Feeds:
Athugasemdir

Archive for febrúar, 2013

Það skýtur kannski skökku við að byrgja sig upp af jarðaberjum um miðjan vetur, sérstaklega í ljósi þess að ég vil leggja áherslu á árstíðabundið og ferskt hráefni. En slíkt er nú einu sinni eðli  hnattvæðingarinnar að hún leitast við að má út náttúrulegar sveiflur og láta líta út fyrir að þær hafi ekkert með mannskepnuna að gera. Jarðaber tengjst nú hrollköldum febrúarmánuði mun frekar en hlýjum, sólríkum júlídögum einfaldlega vegna þess að þð virðast sjálfsögð mannréttindi að ástleitin pör geti fengið sér jarðaber á sjálfum degi ástarinnar, valentínusardeginum. Það er nákvæmlega ekkert sexí við það að kúra saman fyrir framan arininn og narta í þurrar rúsínur eða gömul epli eða harðfisk.

Nauðsyn þess að fá jarðaber á valentínusardaginn gerir það að verkum að það er framleitt allt, allt of mikið af þeim. Heilu brettastæðunum af aðeins of þroskuðum jarðaberjum er því hent. En kaupmennirnir á tyrkneska markaðnum í Kreuzberg láta ekki gott tækifæri úr greipum sleppa og kaupa oft afgangs matvæli og selja á gríðarlega góðu verði. Í gær voru til að mynda 5 öskjur, um 1,3 kíló, af jarðaberjum á 1 evru. 170 krónur. Þó að hluti berjanna hafi verið vel þroskuð (ekkert myglað þó, heldur djúprauð og djúsí) gátum við ekki staðist þessa freistingu amors í líki ávaxtar. Við sáum fyrir okkur tertur, sultur, compot og ís og allt í einu var komið sumar þrátt fyrir skítakuldann. Reyndar rákum við líka augun í kassa af mangó á 3 evrur en chutneyið verður að bíða betri tíma, kannski í næstu viku.

Þegar heim var komið varð niðustaðan að búa til slatta af mjög decadent jarðaberjarjómaís, sykurlausa sultu fyrir grautinn og auðvitað að dýfa bestu berjunum ofan í brætt súkkulaði til heiðurs ástinni.

jarðaber3

Jarðaberjarjómaís

400 ml rjómi

400 ml lífræn mjólk

4 eggjarauður

1 vanillustöng

100 gr hrásykur

750 gr jarðaber

Safi úr hálfri sítrónu

Rjóminn og mjólkin hituð mjög rólega í potti. Vanillustöngin skorin í tvennt og fræin skafin úr. Fræ og belgur sett í pottinn með rjómablöndunni. Eggjarauðurnar þeyttar saman við sykurinn þangað til að blandan er ljós og létt. Þegar rjómablandan er í þann veginn að sjóða er hún tekin af hitanum og hellt í gegnum sigti. Heitri rjómablöndunni er svo þeytt varlega saman við eggin. Sett aftur í pott og hitað rólega á lágum hita þar til blandan fer að þykkna aðeins. Mjög mikilvægt að hræra allan tímann og passa að blandan sjóði ekki því þá hlaupa eggin og allt fer í skrall. Blandan er tilbúin þegar hún þekur bak trésleifar með fallegri slykju. Hellt í skál í gegnum sigti og látið kólna. Hrært af og til. Jarðaberin skoluð og sett í skál með smá meiri sykri. Þau eru svo kramin í sósu með höndunum, eða bara sett í matvinnsluvél og maukað. Hægt er að hella þessu í gegnum sigti til að losna við fræin en ég nennti því ekki. Sett í pott og soðið aðeins niður til að dýpka bragðið þar til sósan verður djúprauð. Látið kólna og hrært svo saman við rjómablönduna. Sett í box og fryst í sólarhring. Gott að taka ísinn út nokkrum sinnum og hræra upp í honum til að gera áferðina mýkri.

jarðaber2

Sykurlaus jarðaberjasulta (Nóg í eina góða krukku)

250 gr jarðaber

1 msk agavesýróp eða hunang

Safi úr 1/4 úr sítrónu

Jarðaberin maukuð. Sýrópinu hrært saman við. Látið sjóða í 10 -15 mínútur. Sítrónusafa bætt út í. Smakkað til. Sett í sterílíseraða krukku og inn í ísskáp. Geymst ekkert sérstaklega lengi, kannski í mánuð, mesta lagi í tvo. Gott á grautinn.

jarðaber1

Súkkulaðihúðuð jarðaber

Ber

Súkkulaði

Myntulauf

Súkkulaði brætt. Berum dýft ofan í. Lögð á myntulauf. Kælt. Ísbjarnarskinn og arinn og málið er dautt.

