Feeds:
Athugasemdir

Þjóðverjar munu líklega aldrei gefa upp þann sið að loka öllum búðum á sunnudögum. Ólíkt okkur heiðingjunum vilja þeir varðveita eitthvað sem gæti flokkast undir rólegheit og telja að takmörkun neyslu einn dag í viku hafi eitthvað með það að gera. Þetta er hið besta mál að mínu mati og maður neyðist oftar en ekki til þess að setjast á kaffihús, vera á meðal fólks og taka sér óeðlilega langan tíma í gæða sér á úrvalsbröns. En maður lifir ekki á brönsinum og rólegheitunm einum saman þegar maður hefur gleymt því að gera ráð fyrir þessari forneskjulegu lokun. Einn daginn í apríl lenti ég í því að þetta var það eina sem var til á heimilinu þegar átti að útbúa kvöldmat:

brenninetlupasta1

Ekki dugaði þetta til að seðja fjölskylduna og þó að ég sé alveg hliðhollur hinni ítölsku cucina povera matarhefð þá var þetta nú ansi langt gengið. Nú voru góð ráð dýr og börnin farin að ergjast af svengd. Ég leitaði eins og óður maður af einhverju sem myndi einhvern veginn geta reddað málunum, sameina hin takmörkuðu hráefni í einn snilldarrétt. Ekkert gekk. En þegar ég stökk út til að henda rusli, rak ég augun í bjargvætt minn, grösuga breiðu af nýsprottinni brenninetlu.

brenninetlupasta2 brenninetlupasta3

Ég tíndi nóg í góða skál af pastarétt og ró færðist aftur yfir þennan friðsæla sunnudag. Þeir sem ekki eru svo heppnir að komast í ferska brenninetlu geta látið sér nægja spínat í staðinn.

Pasta með hvtílauk, tómat og brenninetlu

Linguine

1 tómatur

3 hvítalauksrif

Körfufylli af brenninetlu (líklega um 500 gr)

Pastað soðið samkvæmt leiðbeiningum. Ein ausa af pastavatni tekin frá. Olía hituð á pönnu, hvítlaukurinn saxaður fínt og settur út á. Steikt í 1 mínútu. Tómaturinn saxaður og bætt út á. Steikt á lágum hita í nokkrar mínútur, smá skvettu af vatni bætt við ef pannan verður of þurr. Blöðin tekin af brenninetlunni og stilkunum hent. Hún skoluð og sett út á pönnuna. Vatnið sem er á henni ættiað duga til að sjóða hana niður. Hrært aðeins og lok sett á pönnuna. Soðið í 2-3 mínútur. Kryddað með salt og pipar og hálf sítróna kreist yfir ef hún er til. Soðið rólega áfram þar til brenninetlan er orðin dökk og byrjuð að klessast aðeins. Sett í skál með pastanu og hálfri ausu af pastavatninu og hrært vel. Restin af pastavatninu sett út á ef þetta er  þurrt. Steinselja klippt yfir í lokin. Borið fram með stóískri ró.

brenninetlupasta4  brenninetlupasta5

Þessi vetur var einstaklega mildur hér í Berlín. Það fór ekki mikið fyrir Síberíukuldanum þetta árið, bara rúm vika í janúar þar sem hann fór niður fyrir -10°. Undanfarið hefur verið mjög milt og náttúran hefur nýtt sér það til fulls. Vorið er í þann veginn að springa út með öllum sínum páskaliljum, túlípönum og kirsuberjablómum.

Á þessum tíma árs fæ ég yfirleitt þá flugi í höfuðið að ég verði að rækta eins mikið grænmeti og ég mögulega get. Síðustu tvö sumur höfum við farið til Íslands í lengri tíma og því hef ég afskrifað allar ræktunartilraunir hér ytra. Í ár ætlum við hins vegar að eyða sumrinu hér í Berlín og þá fór ræktunarþráhyggjan á flug fyrir alvöru.

Ég bý hins vegar við töluvert hamalandi aðstæður. Möguleikar til ræktunar eru eiginlega öngvir fyrir utan gluggakistur. Þó svo að það sé stórkostlegur og risastór sameiginlegur garður bak við húsaröðina okkar þá má ekki plægja upp jarðveginn og breyta garðinum í eina alls herjar Edensmynd. Planið er því að láta gluggakistur duga og kannski kem ég nokkrum kössum fyrir útí garði ef ég er alvega að fara yfirum. Reyndar komst ég yfir gamlan strigapoka frá þýska póstinum og er að plana að fylla hann að mold og setja niður nokkrar kartöflur.

