Feeds:
Athugasemdir

Archive for janúar, 2012

Hádegismatur námsmanns

Fullkominn hádegismatur hins vinnandi námsmanns hlýtur að vera frönsk omeletta. Einfalt, fljótlegt, gott, hollt, o.s.frv. Ég er reyndar á þeirri skoðun að egg séu upphaf og endir alls í eldhúsinu enda eru þau grunnurinn að næstum því öllu sem gott heitir; ís, vanillusósa, pasta, gnocci, suffle, súkkulaði mousse, kökur, marens, sætabrauð, spælegg, mæjó, bernaise, hollandaise, egg í brauði, brioche, croissant. Listinn er nánast endalaus. Omelettan er líklega einn allra einfaldasti réttur sem hægt er að gera og ef vel til tekst verður hún flauelsmjúk og djúsí. Til eru tvær týpur, sveita og klassísk. Munurinn er sá sveitatýpan en aðeins grófari en sú klassíska og aðferðin er aðeins öðruvísi. Hér er hægt að sjá Juliu Childs búa til klassíska omelettu, hress og kát eins og hún er. Ég bætti reyndar við smá osti, það er allt í lagi, Jamie segir það. Það er líka ekki til að draga úr bragðgæðunum, ónei.

Omeletta námsmanns

2 egg

lítil lúka rifinn ostur

smjörklípa

salt og pipar

Panna, helst tiltölulega lítil með ágætlega háun og ávölum brúnum, hituð vel. Eggin hrærð vel saman með salti og pipar. Smjörið brætt á pönnunni og eggjahrærunni suttu seinna. Pannan hrist til og frá og jafnvel hrært aðeins með gafli. Ostinum dreift yfir. Pannan hrist og hrist og þegar kaka fer aðeins að þykkna þá er hún brotin saman og látin blásað örlítið út. Velt yfir á disk og steinselju stráð yfir. Vatn með.

Read Full Post »

Forward to nature

Svo kemst Oddný Eir að orði í Jarðnæði. Rómantískar hugleiðingar um mögulegt smábýli þar sem edengarður ávaxta og grænmetis dafnar vel virðast frekar en aðrar geta heltekið allt rými hugar míns. Kindur og geitur og belja á beit, hænur á vappi, svín í stíu. Fullkomið afdrep. En togsteitan er mikil þar sem ég vil ekkert frekar en að búa í borg, og helst í miðbæ hennar ef slíkur er til staðar. Þó svo að rómantíkin við sveitina togi í mig þá hef ég ekki mikla löngun til yfirgefa notalega gráan skarkala og ærslagang nútímasamfélagins og flýja inn í grasgræna fortíðarþránna, borða bara nýtýnd grös, skyr og súra punga. Kartöflur með. Það hlýtur að vera hægt að sameina þetta, kópera ekki spurningalaust hið gamla, hlaupa upp í sveit með písmerki á tánum, fara aftur til náttúrunnar. Við hljótum að komast fram til náttúrunnar, taka með okkur pínulítinn skarkala og vesen, ipadið og gróðurhús með fíkjum og tómötum og gúrkum og melónum, jafnvel vindmyllu eins og í Belgsholti og tengt okkur inn á landsnetið, fengið borgað fyrir að framleiða rafmagn og fá plús í kladdan fyrir að vera uppfinningasamur á krepputímum. Það hlýtur að vera til leið áfram. En á meðan ég finn hana ekki þá er ágætt að dvelja huglægt í hreinni rómantík og horfa á hvernig hlutirnir voru gerðir í gamladaga og hvernig maður gæti flúið upp í sveit of lifað af landinu, Bretlandinu það er.

Til eru þættir sem heita Tales from the Green Valley, Victorian Farm og Edwardian farm. Þar er að finna ansi góða lýsingu á daglegu, og einstaklega rómantísku, lífi smábónda á 17., 18, og við upphaf 19. aldar. Séu menn viðkvæmir fyrir Jane Austin landslagi þá má vara við yfirdrifinni notkun á slíkum áróðri.

