Feeds:
Athugasemdir

Archive for apríl, 2013

Vorið og villtur hvítlaukur

Berlín varð græn í síðustu viku. Hitinn hefur haldist vel yfir 10 gráðum í nokkurn tíma og náttúran kann heldur betur að meta það. Kirsuberjatréin eru í fullum blóma, nánast hálfblörruð af einlægri væmni sem smitast út í samfélagið sem gleypir í sig ís í takt við væmnina og skolar henni svo afsakandi niður með of mörgum bjórum. Vorið er komið og sumarið á næsta leyti.

Ég er mikill áhugamaður um mat og grænmeti sem vext villt um borgina og nærumhverfi hennar. Í fyrra týndi ég brómber og rúkóla við leikvöllinn á Helmholzplatz, plómur við lestarstöðina í Treptower Park og roðrunnaepli fyrir utan KFC í Pankow. Og ekki leiðist mér að fara í berja eða sveppamó. Núna, í byrjun vors, mætti halda að ekki væri mikið í boðið fyrir áhugasafnara eins og mig en þar skjáltlast manni. Brenninetlan er út um allt og vel hægt að nýta hana í bjór eða matargerð. Sumir borða blóm og nóg er af þeim. En á markaðnum um daginn rakst ég á villijurt sem mig hefur lengi langað til að týna og prófa í eldhúsinu, villtan hvítlauk. Þó að það væri vissulega búið að týna hann fyrir mig og setja í snyrtilegt búnt þá stóðst ég ekki mátið og keypti smávegis til að prófa.

Laukurinn vex út um allt, eitthvað hérna inn í borginni en aðallega þó í skógunum í kring. Maður nýtir blöðin einna helst en lætur rótina vera þó að það sé vel hægt að nota hana líka þegar líður á haustið. Bragðið er ekki sterkt heldur milt og ferskt og gefur virkilega góðan keim. Best er að nota þau eins fersk og mögulegt er og bæta við rétti alveg í lokin og passa þannig að þau eldist ekki of mikið og tapi þar með bragði sínu og ilm. Hugh Fearnley Wittingstall hefur mikið notað villtan hvítlauk í sínum þáttum og get ég t.d. bent á A cook on the wild side að Escape to River Cottage og Return to River Cottage sem ætti að vera hægt að finna á youtube eða dailymotion.

Ég notaði laukinn í einfalt kartöflugnocchi með sítrónusmjöri. Virkilega gott. Uppskriftin er nóg fyrir 2 en það má auðveldlega tvöfalda hana.

gnocchihvítlauks1

Gnocchi með sítrónsmjöri og villtum hvítlauk

300 gr soðnar og skrældar kartöflur

75 gr hveiti

2 msk rifin parmeggiano

Fínt rifinn börkur af hálfri sítrónu

1/2 egg (hrært)

50 gr smjör

Safi úr 1/2 sítrónu

1 búnt villtur hvítlaukur

Salt

Pipar

Kartöflurnar stappaðar og þrýst í gegnum sigti. Hveiti, eggi, sítrónuberki, osti, smá salti og pipar blandað vel saman við karföflurnar þar til meðhöndlanlegt deig myndast. Mótað í kúlu og kælt í 20 mínútur. Deginu skipti í fernt og rúllað  í 1 cm þykkar pulsur og svo skorið í 1-2 cm stóra bita. Sett í sjóðandi saltað vatn. Gnocchiið er tilbúið á fáeinum mínútum eða þegar boltarnir fljóta upp. Smjörið brætt á pönnu við lágan hita, sítrónusafanum bætt við ásamt söxuðum hvítlauknum. Gnocchiinu bætt út í smjörið og velt vel upp úr því. Borið fram strax með góðum slatta af parmeggiano.

gnocchihvílauks2

Read Full Post »

