Feeds:
Athugasemdir

Archive for nóvember, 2012

Brauð í morgunsárið

Kaldasti og dimmasti tími sólarhringsins er rétt fyrir klukkan sex á morgnana. Hiti gærdagsins hefur þá gefið algjörlega eftir fyrir myrkrinu og sólin á ennþá töluvert í það að koma hlutunum aftur í gang. Á þessum tíma er myrkrið eins og það gerist svartast og fáir sem kæra sig um að vera á ferli í þessum kulda og sorta. Rétt fyrir klukkan sex kemst stórborgin næst því að þagna en stuttu seinna, þegar fyrsta sólarglætan ryðst í gegnum þykka þokuna, vaknar hún rólega og fer hún að iða í skinninu af löngun í mannlíf og kaffi og læti. En núna, rétt fyrri klukkan sex, sefur hún vært hjúpuð þokunni frá ánni og mýrunum.

Ég er vakandi. Ég er að hugsa um að fara að hita mér kaffi. Blessuð börnin eiga það nefnilega til að vilja vera vakandi um miðja nótt og stundum, eftir margar misheppnaðar tilraunir til að fá foreldra sína með í þessum sérstaka leik, tekst þeim að vekja mömmu og pabba. Nánast um leið og þessu markmiði hefur verið náð og gulltryggt að annað hvort foreldrið sofni ekki aftur í bráð, steinsofna börnin aftur. Ég sit því hér frammi rétt fyrir klukkan sex, glaðvakandi, og horfi á borgina sofa.

Óróleikinn, sem fylgir því að vera stressaður yfir því að geta ekki sofnað strax aftur og að bráðum komi dagur og þá vakni börnin og maður þarf að takast á við það allt saman hundþreyttur og sloj, getur stundum við óþægilegur. En ég dey ekki ráðalaus. Ég fer einfaldlega að baka brauð. Bökunarferlið er mjög róandi og um leið dreifir það huganum og eyðir stressinu. Jafnvel tekst manni að fá sér kríu á meðan hleifurinn hefast. Afraksturinn er svo nýbakað brauð í morgunsárið og bökunarilmur í kaupbæti sem gerir morguninn fram að hádegi einhvern vegin þægilegri. Þá fær maður sér lúr.

Kraftmikið spelt og rúgmjölsbrauð með höfrum

400 g fínt spelt

100 g rúgmjöl

rúmlega 300 ml volgt vatn

1 tsk ger

1 tsk salt

1 góð lúka hafrar

Mjölinu og gerinu blandað vel saman. Vatni bætt við og hrært þar til degið verður hnoðanlegt en samt blautt og sæmilega klístrað. Spelt og rúgmjöl draga í sig töluvert vatn og því þarf kannski að bæta aðeins við vatni. Hnoðað þar til degið verður slétt og fallegt og auðvelt í meðhöndlun, lágmark 10 mínútur. Það verður svolítið klístrað en maður skal forðast að drekkja því í hveiti, bara nota smá þegar verst er. Mótað í kúlu og látið hefast í klukkutíma eða tvo eða þar til það hefur tvöfaldast. Deginu ýtt rólega niður og flatt lítillega út með hnefunum og höfrunum stráð yfir það. Degið brotið saman á alla kannta, hnoðað lítillega til að dreifa höfrunum. Mótað í þétta kúlu, penslað með smá mjölk og höfrum stráð yfir. Látið jafna sig og hefast á vel hveitstráðu trébretti undir viskastykki eða poka í um 30-40 mínútur. Nokkrar rákir skornar í brauðið og það bakað við 250° í 10 mínútur og svo í 20 mínútur við 220°. Gott er að setja smá vatn í ofnskúffu neðst í ofninn til að viðhalda rakanum og gefa góða skorpu. Borið fram með smjöri og osti, sterku kaffi og fyrstu geislum sólar.