Read Full Post »

Afgangar II

Í gær var pitsa. Á þessum bæ er hún oftar en ekki heimabökuð og þar sem ég el súr, og þar með sömuleiðis plebbaskap, um þessar mundir fannst mér réttast að búa til súrdeigspitsu. Ég geri nánast alltaf of mikið deig og yfirleitt fer það í frystinn og er geymt þar til næst. En núna ákvað ég að gera eitthvað annað og skellti afgangsdeginu bara inn í ísskápinn yfir nóttina. Í morgun sá ég svo að ekki var nóg deig til að gera brauð eins og ég hafði ætlað og brá ég þá á það ráð að gera nokkrar bollur. Ég átti smá pecorinorönd inn í ísskáp sem ég ákvað að nýta líka og niðurstaðan var því að gera ostabollur eða snúða öllu heldur. Útkoman voru 4 brakandi ostabombur með stökkri skorpu og furðu léttar miðað við að vera súrdeigs. Þessi leikur verður endurtekinn við fyrsta tækifæri.

ostabollur1

Ostabollur úr afgöngum

Afgangsdeig

Smá pecorino eða parmeggiano

Olía

Deigið flatt út í ferning, ca 5 mm þykkt. Smá olíu nuddað yfir og osturinn rifinn yfir allt saman. Brotið saman inn að miðju, í þriðjungum, og þrýst létt saman. Brotið nokkrum sinnum saman til að búa til eins mörg lög af osti og degi og hægt er eða vilji er fyrir. Rúllað í pulsu á þykkt við hrossabjúgu, skorið í bollur eða snúða og látið hefast þar til degið hefur tvöfaldast. Bakað í 250° heitum ofni í 10-15. Smjör með.

ostabollur2

Spiderman og vefurinn

Read Full Post »

Ristað brauð

Hin lítiláta og einfalda ristaða brauðsneið er líklega sá réttur sem nýtur einna mestu vinsælda í heiminum dag. Um 80 % Breta borða fá sér ristað brauð í morgunmat og hlýtur það að vera einhvers konar met. Sjálfur fæ ég mér yfirleitt hafragraut en þegar börnin vekja mann upp úr klukkan 6 þá get ég vel hugsað mér að hverfa inn í brakandi draumaheim hinnar vel ristuðu brauðsneiðar. Vinsælasta áleggið er án ef smjör og ostur en einfaldleiki réttarins heimilar alls kyns misstórkostlegar samsettningar. Þeirra frægust er sennilega útgáfa rokkkóngsins Elvis Presley.

Fyrir…

Elvis var matmaður mikill og honum þótti gott að borða og borðaði iðulega mikið. Það má segja að hann hafi verið eins konar sérsfræðingur í að setja saman á einn disk fitu, prótín, sykur og kolvetni í slíku magni að mann svimar af tilhugsuninni einni saman. Eins og flestum fannst Elvis gott að byrja daginn á ristuðu brauði en hans útgáfa var nokkurn veginn svona: 250 gr smjör brætt á pönnu. Rúmlega 1 cm þykkt lag af hnetusmjöri smurt á tvær fransbrauðsneiðar. 1 banani skorinn í sneiðar og raðað hæfilega smekklega yfir hnetusmjörið. Brauðsneiðarnar lagðar saman og steiktar upp úr smjörinu þar til þær verða crispy and golden. Samlokan sett á disk og óhóflegu magni af flórsyrki stráð yfir og jafnvel hlynsýrópi ef hann var í stuði, sem var alltaf.

Eftir

Ég tók meðvitaða ákvörðun af fara ekki sömu leið og kóngurinn, hann fannst jú látinn stijandi á klósetti. En þar sem börnin voru einstaklega hress og barbarísk í morgun var ljóst að ég yrði að fá almennilegt en mjög sívíliserað kikk inn í daginn. Ég skar því þykka sneið af spelt súrdeigsbrauði og ristaði vel. Skar svo lítið hvítlauksrif í helming og strauk nokkrum sinnum yfir. Því næst nuddaði ég og kramdi hálfan tómat í brauðsneiðina. Pecorino, salt og pipar yfir og smá valhnetuolía í lokinn. Kaffi og Best of Elvis með.

Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í flóknum einfaldleika hinnar rétt ristuðu brauðsneiðar má benda á eftirfarandi leiðbeiningar frá wikipedia um notkun og virkni brauðristarinnar:

‘In a modern kitchen, the usual method of toasting bread is by the use of a toaster, an electrical appliance made for that purpose. To use a modern toaster, sliced bread is placed into the narrow slots on the top of the toaster, the toaster is tuned to the correct setting (some may have more elaborate settings than others) and a lever on the front is pushed down. The toast is ready when the lever pops up along with the toast. If the bread is insufficiently toasted, the lever can be pressed down again.’

Schönen guten Tag noch.

Read Full Post »

Risotto

Ég tel mig hafa náð ágætum tökum á risottoinu og það útskýrir kannski vilja minn til að búa það til aftur og aftur. Þessi endurtekningarþrá hefur einnig líklega eitthvað með það að gera hversu ótrúlega auðvelt er að aðlaga það að því hráefni sem er í boði hverju sinni án þess að klúðra bragðinu. Reyndar freisaðist ég einu sinni til að nota svört hrísgrjón sem ég kunni ekkert á og varð útkoman bæði ljót og óæt. Eftir það nota ég að nota eingöngu risottogrjón, Arborio þá helst, sem eru stutt og feit og innihalda mikla sterkju sem sýgur í sig bragðið frá kraftinum. Reyndar komst ég að því að grautarhrisgrjón sem fást sumstaðar búa yfir sömu eiginleikum en eru þrefalt ódýrari.

Ég ákvað að hafa risotto í matinn eftir að hafa horft á nokkra þætti af Masterchef í röð. Ég horfi ennþá á ensku þættina. Ég er ekki svo langt leiddur í leiðindum að ég nenni að horfa á Gordon Ramsey segja fólki að fokka sér og ég bý heldur ekki svo vel að því að hafa Stöð 2 hér ytra til að fylgjast með íslenska Masterchef. Sá hins vegar að listarmaðurinn Gunnar Helgi hafi unnið og fagna ég því að sjálfsögðu. En ég get mælt með ensku þáttunum fyrir fólk sem vill sjá metnaðarfulla áhuga og atvinnukokka spreyta sig og dómara sem vilja á þátttakendur standi sig í alvörunni vel.

En í kvöld var það risotto með rækjum, kirsuberjatómötum og rúkóla.

Risotto með rækjum, kirsuberjatómötum og rúkóla

Risottogrjón fyrir 3-4 (250-350 gr eftir svengd)

250 rækjur, við stofuhita

2 skallotlaukar

1 sellerístilkur

1 glas hvítvín

Fiskikraftur (ca 750 ml)

2 hvítlauksgeirar

200 gr kirsuberjatómatar

1 væn lúka af rúkóla

Börkur af einni sítrónu, safi úr helmingnum

1 gott búnt af ferskri steinselju

1 tsk timian

50 gr parmeggiano

Olía

Smjör

Salt og pipar

Laukurinn og selleríið saxað fínt og steikt upp úr blöndu af olíu og smjöri í nokkrar mínútur. Timianiu bætt út á ásamt söxuðum steinseljustilkunum. Hrísgrjónunum bætt út á pönnuna, hrært vel þannig að öll grjónin sé þakin olíunni. Steikt aðeins og hrært á meðan þar til að grjónin fara að festast við botninn. Þá er hvítvíninu hellt út á og látið sjóða nánast alveg niður. Krafti hellt út á þannig að hann rétt fljóti yfir grjónin. Hitinn lækkaður þannig að það rétt bubbli aðeins og krafturinn látinn sjóða alveg niður. Hrært stöku sinnum á meðan en passað að fylgjast vel með pönnunni. Tómötunum bætt út á. Meiri krafti bætt við þegar fyrsti skammturinn hefur soðið niður og leikurinn endurtekinn þar til grjónin fara að vera tilbúinn, þ.e. fara að verða glær og hætta að vera hörð undir tönn. Þegar grjónin fara að verða tilbúin er rækjunum bætt við ásamt sítrónuberkinum. Eldað áfram þar til rækjurnar eru orðnar heitar í gegn og þá er slökkt undir pönnunni, sítrónusafa,rúkóla, smjörklípu og smá parmeggiano hrært saman við. Saltað og piprað. Borið fram með köldu hvítvínsglasi og öskrandi svöngum börnum.

5c7b54127ac211e2b0f722000a9f18db_6

Ég biðst velvirðingar á slæmum myndum, hleðslutækið fyrir myndavélina finnst ekki og því verður instagramið að duga. Ekki það að myndirnar hingað til hafi verið eitthvað stórkostlegar, en svona er nú einu sinni námsmannalífið, maður reddar sér bara.

