Feeds:
Athugasemdir

Archive for janúar, 2013

innbrot

Brotist hefur verið inná matarbloggið hans Karls, og er það núna í gíslingu. Í gíslingu þreyttu eiginkonunnar hans sem húkir heima með tvo veika grísi. Og tóman ísskáp. En þrátt fyrir vonlausa stöðu var framreiddur dýrindis hádegismatur sem var svo sannarlega frásögur færandi.
Sumsé.
Það sem er nauðsynlegt til að eiga, þrátt fyrir augljósan tómleika ísskápsins, er eftirfarandi:
egg (3stk)
tómatsósa
ostur

IMG_0609

Í matinn voru pizzur!
Ég hrærði saman 3 eggjum með matskeið af hveiti. Steikti svo á lítilli pönnu 3 eggjakökur, sem litu samt út eins og hveitipizzabotnar. Á botnana settum við svo fínu lífrænu tómatsósuna okkar, ekki súr og sæt eins og hunt´s, lauk, papríku og créme fresh. ostur ofaná. oreganó og olíu svett yfir og voilá!
Börnin voru svo impóneruð að Dagur sagðist ætla að borða þetta líka í kvöldmat, og morgunmat og hádegismat og og og… sfrv.
Bryndís kláraði af diskum sem segir hennar sögu.

IMG_0610

Í eftirrétt var sama stemmning. allt tómt!
en þá var bakarinn á horninu tekinn til fyrirmyndar og ýmsu hnoðað saman, gólfin sópuð og þar fram eftir götunum, sett saman við kakó, hnoðað í litlar kúlur sem síðan var velt upp úr kókosmjöli.
Hugsaði til Klovn þáttarins forðum daga…

Í kúlunrnar settum við:
Haframjöl
kókosmjöl
Heslihnetumjöl
kakó
salt
agave
pííínu hrásykur
smjör

allt í einhverjum hlutföllum. skálin var tóm áður en ég fattaði að taka myndir.

kerlingin stelst aftur inn á matarkarl við næsta tækifæri en þá með meiri glamúr og minna veikindajanúartóm og ísskápstiltektarstuð. Bis dann!

Read Full Post »

Sumarþrá í lok mánaðar

Loksins er farið að hlýna aðeins. Undanfarið hefur verið 10 gráðu frost og raki sem ýtir vel undir nístings kuldann. Núna er hitinn rétt um 0 gráðurnar og snjónum kyngir niður nánast eins og í jólamynd frá Disney. Á milli hríða glittir rétt aðeins í sólina sem virkar eins og vísun í raunhæfan möguleika um að vorið sé þrátt fyrir allt á næsta leyti. Ég er ekki frá því að fólk sé fyrir vikið aðeins glaðlegra í dag  en í gær. Ég er í það minnsta farinn að finna lyktina af vorinu og sjá sumarið í hyllingum, og láta mig dreyma um að sofna í hitamóki undir tréi í einhverjum garðinum eða jafnvel, þegar snjókoman er sem mest, um að liggja letilega á ítalskri eða spænskri strönd, íklæddur rjómalituðum hörfötum, með stráhatt og hvítvínsglas.

Í lok mánaðar vekja tómar fjárhirlsurnar mann hressilega af þessum draumi og slá mann með kaldri raunveruleikatuskunni. Þar að auki virðist ískápurinn ekki bjóða upp á neinar gloríur í eldamennskunni. Ég neita hins vegar að kæfa klisjukennda draumsýn mína um sumar, sól og strönd og á endanum finn ég mögulegar sárabætur; pasta, kirsuberjatómata, nokkrar ólívur og rauða papriku. Einfaldleikinn í fyrirrúmi; ofnbakað þar til paprikan verður sæt og ilmurinn af ítölsku sumri fyllir eldhúsið og pastanu hrært saman við. Svo vel tókst til í þetta skiptið að brúnin lyftist, gráminn vék, draumurinn tók yfir og áður en ég veit af sofna saddur við yfirvegaðan undirleik brimsins á frávikinni klettaströnd í miðri klisjunni. Dio mio.

pasta:tómat,paprika

Orchietti með ofbökuðum kirsuberjatómötum, papriku og ólívum

400 gr Orchietti (eða annað pasta)