Read Full Post »

Það er nú margt sem fjölmenningin og hnattvæðingin hefur fært heiminum. Nú borða allir kebab, sushi og pad thai eins og enginn sé morgundagurinn og Ömmubakstur hefur framleitt tortilla kökur í mörg ár. Við hjónin fögnum þessari þróun að sjálfsögðu sérstaklega í tilfelli tortillurnar því að hér á bæ er klisjukennd útgáfa hnattvæðingarinnar á mexíkóskum mat í miklu uppáhaldi. Ég hef aldrei komið til Mexíkó og þekki engan sem er þaðan og hef ekki lesið eina einustu matreiðlsubók um mexíkóskan mat. Þrátt fyrir það kunnum við hjónin að gera svakalegt guacamole og salsa og getum klambrað saman einhverju sem hægt væri að kalla tortilluköku. Smá kjöt og grænmeti og sýrður rjómi og þá er þetta nú eiginlega bara komið, er það ekki?  Amigos, óhætt er að mæla með eftirfarandi með ljósum bjór og Karamba með Retro Stefson.

Salsa

4-5 tómatar

1/2 hvítlaukur

1 lítill laukur

1 lime

1 lúka steinselja

1 tsk sykur

Chili eftir smekk og dirfsku

Salt

Pipar

Tómatarnir fræhreinsaðir og skornir í fernt og settir í matvinnsluvél. Laukurinn, hvítlaukurinn og chiliið saxað fínt og sett í vélina ásamt steinseljunni, safanum úr limeinu, sykri, salt og pipar. Allt púlsað 3-4 sinnum eða þar til salsað er orðið vel saxað en þó ekki orðið að súpu. Ef salsað er of blautt er um að gera að setja það í sigti og láta aðeins renna af því. Sett í skál.

Guacamole

1 avokadó

1/2 laukur

1/2 hvítlaukur

1/2 tómatur

1 lime

Steinselja

Salt og pipar

Smá Olía

Allt saman sett í matvinnsluvél og maukað fínt. Smakkað til og tvíkað ef þarf.

Tortilla

200 gr hveiti

Rúmlega 1 dl vatn

Salt

Smá olía

Öllu blandað saman þar til degið verður hnoðanlegt. Líklega þarf að bæta við hveiti eða vatni. Hnoðað aðeins og skipt í nokkrar litlar kúlur sem eru svo flattar út mjög þunnt í litlar kökur. Kökurnar eru svo steiktar á þurri pönnu í mínútu á hvorri hlið, settar og disk og poki settur yfir til að halda þeim mjúkum.

Á tortillakökurnar settum við að auki niðurskorna papriku, sýrðan rjóma, rifinn ost og nautahakk sem við skeiktum með salti og pipar og einum lauk þar til það var mjög stökkt, ca 20 mínútur. Öllu hrúgað á kökurnar og reynt eftir fremsta megni að rúlla þeim saman og borða án þess að sulla öllu niður. Mucho gusto eða eitthvað!

Read Full Post »

Lasagne

Það eru nokkrir réttir í uppskriftabanka okkar hjóna sem ég kem ekki nálægt. Þá tekur matarkonan öll völd og bruggar einhvern seið til hliðar við réttina sem ég gæti aldrei leikið eftir. Reyni ég hins vegar að elda réttina verða þeir vissulega ágætir á bragðið en ekki mikið meira en það. Töfrar konunnar eru þá víðsfjarri og krakkarnir krafsa tómlega í matinn eins og latir kettir. Einn þessara rétta er lasagne. Hér hripa ég niður uppskriftina en get þó lofað ykkur því að útkoma ykkar kæru lesendur mun verða eins og mín, bragðgóð og mettandi en ekki mikið meira en það. Hér er þessi réttur yfirleitt borðaður í þögn þar sem matargestir eru oftar en ekki andlega víðsfjarri, í óralandi, í draumkenndu eldhúsi ítalskrar mömmu sem tjáir sig með litlu örðu en góðlátlegu glotti og bendingum um að fá sér meira. Við kinkum kolli í þögninni og borðum orðlaus á okkur gat.