Bananabrauð

Það þarf ekki að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að komast að því að það eru nokkrir réttir sem nánast allir matarbloggarar birta með stolti að minnsta kosti einu sinni. Bananabrauð er einn þessara rétta. Það heyrir til undantekninga ef bananabrauð er ekki að finna á bloggsíðum mataráhugafólks og virðist það nánast vera skylda hvers bloggara að birta uppskrift af þessu ágæta brauði. Með því að setja inn uppskrift af bananabrauði gæti maður því verið að máta sig við hefðina, setja fram sitt teik á klassískum bloggararétt og stylla sér upp við hliðina á öðrum matarbloggurum og segja, sko mig, hér er ég kominn með bananabrauðið mitt. Og hingað er ég einmitt kominn með mitt brauð, ylvolgt og gott. Ég held samt að aðal ástæðan fyrir vinsældum réttarins sé einfaldlega sú að bananabrauð er einfalt og djöfull gott.

En ef einhvern tíman er rétti tíminn til að baka bananabrauð þá er það líklega um nákvæmlega þessa helgi. Svo virðist vera að við Íslendingar ætlum seint að gefast upp á heimsmetaþráhyggju okkar. Við eigum evrópumet í bananaframleiðslu. Við erum stærstu bananaframleiðendur í allri Evrópu en nokkrar plöntur í einu gróðurhús á Hvanneyri færir okkur þann titil nokkuð örugglega í hús. Ástæðan er líklega sú að engin önnur Evrópuþjóð eru nógu vitlaus til að stæra sig af svona dellu. En tengsl okkar við bananana og kjánalega vitleysuna endar ekki þar því það er líklegra en ekki að eftir helgi setjum við annað met, að þessu sinni raunverulegt heimsmet. Að öllum líkindum verðum við fyrsta þjóðin í heimi til að kjósa meðvitað yfir sig nákvæmlega sama bananalýðveldið sem verð henni eftirminnilega (eða hvað?) að falli fyrir ekki meira en 5 árum. Þetta hlýtur að teljast eins konar met enda standa erlendir stjónmálaskýrendur á gati og og botna ekkert í herlegheitunum. Það lítur því út fyrir að bananaframleiðsla Íslands eigi aðeins eftir að aukast næstu árin og því ekki seinna vænna en að æfa sig á bananabrauðsuppskrifum. Hér er því mitt innpútt.

bananabrauð1

Bananabrauð handa hræddri þjóð

3 mjög vel þroskaðir bananar

250 gr hveiti

2 tsk lyftidyft

125 gr smjör

150 gr hrásykur

1 dl hunang

2 egg

2 tsk kanill

1 msk kakó

1 lúka saxaðar möndlur

1 lúka hafrar

Ofninn í 180°. Þurrefnunum blandað saman. Sykurinn og smjörið þeytt saman. Eggin hrærð eins og svo þeytt saman við sykur og smjörblönduna. Bananarnir stappaðir og hrært rólega saman við sykur/smjör/eggjablönduna. Hveitiblandan hrærð rólega saman við og höfrum og möndlum bætt við í lokinn. Hellt í smurt ílangt brauðmót og bakað í 40-50 mínútur. Borið fram með kaffi og vandræðanlegri og skömmustulegri íslenskri þögn.

bananabrauð2

Read Full Post »

Núna fyrir helgi fór eiginkona mín elskuleg á vertíð. Til hliðar við myndlistina hefur hún   unnið fyrir sér sem flugfreyja og í síðustu viku bauðst henni verkefni sem við, fátækir námsmenn og allt það, gátum ekki sagt pass við. Ég verð því einn með börnin næstu vikurnar sem viðrist ekki passa inn í heimsmynd marga kunningja okkar. Það að ég, karlmaðurinn, skuli þurfa að sjá um börn og heimili á eigin spýtur, aleinn og óstuddur, einn með sjálfum mér, virðist verðskulda svipi og spurningar sem myndu aldrei nokkurn tíma vakna ef málum væri öfugt háttað. Ég, sem karlmaður, hef leyfi til að fara frá fjölskyldu minni á vertíð án þess að hika eða leiða hugann að því hvort að kona mín muni eiginlega geta þetta, hvort að hún kunni á þvottavélina, hvað þá geti vaknað með börnunum, skutlað og sótt í skóla, gefið að borða og svæft á sama tíma og hún væri á fullu í skóla, yrði að sækja mikilvæga fundi, sinna skyldum á opnunum og sækja leiklsitarhátíð og búa til eins og tvö listaverk. Í mínu tilfelli er nánast gefið að eitthvað muni fara úrskeðis en þvert á móti er gert ráð fyrir að kona mín myndi standast þessa áskorun, þolraun, hvað sem þetta er, með prýði, hæstu einkunn jafnvel og vel það. Og ef hún myndi svo mikið sem bogna þá myndi hún fá falleinkunn og sérlega slæma umsögn. Það er í raun bara ótrúlega flott hjá mér að ég hafi gefið henni leyfi til að fara.

