Feeds:
Athugasemdir

Archive for ágúst, 2013

Gúrkutíð

Það hefur ekki beint verið líflegt um að lítast hér á þessu bloggi undanfarnar vikur. Endurspelgar það hins vegar engan veginn líf mitt utan hins stafræna veruleika, ég hef verið önnum hlaðinn og því ekki nennt að henda inn færslum, sérstaklega þegar 6 vikna sumarfríið legst eins og óróamara yfir krakkana og þá langar manni bara að henda sér upp í sófa og gera ekki neitt, helst hverfa inn í hann.  

Í tilraun minni til að hverfa rakst á þætti sem mér langar til að deila með ykkur hér. Eins konar sárabætur fyrir bloggleysið. Þeir eru um mat og eru fyndir. Horfiði bara. 

The Trip.

Read Full Post »

Steik

Það er ekki beint besta hugmynd í heimi að tjalda í 20 metrum á sekúndu með tvö lítil börn rétt um klukkan tíu að kvöldi eftir nokkra klukkutíma keyrslu með pulsustoppum og ísáti og örvæntingafulla leit að skjóli berangurslegum tjaldstæðum Snæfellsness. En við létum okkur hafa það, enda í góðra vina hópi og það átti að fara að setja humar á grillið. Og viti menn, það lægði aðeins svona rétt á meðan við borðuðum humarinn á mettíma í skítakulda. Um nóttina gaf svo aftur í rokið og eftir að hafa barist við öldur og nístandi norðanátt í sundlauginni var tjaldinu pakkað og ekið rakleitt í bústað í Kjósinni. ‘Ekkert vera að þrífa þessar grautarskálar, ég set þær bara í vélina’ hljómaði mjög vel.

Eftir barning sem þennan á maður skilið ákveðin verðlaun og okkar verðlaun biðu í kælinum á nautabúinu Hálsi í Kjós, meyr og safarík, á meðan við þvældumst Hvalfjörðinn, framhjá hjólhýsi í öreindum í vegarkantinum og hvalskurðarmönnum sem ögruðu eðlisfræðinni og skáru hrefnu með atgeirum í 40 metrum á sekúndu.

Við kaupum okkur ekki oft fínar og þykkar steikur, eiginlega aldrei, en dýrðin var slík á Hálsi að ekki var annað hægt en að fara alla leið og leyfa sér aðeins. Við keyptum tvær steikur, stórar og fitusprengdar rib eye, báðar vel yfir 500 grömmin sem áttu að metta 4 fullorðna. Börnin fengu ekki að koma nálægt þessu enda ekki í boði að stappa kjötið í klessu og henda í gólfið og heimta svo ís. Nei, þau fengu pasta og við sátum ein að þessu, verðlaunarhafarnir, eftir að þau voru sofnuð. Eldamennskan var einföld, steikurnar léttsteiktar á pönnu (ekki séns að maður nenni að grilla í þessu öskrandi roki) og franskar til hliðar. Rauðvín með og undir ómaði fylleríið og Eyfi í brekkunni hinu megin við fjallið. Sælir nú!

Steik

Nautasteik með frönskum kartöflum

Steik (250 gr er meira en nóg fyrir einn)

Salt og pipar

Olía og smjör

Bökunarkartöflur

Salt og pipar

Sólblómaolía

Kartöflurnar fyrst. Skornar í fingur og soðnar í vatni þar til þær eru tæplega hálfsoðnar, ennþá hráar í miðjunni. Hellt í sigti og látið rjúka af þeim. Ofninn hitaður í 220°. Sigtið hrist til að ýfa upp yfirborðið á frönskunum og þær settar í ofnskúffu og eiginlega drekkt í olíu. Inn í ofninn og bakaðar þar til þær eru aðeins stökkar og yfirborðið dökkt og gullið.

Steikurinar látnar standa við stofuhita í amk 2 tíma. Þær eru svo þerraðar og piprarðar og saltaðar. Panna hituð vel og steikurnar steiktar í hámark 2 mínútur á hlið. Inn í 150° heitan ofn í 5 mínútur og svo látnar hvíla í 10 mínútur í álpappír. Borið fram með soðsósu og frönskunum og góðu rauðvíni.

Read Full Post »

markthalleBW3

Berlin er án efa höfuðborg konseptsins. Hér er gríðarlegur fjöldi af konseptvæddum sjoppum, búðum og mörkuðum og það virðist vera endalaust pláss fyrir nýjar hugmyndir. Einn nýjasti og ferkasti markaður bæjarins er í Markthalle Neun í Kreuzberg og fellur hann eins flís við rass í þessari konseptþoku sem umlykur allt. Þarna ber mest á tilraunamennsku ungra framleiðenda sem leggja áherslu á lókal matvæli og samspil hefðar og nýjungagirni. Framleiðendur eru ekki hræddir við að gera tilraunir og prófa nýja hluti, þarna er hægt að finna áhugaverða osta, nýja þýska bjóra og reyktar kjötvörur sem eru undir áhrifum frá bandarískri BBQ menningu. Og auðvitað ferkst grænmeti og ávexti frá nærsveitunum. Aðalsmerki markaðarins er hins vegar hversu ljúflega hipsteravæðingin rennur  saman við fjölmenningarsamfélagið á þessum markaði og stemmningin eftir því. Þessi markaður er einfaldlega mjög töff.

markthalleBW1 markthalleBW4

Á föstudögum og laugardögum eru venjulegur matarmarkaður í Markthalle Neun en á fimmtudögum gefur konseptið í botn og þá er haldinn Street Food Thursday milli 17 og 22. Gamli innimarkaðurinn breytist þá í paradís skyndibitaáhugamannsins þar sem hægt er að gæða sér á ódýrum og djúsi hágæðaskyndibita beint frá hjarta fjölmenningarinnar. Hægt er að fá sér allt frá almennilegum Thüringer Bratwurst yfir í hráfæðis salatvefjur og gufusoðnar og fylltar víetnamskar deigbollur. Vinsælasti standurinn kvöldið sem við fjölskyldan gerðum okkur ferð niðreftir var klárlega hægelduð og vel grilluð BBQ svínarif en við nenntum ekki að láta krakkana bíða eftir því og skelltum okkur í staðinn á jamaíkanskan jerk kjúkling. Sáum við ekki eftir þeirri ákvörðun, þvert á móti. Eftir jamaíka var það svo vietnamskir hamborgarar og guacamole frá Mexikó með rótsterkri salsa.

markthalleBW5 markthalleBW7

Stemmningin varð betri og hressari eftir því sem leið á kvöldið. Salurinn fylltist fljótlega og það var augljóst að fólk var að gíra sig upp í fimmtudagsdjammið með frábærum skyndibita. Við héldum hins vegar bara heim á leið með krakkana, södd og sæl og ákveðin að koma aftur við fyrsta tækifæri.

markthalleBW2 markthalleBW6

Read Full Post »