Lasagne húsmóðurinnar

2 laukar

2 gulrætur

1 sellerístilkur

3-4 hvítlauksrif

1 bolli baunir eða kúrbítur eða annað grænmeti

500 gr hakk

2 dósir niðursoðnir tómatar

1 glas rauðvín

1 lúka ferskt basil

1 lúka steinselja

Smá vatn

Smjör

Hveiti

Mjólk

Lasagneplötur

Rifinn ostur

1 kúla mozzarella

Oregano

Olía

Salt og pipar

Laukurinn, gulræturnar og sellerístilkurinn saxaður smátt og steikt á stórri pönnu upp úr slatta af olíu í nokkrar mínútur eða þar til laukurinn er orðinn glær og vel það. Tekið af pönnunni og hakkið steikt upp úr olíu þar til það verður stökt. Grænmetinu bætt aftur úr á pönnuna og hvítauknum bætt við. Steikt í örfáar mínútur. Rauðvínið út í og soðið aðeins niður og að lokum er tómötunum bætt við ásamt kryddinu, salti og pipar, smá vatni og látið sjóða rólega í um 20 mínútur. Á meðan er bechamelsósan, eða jafningurinn, löguð til. Um 50 gr smjör brædd á í potti á vægum hita. Helmingi minna af hveiti bætt úr í og steikt aðeins. Skvettu af mjólk bætt út í og hrært vel. Sósan þykknar hratt og mjólk því bætt við í litlum skömmtum þar til sósan er orðin álíka þykk og þykk jógúrt. Þá er bara um að gera að setja þetta saman í eldfast mót. Smávegis af bechamel sósunni dreift í botninn og lasagneplötur settar þar ofaná. Svo kjötsósa og svo aftur plötur og bechamel þar ofan á og svo kjötsósa og svo plötur og svo bechamel o.s.frv. Ofan á efsta lagið af plötunum er sett smá bechamle og ofan á það er settur rifinn ostur og mozzarella. Klárað með smá oreganó og skvettu af olíu. Eldað í 30-40 mínútur í við 180° eða þar til osturinn er fallega gullinn og kötsósan bubblar. Borið fram með smá salati og glasi af rauðvíni.

Read Full Post »

Gúllas

Nú hugsa kannski sumir að ég tali í eintómum þversögnum. Gúllasfærsla næst á eftir blammeringum um kjötneyslu hins kapítalíska vesturs! Foj. Já, vissulega er þetta þversögn enda annað nánast ómögulegt í framandgerðum raunveruleikanum, hér ríkir þversögnin ein. En eins þversagnakennt og það hljómar þá er þetta ekki þversögn nema að hálfu leyti; Þetta gúllas, þennan gúllas, þessa gúllas gerði ég úr ódýrum fitumiklum vöðva og get auðveldlega eldað tvo rétti fyrir fjóra úr 700 grömmum af kjöti, gúllas í dag, spaghetti bolognese á morgun, og jafnvel litla böku í hádegismat á mánudaginn ef ég er heppinn. Svo var það líka Neuland. Þar hafiði það. Face.

En nóg af afsökunum. Ég má alveg elda kjöt. Galdurinn á bak við gott gúllas er tími, rólegheit, áðurnefnt fitumikið nautakjöt, rigning og nóvember. Og nóg af rauðvíni. Ég veit reyndar ekki alveg hvort að ungverjar myndu samþykkja þessa útgáfu af gúllas/i sem alvöru og ef menn eru gjarnir á að móðgast yfir svoleiðis hlutum þá gef ég leyfi fyrir því að þessi réttur verði kallaður grýta, pottréttur eða kássa. Ég veit hins vegar að þessi útfærsla var ansi góð og hressandi og fullkomið mótvægi við hrissinglega rigninguna og útsynninginn.

Gúllas með kartöflmús

500 gr nautakjöt, helst af skankanum

150 gr beikon

50 gr choizo pylsa

2 rauðlaukar

Hálfur blaðlaukur

2 vænar gulrætur

2 sellerístilkar

1 paprika

2 hvítlauksrif

Rósmarín, timían, óreganó

Smá hveiti

2 dósir niðursoðnir tómatar

1 1/2 glas rauðvín

500 gr kartöflur

100 gr smjör

Smá mjólk

Parmeggiano

Salt og pipar

Smá sykur

Olía

Beikonið skorið í bita og steikt upp úr smá olíu. Chorizo pylsan skorin í bita og bætt út í. Kjötið skorið í teninga og velt upp úr hveitinu. Beikonið og pylsan tekin af pönnunni, smá smjörklípa sett út á og kjötið brúnað í skömmtun. Grænmetið skorið gróflega og bætt úr í pottinni ásamt öllu kjötmetinu. Rauðvíninu bætt við og áfengið soðið úr því. Tómatarnir út í ásamt kryddi, piprað vel og soðið mjóg róleg aí 2 klukkutíma.

