Feeds:
Athugasemdir

Archive for maí, 2013

Karrí

Fiskibollur í karrí. Líklegast sá réttur sem kemst fjærst inverskri eða suðaustur asískri matargerð en er um leið flokkaður undir helsta samnefnara okkar vesturlandabúa um  matargerð þessa landsvæða, karríið, út af gula litnum og einhverri skrítinni kryddblöndu sem ber með sér keim framandi landa. Karrí er í raun ekkert nema tilbúningur  nýlenduherranna, tilraun til að skilja heiminn og einfalda hann með því að kalla nánast alla rétti sem eru kryddaðir og í misþykkri sósu í þessum menningarheimi sama nafni. En þessi afgreiðsla sherrílegna beige herranna skemmir ekki fyrir því nú er þessi óræði réttur, the curry, einn vinsælasti réttur í heimi. Til að mynda er einkennisréttur Berlínar Currywurst. Ég leyfi mér hins vegar að efast um vinsældir fiskibollanna.

Ég gæti borðað endalaust af karrí, þá sérstaklega því sem á rætur að rekja til Tælands eða Indónesíu, og oftar en ekki kallað rautt eða grænt karrí. Slíkt karrí er meira eins og súpa, löguð með kókosmjólk og sósan tiltölulega þunn en kraftmikil og fersk. Ég geri oftast kryddmaukið frá grunni en ef maður á ekki mixer eða töfrasprota eða álíka græju þá þarf maður að vera ansi lúnkinn með hnífinn til að saxa allt í öreindir. Eldhúsgræjurnar okkar eru vel flestar í kössum á Íslandi en um daginn kom matarkonan hins vegar færandi hendi með glænýjan  töfrasprota með alls konar aukahlutum. Þá var hlaupið til og framandi krydd og grænmeti keypt í nálægum austurlandabúðum.

Þetta karrí er einstaklega sumarlegt og ferskt, ekkert svo sterkt en það má auðveldlega breyta því með því að bæta við meira chili. Ég notaði bara grænmeti en það er mjög gott að bæta við kjúklingi  og enn betra einhverjum feitum og þéttum fiski eins og steinbít. Ég get þar að auki ekki hugsað mér að leggja mér kóríander til munns og nota því steinselju í staðinn. Bjór með. Og svo gerði ég líka naanbrauð. Og gulrótarsalat. Og sauð hrísgrjón.

grænmetiskarrí

Einfalt grænmetiskarrí

Kryddmauk:

2 stilkar sítrónugras

1 meðalstór laukur

2 vorlaukar

Þumlungsstór biti af engifer

1 chili

Safi úr einu lime

3 hvítlauksrif

1 búnt af steinselju

1 búnt af basil

1 msk kóríanderfræ

1/2 tsk turmerik

1 tsk kumin

Smá skvetta af olíu

Salt og pipar

Allt sett í mixer og maukað vel.

Karrí: (í raun má nota hvaða grænmeti sem er í þetta en mér finnst ekki geta klikkað)

Kryddmaukið

1 lítil sæt kartafla

4 meðalstórar kartöflur

2 gulrætur

1 paprika

1 laukur

2 tómatar

1 dós kókosmjólk

Olía

Salt og pipar

Laukurinn skorinn gróft og steiktur upp úr olíuni á frerkar stórri pönnu þar til hann verður glær. Kartölfurnar og gulræturnar skrældar og skornar í frekar stóra bita. Bætt úr á pönnuna ásamt öllu maukinu og steikt þar til maukið fer að klístrast aðeins og gænmetið að brúnast lítið eitt. Paprikan skorin gróft og bætt við. Stuttu seinna er kókosmjólkinni hellt út og og dósin fyllt af vatni og því bætt við sömuleiðis. Hrært. Lok, eða álpappír, sett yfir pönnuna og látið sjóða rólega þar til kartöflunar eru soðnar í gegn, í um 20-25 mínútur.

Naanbrauð (6-8 stk)

200 gr hveiti

130 ml volgt vatn

1 tsk ger

1/2 tsk salt

1 tsk sykur

Öllu blandað vel saman. Hnoðað þar til slétt og fallegt. Látið hefast í klukkustund. Slegið niður og skipt í 6-8 kúlur. Flatt út þunnt og steikt á heitri þurri pönnu.