Þessi tímabundna breyting á fjölskyndufyrirkomulaginu og viðbrögð annarra við henni staðfestir fyrir mér að kynjaímyndir samfélagsins eru langt frá því að vera nútímalegar, í raun mætti auðveldlega segja að þær séu skammarlega forneskjulegar. Það að ég hafi áhuga á matreiðslu, geti hugsað mér að sinna heimilinu með tiltölulega miklum áhuga, sjá um börnin án þess að vera beðinn um það, hvetja til tiltektar af fyrrabragði, prjóna peysu og vaska upp virðist kalla á hrós á meðan þetta væru kannski öllu sjálfsagðari verkefni fyrir eiginkonu mína. Sú hugsum okkar hjóna að það eigi að ríkja jafnrétt innan hjónabandsins, að málin séu rædd og ákveðin í sameiningu hefur jafnvel leitt til þess að við höfum þurft að taka það fram að ég sé ekki samkynhneigður, í með hæfulegri íróníu, til að mæta skilningi viðmælenda okkar og fá samþykki fyrir ónáttúru okkar.

Það er eins og við ríghöldum í úrsérgegnar og staðlaðar kynjaímyndir til að ná utan um takmarkaðan skilning okkar á samfélaginu og skynveröld okkar, þrátt fyrir að vera í orði öll af vilja gerð til að bæta stöðuna, jafna laun o.s.frv. En það er eins með þetta og pólitíkina, svo virðist vera að langtímaminnið sé ekkert og skólaganga okkar eftir því, þ.e. takmarkandi og heimalningsleg.

En það tjóir ekki að mögla stóð í sögubókinni í MR. Einhvern veginn þarf ég að bæta fyrir þessa tímabundnu fjarveru matarkonu. Þá er nærtækast að hugga sig með mat.  Á laugardaginn keypti ég í óðagoti lítinn bita af svínasíðu, sem virðist vera orðinn fastur liður þegar konan bregður sér af bæ, án puru, sæmilega feitan. Þá um kvöldið lagaði ég marineringu og lét síðuna liggja í henni, útflatta, þar til núna í dag en þá var hún fyllt og hægelduð og borinn fram með fennel og agúrkusalati og léttsteiktum gulrótum og glasi af rauðvíni til að róa taugarnar eftir annasaman dag á leikvöllum.

svínasíða grasekkils1

Svínasíða grasekkils

5oo gr svínasíða, útflött (butterfly-uð)

Marinering:

1 gott rauðvínsglas

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

2 msk balsamik edik

Börkur af hálfri sítrónu

2 lárviðarlauf

1 msk þurrkuð paprika

Óreganó

4-6 msk olía

Pipar

Fylling: 