Ég hef hins vegar kannað málið og það lítur út fyrir að þetta takmarkaða rými til ræktunar komi því ekki til að með að trufla mig nema… að takmörkðuð leiti. Í gluggakistum verða kryddjurtir, salat, tómatar og chiliplöntur. Í kössunum gæti ég svo plantað  baunum og ertum, fleiri tómötum, zucchini, kartöflum, radísum, eggaldin og gulrætum. Kannski að ég stingi nokkrum maísplöntum niður á góða staði í blómabeðin. Ef þetta gengur upp ætti ég að vera nokkuð vel settur í haust. Sjáum til. Eitt er víst að ég mun dókúmentera þennan prósess eins vel og ég get og kaffæra ykkur, kæru lesendur, með sögum af sigrum og sorgum í þessum tilfinningalega rússibana sem þetta óumdeilanlega verður. Hana.

ræktun-gluggakistukrydd

Salvía, óreganó, sítrónutimían og skellótt timían teygir anga mót sólu í glugganum. Kryddinu verður síðan komið fyrir úti þegar hlýnar örlítið meir.

Rückkehr

Þar kom að því að ég leiddi hugann aftur að þessu ágæta bloggi mínu. Það sem af er ári hefur verið mjög mikið að gera fyrir utan hinn virtúal þráhyggjuheim minn. Það var nánast eins og öll dagskrá ársins hrúgaðist inn á 10 vikna tímabil. Ritgerðaskrif, heimildavinna og skilafrestir vógu þar þungt en á sama tíma för ég á tvær stærstu matarsölumessur í evrópu þar sem ég sannfærði fólk um að íslenskt sjávarsalt væri það allra besta í heimi. Ég hef tekið að mér að freista íbúa Þýskalands með saltinu frá Norður & Co, sem er einfaldlega besta salt í heimi, bæði hvað varðar bragðgæði, náttúruvæna framleiðsluaðferð og verð. (Ef þið hafið ekki prófað það nú þegar þá mæli ég sterklega með því tekið verði á þeim skandal.)  Þá sýndi ég nýtt verk á leiklistarhátið hér í borg og ofan í allt saman fékk ég svo mjög góðan styrk til að vinna að nýrri sýningu. En nú fer að rofa aðeins til og kannski að maður geti jafnvel hent inn nokkrum færslum frá liðnum vikum við tækifæri.

Matartengt er það helst að frétta að vegan tilraunin sem átti að vara í mánuð stendur enn yfir. Ekki ein einasta dýraafurð hefur farið inn fyrir minar varir á þessu ári…nei, nú lýg ég. Ég fékk mér eina þunna sneið að heimagerðri pulsu sem ítalarnir á næsta bás á einni matarmessunni buðu mér. Þeir töluðu reyndar enga ensku en voru mjög sannfærandi á sinni suður-ítölsku, sögðu að ég væri testa di cazzo ef ég prófaði ekki salami di nonna. Ég hló vændræðalega og smakkaði pulsuna og þeir glottu bara, klöppuðu mér á bakið og sögðu hlæjandi einu ensku setninguna sen þeir kunnu, forget about it. En puslan var ótúleg.

Vegantilraunin gekk, og gengur, fyrst og fremst út á það að koma sér út út viðjum vanans í eldhúsinu og þvinga sig til að hugsa aðeins út fyrir rammann. Það hefur heldur betur tekist. Við lentum til dæmis í því einn daginn að við vorum stödd niðrí bæ og urðum allt í einu mjög svöng. Við stukkum þá inn á kaffihús sem við höfðum nokkrum sinnum farið á áður og vissum að væri mjög gott. Þegar við renndum yfir matseðilinn var ekki einn einasti réttur á boðstólum sem ekki innihélt kjöt. Við nenntum ekki að leita að nýjum stað og spurðum því þjóninn hvort að það væri eitthvað sem hægt væri að gera. Hann sagði að það væri kannski möguleiki að sleppa kjúklingabringunni á einni samlokunni og þá væri hún bara með linsubaunum, tómötum og avókadó. Jæja, það hljómaði um það bil eins óspennandi og hægt var en við vorum einfaldlega of svöng til að fara annað. Samlokan leit sæmilega út svo sem, kannski full aumingjaleg. Bragðið var hins vegar ótrúlegt, einfaldlega ein besta samloka sem ég hef fengið, og síðan þá höfum við gert nokkra rétti með þessari samsetningu.

Sem dæmi um fleiri góða rétti má nefna sætkartöflugnocchi, gult karrý með kartöflum og tofu, kjúklingabaunir með tómötum og sterku harissa, seljurótarsúpu, ofnbakað eggaldin, pasta með ofnbökuðu súkíni og myntu, fullkomin vetrarminestrone, vietnamskt núðlusalat og fleira og fleira. Í gær tók ég síðan til í ísskápnum og henti í þennan frábæra rétt sem krakkarnir hámuðu gjörsamlega í sig. Ég held að þessi tilraun fái að vara aðeins lengur, í það minnst þar til við förum til Íslands í næsta mánuði, þá kannski að maður fái sér soðning.

kartöfluoglinsusalat1

Volgt kartöflu og linsusalat með fersku kryddjurtapestó

500 gr kartöflur

1 dós soðnar linsur

1 laukur

2 sellerístilkar

2 hvítrauksrif

1 búnt hvort um sig af basil, steinselju og rúkóla

1 sítróna

1 lúka ósaltaðar pistasíuhnetur (eða aðrar hnetur eins og heslihnetur, furuhnetur eða möndlur)