Gulrótarsalat

3  gulrætur

1/2 lime

1 msk sesamolía

Nokkur myntulauf

1 lúka saxaðar kasjúhnetur

Salt og pipar

Gulræturnar rifnar meðalfínt, eða skornar í fallega strimla með mandólíni. Myntan söxuð og hrært saman við gulræturnar ásamt safanum úr limeinu og olíunni. Saltað og piprað og hnetunum stráð fallega yfir

Read Full Post »

tyrkjamarkt4

Á hverjum þriðjudegi og fóstudegi er haldinn markaður á Maybachufer í Kreuzberg. Einhvern tímann var því logið að mér að í Berlín, og þá sérstaklega í Kreuzberg og Neuköln, væri stærsta samfélag Tyrkja utan Tyrklands. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en markaðurinn á Maybachufer er nú samt sem áður stílaður inn á þetta samfélag og er í daglegu tali kallaður Tyrkneski markaðurinn.

tyrkjamarkt1

tyrkjamarkt6

Markaðurinn er frekar stór, mikið fólk og mikið líf. Hér eru engar Currywurst, lítið um Sekt-standa og fáir krúttlegir bio-bændur. Á markaðnum stigur maður inn í annan heim, heim innan heims, og það mið-asískan. Tyrkneskar matarhefðir og hráefni er allsráðandi í bland við léreft og rennilása, potta og uppþvottabusta og hása Kreuzbergtyrki með sín endalausu ‘bittschön’ og ‘ein-kilo-ein-euro’. Hér er gaman að versla og oft á tíðum hræódýrt. Maður verður hins vegar að vera meðvitaður um það að það eru ekki alltaf bestu lífrænu og lókal tómatarnir sem seldir eru á undir 1 evru á kílóið. Hins vegar er oft boðið upp á heilu brettastæðurnar af vörum sem ekki standast fáránlega útlitsstandarda matvörurisanna og yrði annars hent þrátt fyrir að ástand þeirra sé að örðu leiti mjög gott. Það er því vel hægt að koma heim með mörg kíló af mat fyrir minna en 10 evrur.

tyrkjamarkt2

Á markaðnum er um að gera að byrgja sig upp af kryddum og þurrkuðum ávöxtum og hentum. Úrvalið af ólífum er einnig ótrúlega gott og gæðin líka og ég tek alltaf með mér fullt box af stórum grískum kalamata ólívum heim sem sjaldnast komast alla leiðina heldur eru borðaðar í U-bahnum. Hægt er að fá alvöru Halumi ost, frábær grillaður, grískan feta og endalaust úrval af smurostum hrærðum saman við ólíkar kryddblöndur og chili.

tyrkjamarkt5

Eftir vel heppnuð innkaup er gott að setjast niður við kanalinn og gæða sér á gözleme, heitri vefju með fetaosti, tómötum og rúkóla, eða fá sér fáránlega sæta tulumba deigbolta og sterkt kaffi. Svo er haldið heim og reynt að átta sig á því hvað maður á að gera við kíló af beygluðum agúrkum.

tyrkjamarkt3

Read Full Post »

Það er óhætt að segja að aspastíminn sé nú í hámarki. Markaðir eru yfirfullir, litlir aspasbásar á hverju götuhorni og í kjörbúðum er  nánast eingöngu hægt að kaupa aspas og hollandaise. Eftir viku eða tvær er fárið síðan búið og ár þangað til að maður getur keypt græna eða hvíta stilkana aftur. Því er um að gera að henda sér út í aspasfljótið og éta sig yfirfullan eins og hér virðist vera lenskan.

Um daginn vafði ég beikoni utan um aspasinn og grillaði og uppgötvaði þar með himneskan samruna þessara hráefna. Ég held að eftir þetta geti ég hreinlega ekki eldað aspas án þess að nota beikon. En eitthvað varð ég að gera örðuvísi núna og ákvað að henda mér út í kviksyndi sjmördeigsgerðar og búa til böku. Smjördeig er oft talið óþolandi fyrirbæri sem sjáldan hagar sér eins og maður vill og endar sem seigur og ljótur köggull. Ég var því hæfilega skeptískur á að þetta myndi ganga upp hjá mér. Eftir töluverða heimildarvinnu og samanburð á uppskriftum ákvað ég að skella í deig og vona það besta. Útkoman var létt og meðfærilegt deig sem lyfti sér vel í ofni, varð stökkt og brakandi gott. Gott er að gera deigið 1 eða 2 dögum áður til að það fái að kólna vel. Sömuleiðis verður að passa að hafa alltaf nóg af hveiti undir deginu svo að það festist ekki við borðið.

Bakan sjálf gæti ekki verið einfaldari enda er einfaldleikin aðalatriðið þegar kemur að ferskum nýtýndum aspas. Smjördeig, sýrður rjómi, stökkt beikon, aspas, smá parmeggiano, salt og pipar.