4 þurrar brauðsneiðar, raspaðar

3 hvítlauksrif

1 væn lúka af basil, steinselju og óreganó, saxað fínt

Vel af olíu

Resti af sítrónuberkinum, fínt rifinn

Salt

Pipar

Marineringin blönduð og kjötið látið liggja í 6 – 12 tíma í ísskáp í plastíláti, poka eða boxi. Að þeim tíma liðnum er kjötið þerrað vel og hráefnunum í fyllinguna blandað vel saman og smurt yfir síðuna. Rúllað þétt upp og bundið saman í góða pulsu með spotta eða vír. Sett inn í 230°  heitan ofn í 15 mínútur. Hitinn lækkaður í 140° og eldað í 1 1/2 klukkustund til viðbótar. Látið standa undir álpappir í 20-30 mínútur og meðlæti og sósa útbúið á meðan. Í mínu tilfelli einfalt fennel og gúrkusalat með myntu og léttsoðnar og steiktar gulrætur.

svínasíða grasekkils2

Framtíðin

Read Full Post »

tvöbrauð3

Af einhverjum ástæðum hef ég vanið mig á að baka brauð úr nánast öllu öðru en venjulegu hvítu hveiti. Líklega hefur slæmt orðspor hins hvíta og sterílíseraða hveitis sem stíflumyndandi og slenhvetjandi ólyfs haft eitthvað með málið að gera. Kannski var ég að leita að flóknari bragðtónum sem finna má í blöndu af spelti, byggi, hveilhveiti og rúgmjöli. Ljóst er að úrvalið af korntegundum eða mismunandi hveitiyrkjum er ansi takmarkað á Íslandi. Rautt, blátt eða grænt. Rúgmjölið brúnt. Svo er kannski hægt að ná sér í Solluspelt í Bónus og ef maður er heppinn, og á nóg af peningum, þá má finna gullmola í lífrænu búðunum. Af hverju lífrænt hveiti er svona dýrt get ég ekki alveg skilið því hér í Berlín kostar kílóið í mesta lagi 2 evrur, eða 320 kall, sem er ansi langt frá þúsundkallinum heima á Íslandi.

Gallinn við brauð sem innihalda takmarkað magn af hvítu hveiti er að þau líta hreinlega ekki eins vel út, eru jafnvel ljót. Þau eru þéttari í sér, loftminni og ekki eins tignarleg. Og þó svo að bragðið sé oft á tíðum betra, dýpra og flóknara þá langar mann stundum bara að búa til brauð sem er nánast eins og listaverk í sjálfu sér, fagurgyllt, slétt og fullkomið, loftmikið og teygjanlegt með örlítilli sætu.

Um daginn ákvað ég að bregða út af vananum og baka súrdeigsbrauð úr 100% hvítu hveiti. Þessi ákvörðun var hins vegar ekki einföldum á lífi mínu því að í rekkanum í lífrænu búðinni voru að minnsta kosti 4 ólík hveitiyrki og 5-6 mismunandi styrkleikar eftir glútenmagni og mölun. Eftir töluverðar vangaveltur ákvað ég að velja hveititýpu sem var með háu prótín og glútenmagni en um leið ein nálægt heilhveiti og hægt er án þess að innihalda allt kornið með hismi, klíð og kjarna. Steinmalað í þokkabót. Þetta hveiti er merkt með tölunni 1050 hér ytra. Nánari upplýsingar um skalann er hægt að finna t.d. hér.

Að meðhöndla og hnoða deig úr 100% hveiti er töluvert auðveldara en þegar öðrum mjöltegundum er blandað óhóflega saman við. Allt í einu helst allt vel saman, degið verður teygjanlegt og lætur vel að stjórn. Hefunin tók skemmri tíma og glútenið gerði það að verkum að það varð sterkt en létt og það lyfti sé vel í ofninum. Þegar brauðið var tilbúið blasti við mér roðagyllt og fallegt, vel mótað brauð, ekki langt frá franskri klisju. Af þvi að ég notaði semi gróft hveiti varð brauðið því alls ekki hvítt heldur ljós dökkt og með vægum hnetukeim.

tvöbrauð1

Stuttu seinna ákvað ég að gera annað brauð og nota aftur sama hveitið en í þetta skiptið bætti ég við smá rúgmjöli og með því held ég að ég hafi komist nálægt hinu fullkomna brauði. Rúgmjölið (vollkorn, hér er einnig hægt að fá mismunandi malað og sigtað rúgmjöl, ekki bara brúnt) bætti við þéttum, grófum tónum, gerði skorpuna örlítið karamelíseraða á meðan hveitið ýtti undir léttleikan. Ef það eru ein brauðuppskrift sem þið ættuð að fara eftir þá er það þessi.

