Feeds:
Athugasemdir

Archive for desember, 2012

Margir líta á það nánast sem guðlasti að fara ekki nákvæmlega eftir ríkjandi hefðum og siðum og sé vikið út af þrælstignum kindagötum ‘réttrar’ hegðunar verður allt vitlaust, hvort sem um ræðir hetjulega baráttu gegn heiftarlegri, rótgróinni og að því er virðist stigmagnandi kynbundinni vanvirðingu eða rétta notkun hráefna í klassískum réttum.  Nánast um leið og stigið er út fyrir ramman eða kerfinu mótmælt mætir kór hinna rétthugsuðu og baular þvoglukennt út úr sér gömlum og leiðinlegum vikivaka og allir eiga að dansa með.

Að þessu leiti er samfélagið eins og amaba: Sífellt breytilegir og flæðandi útveggir þessa einfalda einfrumungs má skilja sem mörk okkar mögulegu hugsanna og gjörða. Kjarni frumunnar er stjórnstöð og forðabúr amöbunnar, ég fer ekki svo langt að segja að hún hafi heila enda miklu skemmtilegra að tala um miðju samfélagsins, safn staðnaðra gilda, sem heilalausa. Þessi kjarni er á sífeldu flakki innan amöbunnar sjálfrar því að þegar amaban hreyfir sig í leit að næringu hlykkjast hún hlaupkennt í allar áttir og skítur út öngum hingað og þangað í leit að nýjum veiðilendum með þeim afleiðingum hreyfing kemst á kjarnann og nokkrar safabólur. Kjarninn ferðast því á milli miðju og jaðars, á milli hins gamla og í átt að því nýja, eða með öðrum orðum á milli þess viðtekna og venjulega annars vegar og uppbrotsins og hins óvænta hins vegar. Ef við erum eitthvað eins og amöbur, og við erum vissulega eins og stór og flókin amaba, má hér yfirfæra. Jaðrar samfélagsins benda á staðnaða hugsun og úrsérgengin gildi miðjunnar, kjarnans. Um leið og kjarninn streitist á móti hefur efinn skotið rótum í miðjunni og þrátt fyrir kvalarfullan vikivaka kórsins og klúðurslegan dansinn mun þessi miðja færa sig nær jaðrinum og taka ábendingar hans til greina og samfélagið breytist til hins betra. Allt í einu má segja nei, þetta er bull, allt í einu má setja brokkólí út í annars þreytt, litlaust og einsleitt Carbonara.

Glöggir lesendur þessa bloggs hika kannski ofurlítið við lestur þessara lína og gætu hugsað með sér ‘þetta hefur hann sagt áður’ og það má vel vera rétt, reyndar er það alveg hárrétt en mér til varnar hef ég það að segja um þessa hugsanaklemmu að slík er tíðin að nauðsynlegt er að endurtaka einföldustu hluti oft svo að fólk hætti bara að hlusta á orðanna hljóðan og fari að raunverulega að heyra það sem sagt er. Hvítir menn hafa nú troðið körfuboltum um veröld allra, feminismi er lífsnauðsynlegur tilvist okkar og það má elda Carbonara, og aðra klassíska rétti, með tvisti.

Gleiðilegt ár. Takk fyrir mig.

carbonara:brokkoli

Vetrarlegt Carbonara með blaðlauki og brokkólí

400 gr Penne eða öðru álíka pasta

1 blaðlaukur

1 brokkólíhaus

200 gr beikon

1/2 glas hvítvín

150 gr parmeggiano

3 eggjarauður

70 ml rjómi

Smjörklípa

Timian

Olía

Salt og pipar

Vatn í pott, saltað og suðan látin koma upp. Á meðan er beikonið skorið í litla bita og steikt upp úr smá olíu þar til það fer aðeins að brúnast. Laukurinn skolaður og saxaður og bætt úr á pönnuna ásamt smjörklípunni og timianinu. Salt og pipar. Steikt þar til laukurinn fer að verða glær. Hvítvíni bætt út á og soðið vel niður. Nú ætti vatnið að sjóða. Pasta út í. Brokkólí skorið í litla bita og soðið með pastanu í 4-5 mínútur. Tekið upp með gataspaða og bætt úr á pönnuna. Steikt þar til pastað er tilbúið. Sósan gerð klár á meðan. 3 eggjrauður hrærðar saman við ostinn og rjómann. Vatnið látið renna af pastanu en passað að halda eftir um 1 bolla fyrir sósuna. Pastanu bætt úr á pönnuna (hún þarf n.b. að vera stór) og slökkt undir. Öllu blandað vel saman. Eftir um 1 mínútu, eða þegar steikingarhljóðið hættir, er eggjahrærunni blandað hratt og örugglega saman við og því fylgt snögglega eftir með hálfum bolla af pastavatni. Hrært vel og blandað. Ef sósan er of þykk má bæta við smá meira vatni. Berið fram rjúkandi heitt með góðu hvítvíni eða vatni eða bara mjólk eða kóki. Allt má.