Kartöflurnar soðnar í saltvatni. Þegar þær eru tilbúnar er nánast öllu vatninu helt af fyrir utan botnfylli eða svo. Smjör, salt, pipar, smá sykur og hálf lúka parmeggiano sett út í og hrært og stappað þar til að músin er ágætlega mjúk. Óþarfi er að búa til barnamat úr þessu, má alveg vera gróft og með kartöflubitum.

Pottrétturinn saltaður og smakkaður til. Rauðvín í glösin og málið er dautt.

 

Read Full Post »

Rusl

Á miðvikudaginn síðastliðinn var haldin ráðstefna um matarvælalandið Ísland þar sem fjallað var um aukinn tækifæri í framleiðslu og verðmætasköpun íslenskra matarafurða. Í útvarpsviðtali um ráðstefnuna sagði auðlindahagfræðingurinn Daði Már Kristófersson m.a. að Ísland gæti hæglega og ætti að framleiða meiri mat en það gerir nú þegar, og vísaði þar t.d. til framfara í ræktun á byggi og hveiti. Eitt var það í þessu annars ágæta viðtali sem stakk mig. Mankyninu fjölgar um 300 þúsund manns á hverjum degi og þessa nýju matargesti þarf að brauðfæða. Daði vildi meina að við Íslendingar ættum, eins og aðrar þjóðir heims, að taka þátt í því að framleiða mat handa heimsbyggðinni og leggja þar með okkar að mörkum til að brauðfæða hina rúmlegu 6 milljarða manns sem jörðina byggja.

Fyrir ekki svo löngu síðan var ég sammála þessu viðhorfi en núna hef ég hins vegar skipt algjörlega um skoðun. Lausnin við matarþörf hins örtstækkandi mankyns liggur alls ekki í því að rækta meiri mat. Það er til nóg af mat fyrir alla núna, svo mikið reyndar að hægt er að útrýma allri hungursneyð heimsins með nokkrum einföldum aðgerðum. Í bókinni Waste fjallar Tristam Stuart um hversu hátt hlutfall matvælaframleiðslu heimsins er hent í beint ruslið. Stuart fer um víðann völl og tekur fyrir allar greinar nútíma matvælaframleiðslu, frá matarhefðum og borðsiðum heimilla til samlokupökkunarverksmiðja, stórmarkaða og hrísgrjónaakra. Bókin byggir á gríðarlegu magni af tölulegum staðreyndum og setur Stuart oft fram mjög sjokkarandi samaburð á hefðum og venjum vestræns mataræðis (og öllu sem því fylgir) og aðstæðum hins svokallað þriðja heims. Í afar stuttu máli er niðurstaða Stuart sú  að hið vestræna mataræði hefur t.d í för með sér að rúmlega helmingi allra matvæla sem framleidd eru fara beint í ruslið áður en þau komast í búðirnar, fyrst og fremst vegna fagurfræðilegra staðla stórmarkaðanna. Þar að auki henda stórmarkaðir að lágmarki 20 % allra matvæla t.d. vegna reglna um síðsasta söludag eða neysludag sem eru oftar en ekki í takmörkuðu samhengi við raunverulegan líftíma vörunnar. Ofan á það bætast svo við matur sem við hendum heima fyrir sem er einnig um 15-25% matarkörfunnar. Í öllu tilfellum er verið að tala um mat sem væri hægt að nýta betur en ekki óætt rusl. Ef litið er á kílókaloríur í þessu sambandi má benda á að af þeim rúmlega 46oo kílókaloríum sem framleiddar eru á hverjum degi per mann neytum við aðeins 2000. 2700 fara forgorðum eða eru illa nýttar.

