Það hlýtur að teljast einhvers konar áfangi í bloggheimum að birta hundruðustu færsluna. Sérstaklega miðað við lágdeiðuna sem hefur verið yfir þessu bloggi síðustu vikurnar. Ég hef verið upptekinn við skrif á öðrum vígstöðvum og hef ekki haft mikla orku eða nennu til skrifa. En núna er skin á milli skúra.
Það er ekki ennþá kominn eiginlegur vetur hérna í Berlín, haustið streitist á móti lækkandi hitastiginu en af veikum mætti. Þetta er töpuð barátta, sólin lækkar með hverjum deginum og myrkrið verður einhvern veginn þykkara. Það er hins vegar merkilegt hversu stjörnubjart verður hér á heiðskýrum kvöldum. Þrátt fyrir að Berlín sé flennilýst stórborg þá sést mun betur til stjarna hér en í Reykjavík. Það eru örugglega einhverjar veðurfræðilegar skýringar á þessum mun en ég held persónulega að ljós- og rykmengum í Reykjavík sé vel yfir hóflegum mörkum og myndi þar að leiðandi rykugan ljóshjúp um borgina og komi í veg fyrir stjörnudýrðina.
Á þessum síðustu haustdögum hefur úrvalið hjá slátraranum tekið örlitlum breytingum. Villibráð, eins og dádýr, hjörtur og villisvín, er meira áberandi og sömuleiðis eru fyrstu gæsirnar og endurnar komnar. Ég eldaði gæs á jólunum fyrir 2 árum sem tókst ótrúlega vel. Ég hef hins vegar lítið eldað önd en þegar við fengum gesti frá Íslandi um daginn gafst tækifæri á að breyta þvi. Ég keypti heila barberie önd á nánast ekki neitt (11 evrur). Innyfli, háls og fita fylgdi reynar ekki með sem var synd en það kom reyndar ekki að sök í þetta skipti. Anda- og gæsakjöt er sérlega ríkt og bragðmikið og hentar vel fyrr hægsteikingu vegna fitumagnsins. En maður má ekki vera feiminn við þessa fitu og um að gera að hella henni í krukku eftir eldun og geyma til að búa til rosalegar ofnsteiktar kartöflur. Ég vildi matreiða öndina á sem einfaldastan hátt, bara salt og pipar og kannski smá krydd, en það reyndist þrautin þyngri því að allar uppskriftirnar sem ég fann gera ráð fyrir annað hvort appelsínum eða fimmkryddablöndu sem ég vildi ekki nota. En þetta reddaðist einhvern veginn á endanum, enda ekkert sértaklega flókið ferli. Við bárum öndina fram með brúnuðum kartöflum, rauðkáli með eplum og rauðvínssósu svona rétt til að minna okkur á að það styttist í jólin.
Það er kannski erfitt og kostnaðarsamt á fá önd á íslandi. En það er nú samt alltaf verið að auglýsa ódýra andarunga í Bændablaðinu og um að gera að fjárfesta í eins og tveimur stykkjum og ala þá bara upp á hlaðinu og slátra að hausti.
Ég hafði keypt rúmlega kíló af sítrónum á markaðnum fyrr í vikunni (Af hverju? Af því að þær kílóið var á 1 evru) og átti nokkrar eftir. Í eftirrétt var því gerð sítrónukaka, eða lemon drizzle cake, sem var nánast drekkt í sítrónusírópi. Ótrúlega góð og einföld. Borið fram með Ben and Jerrys…tveimur tegundum. Uppskriftin er byggð á þessari hér en með töluvert minni sykri þó.

Heilsteikt önd með timían og hunangi
1 önd
Salt og pipar
Nokkrar greinar af timían
2-3 lárviðarlauf
Hálft epli, í sneiðum
3-4 msk hunang
Ofninn hitaður í 230°. Öndin þerruð vel og stungið létt í hana með títuprjóni eða hnífsoddi, í bringurnar og lærin, sérstaklega þar sem mesta fitan er. Passað að stinga ekki í djúpt þannig að það opnist niður í kjötið. Saltað mjög vel með góðu flögusalti og piprað. Timíaninu nuddað vel í fulginn og lárviðarlaufin og eplið sett inn í kviðarholið. Saltað og piprað inn í öndina líka. Öndin sett í heitann ofninn í 15-20 mínútur. Þá er lækkað niður í 160 gráður og steikt áfram í 45 mínútur. Þá er öndin tekin út og hunanginu smurt yfir hana. Sett aftur inn og eldað áfram í hálftíma. Síðasta hálftímann verður að ausa fitunni reglulega yfir fuglinn til þess að skinnið verði stökkt. Tekið út og látið standa undir álpappír í 20 mínútur. Á meðan er hægt að búa til brúnaðar kartöflur, einfalt og snöggsteikt rauðkál með eplum og rauðvínssósu.

Sítrónusírópskaka
175 gr mjúkt smjör
75 gr sykur
2 sítrónur, börkur og safi
3 egg
100 gr hveiti
100 gr malaðar möndlur
1 tsk sítrónudropar (má sleppa)
2 tsk lyftidyft
1/2 dl mjólk
50-75 gr sykur
Ofninn í 180°. Lítð kringlótt kökuform, eða langt formkökuform, smurt vel. Smjörið þeytt saman við 75 gr af sykri þangað til blandan verður kremuð og ljós. Sítrónuberkinu bætt við ásamt sítrónudropunum og eggjunum, einu í einu. Þeytt vel saman á milli svo að blandan fari ekki öll í kekki. Hveiti, lyftidufti, og möndlun blandað rólega saman við og svo er mjólk bætt út í og hrært þar til degið verður slétt og fínt. Hellt í mótið og bakað í 40 mínútur.
Sítrónusafanum og restinni af sykrinum blandað vel saman. Þegar kakan er tilbúin er hún stungin út um allt með mjóum prjóni og sírópinu hellt yfir í 3 skömmtum, þar til að kakan er orðin vel sósuð. Látin standa og kólna. Borin fram með ís eða rjóma.