Read Full Post »

Berlínskur jólamatur

Fiskur virðist vera áberandi á metseðlun vestrænna kristinna þjóða á þorláksmessu eða aðfangadag. Við Íslendingar höfum vanið okkur við skötuna og er það gott og blessað, eðlilegt er að halda matarhefðum sem þessari við en ljóst er að ég mun seint leggja mér kæstan fiskinn til munns. Hér í Þýskalandi er aðalhátðin á jóladag og er því hefð fyrir því að borða fisk á aðfangadag. Þótti það jafnvel tabú að leggja sér kjöt til matar á þessum degi vegna trúarlegra ástæðna. Á jóladag er mjög rík hefð fyrir því að elda gæs og á það rætur sínar að rekja langt aftur í aldir þegar nýju sólarári og þar með fæðingu frelsarans var fagnað með því að slátra eins dýrmætum og fitumiklum fugli og gæsin var. Það getur hafað spilað inn í að það hafi í raun ekki borgað sig að halda uppi gæsum mikið lengur þar sem þær eru tiltölulega dýrar í rekstri og eftir desember er erfitt að halda þeim í ákjósanlegum holdum vegna kulda. Karpi eða annar ferskvatnsfiskur fékk því heiðurssess ásamt hefðbundnu kartöflusalati á aðfangadag til að stemma stigu við kjötveislu komandi daga.

Í það minnsta var það eitt sinn þannig en nú hefur þessi hefð tekið nokkurs konar u-beygju. Nánast allir sem ég hef rætt við segja að á aðfangadag eigi maður að borða látlausan mat til að sýna virðingu við þá sem minna mega sín. Kartöflusalatið heldur sínu sessi enda kartaflan eitt helsta stolt prússneskrar nýlenduhyggju keisaranna sem héldu mikið upp á jarðeplið og gerði allt sem í þeirra valdi stóð til að breiða út kartöfluboðskapinn, og var vald þeirra töluvert. En ekki er lengur boðið upp á fisk heldur gæða þjóðverjar sér á einföldum en bragðgóðum og fitumiklum bratwurstpylsum, dazu genug Bier. Aðfangadagur er því ekki hjúpaður sama helgileika og rólegheitum og hjá okkur á Íslandi. Hér fer fólk einfaldlega á fyllerí og borðar pulsur.

Gleðileg jól.

jólapylsur1

Bratwurst með kartöflusalati

Bratwurstpylsur (fást hjá pylsugerðarmanninum í Laugarnesinu)

700 gr kartöflur

3 msk saxaðar súrar gúrkur

3 msk mæjó

2 ms sýrður rjómi

1-2 msk hvítvínsedik

2-3 msk olía

1 góð lúka fersk steinselja, söxuð

2 vorlaukar eða 1 skallotlaukur, saxaðir

Salt og pipar

Pylsurnar smurðar með smá olíu, settar í ofnskúffu með nokkrum lárviðarlaufum og steikar við 180° -200° í 30-40 mínútur. Passa að stinga í þær með beitum hníf til að koma í veg fyrir að þær springi. Kartöflurnar skrældar og soðnar í saltvatni þar til þær eru meyrar. Látnar kólna. Innihaldi dressingunnar blandað saman í skál og smakkað til. Hún ætti að vera hressandi súr. Kartöflurnar skornar í bita eða sneiðar og velt upp úr dressingunni. Pylsur á disk, kartöflusalat til hliðar, bjór í glas. Prost.

jólapylsur2

Read Full Post »