Olía

Salt og pipar

Kartöflurnar skrældar og soðnar í létt söltuðu vatni þangað til þær eru tilbúnar. Vatninu helt af og þær látnar standa aðeins. Laukurinn steiktur á pönnu þar til glær, sellerí bætt út og steik áfram í nokkrar mínútur. Hvítlaukurinn fínsaxaður og bætt út á pönnuna og steikt áfram í 1-2 mínútur. Linsurnar skolaðar og bætt út á pönnuna ásamt kartöfunum. Kryddjurtirnar maukaðar í matvinnsluvél ásamt sítrónusafa, fullt af ólívuolíu, salti og pipar. Innihaldi pönnunnar helt í stóra skál og kryddjurtamaukinu hrært saman við. Hnetunum blandað saman við og saltað og piprað eftir smekk. Gott að kreista sítrónusneið yfir allt saman. Verði manni svo bara að góðu.

kartöfluoglinsusalat2

Nýtt ár og ný mið.

Þá er komið nýtt ár. Ég vona að það verði ykkur lesendum hliðhollt, að þið dafnið í takt við jákvæðnina í ársstjörnuspánum og forðist neikvæðnina og að við saman reynum aðallega bara að verða betra fólk.

Síðustu vikur hef ég ekki verið iðinn við að setja inn nýjar færslur og eru reyndar töluverðar líkur á því að ég muni ekki breyta mikið af þeirri stefnu á næstu vikum. Ég er sem stendur á kafi í rannsóknarvinnu fyrir lokaverkefnið í skólanum (loksins þarf maður að gera eitthvað annað en að drekka latte) og hef því lítinn tíma til að skrifa um eitthvað annað en sviðsetningu sjálfsins, hverfulleika raunveruleikans og lýgi leiklistarinnar. Þrátt fyrir það verður líklega heill hellingur matartengds efnis sem hægt verður að skrifa um og mun ég henda inn færslum eftir bestu getu.

Ég hef til að mynda ákveðið að þessi fyrsti mánuður ársins verði vegan, þ.e. ég og konan mín munum ekki neyta neinna dýrafurða. Ástæðan er ekki endilega pólitísk eða eitthvað átak til að losa sig við jólabumbuna þó að ég hafi mikinn skilning á pólitískri afstöðu grænmetisæta og þeirra sem eru vegan, við ættum auðvitað að bora miklu minna kjöt og vanda töluvert betur þegar kemur að framleiðslu og vinnslu dýraafurða. Ástæðan er einfaldlega sú að okkur fannst sama bragðið orðið af öllu og langaði því að prófa nýjar leiðir í matreiðslu og athuga hvort að við lærðum eitthvað nýtt.

Þetta hljómaði allt saman mjög vel rétt fyrir áramót en málið varð strax töluvert flóknara þegar ég stóð frammi fyrir því að búa mér til vegan morgunmat á nýjársdag. Ekki gat ég fengið með mjólk út á grautinn, kornflexið eða seríósið, ekkert jógúrt með hunangi, engar lummur eða amerískar pönsur, hvað þá beikon og egg. Sökum þvermóðsku á ég þar að auki erfitt með að nota vörur eins og soya mjólk eða soyaost í veikri von um að það komi bara alveg í staðinn fyrir venjulega mjólk og ost. Í örvæntingu minni rak ég augun í múslí með appelsínusafa í stað mjólkurinnar. Þetta þótti mér í besta falli vafasamt en þar sem ég var svangur og þreyttur (og jafnvel eilítið þunnur) ákvað ég að prófa. Blandaði saman höfrum, hnetum og nokkrum þurrkuðum ávöxtum í skál, kreisti eina appelsínu yfir. Útkoman kom mér mikið á óvart því þetta var hreinlega ótrúlega gott. Miklu ferskara og léttara og einfaldlega bragðbetra en músli með mjólk. Ég er hér með háður þessari blöndu og skora á ykkur, kæru lesendur, að prófa.

musli2

Músli með  nýkreistum appelsínusafa 

Blandið saman í skál höfrum og hnetum og þurrkuðum ávöxtum að eigin vali. Einnig gott að setja sólkjarnafræ út í blönduna eða ferska niðurskorna ávexti, t.d. epli eða peru. Safi kreistur úr einni appelsínu og helt út yfir músliblönduna. Látið standa í 20-30 mínútur. Borðað. Með skeið.

musli1

Smjörklípur

shortbread1

Nýlega var sagt frá því í fréttum að rjóma og smjörskortur vofi yfir íslenskri þjóð. Tímasetningin gæti ekki verið verri, rétt fyrir jólavertíðina þegar LKL sjúk þjóðin ætlaði kannski aðeins að leyfa sér og fá sér nokkrar piparkökur og vanilluhringi og almennilegan jafning með hangikjötinu. Hleypa smá kolvetni aftur til heilans svo að hann geti hökt aftur í gang eftir að hafa legið í dái frá því í byrjun árs. Brugðist hefur verið við neyðinni og smjör verður flutt inn frá Bretlandi, með skömm að sjálfsögðu, enda samræmist það væntanlega ekki þjóðarstolti okkar að leita til þeirra andskota sem kölluðu okkur hryðjuverkamenn og bönnuðu okkur að stunda fullkomlega eðlilegt nígeríusvindl með gúmmitékkum og sápukúlupeningum.

