Feeds:
Athugasemdir

Archive for september, 2012

Óskiljanlegt aðdráttarafl sveppa

Ég skil þetta ekki alveg. Undanfarið hefur líf mitt snúist um lítið annað en sveppi. Þráhyggjan hefur algjörlega tekið yfir og þegar ég er spurður hvað mig langi í matinn svara ég vélrænt ‘sveppi’. Mér finnst þeir meira að segja ekkert brjálæðislega góðir, alveg fínir í hófi en oft bara slepjulegir og óspennandi. En í huga mínum er fyrirbærið sveppaltýnsla að færast ískyggilega nálægt einhvers konar ofstækisfullri veiðidellu. Ég get ómögulega gengið framhjá grasbletti án þess að rýna í hann í von um svepp. Ekki geta þetta verið ofskynjunarkennd áhrif sumra sveppa því ég gæti engann veginn borið kennsl á slíkt fyrirbæri. Af einhverjum ástæðum er skautað snyrtilega framhjá slíkum sveppum í öllum leiðsögubókum um kynlegar lendur svepparíkisins. Þar er bara sagt frá hvaða sveppi má borða og hverjir geta drepið mann, eins og t.d. Viðarkveif eða Death Skull Cap eins og hann er kallaður erlendis. Að fara í sveppamó er því orðið álíka streituvaldandi og að fara að veiði með tilheyrandi ofsatengdum veðuráhuga og aðgerðakvíða.

Á föstudaginn síðasta hellirigndi og nánast um leið og það byrjaði að rigna fór ég að plana næsta túr. Á laugardeginum voru skúrleiðingar en á sunnudaginum var þetta líka fína veður og ég var óðar farinn að iða í skinninu og farinn að sjá fyrir mér sveppagróinn skógarbotninn. Ég komst ekki lengra út úr bænum en upp í Öskuhlíð slík var óþreyjan. En þar eru sveppir. Sérstaklega furusveppur, sem þykir afbragð, og hinn fagri slímgumpur, sem þykir líka góður þrátt fyrir fráhrindandi nafnið. Ég týndi sem óður væri og fyllti góða öskju á rúmum klukkutíma.

Hingað til hef ég aðallega smjörsteikt sveppina og borðað ofan á brauð eða notað þá í pasta eða kássur. Núna ákvað ég því að breyta til og prófa að gera súpu enda nóg til af sveppnum. Súpan var að  töluverðu leiti spuni og eitthvað sem ég hefði mátt gera öðruvísi, sérstaklega að þurrsteikja sveppina fyrst til að losna við vökva og gera þá bragðmeiri. Eða bæta við þurrkuðum sveppum. En súpan var góð, mild og fín.

Koníaksbætt villisveppasúpa

Rúmlega 500 gr villisveppir

1 – 2 laukar

4 hvítlauksrif

2 staup koníak

1 l gott soð

Tvær kúfaðar msk marcarpone

Timían

Fersk steinselja

Léttþeyttur rjómi

Smjör

Salt og pipar

Sveppirnir snyrtir, skornir í sneiðar og helst steiktir á þurri pönnu þar til mest allur vökvinn hefur gufað upp. Vænni smjörklípu bætt við og steikt áfram þar til sveppirnar hafa brúnast eilítið. Lauknum bætt við og steikt áfram þar til hann verður glær. Hvítlauknum hrært út í og  stuttu seinna koníakinu. Látið sjóða aðeins niður. Saltað og piprað og kryddað eftir smekk með timíani og steinseljustilkum. Kraftinum helt út á og soðið rólega undir loki í u.þ.b. 20 mínútur. Þá er ostinum hrært saman við og látið þykkna aðeins. Sett í skálar og klárað með matskeið af rjómanum og saxaðri steinselju.

Svo er ég hættur í sveppunum…í bili…þar til að sveppatíminn byrjar í Þýskalandi í október þá fer ég aftur að ókyrrast.

Read Full Post »