Read Full Post »

Gemischt

Þessi hrossakjötskandall fer að verða eins og lélegur Það-er-fluga-í-súpunni-minni brandari þar sem þjóninn horfir á okkur ráðvilltur og svarar ‘já, ég veit, vissir þú það ekki?’. Það er eins og fólk haldi að tilbúnar máltíðir innihaldi í alvörunni gott og vel unnið kjöt. Og ekkert annað. Breskir ráðherrar svitna og lýsa því yfir einbeitir á svip að hinir seku muni gjalda fyrir og jafnvel að það þurfi að framkvæma dna prufur á öllum unnum kjötvörum í Evrópusambandinu. Ég er ekki viss um að það væri svo góð hugmynd fyrir óttaslegna og stressaða þingmenn því niðurstaðan gæti skapað enn fleiri vandamál.

Það er merkilegt að hrossakjöt skuli geta vakið upp svona líka svakaleg viðbrögð. Fólk er annars ekkert að stressa sig á því að í nautahakki í tilbúnum Lasagne eða Spaghetti Bolognese, sem er reyndar aðeins tæplega 60 % kjöt, eru leifar af rúmlega 300 beljum. Restin er ótrúlega merkileg samsetning af fitu, salti, sætuefnum, bindiefnum, maís, soya og alls konar sulli. Og hrossum náttúrlega. Og þar segjum við stopp og hingað og ekki lengra. Við sættum okkur kjötdrullu sem er búin til með því að háþrýstisprauta skrokka til að ná síðustu tægjunum sem eru svo maukaðar í einhvers konar krem með bragð og bindiefnum. Við sættum okkur við skrautlega mikið magn sýklalyfja og hormóna sem dælt er í beljurnar til þess að þær geti melt gríðarlega mikið af fitandi og sætum maís og soya, sem undir venjulegum kringumstæðum stríðir gegn eðli meltingarkerfis nautgripa. Þessi sýklalyf og hormónar eru vel mælanlegir í kjötinu og hafa bein áhrif á okkur neytendur (sjá t.d vaxtarlag þriðjungs bandarísku þjóðarinnar) en það telst ekki fréttnæmt því að lyfin eru innan leyfilegra marka. Enn fremur finnst okkur allt í fína að borða 300 beljur í einum munnbita sem hefur verið vættur í msg mareneríngu og maíssterkju. En hross…þvílíkur viðbjóður.

En þessi reiði snýst ekkert um innihald hinna tilbúnu rétta. Þetta snýst um lýgi. Á pakkanum stendur Beef Lasagne og Beef Bolognese en svo kemur í ljós að hið fátæklega magn kjöts í réttunum er af öðru dýri. Ég held satt best að segja að meirihluta fólks sé fullkomlega sama um hvað sé í þessum réttum, svo lengi að það er ekki verið að ljúga að því. Ef það hefði staðið ‘gæti innihaldið leyfar af hrossa/svína/kjúklingakjöti’ þá myndi enginn gera athugasemd. Það gæti reyndar orðið afleiðing þessa skandals að þannig merkimiði yrði að fylgja öllum tilbúnum kjötréttum. Þá er ekki verið að koma til móts við neytendur um að vanda skuli vinnubrögð og gæðaeftirlit í framleiðsluferlinu heldur væri markmiðið að auðvelda iðnaðinum að halda áfram sinni vinnu og bjóða upp á svínslega ódýrt kjöt. En þangað til er verið að svindla á fólki og þó svo að svindlið sé eiginlega hlægilega heimskulegt þá þolum við ekki að vera höfð að fíflum.

En þá má alveg spyrja sig hvort að það sé ekki langt síðan við vorum höfð að erkifíflum? Hvenær fannst okkur til dæmis allt í lagi að framleiða kjötrétti sem skemmast ekki? Hvenær ákváðum við að það væri gott mál að væri hægt að kaupa Beef Lasagne fyrir 1.29 pund (um 300 krónur), eða heilan kjúkling á undir 1000 kall? Hvenær samþykktum við að það væri skynsamlegast og best fyrir okkur að rækta kjúkling í tugþúsundatali innandyra í stórum lokuðum skemmum þar sem 19 fullvaxnir fuglar berjast um fermeterinn? Eða að ganga nær regnskógum Amason til að rýma fyrir soyabaunum sem fluttar eru svo til Spánar þar sem þær eru notaðar til að fita þúsundir nautgripi sem ráfa um í lyfjamóki í stæsta drullusvaði Evrópu? En það er einmitt þessum mjög svo orkufreka nautgripaiðnaði að þakka að Spánn er að verða uppiskroppa með vatn. Og hvenær samþykktum við að það væri best fyrir alla, sérstaklega eftir að búið væri að ryðja regnskóga og klára vatnið á Spáni, að henda rúmlega helmingi allrar kjötvöru er beint í ruslið, löngu áður en hún gæti komið nálægt búðinni. Þetta samþykkjum við allt þegjandi og hljóðalaust á meðan við bilumst yfir hrossakjöti í tilbúnum kjötréttum. Og þar stendur hnífurinn í hryssunni.