En það er von að maður spyrji sig, hvað varð um allt góða alíslenska smjörið okkar? Getur hugsanlega verið að það hafi verið nýtt í einhverjum annarlegum tilgangi? Ætla mætti að gríðarstór og stirðbusalegur jólasveinn hafi laumupúkast á milli kúabúa  með ægilega skilvindu, háglansbláa og spánýja, og strokk stórgerðan, grænröndóttann, og haft á brott með sér töluverðan hluta mjólkurkvótans í formi tröllslegs smjörfjalls sem enginn kemst yfir nema fulginn fljúgandi. Önnur skýring getur ekki átt við rök að styðjast. Það verður að teljast harla ólíklegt að allt LKL liðið hafi keypt upp hundruð kílóa af mjólkurfitu til að forðast helsta óvin nútímamannsins og aðalnæringarefni heilans, hveitið. Og þó, eitthvað las ég um daginn að við Íslendingar værum komnir fast á hæla Bandaríkjamanna í  kapphlaupinu, ef kapphlaup skyldi kalla, um feitustu þjóð í heimi. En höldum okkur við jólasveininn, það er einhvern veginn rómantískara og þjóðlegra.

Um þessar mundir á sér stað einn stórkostlegasti blekkingarleikur sem íslensk þjóð hefur upplifað.  Smjörklípuaðferð Davíðs Oddsonar hefur verið fullkomnuð af formönnum stjórnarflokkanna sem hafa troðið sér í gamlan jólasveinabúning og þeyta klípum í allar áttir. Afleiðingar láta ekki á sér standa og þránað og vélstrokkað tilberasmjörið drýpur af veggjum helstu menningar – og heilbrigðistofnanna landsins. Í kjölfarið stendur stétt á móti stétt, menningu er att á móti heilbrigði, landsbyggðapakki á móti kaffisullurum og þeir hnakkrífast og metast um eigið ágæti og hvor stéttin eigi meira rétt á smáaurum til að þrífa drulluna af veggjunum. Smjörklípunni hefur rækilega verið klínt í köttinn, í þjóðina, í okkur, og hann hringsnýst nú um sjálfan sig í stað þess að horfast í augu við kvalara sinn.

Kjarni málsins er einfaldur: Við erum ógeðslega rík þjóð. Ein sú ríkasta reyndar. Við sitjum á auðlindum sem um þessar mundir mala svo mikið gull að sumir menn og konur fara með himinskautum. En við erum líka ógeðslega skuldug þjóð. Ein sú skuldugasta reyndar. Upp er komin bókhaldsvilla sem þarf nauðsynlega að lagfæra. En hvert á að sækja peningana? Er lausnin virkilega fólkin í því að skera nöglina af og hálfa höndina með og slátra almannaþjónustu, heilbrigðisstofnunum, skólum og menningarstofnunum? Er virkilega mikið fé þangað að sækja? Er ekki búið að skera niður í þessum grunnstoðum samfélagsins síðan löngu fyrir síðustu aldamót, frá því í miðju góðæri?  Á móti kemur að útgerðir og bankar sýna fram á milljarða hagnað, ferðamannaiðnaðurinn er á nálgast fiskinn að verðmætum, álrisar fá orkuverð á euroshopperverði og listir og menning skila gríðarlegum tekjum fyir mjög lítinn tilkostnað. En stjórnvöld eru ekki á því að þarna sé nokkuð að sækja, í formi skatta, gjalda eða nýsköpunar. Þvert á móti er  lagt allt kapp á að tryggja meira gull til handa þeim sem það mala fyrir eigin vasa, sem nota bene eru oftar en ekki sömu vasar og fylltust í blessuðu góðærinu. Það er heldur ekki að sjá hjá stjórnvöldum að að sparnaðurinn geti falist hjá þeim sjálfum. Síðast í dag var talað fyrir auknum fjárheimildum til æðstu stjórnsýslu ríkisins. Þar er lagt til að Leppalúði sjálfur fái 14 milljóna bónusgreiðlsu fyrir sína vinnu við málstaðinn. Þar skín í skítlegt eðli og sækja á mann minnisstæð orðin You ain’t seen nothing yet!