Sú hugmynd að það þurfi að rækta meira gengur því ekki upp nema að afar takmörkuðu leyti. Vissulega væri mjög hagkvæmt og gott ef Ísland gæti orðið sjálfbærara með mat, sérstaklega korn og grænmeti. Hins vegar er ljóst að nóg er af ræktarlandi í heiminum sem hægt væri að nýta betur. Sú áhersla sem samfélag okkar leggur á kjötmeti til dæmis gerir það að verkum að gengið er harkalega á regnskóga Brasilíu, stræsta framleiðanda soyabauni í heimu, til þess eins að ryðja fyrir soya sem notað er svo í fóður fyrir nautgripi í Evrópu, þar með talið á Íslandi. Úrgangur í kjötvinnslu er gríðarlegur því að við höfum vanið okkur á að borða bara bestu vöðvana en nýtum í minna mæli fitumeiri vöðva og nánast ekkert innmat eða bein. Eitthvað fer í hundamat og beinrmjöl (sem n.b. er gefið nautgripunum aftur í óskemmtilegri hringrás í gegnum fóður á ákveðnum tilfellum skv Stuart) en mest allt er urðað. Ef við myndum ala nautgripi við sómasamlegar aðstæður og ala þá á grasi í meira mæli og minnka örlítið við okkur í kjötáti myndi það opna fyrir betri nýtingu á hunruðum þúsunda ferkólómetra þar sem dýrahald felur í sér hlutfallslega slæma nýtingu á auðlindum og næringargildi þess sem hægt er að rækta (það tekur t.d. 500-4000 lítra af vatni til að búa til kíló af korni en 5000 til 100.000 lítra til að framleiða kíló af kjöti. Þess má geta að við borðum að meðaltali 37,2 kíló af kjöti per mann á ári (eða rúmlega 700 grömm á viku). Ef þriðji heimurinn er tekinn út úr þessari summu á verður dæmið aðeins öðruvísi. Bretar borða 83 kíló á ári, Hollendingar 63 og Bandaríkjamenn 123. Óhætt er að fullyrða að við Íslendingar borðum líklega yfir kíló á viku á mann, líklega meira.

Betri nýting á auðlindum er því forgangsmál þegr kemur að því að skoða hvernig við eigum að brauðfæða þá 9 milljarða sem búist er við að mæti í mat árið 2050. Áður en við förum að skoða hvernig við getum aukið við ræktarland okkar Íslendinga til að auka matvælaframleiðslu heimsins þurfum við að nýta matinn okkar betur með því að gera þau matvæluframleiðslukerfi sem við búum yfir mun hagkvæmari og skilvirkari varðandi nýtingu  afurða. T.d. borða minna kjöt og krefjast þess að útlitsgallað græmneti (sem er fullkomlega sambærilegt að bragðgæðum) sé selt mönnum en ekki hent í ruslið.

Fyrir þá sem eru sleipir í þýsku má benda á þessa heimildarmynd sem kom út í fyrra, Taste the Waste. 

Read Full Post »

Fjórir réttir á sunnudegi

Síðastliðinn sunnudag var fjórréttað hér á bæ. Tilefnið var ekkert nema það að okkur langaði að hangsast inn í eldhúsi og elda almennilega sunnudagsmáltíð á annars köldum og blautum nóvemberdegi. Fyrripart dags glugguðum við í matreiðslubækur og blogg í leit að réttum sem féllu vel að innihladi búrsins og ísskápsins. Aðal viðmiðið var ískalt þýskt Pinot Noir freyðivín sem við höfðum keypt til að fagna nýjum íbúðaleigusamningi. Allt varð því að passa við það því ekki ætluðum við, virðuleg borgarhjónin, að fara að sulla í vitleysu fyrir framan börnin með óhóflegu úrvali af áfengi. Eftir hæfilega afslappaðar vangaveltur var niðurstaðan þessi: Reyktur lax á heimagerðu blini með sýrðum rjóma og dilli, köld gulrótarsúpa með lime og kúmin, fugl með stökkri pólentu,  gufusoðnu brokkólí og soðsósu og frönsk súkkulaðikaka með vanilluís. Stærsta breytan í þessari upptalningu var fulginn og varð hún að ofulitlu vandamáli. Á venjulegum sunnudögum er ekki hægt að komast í kjörbúð hér í borg þar sem þær eru allar lokaðar. Hins vegar bjóða sumar búðir upp á svokallaða sunnudagsopnun fyrsta sunnudag hvers mánaðar. Ég skildi því út í kulda og rigningu og ná í fulg. Fljótlega komst ég hins vegar að því að þessi sunnudagsopnin er nánast aðeins að nafninu til því að ekkert kjöt var til í þeim búðum sem ég fann. Fyrir utan stöku vakúmpakkaða reykta svínaskanka en fyrirliggjandi freyðivínsbreyta útilokaði þá um leið. Að lokum hætti ég mér inn í kauphús austurberlínar, Gallería, og þar stóð valið á milli fransks kjúklings, tveggja aumra skógarsnípa eða andaleggja. Ég valdi kjúklinginn þó að það væri kannski full gróteskt (og óborgaralegt) að bera fram heilan kjúkling eftir tvo forrétti en hugsaði með mér að ég gæti mögulega eldað þrjár máltíðir með einum kjúlla ef ég væri sniðugur (sem ég var…og er jafnvel.)