Ca 10 kirsuberjatómatar

1 rauð paprika

Nokkrar olívur með steini í kryddlegi, svartar og grænar

3 hvítlauksrif

1 laukur

1 dós niðursoðnir tómatar

Óreganó, þurrkað, smá

Olía

Salt og pipar

Ofninn hitaður  í 180°. Paprikan fræhreinsuð og skorin í strimla og laukurinn saxaður smátt. Sett í eldfast mót ástamt tómötunum (ferskum og niðursoðnum), söxuðum hvítlauknum og olívunum. Saltað og piprað og kryddað með óreganóinu og vel af olíu helt yfir. Blandað vel saman og bakað í 40-50 mínútur. Pastað soðið í fullt af söltuðu vatni. Blandað saman við tómatblönduna ásamt skvettu af pastavatninu. Fullt af parmeggiano yfir. Bon apetito.

Read Full Post »

Súrsætt

Asískur matur er merkilegt fyrirbæri. Sérstaklega sá asíski matur sem hinn vestræni heimur er orðinn vanur því það er oftar en ekki þannig að þekktustu réttirnir eru uppspuni svangra nýlenduherra sem vildu fá eitthvað skiljanlegt á diskinn sinn. Réttirnir Tikka Masala og chutney tilheyra t.d. þessari kategóríu og ekki er ólíklegt að súrsættir réttir austur asíu beri álíka upprunavottorð. Því er haldið fram að þessi samsettning af súru og sætu, sem einnig er ráðandi í hinu bresk-indverska chutney, hafi verið gert til að falla betur að smekk aðkomufólksins. En ég velti því fyrir mér hvað sé svo sem það því, er það ekki allt í lagi að nýir réttir og nýir bragðtónar hafi verið fundnir upp og hafi í kjölfarið farið sigurför um heiminn? Það er kannski verra ef upprunaleg matreiðsla býður hnekki, ef fólk hættir að fara eftir aldagömlum uppskriftum og allir gera bara Tikka Masala í öllum héruðum Indlands. Þá koma samtök eins og Slow Food til skjalanna og passa upp á hefðina.

Súrsættir bragðtónar hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég átti til að mynda mjög erfitt með að borða rækjur sem barn en þegar við fórum á Kínahofið á Nýbílavegi borðaði ég bílfarma af djúpsteiktum rækjum með súrsætri sósu og sósan var aðalmálið. Maturinn í fermingarveislunni minni var einnig áberandi súrsætur sem rímaði kannski ágætlega við samspil kristinnar sannfæringar unglingspilts og veislunnar með öllu sínu gjafaflóði. Fyrir nokkrum misserum áttaði ég mig á því að það er tiltölulega auðvelt að búa til súrsætt heima fyrir. Sérstaklega finnst mér gott súrsætt svínakjöt gott í þessu samhengi en auðvelt er að skipta úr svínakjöti fyrir kjúkling í uppskriftinni hér að neðan. Ég er hins vegar ekki eins barnslega hrifinn af djúpsteikingunni sem oft fylgir þessari matargerð og læt mér nægja að velta kjötinu upp úr smá hveiti og léttsteikja það upp úr olíu. Samspil hráefna í sósunni eru háð smekk hvers og eins og auðvelt er að breyta hlutfalli á milli þeirra. Ég geri ekki tilkall til þess að þessi réttur falli að kínverskri matarhefð en góður er hann.

Svínakjöt í súrsætri sósu

Svínakjöt (magn fer eftir fjölda og svengd, best er að nota hnakkastykki og skera það í þumlungsstóra bita)

1 blaðlaukur

1 hvítlauksrif

2 cm biti af engifer

1/2 stöngull sítrónugras

1 msk hunang

4 msk jurtaolía

1 msk soyasósa

2 msk hrísgrjóna eða hvítvínsedik

1 tsk sykur

Safi úr hálfu lime

Hnakkastykki er gott því það er fitumikið og kjötið verður þá ekki þurrt. Kjötið skorið í kubba og þerrað. Laukurinn skorinn í grófar sneiðar. Kjötinu velt upp úr hveiti og brúnað vel á báðum hliðum á pönnunni ásamt lauknum. Hráefnunum í sósuna blandað vel saman og smakkað til. Kannski þarf meiri sætu. Þegar kjötið er orðið vel brúnað er vatnsglasi bætt úr á pönnuna og skófirnar hrærða saman við. Látið sjóða rólega niður um helming og þá er sósunni bætt út á og hrært vel. Leyft að malla þar til sósan er orðin klístruð. Saltað og piprað ef þarf. Borið fram með hrísgrjónum og léttsoðnu brokkólí.

