt núna  er stórum fuglum slátrað í gríðarlega miklu magni um gjörvalt Þýskaland. Það er bara gott og blessað. Hefðin fyrir jólagæsinni er mjög gömul og svo eru þessir fulgar sérlega hátíðlegir, bragðgóðir og metta marga svanga munna. Í fyrra vorum við einmitt með feita og fallega gæs sem við hægelduðum og fyltum með selleríaksfyllingu. Þá var mannmargt við jólaborðið en nú verðum við bara fjögur og látum því stóru fulgana eiga sig. Stefnt er að matreiða villibráð, jafnvel innbakað dádýrafillet eða hjört. Á jóladag verður svo reynt að bæta upp fyrir hangiketsleysið með smá bita af hunangsgljáðum hamborgarhrygg. Hjá slátraranum er ég þar að auki búinn að næla mér í pulsur og salami og alls konar paté, terrine og kæfur (algjörlega grunlaus um muninn þar á milli) svona til að narta í á milli kjötréttanna.

En svona rétt áður en karnivalið skellur á með kröftugum kjötsvima er rétt að fá sér smá grænmeti. Það er kalt úti. Rigning og snjónum hefur fyrir löngu síðan skolað niður ræsin. Þokan í Berlín er einstaklega grá og þykk og alltumlykjandi. Þegar inn er komið er kannski ekki skrítið að þrá eftir lit, þægindi og hita geri vart við sig. Í kvöld var gulrótarsúpa í matinn og verð ég að segja að hún uppfyllti allar óskir mínar eftir áðurnefndum tilfinningum og skynjun. Súpan var kröftug og fyllandi, chilíið yljaði og brúnin lyftist heldur betur. Og ekki gramm af kjöti í augnsýn. En ekki þarf annað en að opna ískápurinn lítið eitt og þá byrjar mann nánast um leið að svima.

gulrótarsúpa:vetur

Gulrótarsúpa um vetur 

5 stórar gulrætur

2 kartöflur

2 laukar

1 grein rósmarín

1 lárviðarlauf

1 tsk sterk chiliduft

1 tsk kóríanderfræ

1 tsk kúmin

Góður grænmetiskraftur (ca 750 ml)

Góð smjörklípa

Olía

Salt og pipar

Laukurinn saxaður og látinn krauma við vægan hita í smjörinu og olíunni í 10 mínútur þar til hann verður sætur og góður. Kartöflurnar og gulræturnar skornar í litla teninga og bætt út  í ásamt kryddinu. Hrært og steikt í nokkrar mínútur. Krafti bætt við þar til hann rétt flýtur yfir. Soðið í 20 mínútur. Borið fram með slettu af sýrðum rjóma og til þess að gera súpuna einstaklea jólalega er gott að rífa yfir smá mandarínubörk.

Read Full Post »

Older Posts »