Mér hefur stundum tekist ágætlega að elda góðan mat, jafnvel mjög góðan, en það verður að segjast að þessi réttur er með þeim  allra bestu sem ég hef framreitt hingað til. Ég get því hæglega mælt með honum ef fólk er að vandræðast með aspasinn.

aspasbaka3

Einföld smjördeigsbaka með aspas og beikoni

Smjördeig:

225 gr hveiti

200 gr smjör, kalt

Um 100 ml íslkalt vatn

Hveiti sett í skál og 30 gr af smjöri nuddað vel saman við. Kælt í 20 minútur. Þá er vatni hrært saman við hveitiblönduna þar til úr verður meðhöndlanlegt og mjúkt deig. Hnoðað snögglega. Kælt í 20 mínútur. Restin af smjörinu flatt út á milli 2 smjörpappírsblaða í ferhyrning, ca. tvisvar sinnum lengri en hann er breiður eða um 1 cm þykkt. Deigið flatt út þannig að það sé 3 lengra en það er breitt. Smjörið sett í miðjuna og deigið brotið saman yfir smjörið, eins og umslag. Snúið 90 gráður og flatt út þrisvar sinnum lengra en það er breitt og brotið saman. Kælt í 20 mínútur. Tekið út, flatt út, brotið saman, snúið 90 gráður, flatt úr, brotið saman. Kælt. Þetta er endurtekið a.m.k. 3 í viðbót. Kælt yfir nótt.

aspasbaka1

Bakan:

Smjördeigið

750 gr aspas

200 ml sýrður rjómi

150 gr beikon

Smá parmeggiano

1 egg

Olía

Salt og pipar

Ofninn í 200°. Beikonið skorið í litla bita og steikt á pönnu þar til það er stökkt. Smjördegið flatt úr í ferhyrning, 1/2 cm að þykkt. Brotið 2 cm upp á endana. Neðsti trénaði hlutinn af aspasnum skorin af. Sýrða rjómanum smurt á deigið, aspasnum raðað á, beikonið yfir  og aspasinn smurður með smá olíu. Pipar og salt. Parmeggiano rifinn yfir og endarnir penslaðir með hrærðu eggi. Bakað í 25-35 mínútur eða þar til degið verður fallega gullbrúnt og stökkt. Borið fram með fersku salati, t.d. rúkóla, og vatnsglasi til að halda sig frá flókinni umræðu um hvaða vín passar með aspas (einfalt svar: ekkert).

aspasbaka2

Read Full Post »

Það er ekki annað hægt en að baka pönnukökur, vöfflur og annað sætabrauð þessa dagana. Formenn verðandi stjórnarflokka sitja núna við samningborð sem virðist af öllum fréttum minna einna helst af öllu á hnallþóruhlaðborðið í Kristnihaldi undir jökli. Fáir fréttamenn nenna að velta því fyrir sér hvernig gangi að semja enda miklu meira spennandi að fjalla um tilraunir formannanna og aðstoðarmanna þeirra í eldhúsinu. Útkoman er ekkert nema kjánaleg í ljósi þess að hér er verið að semja um framtíð landsins og slíkir samningar ættu undir venjulegum kringumstæðum að vera alvarlegri og síst af öllu upp í sumarbústöðum pabbanna. En þessar ‘venjulegu kringumstæður’ eru ekkert nema hugarburður okkar, þ.e. við gerum hreinlega ráð fyrir reykmettuðum bakherbergjum eða innsta helgidómi flokkanna eða álíka sviðsmynd. Formennirnir fara hins vegar gegn þessari ímynd okkar, versla saman í Krónunni og skella sér svo upp í bústað og baka pönnukökur í sveitasælunni.

249136_10201048983936913_1205951425_n

Skopmynd eftir Gunnar Karlsson

Án þess að stíga beint ofan í kviksyndi samsæriskenninga þá held ég að það sé alveg ljóst að þessi framsettning á sumarbústaðafundum formannanna er úthugsuð. Hér er verið að búa til ímynd og þessi ímynd byggir einna helst á húmor sem setur formennina niður á plan okkar almennings. Hér eru tveir venjulegir menn sem versla saman í lágvöruverslunum og borðar pönnukökur og vöfflur upp í sumarbústað á milli þess sem farið er yfir tölur og hugmyndir og lausnir í ró og næði, pínulítið aulalegir en um leið afslappaðir. Það má gera grín að þessum mönnum því allt sem færir þá nær almenningnum, hinum venjulegu, og fjær elítunni, og þá sérstaklega hinni mjög svo fjársterku elítu og tengslum hennar við hrunið, er af hinu góða. Hér er ekki verið að flagga raunverulegu hlutverki og stöðu þeirra félagi í samfélaginu, hér eru engir vafningar eða hrægammar, bara tveir fáránlega nettir og slakir félagar að tékka á stöðunni og keyra þessar tölur yfir pönnsum. Bjarni og Sigmundur eru hreinlega að framleiða efni fyrir Spaugstofuna og Áramótaskaupið þar sem þeir sitja yfir kaffibollum og rjómavöfflum í sveitalegum köflóttum skyrtum og brosa vandræðanlega fram í myndavélina. Það er ekki einu sinni verið að hafa fyrir því að setja einhvern stemmningsfilter á instagramið því að svona er raunveruleikinn, tveir venjulegir menn í hráslagalegri sveitinni að semja af yfirvegun á ábyrgð um stjórn landsins næstu fjögur árin. Og gúffa í sig alíslensku bakkelsi, sameiningartákni þjóðarinnar, pönnukökunni.