Þegar hart er í ári er sparibaukurinn brotinn. Slík hegðun myndi flokkast undir skynsemi. Það er ekkert annað en hroki  og vanvirðing við þjáða og skíthrædda þjóð að  sækja ekki pening þar sem hann er að finna. Á Íslandi í dag fer ekki mikið fyrir auðmýkt stjórnvalda í garð kjósenda heldur er alið á hræðslunni með bölsýni, þjóðrembu og hótunum sem nú hafa orðið að veruleika. Það er tími til kominn að við hættum í eitt skipti fyrir öll að láta hrekkjótta jólasveina með fimmaurabrandara og milljónaglott maka okkur smjöri. Hvikum ekki frá kjarna málsins, látum blekkinguna ekki gleypa okkur og mótmælum þessum skrílslátum og yfirgangi af krafti.

Ég legg til að við nýtum okkur enska smjörið til gangs í þessar ensku kökur sem eru sérlega LKL friendly í þeim skilningi að þær koma heilanum aftur í gang.

Shortbread (frá BBC)

4 oz butter

2 oz caster sugar

6 oz flour

Heat the oven to 375F/Gas 5. Beat the butter and the sugar together until smooth. Stir in the flour to get a smooth paste. Turn on to a work surface and gently roll out until the paste is ½in thick. Cut into rounds or fingers and place onto a baking tray. Sprinkle with caster sugar and chill in the fridge for 20 minutes. Bake in the oven for 15-20 minutes, or until pale golden-brown. Set aside to cool on a wire rack.

shortbread2

Kartafla í sparifötum

„Enginn skapnaður er skyldari Íslendingum en kartaflan, eitt pínulítið piparkorn sem bíður þess að teygja faðminn móti albreiðum himni.“ segir Björn Halldórsson í bók Sölva Björns Sigurðssonar Gestakomur í Sauðlauksdal. Bókin er söguleg skáldsaga og byggir að ákveðnu leyti á lífi Björns í Sauðlauksdal sem er sagður fyrstu Íslendinga til að setja niður kartöflu, og reyndar heilan helling af öðrum matjurtum. Ég las hana stuttu eftir að hún kom út en um daginn gluggaði ég hana aftur í tilraun til að sleppa í smá stund frá önnum og almennum leiðindum sem felast í flækingi um alnetið. Ég hef varla getað lagt hana frá mér síðan og hef verið fastur í nostalgískum dagdraumum um kartöflurækt. Þegar ég var lítill voru mamma og pabbi með kartöflugarð þegar sem Smáralindin er núna og síðan þá hef ég nánast litið á það sem grundvallaratriði í hvers manns lífi að ræktaðar séu kartöflur, ef ekki af manni sjálfum þá í það minnsta af einhverjum í nærumhverfi manns. Hér í Berlín kemst ég næst þessum karföflugarðafetish á mörkuðum og í samskiptum við bróðir minn sem er duglegur að segja mér frá spýrun, sprettu og uppskeru, vali á yrkjum, aðferð við sáningu og ýmsum eldunaraðferðum svo fátt eitt sé nefnt. Á ég honum bestu þakkir skyldar fyrir vikið.

Um daginn voru einmitt kartöflur í matinn en vegna staðsetningar minnar á meginlandinu, þar sem rík hefð er fyrir hvers kyns fitubrasi, get ég leyft mér að steikja kartöflurnar upp úr andafitu. Það mín skoðun að hver fjölskylda ætti að halda í það minnsta eina önd eða gæs til þess eins að geta steikt kartöflur upp úr andafitu einu sinni á ári. Fyrr hefur fólk ekki lifað.

andafitukartöflur1

Kartöflur steiktar í andafitu

Kartöflur (eftir magni matargesta og svengd og meðlæti)

Fita (fer eftir kartöflumagni en mun meira en maður heldur, minnst 2 msk kúfaðar)

Salt og pipar

Kartöflurnar skrældar og soðnar í söltuðu vatni þar til þær verða hálfeldaðar eða rétt aðeins meira en það. Hellt í sigti og látið rjúka vel úr þeir og sigtið hrist af og til til að ýfa ofurlítið upp yfirborð kartaflanna. Fitan brædd á pönnu við meðal hita og kartöflurnar steiktar upp úr fitunni þar til þær verða fallega gylltar og yfirborið stökkt. Saltað og piprað eftir smekk. Borið fram með meðlæti að eigin vali, í okkar tilfelli var það boeuf bourguignon með hjartarkjöti. Jawohl.

andafitukartöflur2

Að lokum má benda á þessa myndaseríu en þar má sjá nokkra einstaklega fallega kartöflugarða.

Það hlýtur að teljast einhvers konar áfangi í bloggheimum að birta hundruðustu færsluna. Sérstaklega miðað við lágdeiðuna sem hefur verið yfir þessu bloggi síðustu vikurnar. Ég hef verið upptekinn við skrif á öðrum vígstöðvum og hef ekki haft mikla orku eða nennu til skrifa. En núna er skin á milli skúra.