súrsættsvínakjöt

Read Full Post »

Súrdeigsbrauð II

Í síðustu viku bjó ég til nýjan súr. Ég bjó til súr í fyrra en ég leyfði honum að deyja í rólegheitunum innst inn í dimmasta horni ísskápsins. Ég hefði kannski getað lífgað hann við en ég nennti því ekki því að tilraunir mínar til brauðgerðar voru í gíslingu einstaklega leiðinlegs gasofns. Ég komst reyndar að því að hægt er að ná ásættanlegum árangri við brauðbakstur með því að baka brauðið í lokuðum potti og held ég að ég haldi mig við þá aðferð framvegis. En núna er ég kominn í nýja íbúð og er gasofninn hérna töluvert betri en hinn. Þannig að, í síðustu viku bjó ég til súr.

Uppskriftin af súrnum er einföld, bara vatn og rúgmjöl í jöfnum hlutföllum. Byrja á 1 dl volgt vatn á móti 1 dl lífrænt rúgmjöl í krukku og hrært vel. Látið standa lokað í sólarhring og þá er 1 dl köldu vatni og 1 dl lífrænt rúgmjöl bætt við og hrært. Á 3 degi er helmingi blöndunnar hent og 1 dl vatn og 1 dl rúgmjöl hrært vel út í restina. Þetta er svo endurtekið í viku og þá ætti súrinn að vera bubblandi hress og nothæfur í bakstur. Hægt er að lesa ýtarlega úr súrgerð hér.

Ég var kannski full spenntur því að súrinn minn hafði rétt mallað í 6 daga þegar ég get ekki hamið mig og skellti í brauð. Ég er vanur að gera brauð sem er í hlutföllunum 100% hveiti á móti 65/70% vatn. Þá þarf að hnoða vel og vandlega til þess að degið verði teygjanlegt og loftmikið. Það er hins vegar til önnur aðferð sem gengur út á að hnoða ekki neitt. Hana notaði ég t.d. í þessu brauði en hef aldrei notað hana til að búa til súrdeigsbrauð. Ef þessi aðferð er notuð þá getur maður notað 75% vatn, jafnvel 80%, sem gerir það að verkum að brauðið verður loftkennt og létt, áferðin teygjanleg og skorpan stökk, skv. kenningunni. Þar að auki þarf ekkert að hnoða heldur er deginu leyft að þroskast og lyftast í rólegheitunum í heilan dag.

Ég byrjaði kvöldið áður með því að blanda saman 250 gr af mjöli (150 gr prótínríkt brauðhveiti, 100 gr prótínríkt spelt) og 275 ml volgu vatni. Út í blönduna hrærði ég 3 góðum matskeiðum af súrnum og einni kúfaðri teskeið af hunangi. Þessu leyfði ég að hvíla undir plasti yfir nóttina. Um morguninn hrærði ég 250 gr af mjöli (100 gr prótínríkt hveiti, 100 gr prótínríkt spelt, 50 gr rúgmjöl) út í blönduna þar til degið varð að blautum masssa. Lét þetta standa í um 2 klukkutíma. Því næst helt ég blöndunni á vel hveitistráða borðplötu og braut hana nokkrum sinnum saman og mótaði í hálfgerða kúlu. Setti aftur í skálina og lét standa í klukkutíma. Þetta endurtók ég tvisvar í viðbót og þá var ég komin með loftkennt og teygjanlegt deig sem hélst vel saman en var þó ansi blautt og klístrað. Ég mótaði það í eins þétta kúlu og ég gat og setti það með mótin upp ( sléttan toppinn niður og botninn upp) í skál með vel hveitistráðu viskastykki. Það fékk svo að hefast í 4 klukkutíma þar til það hafði alveg tvöfaldast. Ofninn hitaður í 250° og 5 mínútum áður en ég setti brauðið inn setti ég pottinn, lítið steikarfat, inn til þess að hann yrði vel heitur fyrir brauðið. Brauðinu var svo vellt varlega yfir í heitann pottinn, skorið í það með beittum brauðhníf, lok sett á pottinn og inn í vel heitan ofninn í 25 mínútur. Þá er lokið tekið af, þ.e. ef brauðið er orðið aðeins gullið, og bakað áfram í 10 mínútur eða þar til skorpan er dökk og stökk. Tekið út og látið standa í minnst 20 mínútur áður en það er skorið.