Við dóluðum okkur saman í sunnudagsrólegheitum við matreiðslu og borðhald fram eftir kvöldi og freyðivínið rann ljúflega niður með hverjum réttinum. Kjúklingurinn var mjög góður, safaríkur og bragðmikill en kalda gulrótarsúpan sem frúin töfraði fram var klárlega besti rétturinn, ótrúlega bragðgóð og frískandi.

Reyktur lax á blini

Blini:

1 1/2 dl hveiti

1 eggjahvíta

1 tsk lyftiduft

1 tsk natrón

Mjólk

Salt og olía

Reyktur lax

Sýrður rjómi

Sítrónusafi

Dill

Þurrefnunum blandað saman og svo eggjahvítunni og olíunni bætt út í og hrært vel. Mjólk hrært saman við þar til blandan verður álíka þykk og þykk málning. Ein matskeið af blöndunni samsvara einu blini. Steik við meðalhita þar til að loftbólur fara að myndast og þá snúið við.

Smávegis af sítrónusafa hrært saman við sýrða rjómann og teskeið af honum sett á hvert blini. Því næst smá sneið af laxi, önnur teskeið af rjómanum og svo eitt lítið dilllauf þar ofaná. Freyðivín með.

Köld gulrótarsúpa (sem lítill milliréttur)

300 gr gulrætur

1/2 blaðlaukur

1 hvítlauksrif

1 tsk kúmin

2 bollar kjúklingakraftur

2 msk limesafi

1 msk sýrður rjómi

Rifinn börkur af 1 appelsínu

Olía

Salt og pipar

Blaðlaukur, hvítlauk og gulrætur steiktar í olíunni í nokkrar mínútur. Kúmini bætt við. Fyllt upp með krafti og látið sjóða þar til gulræturnar eru meyrar. Maukað mjög vel (jafnvel hella í gegnum gróft sigti til að súpan verði flauelsmjúk.) Sett aftur á helluna og limesafanum, sýrða rjómanum og appelsínuberkinu bætt við. Soðið í nokkrar mínútur og svo kælt vel. Freyðivín með.

Ofnbakaður kjúklingur

1 heill freerange kjúklingur

1oo gr smjör

2 greinar ferkst rósmarín

2 greinar ferskt timían

Hálf lúka fersk steinselja

Fínt rifinn börkur af 1 sítrónu

2 hvítlauksrif

2 dl vatn

Salt og pipar

1 laukur

Freyðivínsglas

1 dl rjómi

Ofninn í 220°. Kryddið og hvítlaukurinn saxaður og blandað vel við smjörið ásamt sítrónuberkinum. Losað léttilega um haminn á bringunni og lærunum og smjörinu smurt vel innundir. Afganginum af smjörinu nuddað vel yfir allann fuglinn. Saltað og piprað yfir allt saman og kjúklingurinn settur í ofnskúffu eða lítinn steikarpott ásmt vatninu. (Eftirá hugsuðum við að það hefði jafnvel verið betra að setja freyðivín í staðinn.) Steikt í 15-20 mínútur og hitinn svo lækkaður í 180° og steikt í ca klukkutíma til viðbótar. Látið standa undir álpappír á 15 mínútur á meðan sósan er gerð. Mest allri fitunni helt úr steikarfatinu en þó alls ekki allri. Laukurinn saxaður og bætt út í fatið og það sett á hellu og steikt í nokkrar mínútur. Freyðivínsglasi bætt við og skófunum blandað vel við sósunu. Látið sjóða niður í smá stund. Rjómanum bætt út í og látið sjóða niður um helming. Kjúklingurinn borinn fram með sósunni og gufusoðnu brokkólí. Freyðivín með.