pönnukökur1

Pönnukökur

200 gr hveiti

1-2 tsk sykur

1/2 tsk matarsódi

2 egg

Um 400 ml mjólk

1/2 dl kaffi

30 gr smjör

Hveiti, sykri, matarsóda og helmingnum af mjólkinni hrært saman. Eggjunum bætt út í og hrært. Kaffinu bætt við og nógu mikilli mjólk þannig að soppan verði álíka þykk og þykk málning. Smjörið brætt á pönnukökupönnu og helt svo af ofan í degið. Bakað við háan hita í 30 sekúndur og hvorri hlið.  Borið fram með alíslensku kaffi og skuldavanda þjóðarinnar.

pönnukökur2

Aðstoðarmaðurinn? Formaðurinn?

Read Full Post »

Jawohl! Nú lifnar yfir Berlín því hér hefur heldur betur hlýnað, allt orðið grænt og blóm á hverju tréi og grasið í almenningsgörðunum búið að vaxa rétt nægilega mikið til að hægt sé að setjast makindalega með dúk án þess að koma sér fyrir í engu nema drullu og mold. Nú skal grillað! Um helgina var rúmlega 20° hiti og reykjarmökkurinn í Maurpark í dag var þykkur og stöðugur nánast allan daginn. Núna má því búast við óslitnu grilleríi fram á haust og því ber að sjálfsögðu að fagna. Hér á bæ var setið útivið og grillað með gestum frá kl 16 í gær og frameftir. Fyrsti klukkutíminn fór reyndar í það að reyna að kveikja í kolunum án þess að vera með olíu en íslensku blöðin sem mamma kom með um daginn þegar hún var í heimsókn voru vel nýtt, og þá sérstaklega auglýsingar þeirra flokka sem semja nú um framtíðina með vöfflur í annari og bragðarefi í hinni. Þegar kolin voru loksins tilbúin var hafist handa við að grilla pulsur handa börnunum á með hinir fullorðnu vöfðum beikoni utan um aspas og mótuðu hamborgara og dressuðu tortelini salat. Í stíl við vorið var í eftirrétt hvítsúkkulaði og rababara mús. Veigarnar voru það vel gerðar og góðar að ekki kom annað til greina en að skola þeim niður með kampavíni sem passaði einkar vel með grilluðum beikonvöfðum aspas með parmeggiano hvítvínssmjöri. Setið var úti langt fram á kvöld, enda vorkvöldið milt  og fallegt, en rólegheitin tóku enda þegar börnin fengu þá góðu og lógísku hugmynd um að mála sig svarta eins og nóttina með kolamolum. En þá var kampavínið líka búið.

Grilluð beikonvafin aspasspjót með parmeggiano hvítvínssmjöri frænku minnar hörpuleikarns

1 kíló aspas (grænn í þetta skiptið)

20 beikonsneiðar (eða jafnmargar og spjótin)

Góð lúka fínt rifinn parmeggiano

Smá hvítvínsskvetta

Olía

Neðsti trénaði hlutinn af aspasinum skorinn af og hent. Ef þarf má flysja aspasinn, allt nema toppinn, og svo er hann settur í sjóðandi vatn í 2-3 mínútur. Vatninu hellt af og aspasinn látinn kólna aðeins. Á meðan er ostinum hrært saman við hvítvísskvettuna og sæmilega mikið af olíu, kannski 2 msk til að byrja með. Smakkað til og bætt við þar sem maður telur þörf á. Ekkert sérstaklega flókið. Beikon vafið utan um hvert aspasspjót og síðan grillað á vel heitu grilli þar til beikonið er stökt og fallegt. Raðað á disk og væn klípa af smjörinu sett yfir. Kampavín með, ekkert annað.

grillaspas

Read Full Post »