Þjóðverjar fara ekki leynt með ást sína á jólagæsinni. Eða jólaöndinni. Hvað þá jólakalkúninum. Þetta einhliða ástarsamband gerir það að verkum að einmitt núna  er stórum fuglum slátrað í gríðarlega miklu magni um gjörvalt Þýskaland. Það er bara gott og blessað. Hefðin fyrir jólagæsinni er mjög gömul og svo eru þessir fulgar sérlega hátíðlegir, bragðgóðir og metta marga svanga munna. Í fyrra vorum við einmitt með feita og fallega gæs sem við hægelduðum og fyltum með selleríaksfyllingu. Þá var mannmargt við jólaborðið en nú verðum við bara fjögur og látum því stóru fulgana eiga sig. Stefnt er að matreiða villibráð, jafnvel innbakað dádýrafillet eða hjört. Á jóladag verður svo reynt að bæta upp fyrir hangiketsleysið með smá bita af hunangsgljáðum hamborgarhrygg. Hjá slátraranum er ég þar að auki búinn að næla mér í pulsur og salami og alls konar paté, terrine og kæfur (algjörlega grunlaus um muninn þar á milli) svona til að narta í á milli kjötréttanna.

En svona rétt áður en karnivalið skellur á með kröftugum kjötsvima er rétt að fá sér smá grænmeti. Það er kalt úti. Rigning og snjónum hefur fyrir löngu síðan skolað niður ræsin. Þokan í Berlín er einstaklega grá og þykk og alltumlykjandi. Þegar inn er komið er kannski ekki skrítið að þrá eftir lit, þægindi og hita geri vart við sig. Í kvöld var gulrótarsúpa í matinn og verð ég að segja að hún uppfyllti allar óskir mínar eftir áðurnefndum tilfinningum og skynjun. Súpan var kröftug og fyllandi, chilíið yljaði og brúnin lyftist heldur betur. Og ekki gramm af kjöti í augnsýn. En ekki þarf annað en að opna ískápurinn lítið eitt og þá byrjar mann nánast um leið að svima.

gulrótarsúpa:vetur

Gulrótarsúpa um vetur 

5 stórar gulrætur

2 kartöflur

2 laukar

1 grein rósmarín

1 lárviðarlauf

1 tsk sterk chiliduft

1 tsk kóríanderfræ

1 tsk kúmin

Góður grænmetiskraftur (ca 750 ml)

Góð smjörklípa

Olía

Salt og pipar

Laukurinn saxaður og látinn krauma við vægan hita í smjörinu og olíunni í 10 mínútur þar til hann verður sætur og góður. Kartöflurnar og gulræturnar skornar í litla teninga og bætt út  í ásamt kryddinu. Hrært og steikt í nokkrar mínútur. Krafti bætt við þar til hann rétt flýtur yfir. Soðið í 20 mínútur. Borið fram með slettu af sýrðum rjóma og til þess að gera súpuna einstaklea jólalega er gott að rífa yfir smá mandarínubörk.

Read Full Post »

Smákökurnar

Þegar ég fór sem skiptinemi til smábæjarins East Aurora rétt utan við gömlu stálborgina Buffalo á landamærum New York fylkis og Kanada var ítrekað margoft að líklegast væri að heimþráin yrði kröftugust um jólin. Ekki aðeins myndum við skiptinemarnir sakna fjölskyldunnar og hefðanna í kringum jólastandið heldur einnig myndi fósturjörðin toga í okkur með sínum jólasnjó, froststyllum, ófærð, rigningu, kulda og slagviðri. Vissulega saknaði ég mömmu og pabba og hamagangsins í laufabrauðsgerðinni í reykmettuðu jólaloftinu hjá ömmu Hildi og þrátt fyrir gríðarlegt og einstaklega jólalegt fannfergi sem einkennir veturna í Norðvesturhluta New Yorkríks get ég staðfest að það vottaði fyrir þrá unglingshjartans í slabb og rok. Núna var ég því nokkuð vel undirbúinn fyrir hvers konar heimþráareinkenni en þau hafa satt best að segja látið á sér standa. Reyndar tók hjartað smá kipp uma daginn en þá rak ég augun í mynd af fallegum streng í enn fallegri á um hábrjatan og sólríkan íslenskan sumardag. Berlín er nefnilega einstaklega jólaleg um þessar mundir. Fyrir stuttu  kyngdi niður jólasnjó og fólk fjölmennir á skandinavíska jólamarkaðinn hérna við hliðina og skolar niður bæverskum pulsum og desertum með íslensku brennivíni og jólaglöggi. Óhætt er því að segja að jólaskapið sé komið og er ekkert á förum alveg á næstunni og ekki ber mikið á söknuði á íslenskri ættjörðinni. Gott væri nú samt að hafa stórfjölskylduna nálæga en Skype brúar bilið að einhverju leyti.

