Feeds:
Athugasemdir

Archive for júlí, 2012

Ég vil hér eyða örlitlu bleki í að biðjast afsökunar á bloggleysi undanfarið. Ástæðurnar eru fyrst og fremst tímaskortur í bland við netleysi og önnur verkefni. Ég vona að þessi skortur hafi ekki lagt líf einhverra þeirra fáu lesenda í rúst og óska þess að ég geti bætt ykkur þetta upp. Á næstu dögum mun ég birta nokkrar þráhyggjulegar færslur m.a. um alætur Michael Pollans og íslenskan kjötiðnað, silunginn í Vatnsdalnum og fleira. En ég byrja á plómum sem voru í þann mund að fylla götur og göngustíga Berlínarborgar þegar ég fór þaðan til Íslands í byrjun júlí. Versgú.

Í Lorraine héraði í norðvestur hluta Frakklands vex ávöxtur sem er kallaður því fagra nafni Mirabelle. Þessi ákveðni áxötur er eins konar lítil plóma og nota Frakkarnir hann hugvitsamlega og búa til sultur, bökur, confit, líkjör og brandy, og setja D.O.C stympil á þetta allt saman til að hækka verð og ýta undir aðdáun á nærumhverfi sínu. Ávöxturinn er oftast gulur en til eru afbrigði sem eru fjölublá og hárauð, og skýrir það væntanlega af hverju Ameríkanar kalla plómuna cherry plum. Like it’s almost a plum…but it looks like a cherry, y’know. Ég bý hins vegar ekki í Lorrain héraði og get ekki auðveldlega stokkið út og týnt mér hinar stórgóðu D.O.C. Mirabellur. En ég græt það ekki lengi. Mirabellutréið er sérstakt dálæti allra garðyrkjumanna sem búa við viðunandi hitastig árið um kring. Blómgun trjánna er rómuð, einkum og sér í lagi vegna þess hve snemma tréið blómgast. Tréið er því nánast allstaðar. Eitt slíkt tré er beint fyrir utan S-Bahn stöðina við Treptower Park. Það hefur verið óhirt í mörg ár og látið vaxa út í hið óendanlega að því er virðist. Þegar við fjölskyldan vorum á göngu þarna um daginn og tókum eftir greinunum sem svignuðu alla 6 metrana niður til jarðar vegna fjölda ávaxta gátum við hreinlega ekki látið setið hjá og var faðirinn sendur upp í tré til að hrista eins og eina grein. Afrakstur þessa klifurs var stútfullur poki af safaríkum og dýsætum plómum með einkennandi ananaskeim. Við hefðum auðveldlega geta fyllt tíu poka í viðbót bara að þessari einu hristu grein en við vorum bara með einn. Allt tréð hefði líklega geta róað öll börn Prenzlauer Bergs í 3 mánuði samfleytt, slíkur var fjöldinn af plómunum.

Flestar plómurnar voru borðaðar eins og þær komu af tréinu, hráar og ferskar, en ég náði að skjóta nokkrum undan til þess að búa til einfalda plómuköku með plómusósu.

Plómukaka

Plómur, slatti

100 gr smjör

100 gr sykur

2 egg

90 gr hveiti

1 tsk lyftiduft

4 msk mjólk

50 gr fínt saxaðar hnetur eða möndlur

fínt rifinn börkur af sítrónu

1 msk sykur

Ég nota oft mjög lítið form og þvi um að gera að tvöfalda þetta vilji fólk gera almennilega köku. Ofninn hitaður í 180° gráður. Plómurnar skornar í helminga, steinninn fjarlægður og þær skornar í fjórðunga ef þær eru stórar. Sykurinn og smjörið þeytt vel saman og eggjum svo bætt við einu í einu. Sítrónubörkur hrært saman við. Hveiti og mjólk hrært saman við með sleif og svo hnetunum bætt við. Gott væri að bæti við nokkrum msk af plómusósu út í soppuna (Plómusósa: nokkrar plómur í pott með smá sykri, lok á og soðið þar til hýði og steinar losna frá, síað og sett í skál.). Sett í smurt mótið og plómusneiðunum raðað ofan á soppuna og ýt aðeins niður. Matskeið af sykri yfir allt saman. Bakað í 40 – 50 mín eða þar til prjón sem stungið er í kemur hreinn út. Borið fram með þeyttum rjóma og plómusósu.

Read Full Post »