En hvað var svo í matinn? Heimatilbúið Spaghetti Bolognese auðvitað, með lífærnu Gemischt hakki, blöndu af nauta og svínakjöti.

Ragú alla Bolognese

400 gr hakk

1 laukur

1 blaðlaukur

3 gulrætur

2 sellerístilkar

4 hvítlauksrif

1 gott rauðvínsglas

1 dós niðursoðnir tómatar

2 msk tómatpurré

3 tómatar

Rósmarín og timían og basil

Salt og pipar

Olía

Laukurinn og blaðlaukurinn saxaður gróft og steiktur rólega upp úr slatta af olíu á frekar stórri pönnu í um 10 mínútur. Kjötinu bætt út á og látið brúnast aðeins. Hvítlaukurinn saxaður og bætt úr á. Steikt aðeins áfram þar til hvítlaukurinn hefur brúnast aðeins. Þá er fínt söxuðum gulrótum og sellerístilkum bætt út á pönnuna og steikt þar til grænmetið fer að mýkjast. Rauðvíninu hellt út á pönnuna og látið sjóða niður um helming. Því næst fara niðursoðnu tómatarnir út á ásamt söxuðum ferskum tómötum og tómatpurrunni. Niðursoðudósin er svo fyllt af vatni og því bææt við. Kryddað vel með rósmarín og timían og basil (ég notaði þurrkað) og pipar og látið malla rólega við mjög lágan hita í 1 1/2  til 2 klukkutíma. Saltað og smakkað til, gæti verið gott að kreista hálfa sítrónu yfir. Borið fram með spaghetti og fullt af parmeggiano.

a7fac00e768411e2adac22000a1fbe03_6

Hipsterbolognese

Read Full Post »

Það hefur kannski ekki farið fram hjá lesendum að mér finnast kássur einstaklega góður matur. Sérstaklega er gott að fá sér hægeldaða kássu á köldum vetrardögum, ég tala nú ekki um þegar úti er slabb og slagveður en svoleiðis virðist hafa einhver óútskýranleg áhrif á bragðgæði kássunnar.

Fyrir stuttu leit út fyrir að hann ætlaði að vora snemma í ár. Núna fyrir helgi var hins vegar tekið fyrir það með snjó, kulda og rigningu í bland. Í þokkabót hafa matarkarl og börn strítt við leiðindapest og húka inni í fýlu og pirring. Húsmóðirin tók því af skarið og lagði til að núna yrði elduð kássa og við það eitt lyftist brúnin. Ég staulaðist því til slátrarans og keypti tvo stóra lambaskanka og væna beikonsneið og kom við á markaðinum í leiðinni á keypti nokkra sveppi og ferskt rósmarín og timían.

Upp úr þrjú fór kássan inn í volgan ofninn og fékk að malla þar í friði til klukkan sex. Þrátt fyrir að ljúfan ilminn tók að leika um alla íbúðina hugsaði ég mér sjálfum mér að þetta yrði vonandi síðasta kássan í bili. Það er komið gott núna af vetrarleiðindunum og má alveg fara að vora með aðeins léttari bragðtónum. En kássan var samt fáránlega góð.