súrdeigsbrauðII1

Verð ég að segja að það koma mér á óvart hversu vel brauðið lyfti sér og hafði þétt súrdeigsbragð þar sem súrinn var ekki nema rétt viku gamall. Venjulega þarf súrinn að þroskast í smá tíma til þess að ná jöfnu og góðu bragði og lyftingu. Ég vil meina að lífrænt mjöli hafi hjálpað mikið til að þessu leyti. Eitt er víst að ég leyfi þessum súr ekki að gleymast og deyja. Hér er hægt að sjá myndir frá súrgerðinni.

súrdeigsbrauðII2

Read Full Post »

Þó svo að ég geti eytt ótrúlega miklum tíma við matreiðslubókarekka bókabúða fer ég oftast þaðan tómhentur. Annað hvort get ég ekki gert upp með mér hvaða bók mig langi mest í eða þá að veskið heimili ekki slík útgjöld. En í síðustu tvö skipti þegar ég hef horfið inn í hyldýpi áhugamálsins í miðri bókabúð hef ég komið upp á yfirborðið með bók í hönd og seðlana tilbúna. Reyndar var það elskuleg móðir mín sem splæsti í aðra bókina handa litla barninu sínu í tilefni komandi afmælis í febrúar. Hina keypti ég alveg sjálfur.

Mamma gaf mér s.s. Kitchen Diaries II eftir Nigel Slater. Bókin er eins konar dagbók Nigels þar sem hann birtir uppskriftir fyrir nánasta alla daga ársins ásamt hugleiðingum um hversdagslegt amstur út frá mat og matargerð. Bókin persónuleg, einlæg og skemmtilega skrifuð og þó svo að Nigel taki fram í inngangi að hann hafi ekki áhuga á matarpólitík þá er erfitt að komast hjá boðskapnum um ágæti ferskar árstíðarbundnar matvöru og óbeit hans á því að henda mat. Nigel leggur áherslu á eindalda matreiðslu þar sem hráefnið fær að njóta sín án þess að vera dúlbúið í gegnum stílíseringu flóknar samsetningar. Einnig ganga margir réttur hreinlega út á að búa til of mikið svo að hægt sé að nýta afgangana í nýja rétti. Ég hef aðeins eldað úr bókinni og gefur það góða raun um það sem koma skal. Ég held sömuleiðis að einlægur og einfaldur hugleiðingastíll Nigels muni hafa einhver áhrif á þetta blogg.

Hin bókin (sú sem ég keypti sjálfur) er klassísk: Mrs Beetons Book of Household Management. Mrs Beeton er breska útgáfan af Helgu Sigurðar og Juliu Childs nema hvað hún er fyrirrennari og fyrirmynd þeirra beggja og lætur sér ekki nægja að útskýra einungis eldhússtörfin og matreiðslu heldur nær bókin utan um allt sem viðkemur því að halda Viktóríonsku heimili gangandi, með tilheyrandi þjónustufólki og og hegðunarstöðlum. Bókina skrifar Mrs Beeton um miðja 19. öldina og var hún ætluð hinni ört vaxandi millistétt sem kunni ekki endilega þær reglur varðandi heimilishald og hegðun sem halda ber í heiðri til að geta talist maður með mönnum í samfélaginu. Ég hef rétt aðeins gluggað í hana og get hæglega mælt með henni. Bókin er skrifuð á einstaklega ljóðrænu og fallegu máli og samanburður á matreiðslu og heimilshaldi við t.d. hernað og list er einstaklega skemmtilegur. Hún segir með annars að húsfreyjan sé í engu frábrugðin hershöfðingja þegar kemur að aga, skipulagi og góðum anda innan heimilisins. Hún eyðir miklu púðri í að útskýra tilhögun eldhúsa, hegðun og verkahring mismunandi þjónustufólks og hvernig eigi að halda dýr og koma mannúðlega fram við þau. Lengsti kaflinn er um meðhöndlun kjötafurða en einnig er hægt að lesa sig til um hvernig maður eigi að ala börn, halda húsgögnum við og komast hjá flensu. Ég veit ekki hvort að ég leggi í einfaldasta matseðilinn sem hún setur fram sem dæmi um hversdagslega máltíð 6 manna fjölskyldu en hann er fjórréttaður og þar af tveir kjötréttir. Þeir sem hafa áhuga á Downton Abbey munu finna nostalgíu sinni góðan farveg í þessari bók og geta í gegnum bókina látið sig dreyma um eigið þjónustufólk og high tea úti á verönd. Ég geri það alla vega.