Frönsk súkkulaðikaka

200 gr smjör

200 gr súkkulaði

1 dl sykur

4 egg

1 dl hveiti

Smá salt

Ofninn hitaður í 170°. Smjör og súkkulaði brætt rólega saman í potti ásamt örlitlu salti. Eggin og sykruinn þeytt saman þar til blandan verður ljós og létt. Hveiti blandað varlega saman vð eggin og svo súkkulaðismjörinu sömuleiðs. Hellt í smurt form og bakað í 20-30 mínútur en kakan á að vera aðeins blaut í miðjunni. Borið fram með vanilluís. Freyðivín með.

Read Full Post »

Séð við gasofni

Glöggir lesendur þessa blogs hafa kannski tekið eftir því að ég og gasofninn minn erum ekkert sérlega góðir vinir. Samband okkar er tregablandið því mér þykir ofninn helst til þrjóskur í og ósveigjanlegur þegar kemur að því að framkalla fallega brúna skorpu á brauð án þess að brenna botninn á því. Þar að auki vill hann ekki sjá það að ég komi með smákökudeig nálægt sér. Þar sem mér finnst einlæglega gott að borða nýbakað brauð, að ég tali nú ekki um súrdeigs, ákvað ég í gær að reyna að gabba ofninn minn. Ég er mikill talsmaður þess að hnoða brauðdeig nánast út í hið óendanlega, og hef vísað í fræði máli mínu til stuðnings. Þessar leiðinda aðstæður mínar með ofninn hafa hins vegar þvingað mig til að skoða nýjar nálganir í þeim efnum, nefnilega brauð sem ekkert er hnoðað og bakað í potti. Eftir stutt google ákvað ég því að prófa að skella í deig fullur efasemda. Þegar leið á ferlið og ég sá hvernig degið hagaði sér varð ég jákvæðari. Deigið er frekar blautt og er látið hefast lengi í nokkrum lotum og gerið nær þannig að vinna vel á sykrunum og mynda glúten, bindast og verða teygjanlegt. Lokaður potturinn heldur svo vökvanum inni og myndir kjöraðstæður fyrir brauðið til að lyfta sér vel og bakast jafnt. Afraksturinn er loftmikið og létt brauð með teygjanlegri áferð og sætri skorpu. Ég hef því unnið þessa orustu gegn ofninum þó að það sér kannski ekki fyrir endan á stríðinu.

Pottabrauð (1 meðal stórt brauð)

Byrjað á því að hræra vel saman í skál 100 gr brauðhveiti, 50 gr spelt, 220 ml voglt vatn go 1 tsk af geri. Látið standa undir plastfilmu í 6-8 tíma. Þá er öðrum 100 gr brauðhveiti og 50 gr spelt ásamt tsk af salti hrært saman við þar til að degið myndar ágætis klessu sem ekki væri hægt að hnoða undir neinum kringumstæðum vegna þess hve blautt það er. Plast sett yfir skálina og hún látin standa við stofuhita í 10 tíma eða yfir nótt. Því næst er hveiti stráð á borð og deginu hellt úr skálinni á borðið. Með kíttispaða eða öðrum spaða er degið brotið saman nokkrum sinnum og látið standa í 20 mínútur. Degið er nú hætt að vera blaut klessa og er farið á láta ágætlega að stjórn. Þó verður að passa að vera með nóg af hveiti við hönduna og á höndunum svo að degið klístrist ekki út um allt. Að lokum er degið mótað í kúlu, sett í skál með vel hveitistráðu viskastykki. Látið hefast í 2 tíma. Leirpottur eða steikarpottur settur inn í ofn og hitað í 250°. Potturinn tekinn varlegur út, deginu hvolft varlega í pottinn, lok á og bakað í 15-20 mínútur. Þá er lokið tekið af og bakað í 5-10 mínútur til viðbótar til að fá fallega gullinn lit á skorpuna.

Það væri nú ekki út vegi fyrir brauðlausa Seyðfirðingana að reyna þetta.

Read Full Post »