Feeds:
Athugasemdir

Archive for mars, 2013

Yljandi

Það er ennþá snjór. Það er ennþá kalt. En sólin brýst stundum í gegnum skýjin svona rétt til að staðfesta að vorið eigi að vera komið, fyrir löngu helst, og við það breytist litapaletta borgarinnar úr gráum tónum yfir í pastel. En þrátt fyrir litbrigðu sólargeislanna er skítkalt. Þörf er því á einhverju sem yljar manni en minnir um leið á komandi vor og sumar. Ég neita hins vegar að staðfesta endanlega tilvist þessa leiðindaveðurs, þó að það sé fallegt, og búa til kássu. Sá tími ársins er einfaldlega liðinn. Ég brá þá á það ráð að gera risotto sem getur að mínu mati verið einstaklega upplífgandi og hressandi meðal við kuldatíðinni. Til að gera remediuna ennþá meira hjartastyrkjandi grillaði ég tvær paprikur þar til að þær urðu dísaætar og sumarlegar og minntu á lítið annað en hitamollu og sólgleraugu. Úr varð eitt besta risotto sem ég hef gert og þó að ég hafi vaknað daginn eftir við sama frostið og snjóinn þá hélt ég mér alveg réttu megin við línuna, að minnsta kosti fram að hádegi.

Risotto með grilluðum paprikum

200-250 gr risottogrjón

kraftur (ca 750 ml)

1 laukur

1 sellerístilkur

2 paprikur

Óregano

1 lúka parmeggiano

Smjör

Olía

Salt og pipar

Ofninn í 210°. Paprikurnar fræhreinsaðar og skornar í strimla, ca 1 cm breiða. Strimlarnir settir í skál, saltaðir og pipraðir og vænri skvettu af olíu helt yfir. Vellt saman og dreift í ofnskúffu þannig að strimlarnir sé í einu lagi, ekki ofan á hvor öðrum. Bakað í ofninum í ca40-50 mínútur eða þar til paprikurnar eru aðeins farnar að dökkna.

Laukrinn saxaður og steiktur upp úr góðri smjörklípu í nokkrara mínútur. Selleríið saxað fínt og bætt við, steikt áfram í nokkrar mínútur. Hrísgrjónunum og kryddi hrært saman við og steikt rólega áfram í 2-3 mínútur eða þar til grjónin fara að steikjast. Þá er krafti hellt út á þannig að það rétt fljóti yfir grjónin. Krafturinn soðinn rólega niður þar til hrísgrjónin hafa drukkið hann nánst allan í sig. Meiri krafti bætt út á þannig að hann rétt fljóti yfir. Soðið niður aftur. Þetta er endurtekið þar til grjónin eru tilbúin og eru al dente, eða með örlitlu biti í sér. Paprikunum hrært saman við ásamt mjög vel af parmeggiano. Saltað og piprað ef þarf og borið fram með rauðu eða hvítu.

paprikurisotto

Read Full Post »

Sumir dagar

Ef litið er til hins stórkostlega lýðræðislega viðmiðs, meðaltalsins, gengur lífið sinn vana gang eins og ekkert hafi í skorist, hver dagur líkur öðrum með ofurlitlum tilbreytingum. Sveiflur, öfgar og jaðrar eru skornir af. Undantekningar eru storkaðar út til þess að sína hvernig venjan er, hvernig flestir dagar eru, hvernig flest fólk hagar sér og hvernig flestir ættu jafnvel að haga sér. Meðaltalið er í besta falli vafasamt fyrirbæri.

Dagurinn í dag gekk sinn vana gang miðað við aðra daga lífsheildarinnar samkvæmt meðaltalinu. En þessi dagur hefði einmitt verið storkaður út af stærðfræilegri nákvæmni ef ekki væri fyrir raunveruleikann, hann var örðuvísi, langt út á jaðri dagatalsins og var nánast á hvolfi. Yfirleitt er það nú þannig að börnin vakna ofurlítíð öfug um helgar þegar rútínunni sleppir. Það er allt gott og blessað því sjaldan gerist það að foreldrarnir mæti álíka öfugsnúin að morgunverðaborðinu. Lifið er hins vegar svo óútreiknanlegt og óhentugt fyrir formalisma meðaltalsins að slíkt hendir. Matseðill dagsins var til að mynda eftirfarandi: Hálf kornfleksskál í morgunmat, poppkex með osti, nammi að því loknu (af því að það er laugardagur og foreldrarnir ekki með tímasetningar á hreinu), pitsa í hádegismat (reyndar heimagerð frá því í gær og úr spelti), epli, franskar á markaðnum klukkan hálf fimm og svo gulrótarkaka í kvöldmat upp úr sex. Ég get ekki annað sagt að ég fagni lýðræðinu á þessari stundu og þakki fyrir að dagar eins og þessi verði strokaðir út og lífið haldi áfram að sigla sinn lygna meðaltalssjó. En djöfull var bjórinn með frönskunum góður og það var kannski ekkert svo slæm hugmynd að hafa köku í kvöldmat. Góð var hún. Ég held ég klári daginn bara með góðu rauðvínsglasi…og meira nammi. Þá sjaldan…

gulrótarkakakvöld2

Gulrótarkaka að kvöldi

250 gr mjöl (spelt hér á bæ)

1 tsk natrón

2 tsk lyftiduft

100 gr hrásykur

150 gr rifnar gulrætur

150 gr smjör

2 stór egg

2 tsk kanill

Örlítið salt

50 gr saxaðar möndlur

1 dl mjólk

Mjöl, sykur, lyfirduft og natrón, gulrætur, kanill, möndlur og salt hrært saman í skál. Smjörið brætt rólega og sett í aðra minni skál. Látið kólna aðeins. Eggin brotin út smjörið og þeytt aðeins. Hellt saman við mjölblönduna ásamt mjólkinni og hrært þar til degið verður kekkjalaust. Hellt yfir í smurt mót og bakað í 50-60 mínútur við 165° eða þar til prjón, sem stungið er í, kemur hreinn út. Látin kólna. Krem: 3/4 dl flórsykur á móti 15o gr sýrðum rjóma og smá sítrónusafi hrært saman. Kreminu smurt á. Borðað að kvöldi til, helst í staðinn fyrir staðgóða fjölskyldumáltið.

gulrótarkakakvöld

Read Full Post »

Mislukkan

Stundum er málunum bara þannig háttað að þau þróast í kolranga átt. Í gær var ég að vesenast með súrdeig og leit allt út fyrir að útkoman yrði ágætisbrauð. Ég setti í soppu kvöldið áður og lét degið hefast nokkrum sinnum yfir daginn, eins og ég hef gert áður með góðum árangri. En eitthvað klikkaði. Ég held að hlutföllin milli vatns og mjöls hafi skolast eitthvað til því það var fullkomlega ómögulegt að meðhöndla deigið. Þar að auki hlýt ég að hafa leyft hefuninni að vara aðeins og lengi sem gerði það að verkum að súrinn át alla sterkjuna og gat því ekki unnið meira á deginu. Svo gleymdi ég að salta. Ég náði að móta smá bút úr deiginu og setja í mót, aðallega til að henda ekki öllu saman í grenjandi pirringi. Deigið lyfti sér aðeins í mótinu en lítið sem ekkert í ofninum. Hið endanlega brauð er svo sem alveg ætt, svolítið bragðslaust og engan veginn instagramvænt. Ég setti því flassið á myndavélina svona til að undirstrika vonleysið. Svona er raunveruleikinn, hrár og ósaltaður.

Kveðja

Hinn mannlegi matarkarl

mislukkaðbrauð

Read Full Post »