Eðal súrdeigsbrauð

Soppa:

200 gr sterk hveiti

50 gr gróft rúgmjöl

300 ml volgt vatn

1 dl súr

Öllu hrært vel saman í stórri skál. Plastfilma sett yfir og látið standi í minnst 8 klukkutíma eða yfir nótt.

Brauð:

Soppan

200 gr hveiti

50 gr rúgmjöl

1 tsk salt

Hveiti og rúgmjöli blandað vel saman við soppuna og hrært vel. Þá er saltinu bætt við og hrært þar til degið verður meðhöndlanlegt. Sett á borð og hnoðað í 10 mínútur eða þegar það er orðið létt, slétt og loðir hvorki við hendur eða borð. Mótað í kúlu , sett í skál og látið hefast undir plasti þar til það hefur tvöfladast, 1-3 tíma. Slegið niður, mótað í kúlu og látið hefast aftur þar til það hefur tvöfaldast. Slegið aftur niður og nú mótað í þétta kúlu og látið á hvolf í skál með mjög vel hveitistráðu viskastykki. Látið degið tvöfaldast. Hálftíma fyrir bökun er ofninn stylltur í 250 gráður (eða meira ef hægt er). Hægt er að baka brauðið á pizzasteini sem þarf þá að fara inn um leið og kveikt er á ofninum. Ég notaði hins vegar lítinn steikarpott með loki sem ég hitaði í 10 áður en ég setti brauðið inn. Ég setti brauðið með snöggum en öruggum handtökum í pottinn, skar rákir í það, lokið á og inn í ofn. Bakað í 15-20 mínútur. Þá er lokið tekið af og hitinn lækkaður í 220° og bakað áfram þar til það er skorpan er gullin og falleg. Látið standa í amk 30 mínútur áður en það er skorið.

tvöbrauð2

Read Full Post »

Þá er komið vor. Það þarf að fara ansi langt aftur í tímann til að finna sambærilegt og jafn viðvarandi hret. Viðtöl tekin við gamalt fólk sem segist ekkert muna og tekist hefur að útrýma vandræðanlegum þögnum því alltaf var hægt að tala um bölvaðan kuldann og ódrepandi. En ekki lengur. Hitinn rétt skriðinn yfir 5 gráðurnar, öllum sama um hvað gamlingjunum finnst um það, þagnir aftur orðnar þrúgandi og fólk gengur um sólheimabrosandi.

Bráðum verða grillin tekin fram og almenningsgarðarnir, þar sem enn má grilla, fyllast af pylsureyk. Hér grilla menn yfir kolum eða við en láta gasið eiga sig, nóg um það heimafyrir. En ég veit hins vegar fyrir víst að grillsísonið byrjar af krafti upp úr miðjum febrúar á gamla Íslandi og var ég því farinn að iða í skinninu og kominn með grillverki í puttana í byrjun mars. Um helgina gat ég hreinlega ekki setið á mér og bjó til svívirðilega klístraða og djúíi bbq kjúklingavængi. Ég sat hins vegar á mér og grillaði þá ekki heldur lét ofninn duga í þetta skiptið. Leikurinn verður hins vegar endurtekinn í sumar og þá verða vængirnir kláraðir á grillinu, í steikjandi hita, út við eitthvert vatnið.