Það er ekki ennþá kominn eiginlegur vetur hérna í Berlín, haustið streitist á móti lækkandi hitastiginu en af veikum mætti. Þetta er töpuð barátta, sólin lækkar með hverjum deginum og myrkrið verður einhvern veginn þykkara. Það er hins vegar merkilegt hversu stjörnubjart verður hér á heiðskýrum kvöldum. Þrátt fyrir að Berlín sé flennilýst stórborg þá sést mun betur til stjarna hér en í Reykjavík. Það eru örugglega einhverjar veðurfræðilegar skýringar á þessum mun en ég held persónulega að ljós- og rykmengum í Reykjavík sé vel yfir hóflegum mörkum og myndi þar að leiðandi rykugan ljóshjúp um borgina og komi í veg fyrir stjörnudýrðina.

Á þessum síðustu haustdögum hefur úrvalið hjá slátraranum tekið örlitlum breytingum. Villibráð, eins og dádýr, hjörtur og villisvín, er meira áberandi og sömuleiðis eru fyrstu gæsirnar og endurnar komnar. Ég eldaði gæs á jólunum fyrir 2 árum sem tókst ótrúlega vel. Ég hef hins vegar lítið eldað önd en  þegar við fengum gesti frá Íslandi um daginn gafst tækifæri á að breyta þvi. Ég keypti heila barberie önd á nánast ekki neitt (11 evrur). Innyfli, háls og fita fylgdi reynar ekki með sem var synd en það kom reyndar ekki að sök í þetta skipti. Anda- og gæsakjöt er sérlega ríkt og bragðmikið og hentar vel fyrr hægsteikingu vegna fitumagnsins. En maður má ekki vera feiminn við þessa fitu og um að gera að hella henni í krukku eftir eldun og geyma til að búa til rosalegar ofnsteiktar kartöflur. Ég vildi matreiða öndina á sem einfaldastan hátt, bara salt og pipar og kannski smá krydd, en það reyndist þrautin þyngri því að allar uppskriftirnar sem ég fann gera ráð fyrir annað hvort appelsínum eða fimmkryddablöndu sem ég vildi ekki nota. En þetta reddaðist einhvern veginn á endanum, enda ekkert sértaklega flókið ferli. Við bárum öndina fram með brúnuðum kartöflum, rauðkáli með eplum og rauðvínssósu svona rétt til að minna okkur á að það styttist í jólin.

Það er kannski erfitt og kostnaðarsamt á fá önd á íslandi. En það er nú samt alltaf verið að auglýsa ódýra andarunga í Bændablaðinu og um að gera að fjárfesta í eins og tveimur stykkjum og ala þá bara upp á hlaðinu og slátra að hausti.

Ég hafði keypt rúmlega kíló af sítrónum á markaðnum fyrr í vikunni (Af hverju? Af því að þær kílóið var á 1 evru) og átti nokkrar eftir. Í eftirrétt var því gerð sítrónukaka, eða  lemon drizzle cake, sem var nánast drekkt í sítrónusírópi. Ótrúlega góð og einföld. Borið fram með Ben and Jerrys…tveimur tegundum. Uppskriftin er byggð á þessari hér en með töluvert minni sykri þó.

hunangsönd2

Heilsteikt önd með timían og hunangi

1 önd

Salt og pipar

Nokkrar greinar af timían

2-3 lárviðarlauf

Hálft epli, í sneiðum

3-4 msk hunang

Ofninn hitaður  í 230°. Öndin þerruð vel og stungið létt í hana með títuprjóni eða hnífsoddi, í bringurnar og lærin, sérstaklega þar sem mesta fitan er. Passað að stinga ekki í djúpt þannig að það opnist niður í kjötið. Saltað mjög vel með góðu flögusalti og piprað. Timíaninu nuddað vel í fulginn og  lárviðarlaufin og eplið sett inn í kviðarholið. Saltað og piprað inn í öndina líka. Öndin sett í heitann ofninn í 15-20 mínútur. Þá er lækkað niður í 160 gráður og steikt áfram í 45 mínútur. Þá er öndin tekin út og hunanginu smurt yfir hana. Sett aftur inn og eldað áfram í hálftíma. Síðasta hálftímann verður að ausa fitunni reglulega yfir fuglinn til þess að skinnið verði stökkt. Tekið út og látið standa undir álpappír í 20 mínútur. Á meðan er hægt að búa til brúnaðar kartöflur, einfalt og snöggsteikt rauðkál með eplum og rauðvínssósu.

Hunangsönd1

Sítrónusírópskaka

175 gr mjúkt smjör

75 gr sykur

2 sítrónur, börkur og safi

3 egg

100 gr hveiti

100 gr malaðar möndlur

1 tsk sítrónudropar (má sleppa)

2 tsk lyftidyft

1/2 dl mjólk

50-75 gr sykur

Ofninn í 180°. Lítð kringlótt kökuform, eða langt formkökuform, smurt vel. Smjörið þeytt saman við 75 gr af sykri þangað til blandan verður kremuð og ljós. Sítrónuberkinu bætt við ásamt sítrónudropunum og eggjunum, einu í einu. Þeytt vel saman á milli svo að blandan fari ekki öll í kekki. Hveiti, lyftidufti, og möndlun blandað rólega saman við og svo er mjólk bætt út í og hrært þar til degið verður slétt og fínt. Hellt í mótið og bakað í 40 mínútur.