Fyrir þá sem vilja hlaupast fullkomlega, eða því sem næst, frá nútímanum og lifa aðeins á viltum grösum og plöntum og dýrum þá hægt að benda á þættina A Cook on the Wild Side. Þar reynir Hugh Fearnley Wittingstall að lifa aðeins á því sem hann getur safnað, týnt eða veitt. Nútímamaðurinn í leit að sjálfum sér í faðmi móðurinnar, náttúrunar, og skrítna fólksins.

Hvað var í matinn? Þessa dagana eru skiladagar og eyði ég því öllum stundum í flúorlýstum skólanum. Skellti hins vegar í ofnbakað polenta með alvöru hvítlauksmæjónesi í gær og tók með í nesti. Svolítið eins og nöggets nema bara betra:

Polentan soðin skv leiðbeiningum á poka. Þegar hún er tilbúin er bætt í hana vænri smjörklípu og vel af parmesan. Gæt væri líka að saxa fínt rósmarín eða ólívur og hræra útí en það gerði ég ekki. Salt og pipar og hellt í mót og látið kólna alveg. Þegar polenta er orðin köld og stíf úr hún skorin í bita, velt upp úr olíu og bökuð við 220° í 25-30 mín eða þangað til að hún er gullin og brakandi stökk. Mæjó: Ein eggjarauða, eitt rifið hvítlauksrif, ein teskeið sinnep og ein skvetta af hvítvínsediki þeytt saman í skál. 120 ml sirka af olíu, helst ekki olívu því þá verður mæjóið of bragðsterkt, þeytt saman við, fyrst í dropavís og svo varlega í mjórri bunu. Þegar sósan er þykk og flott þá er hún söltuð og pipruð og bætt við smá sítrónusafa og málið er dautt.

Engin mynd en reynið bara að sjá mig fyrir ykkur sitjandi á bekk undir stóru eikartréi í fallegum garði módernískrar skólabyggingarinnar, horfandi á sýkið, hlustandi á fuglana í janúarsólinni, síðdegis.

Í kvöld kom ég svo heim og fékk aðra útgáfu af nöggets nú í formi linsubuffa sem var velt upp úr maismjöli. Sjúklega gott. Leyndarmál makknöggetsins opinberast hér með, maísmjöl. Það er þetta gula duft sem Dómínós notar á botnana. I’m lovin it.

Read Full Post »

Þetta er svokallað matarblogg. Er það í eðli slíkra blogga að vera eins konar vettvangur fyrir glorífíkeraðar hugmyndir höfunda um eigin hæfni og færni í eldhúsinu. Er það minn vilji að þetta blogg smellpassi í slíkt mót enda er ég ekki hótinu skárri en aðrir matarbloggarar. Ég vonast til að þetta blogg gagnist sem flestum, þó líklegast sé að nokkrir vinir mínir, og kannski mamma og pabbi og bróðir minn, lesi þetta sér meira til skemmtunar en lærdóms. En vitið til, vinir og foreldrar og bróðir, ég kann ýmislegt fyrir mér í elhúsinu sem gæti gagnast ykkur. En ef ekki, ef þið nennið ekki að lesa þetta, þá gætuði þið kannski skoðað stílíseraðar myndirnar, eða smellt á tenglana sem oft munu fylgja skrifunum og horft á fræga menn og konur elda mat, eða rækta kartöflur og annað grænmeti, eða slátra svínum.