BBQ kjúklingavængir

5 vængir, hlutaðir niður í 10 bita (kjuða og væng)

2 msk hunang

2 tsk möluð, þurrkuð og reykt paprika

2 msk tómatmauk

2 msk balsamikedik

5 hvítlauksrif, söxuð

2 lárviðarlauf

2 tsk þurrkað óreganó

Rifinn börkur af 1 sítrónu

2-4 negulnaglar

1/2 tsk þurrkað engifer

1 tsk þurrkað chili

4-5 msk olía

Pipar

Salt (bætt við rétt fyrir eldun)

Öllu blandað vel saman, nema salti, og kjúklingurinn látinn marinerast yfir nótt í plastboxi eða ziplock poka, jafnvel í heilan sólarhring. Ofninn hitaður í 180° og kjúklingurinn bakaður undir loki eða álpappír í um klukkutíma. Ef ekki er grill til staðar þá er lokið tekið af og hitinn hækkaður upp í 230° og bakað áfram þar til sósan verður vel klístruð og vængirnir farnir að brúnast. Betra er hins vegar að klára vængina á grillinu þar til þeir verða dökkir og flottir, helst yfir viði því þá kemur reykjarbragðið best fram. Hér var steikt pólenta og rúkóla haft með. Og ljóst öl.

bbqchickenwings

Ef lesendum, sem ekki búa svo vel að geta nálgast frjálsan eða lífrænan kjúlking, finnst ekki fýsilegt að grilla kjúkling eftir síðasta pistil þá get ég hæglega mælt með að skipta honum út fyrir lambarifjur eða kótelettur. Eða svínarifjur frá Miðskeri.

Read Full Post »

Um þessar mundir kveðast kjúklinga og svínabændur á við ýmiss öfl samfélagsins sem berjast fyrir lækkuðu vöruverði og sanngirni, heiðarleika og gagnsæi, almannahagsmunun, skjaldborginni, hagvexti og hagsæld, íslensku starfsfólki, útlenskum pulsum og gegn tollum og öllu öðru sem gæti truflað óheft viðskipti og aukinn gróða. Út frá þessari romsu mætti ætla að skoðun mín sé nokkuð skýr á þessu máli, að ég sé hreinlega á móti góðu gaurunum sem vilja að Jón og Gunna geti keypt sér kjúkling á sómasamlegu verði eða hægt sé að gæða sér á ógerilsneyddum vel þroskuðum Roquefort sem ekki kostar annan handlegginn og bæði nýrum, og að ég hafi barnslega trú á góðmennsku saklausra bænda sem marsera í takt við sína eigin passíusálma. Ég segi nei, aldeilis ekki. Mér finnst þessi kveðskapur beggja aðilla lítið annað hágæða leirburður, ofstuðlaður og myndmálið klént.

Uppspretta rifrildisins eru yfirlýsingar tengdar gjörniningi Melabúðarinnar og Samtaka verslunar og þjónustu þar sem boðið var upp á vörur á stórlækkuðu verði, eins og það myndi vera ef kjósendur í vor myndu nú aulast til að krossa við réttan flokk og ýmsir tollar og gjöld yrðu afnumin og reglum breytt lítillega. Íslenskum svína og kjúklingabúum var í kjölfarið líkt við iðnaðarverksmiðjur sem ættu ekkert skylt við heðfbundin landbúnað, hvað svo sem það er, og Samtök verslunar og þjónustu bæta við að þar séu útlenskir fuglar nærðir á útlensku fóðri af útlensku starfsfólki, sem sé þjóðhagslega óhagstætt og réttast væri að flytja kjötið inn erlendis frá barasta. Við það eitt lækkar verð á kjúllanum um 30-40 prósent.

Bændur móðgast og þverneita að búskapur þeirra eigi nokkuð skylt við verksmiðjur, þrátt fyrr að 2 fyrirtæki stjórni 95% kjúklingamarkaðarins t.d., og vilja meina að kjötið þeirra sé ekki bara framleitt við bestu mögulegu aðstæður heldur sé það einnig í allra hæsta gæðaflokki, m.ö.o. best í heimi. Kjúklinga og svínabændur eru allir af vilja gerðir til að lækka verð en eru ekki tilbúnir að fórna gæðum og hreinleika vörunnar fyrir vikið. Skiljanlega.