Hægeldaðir lambaskankar

2 stórir skankar

15o gr gott beikon

2 laukar

2 gulrætur

1 sellerístilkur

4-5 hvítlauksrif

1 glas rauðvín

1 dós niðursoðnir tómatar

Fullt af rósmarín og timían

5 stórir sveppir

Smjörklípa

Olía

Salt og pipar

Beikonið steikt á pönnu upp úr smá olíu þar til það hefur brúnast ágætlega. Gott er að setja smá timian og rósmarín út á pönnuna til að gefa feitinni gott bragð. Tekið til hliðar og skankarnir brúnaðir á öllu hliðum. Tekið til hliðar sömuleiðis og laukurinn steiktur rólega í nokkrar mínútur. Gulrætur og sellerí skorið gróft og bætt út á og steikt aðeins áfram. Hvítlaukurinn saxaður honum hrært saman við grænmetið og steikt í mínútu til viðbótar. Kjötið út á, öllu velt vel saman og rauðvíninu hellt yfir. Látið sjóða aðeins niður og þá fara tómatarnir út í og fullt, fullt af kryddi. Piprað. Ef potturinn er eldfastur má setja hann beint inn í ofn (ég nota lítið steikarfat) en ef ekki þá er bara um að gera að færa kássuna yfir í heppilegt ílát. Sett inn í volgan ofn, 140° – 150°, og látið malla í 2 1/2 -3 klukkutíma eða þar til kjötið fellur auðveldlega af beininu. Hálftíma áður en kássan er tilbúin eru sveppirnir brúnaðir upp úr olíu og smjöri og bætt úr í kássuna. Borið fram með kartöflu og gulrótarmús og góðu rauðvíni. Það var reyndar vont rauðvín í þetta skiptið, verður ekki flaskað á því aftur, flaskað sko, eins og flaska.

lambakássa

Read Full Post »

Hinn fallegi ávöxtur, paprikan

Fáum hefurr gengið eins vel og Guðna Ágústsyni að beina athygli fólks frá hlutum sem raunverulega máli skipta. Í miðju góðærinu spígsporaði landbúnaðarráðherrann fyrrverandi um mela og móa og mærði paprikur, kyssti mjólkand beljur og gleypti í sig lengstu pylsu í heimi með bros á vör. Reyndar var Davíð Oddson einkar laginn við þetta sömuleiðis og kenndi sína taktík við smjörklípuna, þ.e. þegar fólk færi eitthvað að væla þá beindi hann athyglinni að því sjálfu og þannig snérist það að sjálfu sér í kringum sjálft sig, eins og hann hafi klínt smjörklípu í feld kattar.

Merkilegt hvað aðferðir þessa pólitíkusa eiga það sameiginlegt að snúast um mat og ég velti því fyrir mér hvort að þetta sé algilt. Getur maður gengið að því sem vísu að þegar stjórnmálamenn fara að tala um mat að þá er við að breiða yfir eitthvað sem skiptir raunverulegu máli? Er umræða um mat okkar smjörklípa?

En hinn fallegi ávöxtur, paprikan, sem Guðna þykir svo vænt um, var í aðalhlutverki hjá okkur í gær. Ég fyllti hana með tómötum, hvítlauk, brauðmolum og fullt af pecorino og bakaði þar til hún varð sæt og góð og osturinn gullinn. Vel til þess fallið að beina huganum frá vandamálunum um stund.

Fylltar paprikur

4 paprikur

1 laukur

2 tómatar

5 brauðsneiðar, ristaðar og muldar í grófa brauðmola

2 hvítlauksrif

1 sellerístilkur

Góð lúka af rifnum pecorino (eða parmeggiano)

1 lúka af steinselju

Fínt rifinn börkur af einni sítrónu

Olía

Salt og pipar

Ofninn hitaður í 200°. Laukurinn og selleríið saxað og steikt aðeins á pönnu upp úr smá olíu. Tómatarnir saxaðir og settir í skál ásamt, brauðmolunum, saxaðri steinseljunni, hvítlauknum, sítrónuberkinum, ostinum og vænni slettu af olíu. Lauknum og selleríinu bætt við og öllu blandað vel saman. Saltað og piprað. Paprikurnar skornar langsum, raðað eldfast mót og fylltar með blöndunni. Smá ostur rifinn yfir og álpappir settur yfir. Bakað í 15 mínútur. Álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 20-25 mínútur eða þar til paprikan er farinn að brúnast aðeins. Borið fram með ristuðu brauði og sýrðum rjóma sem hefur verið hræður með sítrónusafa, salti og pipar og smá chili.

fylltpaprika

Read Full Post »

Eitt stærsta vandmál hins vestræna heims er hvað við erum dulgeg að henda mat eða láta eyðileggjast í staðinn fyrir að nýta hann. Við erum einnig einstaklega snjöll að búa til regluverk sem ýtir undir þessa þróun og kemur í veg fyrir, oft úr mörgum mismunandi áttum í einu, að hægt sé að nýta mat sem annars færi til spillis.