Í raunveruleikanum var nú samt sem áður föstudagur og það þarf að gefa þessum börnum að borða. Steiktir sveppir á pólentu var planið og það hélt. Ég bætti smáttskorinni seljurót út á pönnuna með sveppunum sem passaði vel, pönnusteikti pólentuna og setti spælt egg yfir herlegheitin. Svo gott var þetta að börnin báðu um meira.

polentasveppir

Pönnusteiktir sveppir með seljurót á pólentu með spældu eggi

Best er að byrja á pólentunni, sjá uppskrift hér. Henni er síðan helt í fat og látin kólna og stífna. Þá er hægt að skera hana í sneiðar og steikja upp úr smá olíu þar til hún verður stökk á báðum hliðum.

300 gr sveppir

Hálf seljurót, skorin í litla teninga

1 lítill laukur

1 hvítlauksrif

1 tks sinnep

100 ml rjómi

Væn smjörklípa

1 rósmaríngrein

Olía

Salt og pipar

Seljurótin steikt upp úr smá olíu við rólegan hita í nokkrar mínútur. Lauknum bætt við og steikt áfram þar til hann verður glær. Sveppirnir skornir eftir vilja og bætt út á ásamt smörinu og söxuðu rósmaríninu. Steikt þar til sveppirnir hafa brúnast ágætlega. Þá er hvitlauknum bætt við og steikt í mínútu til viðbótar. Sinnepið hrært saman við og svo rjómanum bætt út. Látið sjóða aðeins þar til þetta hættir að vera sósa og verður þykkara og þéttara. Á sama tíma er pólentan steikt og þegar hún er tilbúin eru eggin spæld. Pólenta neðst, svo sveppir, svo egg, stungið í rauðuna og úr verður sósa.

Read Full Post »

Piparrótarrjómi

Í kvöld var gúllast í matinn. Ég er nýbúinn að birta færlsu um gúllas þannig að mér fannst full glatað að endurtaka leikinn, jafnvel þó svo að þessi gúllas hafi verið með villisvínakjöti sem gaf tilheyrandi villibragð og daufan lifrarkeim. Hins vegar breyttum við hjónin út af vananum í þetta sinn og skiptum út sýrðum rjómanum, sem vanalega fylgir ungversku kássunni á þessu heimili, og ákváðum að prófa okkur áfram með eitthvað kraftmeira og bitastæðara. Þegar maður á börn virðist sterkur matur ekki eiga upp á pallborðið en stundum kemur einfaldlega að því að maður vill fá eitthvað með almennilegu kikki, burt séð frá viðkvæmum bragðlaukum barnanna. Þau geta vel gúffað í sig sýrðum rjóma, sem þau og gera með bestu lyst.

Piparrót er einstaklega sterkt fyrirbæri og yfirleitt er wasabíið sem maður borðar með sushi ekkert annað en lituð og maukuð piparrót. Ekki er til nóg af wasabi í heiminum til að anna eftirspurn og því bregðast framleiðendur við skortinum með því að lita piparrótina. Það er ekkert nema gott og blessað því piparrótin getur svo sannarlega tárað hörðustu menn og konur. Ekki þarf nema 2-3 msk af rifinni piparrót í pela af þeyttum rjóma til að mann svíði í nef og enni. Þó að maður þurfi lítið af rótinni er vandamálið hins vegar að hún er stór og þarf maður því að vera uppfinningasamur til að nýta restina. Það má því búast við því að ég laumi rótinni í hina og þessa rétti á næstunni.