En að mínu mati eru hér báðir aðilar á miklum villigötum, þröngur kindastígurinn sem þeir hlaupa eftir leiðir ekkert og hverfur út í endaleysuna. Kaupmenn vilja meiri pening. Verksmiðjubændurnir vilja líka meiri pening. Og neytendur líka. Hér er enginn að tala um gæði vörunnar, svo mikið er víst.

Ef kaupmenn vilja flytja inn hrátt kjöt sem er ódýrara en það sem er framleitt heima þá eru þeir að biðja um leyfi til að selja kjöt sem er í svo lágum gæðaflokki að það er hreinlega mannskemmandi og ýtir undir stórkostlega misnotkun á auðlindum jarðarinnar t.d. gríðarlega óhagkvæma notkun á ræktarlandi og óendurnýtanlegum orkugjöfum. Gengið er harkalega nærri regnskógum Suður Ameríku til að ryðja fyrir erfabreyttum soya og maís sem er svo fluttur til Evrópu og þar breytt í fóður fyrir  nautgripi (og önnur dýr), sem geta ekki melt soya eða maís og þurfa því merkilega flókinn lyfjakokteil til að halda þeim standandi, í gríðarlega stórum og mengandi drullupollum. Slátrað, pakkað og sent um allan heim og selt á skít og kanil. Verði okkur bara að góðu. Kjúklingur sem alinn er við svipaðar aðstæður, þar sem kostnaði er haldið í lágmarki til að hámarka gróða, kostar hér í Berlín 4-5 evrur (um 1000 kallinn). Lífrænn kjúklingur er hins vegar alinn við allt aðrar aðstæður, færri fuglar í búi, fær að fara út að vild, aðeins lífrænt fæði og lítið um lyf og kostar því töluvert meira eða um 20-25 evrur ( eða um 4000 kall). Ég geri fastlega ráð fyrir því að kaupmenn eru ekki að tala um þann fugl þegar þeir vilja bjóða neytendum upp á ódýrari vöru og sennilega ekki heldur frjálsan kjúkling (free range) sem kostar um 2000 kall því hann er einnig dýrari en kjúklingurinn í Bónus. Kaupmenn eru að berjast fyrir því að mega flytja inn eitt það ógeðfeldasta og ódýrasta kjöt sem framleitt er í heiminum. Svo miklir eru almannahgasmunirnir.

Það er ekki þar með sagt að verksmiðjubændurnir á Íslandi séu svarið því aðstæðurnar í þeim búum, sem vissulega eru ekkert annað en verksmiðjur, eru mjög sambærilegar verksmiðjubúum úti í hinum stóra heimi. 19 fulgar á fermeter, lyfjakokteilar, mais og soya, ekkert dagsljós o.s.frv. Salmonella, sem ekki þekktist í kjúklingabúum fyrir 1995, grasserar við ónáttúrulegar aðstæðurnar og bakteríuflóruna og síðast í gær var frétt í útvarpinu þar sem kjúklingaframleiðandi var að væla yfir því að fá ekki að selja samlmónellusýkt kjöt til neytenda. Hrein íslensk  gæðavara, best í heimi.

Þessi umræða um lækkað vöruverð er að mínu mati á kolvitlausri braut. Kjöt er dýrt og við ættum öll að borða miklu miklu miklu minna af kjóti. Íslendingar borða einhvers staðar á milli 60 – 100 kíló af kjöti á ári á mann. Ameríkani borðar 123 kíló, Breti 83 og Hollendingar 67. Indverjinn borðar hins vegar 5 kíló á ári. 50% allrar kjötframleiðslu er hent í ruslið. Kjötframleiðsla er lang lang orkufrekasti landbúnaður heims og einnig mjög mengandi og landfrekur. Það þarf minnst 5000 lítra af vatni til að búa til eitt kíló af kjöti, mest 100.000 lítra. Kíló af hveiti þarfnast hins vegar 500 – 4.000 lítra af vatni.