Aðeins um mig. Ég er búsettur á meginlandi Evrópu, þar sem matarmenning og þekking er samofin siðum og hefðum samfélagsins. Ég á hins vegar heima í því landi sem er kannski síst frægt fyrir góðan mat fyrir utan pulsur, bjór og schnitzel. Já, ég bý í Þýskalandi, nánartiltekið í Berlín. Hér eru hins vegar markaðir á hverju strái og auðvelt að verða sér út um góð, fersk og árstíðarbundin hráefni. Slík gæti verið áhersla þessa bloggs ef hægt er að tala um áherslu. Ég er þar að auki listamaður og má því búast við afar listfengnum myndum svo ekki sé talað um stórkostleg konsept í nálgun og aðferðafræði. Og ég er tveggja barna faðir og mætti því fella matreiðslu mína undir heimilsmat. Hér er lítið um hið mólekúlíska eldhús El Bulli.

En að matnum. Ég hefði getað verið sniðugur og byrjað þetta blogg á föstudegi og komið með einhverja roalega opnunaruppskrift af minni nálgun við heimagerðan alvöru djúsi hamborgara með frönskum steiktum upp úr gæsafitu. En nei, í dag er miðvikudagur og því við hæfi að byrja á hversdaglegum kartöflurétt. Með salati að vísu. Ég var að horfa á Franska ódisseifu Rick Steins og er því með einfaldan og klassískan franskan sveitamat á heilanum.  Í þáttunum siglir hann á pramma, mjög fínum reyndar, eftir skipaskurðum og ám frá Bretaníu til Miðjarahafsins og borðar og drekkur og snobbar á leiðinni. Í einum þættinum eldar hann Dauphinoiese kartöflur og ég hugsaði með mér að þetta væri líklega einn sá allra hversdagslegasti réttur sem ég hef séð. Eins og sönnum matarkarli sæmir verð ég alltaf að tvista uppskriftina aðeins, bara svona svo að maður klúðri henni alveg örugglega. En þá getur með allavega sagt að maður hafi verið að reyna að finna upp nýtt hjól, að maður hafi verið að gera eitthvað frá grunni, skapa. Ég bætti því sellerírót og notaði sýrðan rjóma á móti mjólkinni og rjómanum og setti smá ost ofan á. Jamie segir að það sé gott að nota sellerírót í þennan rétt og því hlýt ég að fylgja okkar óttalausa leiðtoga í þeim málum. Auk þess er sellerírótin klassískt vetrargrænmeti og því ekki úr vegi að nota það. Ég fór að ráðum Ricks og hafði salat með, rúkóla, aðallega til að þetta liti ekki út fyrir að vera fátæklegasti réttur ársins. Sem þetta varð reyndar ekki þar sem að nánast öll hráefni voru lífræn. Réttinum var vægast sagt vel tekið og klúðraðist frekar lítið og hafði Spiderman, sem bauð sér sjálfur í mat,  það sérstaklega á orði hve góð sósan var. Spiderman er hins vegar ekki mikið fyrir nýtísku plebbasalat.

Dauphinoise kartöflur og  sellerírót á miðvikudegi

500 gr kartöflur

1 væn sellerírót

200 ml rjómi

200 ml mjólk

200 ml sýrður rjómi

smjör

1 saxað hvítlauksrif

rifin ostur

salt og pipar

Ofinn í 160 gráður. Eldfast mót smurt með væni klípu af smjöri og söxuðu hvítlauksrifinu dreift um mótið. Kartöflurnar og sellerírótin skornar í þunnar sneiðar og raðað lagskipt í mótið, kartöflur/sellerírót/kartölfur/sellerírót… þangað til að fatið hefur verið fyllt. Passið að salta og pipra á milli allra laganna. Rjómanum, mjólkinni og sýrða rjómanum blandað saman (ég hitaði reyndar mjólkina og rjómann með lárviðarlaufi og steinseljustiklum til að auka á stælana) og hellið blöndunni yfir og út um allt. Smá rifinn ostur yfir og ásamt nokkrum litlum smjörklípum. Salt og pipar. Inn í ofn í klukkutíma og korter. Borið fram með rúkóla með granateplafræjum og bjór með. En ekki hvað?

Read Full Post »