Jólastemmningin hrópar á bakstur. Ljóst er að börnin vilja gera kalla og kellingar og verður sá prósess tekinn fyrir einhvern daginn fyrir jól. Nú um helgina var hins vegar skellt í jólalegar biscotti kökur, kókostoppa og súkkulaðibitakökur. Gott með kaffi, gott með mjólk, gott með öllu!

 jólabiscotti

Jólabiscotti

250 gr hveiti

200 gr sykur

2 tsk lyftiduft

3 egg (hrærð)

100 gr grófsaxaðar möndlur

1 sjúss amaretto

2 kúfaðar matskeiðar fínmalaðar heslihnetur

2 tsk kanill

1 tsk negull

100 gr saxað 70% súkkulaði

Rifinn börkur af einni mandarínu

Hveiti, lyftidufti, kryddum og sykri blandað saman. Eggjunum bætt saman út í þar til degið verður hnoðanlegt, kannski aðeins blautt. Líklega þarf ekki að nota alla eggjahræruna. Súkkulaði, hnetum, möndlum og berki bætt við og blandað vandlega. Hnoðað lítillega og skipt í 5-6 hluta. Hlutarnir mótaðir í ca 3 cm þykkar pulsur og settar á 2 ofnskúffur með bökunarpappír með nægt bil á milli. Ýtt aðeins ofan á þær til að fletja þær aðeins út. Bakað við 160 gráður í 20 mínútur eða þar til pulsurnar hafa brúnast lítillega. Tekið út úr ofninum og látið kólna. Pulsunar skornar í þumlungsþykkar sneiðar og bakaðar aftur á hvorri hlið í 6-10 mínútur eða þar til þær eru alveg stökkar. Látnar kólna og svo dýft í kaffi, sætt vín eða bara mjólk.

Kókostoppar

2 egg

1 dl sykur

200 gr kókos

1 tsk vanilludropar

Ofninn í 180°. Egg og sykur þeytt saman þar til blandað verður létt og ljós. Vaniludropum hrært út í og svo er kókosnum blandað saman við. Teskeið af blöndunni samsvarar einum topp en gefið er leyfi á frjálsa aðferð við mótun. Við mótuðum í litlar kúlur í höndunum með tilheyrandi klístri. Bakað í 15-20 mínútur eða þar til topparnir hafa fengið smá lit. Látnir kólna og botnarinr penslaðir með bræddu súkkulaði.

 smákökur

Súkkulaðibitakökur

150 gr smjör (við stofuhita)

100 gr sykur

2 msk sýróp (gamaldags, hlyn eða agave)

1 egg

2 tsk vanilludropar

225 gr hveiti

1 tsk matarsódi

Örlítið salt

200 gr saxað súkkulaði

Ofninn í 190°. Smjör og sykur og sýróp þeytt saman þar til blandan er ljós kremuð. Vanilludropar út í ásamt egginu. Blandað vel. Hveiti, salt og sódi sigtað yfir og blandað saman. Súkkulaðibitum bætt við, blandað og mótað í litlar kúlur. Sett á ofnskúffu með bökunarpappír, nóg bil á milli, og bakað í 8-12 mínútur. Sérlega góðar í miklu magni með kaldri mjólk.

Read Full Post »

Gebratene Mandeln

Jólamarkaðirnir hérna hafa fyrir löngu síðan fattað hvernig best er að laða til sín fólk með peninga. Galdurinn er einfaldur: Nóg af blikkandi hringekjum, rólum, trampólínum og öðrum háværum og litríkum leiktækjum sem gera það að verkum að þegar ómurinn af havaríinu nær eyrum barnanna í kílómeter radíus þá er ekki aftur snúið. Ekki skemmir fyrir að Gluhweinið er ansi gott og yljar vel. Það er hins vegar ósklijanlegt af hverju teknóskotin bæversk jólaoktóberfest tónlist virðist vera vinsæl hjá skipuleggjendum þessa markaða. Reyndar erum við heppin að þessu leyti því að markaðurinn handan við hornið hjá okkur reynir eftir fremsta megni að líkja eftir gríðarlegri þrá íbúa Prenzlauer Bergs í skandinavíska stemmingu. Þar er því spiluð teknóskotin sænsk jólatónlist.