Núna eru um 40-50 þúsund tonn af síld í fjörunni í Kolgrafarfirði. Kvóti Íslendinga af Nork-íslenski síldinni fyrir árið 2012 var 120 þúsund tonn. Á meðan sérfræðingar og fólk í áhrifastöðum klóra sér í haunsum yfir þessum furðulegu uppákomumun og reyna bægja frá sér möguleikunum að þetta gæti hugsanlega verið þeim sjálfum að kenna, þ.e. manninum, þegar hann þveraði fjörðinn fyrir nokkrum árum um bjó þar með til hina ákjósanlegustu dauðagildru fyrir síld og aðra álíka félagslynda fiska, liggja þessi 50 þúsund tonn undir skemmdum. Krakkar hafa nú verið vélaðir til að tína fiskinn í kör og selja í minnkafóður sem er síðan flutt úr landi. Nokkrir sjómenn hafa kveikt á perunni og sækja sér nú beitu en bændur standa hikandi á hlaðinu og horfa hugsi niðri fjörum á meðan þeir baka pönsur ofan í krakkana og sjómennina. Bændurnir vita nefnilega að síld er hinn besti áburður fyrir tún og sem fóður er hún ekki síðri. En þeir hika því að regluverkið í kringum athafnir þeirra er svo strangt og gerir þeim næstum því ömulegt að nýta slíkan hvalreka sem 50 þúsund tonn af síld er. Til dæmis myndi umhverfisráðuneytið krefjast þess að síldin yrði plægð ofan í túnin en það er ekki auðvelt um miðjan vetur. Heilbrigðisreglugerðir um förgun úrgangs gera málið ennþá flóknara og þar að auki eru hinir hikandi, hugsandi bændur ekki með nein kvóta.

Þegar svona ástand myndast, þegar tæplega helmingur síldarkvóta Íslendinga syndir upp í fjöru, þarf að gera eitthvað meira en að skapa skemmtilega stemmningu í fjörunni. Réttasta væri að slaka á stífum reglugerðum og heimila fólki að nýta þetta mjög verðmæta hráefni eins vel og hægt er. Það hlýtur að vera vanvirðing við síldina að búa til risastóra dauðagildru og nýta svo bráðina nánast ekki neitt. Láta hana bara rotna í fjörunni og klóra sér í hausnum.

Jæja, nóg af röfli. Ég ætlaði ekkert að skrifa um Kolgrafarfjörð, ég ætlaði bara að setja inn uppskrift af súpu en það eru kannski einhver tengsl þarna á milli. Í gær gerði ég nefnilega súpu sem hægt er að nýta í yfir þrjá daga. Orðið afgangar öðlast nýja merkingu með þessari súpu því að svo virðist ver að bragðið verði meira, dýpra og betra daginn eftir og daginn þar á eftir. Með því að dreifa súpunni á þrjár máltíðir er maður að nýta matinn eins vel og hægt er svo ekki sé talað um sparnaðinn. Hér eru um að gera að taka sér tíma og leyfa súpunni að malla hægt og rólega. Þetta er matarmikil vetrarsúpa og hentar vel til að ná úr sér hrollinum og dofanum sem stundum er fylgifiskur hins kalda raunveruleika þar sem meirihluta matvæla er hent. Sorrí, ég ætlaði ekki að röfla meira.

þriggjadagasupa1

Þriggja daga súpa

1 chorizo pylsa ( eða 250 gr alvöru beikon frá Pylsugerðarmeistarnum)

2 vænir laukar

2 stórar gulrætur

2 sellerístilkar

3-5 hvítlauksrif

1 paprika

1 kúrbítur

200 gr hvítar baunir (látnar standi í vatni yfir nótt og svo soðnar í 1-2 klukkutíma…eða bara 2 dósir af forsoðnum baunum)

Kraftur

1 búnt steinselja

Olía, smjórklípa

Salt og pipar

Pylsan skorin í ágæta bita og steikt í stórum potti upp úr olíunni þar til hún brúnast aðeins. Sett til hliðar. Kúrbíturinn skorinn í bita og steiktur upp úr olíunni sem eftir er að pönnunni þar til hann fera að brúnast. Settur til hliðar. Smá smjöri bætt út í pottinn og laukurinn skorinn gróft og steiktur á lágum hita í 10 mínútur. Restin af grænmetinu skorið gróft, súpan verður að vera svolítið bitastæð. Gulrótum, hvítlauk og sellerí bætt út í pottinn og steikt í nokkrar mínútur og svo er paprikunni og pylsunni bætt við. Steinselju stilkarnir saxaðir smátt og bætt út í. Steikt aðeins þar til pylsan er farin að lita grænmetið vel, þá er baunum og krafti bætt úr í þannig að það það fljóti aðeins yfir og soðið á lágum hita í 30 mínútur. Kúrbítnum og saxaðri steinseljunni bætt við og soðið áfram í 10-15 mínútur. Borið fram með grófu brauði.