Sítrónusafanum og restinni af sykrinum blandað vel saman. Þegar kakan er tilbúin er hún stungin út um allt með mjóum prjóni og sírópinu hellt yfir í 3 skömmtum, þar til að  kakan er orðin vel sósuð. Látin standa og kólna. Borin fram með ís eða rjóma.

sítrónusýrópskaka

Stundum er rökhugsun minni bara þannig háttað að ekki verður með góðu móti hægt að skilja hana til fulls eða hvað þá hún hefur með rök að gera, nema vera skyldi rökvillur. Fyrir nokkrum vikum birti ég hér færslu um leiðinlegt og langdregið undurbúnings og eldunarferli karameliseraðra kastaníuhneta. Ekki fannst mér líklegt að ég myndi nenna að tína þær aftur til þess að standa í því að fá sár á báða þumla og vondar karamellur. Annað koma á daginn því að þegar ég hjólaði næst framhjá kastaníutrjánum þá fannst mér ekkert sjálfsagðara en að stoppa og tína svona eins og eina handfylli eða tvær. Og það gerði ég fullkomlega meðvitaður að ég myndi að öllum líkindum hvorki hafa gagn né gaman að matreiðslu þeirra. O jæja.

En þetta samspil forsjár og hlýðni sem virðist innbyggt í líkama minn og stundum stangast á við skynsemi gerði það að verkum að ég gat séð hneturnar leiðinlegu í nýju ljósi. Þær eru vissulega mjög mjölmiklar og mig minnti að ég hafði rekist á girnilega súkkulaðiköku þegar ég gúglaði karamelunum eins og vitleysingur nú fyrr í haust. Eftir stutta leit fann ég uppskriftina aftur, sem er komin frá Hugh frá River Cottage, og skellti í eina svakalegustu súkkulaðibombu sem ég hef samakkað, hveitilausa og alles. Fullkomið fyrir LKL sjúka Íslendinga. Ég helmingaði reyndar uppskriftina af því að ég á ekkert stórt kökumót, bara eitt pínulítið.

kastaníukaka

Súkkulaðikaka með kastaníuhnetum

125 gr smjör

125 gr dökkt súkkulaði

125 gr soðnar og skrældar kastaníuhnetur

125 ml mjólk

2 egg, hvítur og rauður aðskildar

50 gr hrásykur

Ofn í 180° og lítið kringlótt kökumót smurt. Smjör og súkkulaði brætt saman í potti. Mjólk og hnetur hitaðar saman í örðum. Eggjarauður þeyttar með syrkinum í skál. Volgt súkkulaðismjörið hellt varlega saman við. Hnetumjólkin sett í blandara og maukað í þykka súpu. Hrært saman við súkkulaðiðsoppuna. Eggjahvíturnar stífþeyttar og blandað varlega saman við soppuna. Hellt í mótið og bakað í 25-30 mínútur. Borið fram með ís eða rjóma og ógeðslega dekadent rjómakaramellu með heilum kastaníukjörnum.

Steikarsamloka úr afgöngum

Núna um síðustu helgi kom vinkona okkar frá Íslandi í heimsókn og tók með sér poka mikinn fullan hvers kyns gúmmelaðis, íslensks. Fór þar mest fyrir veglegu lambalæri og glöddust húsráðendur ótæpilega þegar vinkonan veiddi það upp úr pokanum. Ekki gátum við setið á okkur lengi og var lærið því eldað þá um helgina með kartöflum og sósu.

Þrátt fyrir einbeittan vilja gátum hins vegar ekki torga öllu lærinu, enda í stærri kantinum, og geymdum við afgangi til betri tíma. Tveimur dögum síðar rann stundin upp og við ákváðum að gera bara eitthvað einfalt og fljótlegt í hádegismat. Við skárum allt kjöt sem eftir var af beininu og týndum einhverja afganga og restar út úr ísskápnum og fundum hálfþornað súrdeigsbrauð í brauðpokanum. Steikarsamloka fyrir tvo skyldi það verða! Sorrý, engin bernaise í þetta skiptið en mjög einfalt, mjög gott.

steikarloka

Steikarsamloka með kirsuberjatómötum, kúrbít og pecorino

Afgangskjöt af læri (ein lítil skál)