Á meðan börnin djöflast í leiktækjunum er ágætt að ná sér í eitthvað að maula. Bæverkir klassíkerar eins og Kartoffelpuffer, Kaisersmarrn og Schweinenacken eru góðir og blessaðir en maður verður kannski örlítið þreyttur á djúpsteikingu og rjóma og rúsínum eftir nokkur skipti. Hins vegar virðist ég ekki ætla að verða þreyttur á sykurhúðuðum möndlum  og get torgað ótrúlegu magni af svoleiðis gotteríi. En þetta fer nú allt saman að telja því ekki eru möndlurnar ókeypis og hvað þá skandinavíska stemmningin og því brá ég á það ráð að gera góðan skammt heima og eiga í krukku, af möndlunum þ.e.a.s. Svo jólalegar og bragðgóðar eru þessar möndlur að ég held að ég geti staðfest að þær verði ein af jólahefðum okkar um aldir alda.

karamelumöndlur

Sykurhúðaðar möndlur

1/2 bolli vatn

1 bolli sykur

2 bollar möndlur

1 tsk kanill

Vatn og sykur brætt saman á pönnu. Möndlum og kanil bætt við þegar sykurinn hefur náð að leysast upp. Látið sjóða og  hrært rólega þar til mest allur vökvi er gufaður upp. Þá er möndlunum hellt yfir í ofnskúffu með bökunarpappír, þær aðskildar með gaffli og látnar kólna.

möndlur2

Sonurinn og snjórinn

Read Full Post »

Í síðustu viku fluttum við fjölskyldan. Undanfarnar vikur höfum við hjónin staðið í því að dekórera nýtt aðsetur okkar frá grunni. Hér ytra er það nefnilega oftar en ekki tilfellið að íbúðir eru án alls, jafnvel eldhúsinnréttingar. Í okkar tilfelli vantaði þar að auki gólfefni og alla búslóð en við erum úrráðagott ungt og skapandi fólk og tókumst á við þetta verkefni af stóískri ró að lokinni þarfagreiningu og glöggri bókhaldsskoðun. Ég tók það til dæmis að mér að smíða eldhúsinnréttingu úr listum, eða prikum öllu heldur, og krossvið. Þar kom óendanlegt hangs á verkfræðistofum foreldra minna að góðum notum því að innréttingin er sláandi lík teikningunum sem ég rissaði upp.

Svona búferlafluttningar hafa það reyndar líka í för með sér að netsamband verður stopulla þar sem það tekur óralangan tíma að koma upp teningu í Þýskalandi. Er það í fullu samræmi við ríkjandi hefðir þýskrar skriffinsku. Ég mun hins vegar reyna mitt besta að koma að færslum því nú styttist jú í jólin og þá er nú aldeilis gaman að vera áhugakokkur. Komandi færslur innihalda meðal annars jólashortbread, hægelduð svínasíða, konfekt og alls konar vitleysa.

En nóg um það. Aftur að fluttningunum. Eftir að hafa smíðar eldhús er ekki nema von að maðr velti því fyrir sér hvað maður eldar í svona heimaföndruðu matreiðslumusteri? Fyrsti rétturinn hlýtur að setja einhvers konar tón, gefa forsmekk um það sem koma skal, vera stefnuyfirlýsing hins nýja musteris og þeirra trúarbragða sem þar eru iðkuð. Jafnvel áður en ég byrjaði að klambra spýtunum saman var þessi pressa farin að taka sinn toll af sálarlífi mínu. Ætti ég að vera með þríréttað? Eða eitthvað mjög einfalt og ferskt? Eða eru ekki alltaf pizzur í boðið þegar maður flytur? Get ég þá verið þekktur fyrir eitthvað annað en plebbalegar súrdeigspizzur?

Þegar stundin rann upp og ég kveikti á gasinu í fyrsta skipti var það til þess að gera morgunmatinn, hafragraut með eplum og kanilsykri. Klassískt, einfalt og gott. Svona verður matreiðsla mín þá.

Hafragrautur

1 bolli hafrar

Rúmlega 2 bollar vatn

Epli

Kanilsykur

Hafrar í pott. Vatn yfir. Soðið í nokkrar mínútur. Saxað epli og kanilsykur yfir.

Read Full Post »