Feeds:
Athugasemdir

Archive for mars, 2012

Eins og kom fram í síðustu færslu ætla ég að birta uppskrift að þeim dýrindis rétti sem kona mín reiddi fram hér  í vikunni, hvers ilmur vakti mig úr lasleika og með þeim afleiðingum að ég valt úr bæli mínu, brosti og tók gleði mína á ný svona rétt á meðan ára réttsins fyllti nærumhverfi mitt og maga. Rétturinn, Kjötbollur í tómatsósu með pasta, er einkar viðeigandi einmitt núna. Þannig er mál með vexti að ég og kona mín, og börn reyndar líka, gerðum okkur ferð á hinn svokallaða Tyrkjamarkað í Kreuzberg. Á leiðinni diskúteruðum við nýjustu fréttir frá Íslandi um gullæðið sem virðist umlykja sölu kirsuberjatómatsins. Fannst okkur þetta fjaðrafok furðulegt og hressandi í senn. Á markaðnum kenndi ýmissa grasa og hægt að kaupa óbleikt léreft í metravís, þurkaða ávexti, ost, fisk, brauð og allar aðrar vörur í heiminum. Þar á meðal kirsuberjatómata. Þegar við fórum framhjá einum básnum rak okkur hreinlega í rogastans, okkur svelgdist á latteinu og börnin þögnuðu. Við blasti skilti sem auglýsti kílóið af kirsuberjatómötum á 1,50 evru. Það gerir um 240 krónur. Mig minnir að í fréttinni frá Íslandi hafi verið sagt að pakkinn, um 200 grömm, kosti rúmlega 500 krónur. Það gerir kílóverð upp á rúmlega 2000 kall. Við stöldruðum því ekki lengi við básinn, bara rétt nógu lengi til að kauða kíló og hafna tilboði  ákáfa sölumannsins um 2 kíló á 2, 50, það hefði bara verið dekadens.

Og hvað gerir maður svo við kíló af kirsuberjatómötum? Jú, konan var með plan og lét heldur betur hendur standa fram úr ermun. Ég lagðist bara í veikindavesen. Hér hef ég eftir uppskrift hennar:

Kjötbollur í tómatsósu

1 kíló kirsuberjatómatar

8 – 10 hvítlauksrif

2 gultætur

2 laukar

basillúka

safi úr hálfri sítrónu

skvetta af rauðvíni

olía, salt og pipar

400-500 grömm hakk

börkur af 1-2 sítrónum

basil

1/5 dl furuhnetur

lúka af rifnum parmesan

1 egg

2 dl brauðrasp

salt og pipar

olía til steikingar

pasta

Hitið ofni í 160° C. Saxið laukinn, hvítalukinn  og gulræturnar fínt og setjið í eldfast mót ásamt tómötunum. Saltið og piprið, hellið smá olíu yfir allt saman. Inn í ofn í klukkutíma eða þar til ilmurinn reisir veika menn úr rekkju.  Nú er tvennt í boði: annað hvort að mauka í spað með töfrasprota sem veldur því að sósan verður þykkari, eða þrýsta í gegnum sigti en þá verða fræ og hýði eftir og sósan verður þynnri. Við maukuðum. Setjið í pott, bætið rauðvíni við og látið sjóða aðeins niður. Bætið svo við saxaðri basillúku og sítrónusafnum í lokin.

Kjötbollurnar eru gerðar á eftir farandi hátt: öllu blandað vel saman í skál og saltað og piprað. Við notuðum fínt rifinn börk af einni og hálfri sítrónu en það fer allt eftir gæðum ávaxtarins hve mikið manni langar að nota. Mótið í litlar kúlur og steikið í skömmtum upp úr góðu magni af olíu. Þá verður þær stökkar og góðar. Bætið þeim út í tómatsósuna þegar búið er að steikja allar bollurnar. Sjóðið pasta í vel söltu vatni. Berið fram með grófu olífubrauði, nokkrum salatlaufum, ferskum parmesan og nóg af ítölsku chianti takk fyrir.

Soltnir gestirnir

Read Full Post »

Já góðan daginn. Hér í Berlín er vorið komið og með því tilheyrandi vorveikindi. Hin meðfædda íslenska veðurbjartsýni veldur: um leið og hitinn skríður yfir 15 gráður er maður mættur út í garð á því sem næst adamsklæðunum. Ég ligg því í veikindum. Ég vil biðjast afsökunar á viðveruleysi mínu hér á þessu bloggi síðasta mánuðinn. Ástæðan er Íslandsför í bland við tæknilega örðuleika en nú er ég kominn til baka og tilbúinn að takast á við vor meginlandsins með öllum sínum aspas, eggjum, lambakjöti, salati, hita, blómun, brenninettlum, lifur, ætiþystlum, hvítvíni og ég veit ekki hvað. Í veikindum mínum hef ég einmitt verið að undirbúa mig fyrir komandi átök og horft á River Cottage Spring seríuna. Ég mæli eindregið með henni ef menn eru veikir og fullir þrá á hinu breska vori.

Áður en hið mikla rof kom í færsluskrið mitt hér á blogginu var ég eitthvað að tala um súr og súrdeigsbrauð. Af því er helst að frétta að ég hef gert nokkrar tilraunur til að nálgast guðdóminn og hafa þær tekist með ágætum. Fyrsta brauðið reis eins og ég veit ekki hvað en tók sér góðan tíma í hinum frábæra þýska gasofni. Ég þarf eitthvað að venjast þessu sérstaka fyrirbæri sem brennir nánast undantekningalaust alla botna en skilur toppa eftir hráa. En þetta er allt að koma. Súrinn er svo kraftmikill, þökk sé hinu lífræna mjöli býst ég við, að hann lyftir grófmöluðu spelti eins og Jón Páll lyftir börnum. Ég mun hins vegar skella í eitt brauð á næstunni og dokjúmentara prósessinn eins nákvæmlega og ég get. Annars er ansi svívirðilegt boulangerie á næsta horni og stefnir það brauðtilraunum mínum í stórkostlega hættu því ég held að ég hafi aldrei smakkað eins gott roggenbrötchen og þar býðst. Svo ekki sé talað um croissantið.

Mín heittelskaða og yndislega kona hefur staðið vaktina í eldhúsinu í veikindum mínum. Reyndar má segja að við deilum eldabuskuhlutverkinu jafnt á milli okkar óháð veikindum. Hún tók sig til og bjó til heimagerðar kjötbollur og hafði með pasta og tómatsósu. En tómatsósan var látin malla rólega í nokkra klukkutíma og var eingöngu út kirsuberjatömötun. Ilmurinn var slíkur að ég reis úr pestarbæli mínu og smellti af nokkrum myndum og át svo matinn í félagi við nokkra góða vini. Rauðvín með og lyftist brúnin þá heldur á matarkarlinum. Uppskrift og myndir koma í kvöld.

Nóg í bili.

 

Read Full Post »