Réttara væri að skoða hvernig hægt er að lækka kostnað við innlenda matvælaframleiðslu, eins og t.d. lækka raforkuverð til grænmetisbænda og ýta undir frumkvæði minni kjötframleiðenda sem selja beint frá býli og fá þannig meiri pening í vasann og við fáum betra og ódýrara kjöt. Einnig er nauðsynlegt að endurskoða hvernig hægt er að minnka rusl í matvælaframleiðslu en við Íslendingar hendum mat í ruslið fyrir meira en 30 milljarða á ári. Þar hlýtur að vera hægt að gera betur, t.d. afnema fáránlegar útlitskröfur, endurskoða best fyrir stympilinn og nýta afganga meðal annars í fóður eins og gert er í Japan eða Suður Kóreu og spara þar með helling í innfluttningi.

Að flytja inn ódýrasta kjötið á markaðinum er engin lausn heldur er bara verið að ýta undir stærsta vandamál nútímamatvælaframleiðslu sem er framleiðsla á rusli og mengun á kostnað náttúrunnar og okkar.

Þar hafiði það.

Read Full Post »

Veikindi yfir páska

Ég var ekki beint sá hressasti yfir páskana. Magakveisa hertók heimilið og lágum við feðgarnir í fletum okkar, lystarlausir. Matur og tengd málefni voru því ekki beint ofarlega í huga. Samt sam áður reyndi að lesa Landvætti eftir Ófeig Sigurðsson. Fyrstu síðurnar fjalla um lítið annað en lífið í sláturúsi og hinar ýmsu afurðir sem hægt er að hnoða saman úr svínakjöti. Þó að hún hafi lofað góðu lagði hana til hliðar í eftir nokkrar síður.

Ég hef ekki mikið skirfað inn á þennan miðil undanfarið, ekki bara vegna kveisunnar, heldur einnig vegna ferðar til Kaupmannahafnar. Þar fengum við m.a. íslensk páskaegg og virkilega gott lambalæri sem færði okkur íslenskt sveitasumar í hrollkaldan veruleika Mið Evrópu. Hinn endalausi vetur með snjó og slyddu og skítakulda og hundleiðindum ætar aldrei að hætta en dagdraumar um hið rómantíska og endalausa íslenska blíðviðri gera manni lífið auðveldara. Ekki það að veðrið á Íslandi sem alltaf svo frábært í raunveruleikanum.

Þó að kveisan hafi frekar ýtt undir lystarleysi en hitt þá verður maður nú samt að borða. Ég gerði heiðarlega tilraun til að borða páskamatinn, fyllta marókóska lambasíðu, og gekk það ágætlega. Í upphafi veikindanna gerði ég hins vegar mjög góðan kjúklingarétt. Ég er ennþá í kássubanni, það eru nú einu sinni vor. Ég sá hins vegar uppskrift hjá Nigel Slater sem dansar á mörkum þess að vera vor sumar eða haustleg. Kjúklingur með heilu hveiti og dilli í bragðgóðum krafti. Virkilega einfalt, virkilega gott.

Kjúklingur, hveiti, kraftur, dill.

Hálfur kjúklingur

350 gr heilt hveiti (eða bygg eða spelt)

400 ml kraftur, heitur

1 sítróna

Góður vöndur af dilli

Smjör

Olía

Salt og pipar

Hveitið skolað vel og soðið þar til það er ekki alveg full soðið, svolítið hart undir tönn. Hellt í sigti og lagt til hliðar.

Ofninn í 200°. Kjúklingurinn skorinn í bita, salt og pipar yfir og hann brúnaður í blöndu af smjöri og olíu í potti eða fati sem hægt er að loka og má fara inn í ofn. Þegar kjúklingurinn hefur verið brúnaður á báðum hliðum er kraftinum bætt við ásamt hveitinu og sítrónusafanum og sítrónunni sjáfri. Lok sett og og látið malla inn í ofni í 45 mínútur. Þá er dillið saxað og bætt út í og eldað áfram í 15 mínútur. Vatn og gott brauð með.

kjúklingurhveitidill

Read Full Post »