þriggjadagasupa2

2 dagur: Ribolita. Nú hefur súpan þykknað aðeins og eitthvað ætti að vera eftir. Allt nema ein súpuskál sett í millistórt eldfast mót, staðið og hart brauð rifið yfir og þar yfir nóg af rifnum osti. Bakað við 200° í 30 mínútur.

3 dagur: Ef tekist hefur að geyma eina skál í viðbót má blanda henni saman við 300 af smjörsteiktum sveppum, þykkja sósuna aðeins með hveitibollu og pakka þessu inn í bökudeig. Eitthvað eins og sjá má hér.

Gott í bili.

Read Full Post »

Um helgina hélt ég upp á afmælið mitt. Yfirleitt hef ég látið mér nægja að halda kaffiboð fyrir nánustu fjölskyldu en í þetta skipti ákvað ég að halda veislu og mætti jafnvel kalla hana partý. Rúmlega 30 manns komu og borðuðu tómatlagaða fiskisúpu, snittur með tómatsalati og túnfisksalati og ristaðar spánskar mönldur, saltar og sætar. Af rauðum kinnum og glaðlegu fasi gestanna get ég dregið þá ályktun að þeim líkaði maturinn og voru kátir með sitt. Eftir matinn var litið inn á nokkra bari og kvöldið klárað með hefðbundnum, vel sterkum djammdöner á einhverri búllunni. Sunnudagurinn fór í rólegheit.

brauð4feb1

Ég held að ég sé hættur að hnoða, að minnsta kosti í bili. Það hentar ekki gasofnum að hnoða of mikið. Um að gera að nota svo mikið vatn í brauðin að það er nánast ógerningur að handleika þau. Rétt brjóta þau saman í skálinni og láta súrinn vinna á glúteninu allan daginn. Ég var að taka tvö brauð út úr ofninum sem ég byrjaði á í morgun. Hrærði 200 gr af mjög grófu heilhveiti, 150 af brauðhveiti og 50 gr af rúgmjöli saman við 700 ml af volgu vatni og lét standa í um 8 tíma. Upp úr klukkan fjögur bætti ég svo við 300 gr af brauðhveiti, 100 gr af rúgmjöli og einum bolla af höfrum. Þá var ég kominn með deig sem var eitthvað yfir 75% vatn og því illsnertanlegt. Þessu leyfði ég að standa í 3 tíma, braut það svo saman og lét aftur standa í 2 tíma. Þá skipti ég deginu upp í 2 brauð og lét þau jafna sig í um 2 tíma. Þau lyftu sér vel og útkoman eru loftkennd og létt, gróf súrdegisbrauð. Annað bakaði ég í lokuðum potti (egglaga) og hitt í formkökumóti og er munurinn töluverður þar sem potturinn heldur inni öllum vökva innan pottisins.

brauð4feb2

Á meðan glímu súrsins við glútenin stóð bjó ég til risotto með smjörsteiktum sveppum. Gróftsaxaðir sveppir steiktur upp úr vænni smjöklípu ásamt smá hvítlauk. Teknir af þegar þeir hafa brúnast, olían skilin eftir á pönnunni og smátt saxaður laukur og seller steikt upp úr henni í nokkrar mínútur. Risotto hrísgrjónum bætt út á og steikt í smá stund. Hvítvíni skvett í pottinni og látið sjóða aðeins niður og svo bætt við krafti þar til hann rétt flýtur yfir grjónin. Látið sjóða þar til allur vökvi er nánast gufaður upp og þá bætt við meiri krafti. Haldið svona áfram þar til grjónin eru tilbúin. Rétt áður er sveppunum bætt útí. Borið fram með helling af parmeggiano eða pecorino. Og þó maður eigi afmæli á mánudegi á maður skilið að fá ís í eftirrétt, sértaklega með þeyttum rjóma, berjasósu og ískexi.

svepparisotto

Að lokum vil ég benda lesendum á að næstu tvær vikurnar verður hægt að horfa á hina stórgóðu heimildarmynd The Gleaners and I eftir frönsku kvikmyndagerðakonuna Agnsesi Varda. Myndin fjallar á áhugaverðan hátt um vestærna neyslumenningu okkar út frá matarvenjum og hefðum. Ekki skemmir fyrir að Agnes Varda er ein helsta kvikmyndagerðarkona frönsku nýbylgjunnar.

Read Full Post »