Piparrótarrjómi sem þessi hentar einstaklega vel með bragðmiklum kássum eins og gúllas en passar einnig líka vel með einfaldri steik, skinnku eða hamborgarhrygg, eða reyktum og gröfnum laxi eða silungi.

piparrotarrjomi

Piparrótarrjómi

200 ml rjómi

2-4 msk fínt rifin piparrót (magn fer eftir styrk rótarinnar og dirfsku matargesta)

1 tsk sykur

2 msk balsamikedik

Salt og pipar

Rjóminn þeyttur þar til hálfstífir toppar myndast. Piparrótinni hrært saman við í skömmtum og smakkað til. Balsamiki og sykri hrært saman við og saltað og piprað eftir smekk. Kúfuð matskreið út á  kássuna og allt í einu finnur maður fyrir týndum bragðlaukum sem börnin eiga vonandi einhvern tíman eftir að þróa.

piparrotarrjomi2

Read Full Post »

Kjúklingur í freyðivíni

Fyrir fáeinum árum var ég svo heppinn að ganga í hjónaband með einstaklega fallegri og heillandi konu. Hjónavígslan fór fram utandyra innst í Hvalfirðinum og þó svo að veðurguðirnir hafi hótað hráslaga og rigningu hékk hann þurr og gestir voru brosandi og rjóðir í kinnum þegar inn í félagsheimilið var komið. Vil ég meina að ástin hafi valdið hlýlegu fasinu og gleðinni. Innandyra var samkvæmt hefð haldin vegleg veisla. Byrjað var á því að skála fyrir okkur skælbrosandi nýbökuðum hjónunum í freyðivíni áður en boðið var upp á kjarngóðan íslenskan mat, matarmikla fiskisúpu og alíslenska kjötsúpu. Í stuttu máli var gleðin mikil og veislan vel heppnuð og við hjónin alsæl svo vægt sé til orða tekið.

Daginn eftir tókum áttum við töluverðan afgang af veigum og þá sérstaklega freyðivíni. Einn daginn skömmu eftir brúðkaupið ákveður eiginkonan að nýta þessar veigar í matreiðslu. Í brúðkaupsgjöf höfðum við m.a. fengið forláta íslenskan leirpott sérstaklega ætlaðan hægeldun og var hann nú brúkaður í fyrsta sinn. Kjúklingur var í matinn fyrir nánustu fjölskyldu en í stað þess að gera hefðbundin rauðvíns coq au vin var gripið í afgangs freyðivínið og kjúklingurinn hægeldaður upp úr því ásamt vel völdu grænmeti og kryddi. Útkoman var vægast sagt stórkostleg og síðan þá höfum við hjónin vísvitandi keypt of mikið freyðivín þegar tilefni gefst til þess að eiga í pottinn.

Á þessum fyrstu dögum nýs árs er ekki ólíklegt að einhverjir eigi afgangs freyðivín frá því um áramótin. Ég vil því eindregið mæla með því að þið, kæru lesendur, endið jólahátíðina með stæl og nýtið þessa afganga í eftirfarandi rétt og get ég lofað því að þið verið ekki svikin. Uppskriftin er fyrir 6 en auðvelt er að minnka hana eða stækka og aðlaga að fjölda matargesta.

kjúklingurifreyðivíni1

Hægeldaður kjúklingur í freyðivíni

1 freyðinvínsflaska, ekki of sætt

1 kjúklingur

3-4 gulrætur

2-3 laukar

3 sellerístilkar

4 tómatar

4 hvítlauksrif

Nokkrar greinar rósmarín

Nokkur lárviðarlauf

Salt og pipar

Olía

Hægt er að hafa kjúklinginn heilan eða hluta hann niður og ræður þar hentisemi og nenna kokksins. Auðveldara er hins vegar að brúna kjúklinginn ef hann hefur verið skorinn til sem ég og gerði. Kjúklingurinn brúnaður vel á öllum hliðum upp úr smávegis olíu. Passa að brúna líka afgangs beinin ef hann hefur verið hlutaður niður og setja þau með í pottinn. Grænmetið skorið gróft og öllu síðan komið haganlega fyrir í hentugu íláti, leirpotturinn er einstaklega hentugt ílát (en þá verður að passa að setja pottinn inn í kaldan ofn svo hann springi ekki) en einnig dugar steikingarfat með loki ágætlega. Kryddað og saltað og piprað og freyðivíninu svo hellt yfir. Inn í 150-160° heitan ofn í rúmlega tvo tíma eða þar til kjúklingurinn er einstaklega meyr og losnar auðveldlega af beinunum. Hér á bæ var þetta borið fram með polentu og áttu pottrétturinn og hún einstaklega vel saman.