3 kirsuberjatómatar

1 lítill kúrbítur

1 laukur

Litið stykki af pecorino

Hálf mozzarellakúla

Ferkst timjan

Smjör og olía

Salt og pipar

Laukurinn skorinn gróft í sneiðar og steiktur upp út olíu á meða hita í nokkrar mínútur, eða þar til hann fer að brúnast aðeins. Kjötið skorið í um 2 cm bita, bætt út á pönnuna og steikt þar til það fer að brúnast aðeins og laukurinn hefur tekið fallegan lit og hefur karamelíserðst aðeins. Kryddað með salt og pipar. Tekið af pönnunni og sett til hliðar. Kúrbíturinn skorinn langsum í þunnar sneiðar og tómatarnir skornir í fjórðunga. Smjörklípa sett á pönnuna sem notuð var fyrir laukurinn og kjötið og kúrbít og tömötum bætt út á ásamt timjaninu. Steikt við meðalhita í 5 mínútur. Á meðan er brauðið skorið og ristað. Svo er bara að raða þessu saman og bæta við ostinum. Brauð smurt með smjöri, mozzarellasneiðar ofan á, kúrbítssneið næst og kjötið og laukurinn þar ofan á, önnur kúrbítssneið og svo tómatarnir. Nauðsynlegt er að hella smá af steikingarolíunni yfir, rífa svo pecoríno gróflega yfir og loka samlokunni með annarri brauðsneið. Fullkominn nýting á góðum afgöngum.

Námsmannanúðlur

Eitt helsta viðlag matarmenningarvita, bloggara og annarra besserwissera  er hversu nauðsynlegt það er ánægju manns á því að borða almennilegan mat að endurskapa andrúmsloft fyrri tíma, að sökkva sér í nostalgíuna og tengja við upphafna ímynd barnæsku sinnar þar sem allur matur var góður. Mér finnst þetta sérlega skemmtilegt en vandamálið er bara að ég ólst upp á 9. áratugnum og borðaði ansi mikið af hressilega vel unnum matvörum sem eru algjört nó nó matarperra samtímans. Kjötbúðingur, kjötfarsbollur, 1944, fiskibollur í karrí, mjólkurvörur.is, kartöflumús úr pakka, koppasúpur og auðvitað blessaðar núðlurnar.

En ég læt það ekki aftra mér, ó nei. Þó svo að það geti verið tímafrekt að baksa við almennilegan kjötbúðing án þess að nýta sér stórkostlegar efnablöndur, nokkra lítra af maissterkju og alls konar maukara og blandara, þá gefst ég ekki svo auðveldlega upp. Enda námsmaður og listamaður og því ekki leiðinlegt að takast á við eitthvað raunverulegt og haldbært stöku sinnum og láta tímann líða á milli lattebolla.

Haustið er komið og allt heimilsfólkið að glíma við hor og slen og því ekki úr vegi að búa til staðgóða og hressandi kjúklinganúðlusúpu. Stökkva aftur um áratug eða svo og láta nostalgíuna lækna sig í bland við vel kryddaðan súpukraftinn. Ég borðaði óeðlilega mikið af pakkanúðlum í menntaskóla enda ekki til einfaldari matur (ef mat skyldi kalla). Kjúklinganúðlusúpa sem verður til á undir 3 mínútum er bara eitt það besta sem til er en nú hefur samviska mín og meðvitund tekið yfir og skemmt þessa minningu, eins og svo margar aðrar. Þá er bara að búa til sína eigin, frá grunni. En þetta tekur aðeins meira en 3 mínútur en það er þó vel þess virði. Það er í raun hægt að setja allan fjandann út í kraftinn þegar hann er tilbúinn en þetta grænmeti var til í ísskápnum og því um að gera að nýta það. Þeir sem vilja mega bæta við aromati.

núðlusúpa1

Núðlusúpa

1/2 kjúklingur á beini

Smá salt

Vatn (ca. 1-1 1/2 líter)

1 blaðlaukur

4 cm biti af engifer

2 hvítlauksrif

2 msk fiskisósa

1 msk soyasósa

1 kanilstöng

2-3 negulnagar

Brokkólihaus

3 vorlaukar

1-2 gulrætur

1 lime

Ferskt basil

Hrísgrjónanúðlur (fyrir 4)

Kjúklingurinn soðinn í létt söltuðu vatninu í um 30-40 mínútur. Þá er hann tekinn upp úr og kjötið tekið til hliðar. Krafturinn síaður, settur aftur í pott ásamt grófskornum blaðlauk, fínt söxuðu engifer og hvítlauk, kanilstönginni, negulnöglunum, fiskisósunni og soyasósunni. Þetta er látið sjóða rólega  í ca 20 mínútur. Núðlurnar eldaðar skv leiðbeiningum á bakkanum. Allt gænmetið skorið tiltölulega fínt. Gulrætur og brokkóli er bætt út í kraftinn og soðið í 5 mínútur. Þá er slökkt undir, kjúklingakjötið rifinn í passlega bita og bætt út í. Restin af grænmetinu sett í skálar ásamt núðlum og kraftinum hellt yfir. Lime kreist yfir. Fullorðnum er bent á að saxað sterkt chili er nauðsynlegt.

Svo er bara sest upp í sófa með skálina og kósað sig almennilega yfir bíómynd um japanskar núðlur, kúreka og mafíuforingja, Tampopo. Eða bara skófla þessu í sig á meðan börnin eru róleg.

núðlusúpa2