Verði ykkur að góðu.

kjúklingurifreyðivíni2

Read Full Post »

Ein Berliner

Orðin ‘Ich bin ein Berliner’, sem John F. Kennedy lét falla í frægri ræðu í margskiptri Berlín um miðja síðustu öld, urðu nánast fleyg áður en hann lét þau frá sér þar sem setningin þykir fyndin sökum mikillar tvíræðni. Vissulega vildi hann meina að vandamál Berlínbúa væri ekki þeirra eigin heldur alls heimsins og hann tæki þar með ákveðna ábyrgð á stöðu mála en um leið viðurkenndi hann sannfærandi að hann væri Berlínarbolla, eða ein Berliner Pfannkuche. Þessar bollur urðu samstundis heimsfrægar og urðu til að mynda fljótt hluti af sætabrauðsúrvali íslenskra bakara. Hér í borg ríkir skemmtileg hefð í kringum bollurnar. Hefð er fyrir því að bjóða upp á bollurnar á  miðnætti á gamlárskvöldi. Þeim er þá raðað fallega á stóran bakka og allar fylltar með sultu fyrir utan eina sem er fyllt með sterku sinnepi. Flórsykri er síðan stráð yfir í óhóflegu magni til að fela öll umerki uppátækis húsráðanda. Sá sem fær hina sinnepsfylltu bollu verður því óneitanlega að stórgóðu miðnæturskemmtiatriði fyrir aðra veislugesti þar sem þýskt sinnep þykir sérlega braðsterkt og hefur þau áhrif að þeir sem neyta þess í miklu magni verða ansi rauðir í framan, tárin streyma og allt fas þeirra verður hið áhugaverðasta.

Þessi hefð var á skipulögðum matseðli gamlárskvöld en hins vegar var brugðið frá því plani þar sem aðrir réttir matseðilsins þóttu nægja. Ég notaði því tækifærið í dag þegar gestir voru væntanlegir og ákveðið var að taka stellið fram. Ég sleppti reyndar sinnepinu og fyllti bollurnar með súkkulaðinúggatkremi. Við Íslendingar eigum okkar útgáfu á þessum berlínsku bollum og að mínu mati eru við orðheppnari en Þjóðverjarnir og köllum þær ástarpunga. Skemmtilegt hefði verið ef Kennedy hefði lýst því yfir á svölum Alþingishússins með úfinn Thor Thors sér við hlið að hann væri ástarpungur.

berlínarbollur

Berlínarbollur (ca 10 litlar bollur)

200 gr hveiti

1 tsk ger

75 ml volg mjólk

2 msk sykur

40 gr brætt smjör

1 eggjarauða

Smá salt

1 líter af steikingarolíu

Gerið og sykurinn leystur upp í volgri mjólkinni látið standa á nokkrar mínútur. Hrært saman við helminginn af hveitinu og látið standa í 20 mínútur. Afganginum af hveitinu hrært saman við ásamt smjörinu, eggjarauðunni og saltinu. Hellt á hveitistráða borðplötu og hnoðað þar til degið er slétt og fínt. Látið hefast á hlýjum stað í klukkutíma eða þar til það hefur tvöfaldast. Slegið niður og flatt rólega út þar til það er rúmlega 2 sentimetra þykkt. Litlar kökur skornar úr með deselitramáli eða litlu glasi og þær settar á ofnskúffu með bökunarpappír og látnar hefast aftur þar til þær hafa tvöfaldað stærð sína. Á meðan er olían hituð vel eða þar til loftbólur streyma upp meðfram trésleif sem stungið er niður á botn. Bollurnar steiktar nokkarar í einu í fáeinar mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar og þá er þeim snúið með gataspaða og steiktar eins á hinni hliðinni. Teknar uppúr þegar þær eru fallega brúnar og olían látin leka af á pappír. Bollurnar eru síðan fylltar með sultu (og sinnepi) með því að setja sultuna í sprautupoka með mjóum stút og þrýst létt. Ég get hæglega mælt með súkkulaðinúggatkreminu (lesist Nutella) og einnig eru þær ljómandi góðar fylltar með þykkri vanillusósu.

Read Full Post »